13.4.2017 | 12:15
Geimverur hafa tekið sér bólfestu á Alþingi Íslendinga !
13.apríl 2017
Geimverur eru sestar að á hinu háa alþingi og stjórna þar landinu með harðri hendi.
Ég lagði það á mig að hlusta á viðtal Helga P við Þorstein Víglundsson, jafnvel þó mér finnist svona viðtöl afspyrnu leiðinleg.
Nú vil ég taka fram að ég hef ekkert á móti persónunum sem voru í þessu viðtali, hvorki spyrjenda eða þingmannsins. Það eru störf þeirra sem ég er að gagnrýna og hvernig þau standa sig.
Nauðsynlegt að taka þetta fram svo ég verði ekki sett inn fyrir óþverrahátt.
Eftir að hafa hlustað á viðtalið er ég svo yfir mig hundfúl að það hálfa væri nóg.
Eitt er þó jákvætt við þetta og það er að Þorsteinn er mjög áheyrilegur, jafnvel þó ég sé ekki sammála því sem hann sagði og efist stórlega um að hann gæti rökstutt sumt af því sem fram kom. Hann talar skýrt og gott mál og mættu sumar geimverurnar á þingi taka hann sér til fyrirmyndar.
Herinn, með Helga P í fararbroddi ásamt Þórunni H hefur komið fram eina áhugamáli sínu. Allir eldri borgara skulu, já skulu, hvað sem tautar og raular, fara út að vinna og geimverurnar að breyta lögum um Almannatryggingar svo ekki sé allt tekið í skatt.
Herinn hefur barist fyrir þessu eina máli með kjafti og klóm.
Ég hef barist á móti þessu með mínum kjafti og klóm og gerst svo ósvífin að heimta að herinn tali líka um tekjur frá lífeyrissjóði.
Enn ósvífnari hef ég verið að tala um brottflutta eftirlaunaþega sem missa öll réttindi sín við að flytja úr landi svo þeir geti haft mat á borðum alla daga.
Ég geri mér grein fyrir því að málflutningur minn fer ofboðslega, svo ekki sé meira sagt, í taugarnar á hernum, en mér er nákvæmlega sama.
Væri ekki nær fyrir fjandans herinn að berjast fyrir því að allir fengju sama ellilífeyri í stað þess að geimverurnar geti með einu pennastriki eða tveimur skipt lífeyrinum niður í tvo parta, rétt svona til þess að hægt sé að spara fyrir kaupi geimveranna, sem er að sjálfsögðu svo vel úti látið að þær þurfa aldrei að hafa áhyggjur af því að verða gamlar.
Ellilífeyrir og heimilisuppbót eiga að fara saman í einn pott og verða að ellilífeyri. Þetta er ekkert flóknara en það. Guð hvað mig langar til að bæta við :Hálfvitar! en ég er kurteis og geri það auðvitað ekki.
Fyrst það á að henda öllum út á vinnumarkaðinn eftir 65 ára aldur þá spyr ég:
Hvar á að fá vinnu fyrir þetta fólk?
Hvar eru störfin fyrir þennan aldurshóp?
Þorsteinn sagði í viðtalinu að æskudýrkun væri á undanhaldi.
Nú, er það? Ég sé ekki betur en meiri hluti geimveranna á hinu háa alþingi séu ekki ýkja gamlar og hafi ekki sérlega mikla lífsreynslu.
Á kannski að setja hámenntaðan hótel stjóra í móttöku eins og Helgi P stakk upp á við Wilhelm Wessman í viðtali fyrir nokkrum mánuðum? Ég heyrði ekki betur en Willi vildi vera að skrifa gæða handbækur, sem er auðvitað betur samboðið honum, en að taka á móti fólki og innrita á hótel.
Hvað á að gera við konurnar sem Helgi og Þorsteinn vilja drusla út á vinnumarkaðinn eftir miðjan aldur? Eiga þær að fara í ræstingar? Nei, það á víst að setja þær í endurmenntun, eða mér heyrðist það.
Ótrúleg ósvífni mín, að kalla suma geimverur, á sér engin takmörk en mér finnst það rökrétt ályktun. Ég get ekki séð að þetta fólk sé í neinum tengslum við íslenskan veruleika svo það hlýtur að hafa komið einhvers staðar utan úr geimnum og er nú farið að stjórna landinu eins og ekkert sé.
Nú á að fara að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn á Íslandi.
Dásamlegt. Nýr flokkur til vinstri. Nýr flokkur til þess að hjálpa sundrungu og valdapoti að blómstra á meðan Sjálfstæðisflokkurinn með Panamaprinsinn í fararbroddi græðir á tá og fingri.
Það er ekki nóg að geimverur hafi tekið sér bólfestu á hinu háa löggjafar þingi, þær hafa líka hafið sókn utan þings og skemmta sér á kostnað þeirra sem ættu að lifa sæmilegu lífi á landinu fagra.
11 vinstri flokkar. Er þetta ekki brandari aldarinnar í þjóðfélagi sem er með rúmlega 300.000 íbúa? Valdagræðgin toppar málefnin og hugsjónirnar að ég tali nú ekki um fallegu innpökkuðu loforðin. Bara kjósa bestu geimveruna og þá geta allir bakað bleika köku og gefið prinsinum.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.