Stoppað upp í göt á nýju frumvarpi um almannatryggingar.

23.febrúar 2017

Ég hef stundum fjargviðrast yfir því að ekki sé gefinn nægur tími á alþingi til þess að fjalla um ný lög og bað þess flestra orða að hið nýja frumvarp um Almannatryggingar yrði ekki samþykkt fyrir síðustu áramót.

Auðvitað var ekki hlustað á mig frekar en svo marga aðra sem voru á þessari skoðun.

Nú er komið í ljós, og ég get ekki að því gert að það hlakkar í mér, að stoppa þarf upp í göt sem eru á blessuðu frumvarpinu sem nú er orðið að lögum.

Ég gæti til dæmis sagt að "sá hlær best sem síðast hlær" en geri það auðvitað ekki því eins og allir vita er ég kurteis kona og geri ekki grín að forystumönnum, hvort sem þeir bera gráa kollu eða ekki!

Til þess að reyna að skilja stoppið er ég nú búin að liggja yfir lögunum og breytingunum og skil hvorki upp né niður í neinu. Auðvitað er ég ekki löglærð en það er hinn nýi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, herra Ellert. Eða er ekki svo?

Tilkynning var sett á Gráa hers Facebook síðuna um hvað var að gerast og mæli ég með því að fólk skoði hvað fór í loftið.

Sætt og einfalt eins og venjulega.

Skilaboðin: Þið getið bara lesið ykkur til vitleysingarnir ykkar og við eyðum ekki dýrmætum tíma okkar í að svara einhverjum hálfvitum eins og þessari rugluðu neikvæðu Huldu Björnsdóttur!

Eins og mig grunaði eru engar útskýringar á mannamáli frá hernum.

Hvers vegna?

Held einfaldlega að þau skilji ekki málið en vilji ekki opinbera fáfræðina. Þetta er nú ekki neikvætt, bara soldið sætt hjá mér, finnst mér.

Til þess að æsa mig ekki um of í kvöld ætla ég að láta þetta duga. Það eru bundnar vonir við nýjan formann Félags eldri borgara í Reykjavík og vonast til þess að hann kippi svona smámunum í liðinn.

Vonandi getur hann stigið út úr velmeguninni og sett sig í spor þeirra eftirlaunaþega sem óttast að smá breytingar eins þær sem nú hafa orðið á lögum geti haft afdrifaríkar afleiðingar varðandi afkomu þeirra.

Bjartsýni mín er verulega að ganga sér til húðar en ég á smá skammt eftir og ætla að nota hann til þess að safna kröftum fyrir morgundaginn. Kannski kemur eitthvað af viti frá þeim sem gefa sig út fyrir að vera með hag eldri borgara efst á kökudiskinum.

Ofboðslega getur þetta þó verið þreytandi og stundum virst alveg vonlaus barátta og ekkert annað en orð og aftur orð en engar aðgerðir.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband