Föstudagurinn langi og veðrið heima hjá mér !

14. apríl 2017

Föstudagurinn langi er kominn og ekkert hefur breyst annað en veðrið.

Í morgun var ískalt og ekkert annað að gera en kveikja upp í arninum og bregða sér í lopavestið sem vinkona mín á Íslandi prjónaði. Lopinn bregst ekki, jafnvel þó geimverurnar sem eru sestar að í alþingishúsinu geri það.

Margir halda að hér í Portúgal sé alltaf sól og flott veður.

Þeir sem hafa verið í Algarve hafa kannski notið sólar og sumaryls allan ársins hring, eða það segja þeir stundum.

Ég dvaldi 10 daga í desember fyrir nokkrum árum, á hinu margumtalaða sæluríki Portúgal, Algarve, og var að drepast úr kulda og hefði líklega dáið ef ekki hefðu fylgt mér ullarföt frá Íslandi, þau sem komu með mér til Kína og pössuðu upp á mig þar yfir veturinn.

Þessa 10 daga sá ég nokkra útlendinga, ferðamenn, á bol og sandölum. Við heimamenn vorum auðvitað almennilega klædd í jakka og hlý föt, einfaldlega vegna þess að það var skít kalt.

Algarve er sneið alveg syðst og hangir föst við Portúgal en er í raun bara ferðamannastaður og engin menning þar, ég meina portúgölsk heima menning. Allt fullt af börum, hótelum, veitingahúsum og búðum en til dæmis fann ég ekki kirkju fyrr en eftir langa keyrslu og mikla leit. Hér í bænum mínum eru 5 kirkjur fyrir 6000 sóknarbörn. Þessi 6000 eru auðvitað ekki í þorpinu, við erum rétt rúm 500 sem búum í þorpinu sjálfu en sókninni tilheyra nokkuð mörg þorp og svo auðvitað skógarnir þar sem þeir bresku djamma í stóru húsunum sínum og dást að sundlaugunum fyrir utan sem eru kannski nothæfar 3 mánuði á ári.

Landið sjálft er svo dálítið stærri sneið en Algarve og hangir sú sneið utan í  Spáni vestanverðum. Portúgalar eru sérfræðingar í því að byggja utan í hlíðum. Undirlendi er lítið og þess vegna byggjast bæirnir oft og tíðum upp í loftið. Ég fæ um mig hroll þegar ég keyri um þessa staði. Lofthræðsla getur ekki verið algegn í þessu landi en stundum hvarflar að mér hvað gerðist ef stór jarðskjálfti riði yfir.

Það hafa orðið "landslight" hér í miklum rigningum og sum húsin halla ískyggilega og detta líklega næst þegar rignir hressilega.

Í vetur hrundu hús í Lissabon vegna rigningar.

Veðrið á meginlandinu er skrykkjótt. Veturnir eru kaldir og enn kaldari en fyrir 6 árum þegar ég flutti hingað. Sumrin verða ægilega heit í einn eða tvo mánuði og allt brennur sem brunnið getur. Oftar en ekki eru það brennuvargar sem fá útrás fyrir eitthvað sem býr innra með þeim.

Á mánudaginn er líklegt að í mínum parti verði hitinn um miðjan dag kannski 29 gráður en í dag er spáð 22 gráðum. Það koma örfáir dagar með hita og síðan fer allt í sama farið aftur og jafnvel niður fyrir 20 gráður.

Svona umhleypingar eru ekki góðir, hvorki fyrir menn eða gróður. Hitakostnaðurinn rokkar eins og tjútt par upp og niður. Ég tók reyndar þá ákvörðun núna í byrjun mánaðar að spara mér 500 evrur á mánuði með því að slökkva á "sentral" hitanum og nota bara arininn og kannski rafmagn í svefnherberginu.

Það er kvartað yfir myglu og raka í húsum bæði á Spáni og í Portúgal. Einmitt, húsin eru óeinangruð, fólk hefur ekki peninga til að hita upp yfir veturinn, eða það vill það ekki, og allt myglar og verður viðbjóðslegt.  Ég þoli ekki svona rakalykt og eyði frekar í kyndinguna og spara þá á öðrum sviðum. Allt snýst þetta um val. Einhver ágætur sérfræðingur sagði mér að það væri ódýrara að lifa í Portúgal en á Spáni og var hann með tölur máli sínu til stuðnings.

Það getur verið ágætt að goggla og skoða netið en raunveruleikinn er stundum annar. Portúgalar sem búa fyrir norðan fara mikið til Spánar og versla þar! Af hverju skyldi það nú vera? Jú, það er ódýrara að versla á Spáni. Þeir sem búa í Algarve bregða sér stundum yfir til Spánar og ná sér í ódýrara góss.  Þetta eru auðvitað ekki tölur sem koma fram við rannsókn á netinu. Nei þetta er bara fólk sem býr hérna sem gerir svona. Eiginlega soldið líkt og með veðrið. Það er hægt að finna meðaltölur og allt mögulegt með því að hanga yfir netinu en svo kemur eitthvað allt annað í ljós þegar farið er búa í sælunni.

Þessa páska fer ég ekkert á flakk. Ég er með vont kvef sem situr fast. Kvefið fékk ég þegar hitinn fór upp í 29 stig hérna um daginn. Ótrúlegt en svona er þetta. Ég verð orðin góð eftir nokkra daga og get aftur tekið upp venjulegt líf en þá verður líklega orðið kalt aftur, hver veit. Líklega halda umhleypingarnir áfram þangað til í júlí en í næstu hitabylgju fer ég ekki úr sokkunum og alls ekki í sólbað. Ekki ræða það. D vítamínið getur beðið þar til seinna í sumar enda á ég nægar birgðir í bili.

Ég vona að íslendingarnir sem eru í Páskaferð í Lissabon hafi haft með sér hlýja peysu til að bregða yfir sig. Margt er hægt að skoða í borginni og fullt af stórum mollum sem landanum þykja líklega spennandi. Svo fara þau örugglega í langa ferð til Sintra og arka í kastala og konungs hallir.

Ég hef ekki skilið þessa áráttu að halda ekki vatni yfir ljótum kastölum og svoleiðis en þetta er auðvitað bara hallæris hugsunarháttur minn. Það er alveg hægt að finna fallega staði í Lissabon en mjög ólíklegt að farið sé með ferðamenn á þá staði.

Nei, rústir og gamlar byggingar er málið og svo auðvitað vínið og dásamlegi maturinn !!! Ég segi ekki meira, en þegar ég ætla næst að bregða mér úr landi eða af bæ er öruggt að Lissabon verður ekki fyrir valinu.

Portó er miklu skemmtilegri þó hún sé líka gömul og lúin en fólkið í Portó er yndislegt. Það jafnast ekkert á við portófólk í landinu. Svo er Duro, OHHHHHHHHHHHHH unaðslega fallegt og strendur sem gefa Algarve ekkert eftir. En fólkið er það sem hefur heillað hjarta mitt, portófólk er um allt landið en það sker sig úr fjöldanum.

Ég hef á þessum sex árum ferðast um allar trissur og kem alltaf heim með þá hugsun að mér finnist norður landið fallegra en það sem er fyrir sunnan Lissabon. Það sem er fyrir sunnan er flatt og ljótt á litinn. Fyrir norðan er almennilegt landslag, fallegir klettar og trén með stórum þykkum yndislegum bolum. Fyrir sunnar er allt einhvern vegin gult og brunnið. Það er undurfagurt svæði áður en komið er til Algarve, Alantejo. Í Alantejo vex korkurinn sem mér þykir svo merkilegur og nú er farið að nota í allt mögulegt allt frá regnhlífum upp í skó. Næst þegar ég fer í ferðalag og gisti ætla ég til Alantejo. Ekki yfir sumartímann því þá er allt fullt af útlendingum. Nei ég ætla að fara að hausti og dvelja í viku.

Ég vona að allir njóti þessa langa föstudags. 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband