13.4.2017 | 13:31
Að samlagast nýjum siðum, í nýju landi
13.apríl 2017
Ég fer einstaka sinnum í búð til þess að kaupa mat og eitthvað sem þarf til þess að reka heimili.
Mér leiðast þessar ferðir alveg óstjórnlega og reyni að fara ekki nema einu sinni í mánuði.
Það er þó einn góður kostur við þessar búðarferðir mínar.
Ég hitti fullt af fólki sem ég þekki og kynnist nýju fólki og oft getum við hlegið saman og átt ánægjulega stund.
Í síðustu viku fór ég Intermarze sem er í Condeixa. Þetta er staðurinn þar sem ég versla mest. Ég veit nákvæmlega hvar allt er staðsett og get gert innkaupalista heima og þóst ganga um búðina.
Þetta sparar mér heilmikið. Ég kaupi engan óþarfa og allt er auðvelt.
Svo vill þó stundum til að verslunar eigendur ákveða að snúa öllu við og færa allt úr stað. Það eru ekki góðir dagar fyrir mig og tekur stundum nokkrar ferðir til þess að átta sig á öllu.
Auðvitað er þetta tækni til þess að fá meiri viðskipti og ég sætti mig bara við að þurfa að fara í Sight seing um nýja fyrirkomulagið. Venjulega næ ég mér í eina eða tvær afgreiðslustúlkur sem lóðsa mig á milli þvottaefnis og eggja.
Strákarnir í kjötinu vita að ég vil lífrænan kjúkling og stelpurnar í ostunum finna fyrir mig geitaost. Konan í fiskinum er eiginlega hætt að reyna að koma mér upp á saltfisk bragðið. Hún sættir sig við að ég kaupi fullt af túnfisk og laxi og auðvitað sardínur þegar þeirra tími er. Stundum á fiskikonan einhvern mjög einkennilegan fisk, sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir og þegar ég labba framhjá kallar hún í mig ef sá nafnlausi er á boðstólnum. Allar fisktegundirnar sem ég fjárfesti í eru auðvitað rándýrar en hvað gerir maður ekki fyrir heilsuna.
Í síðustu ferð var ekki mikið að gera á kassanum og tókum við tal saman, ég og ungi kassamaðurinn. Við ræddum eitt og annað og hann eins og allir Portúgalar var áhugasamur um hvernig mér þætti að búa í landinu.
Eftir nokkra stund spurði hann mig hvernig stæði á því að ég vissi svona mikið um venjur Portúgalanna?
Ég útskýrði fyrir honum að allir vinir mínir væru Portúgalar og ég byggi í condomenium en ekki í húsi einhvers staðar úti í skógi þar sem ég sæi aldrei neitt annað en útlendinga.
Staðreyndin er nefnilega sú að mikið af Bretum býr í landinu og eitthvað af þjóðverjum og örlítið af öðrum þjóðflokkum.
Allt þetta fólk býr úti í skógi, í stórum húsum með sundlaugum og flottheitum.
Útlendingarnir eru ekki mikið að hafa fyrir því að blanda geði við heimamenn, halda sig frekar í hóp með öðrum útlendingum.
Þetta fyrirkomulag eru heimamenn ekki sérlega ánægðir með og finnst rigna upp í nef útlendingana og ég heyri oft að það eru dálítil vonbrigði með þetta afskiptaleysi.
Mér þykir það einkennilegt að flytja til annars lands og reyna að minnsta kosti ekki að eignast eitthvað af vinum í nýja landinu. Auðvitað hafa Bretarnir engan áhuga á Portúgalskri menningu. Þeir éta matinn og drekka vínið og halda vöku fyrir nágrönnum með hávaða fram eftir nóttu. Svo fara þeir og skoða rústir og kastala og einhverjar minjar í góða veðrinu þegar það er. Þeir versla auðvitað í búðunum en þar er helst farið í stórmarkaðina og ekki mikið átt við litlu yndislegu kaupfélögin sem eru út um allt. Elcorte English er líka vinsælt á meðal þeirra útlensku. Við, þessi sem teljum okkur til Portúgala verslum ekki í svoleiðis búðum, þ.e. Elcorte, rándýrt og ekkert meira til þar en í Intermarze.
Samskipti við heimamenn eru ekki í fyrsta sæti.
Kona sem búið hefur hér í þorpinu í 20 ár talar ekki eitt einasta orð í málinum. Hún og maður hennar eru mállaus á tungu landsins sem þau hafa búið svo lengi í. Hún rigsar um stræti þorpsins og heilsar hvorki til hægri eða vinstri. Er þetta ekki eitthvað einkennilegt?
Ágætur íslendingur benti mér á um daginn að ég ætti ekki að greiða skatta í Portúgal og studdi mál sitt vel.
Það koma stundum upp svona ráðleggingar og mér þykja þær skemmtilegar. Ég hef búið í landinu á sjöunda ár og þekki reglur nokkuð vel. Þeir sem telja sig vita betur, og eru svo krúttlegir að vilja gefa mér ráð um hvernig hægt sé að sleppa við eitt og annað, hafa litla hugmynd um hvernig landið mitt virkar.
Í þessu tilfelli læddist þó að mér sá grunur að ef til vill væri hér um einn af þessum ágætu íslendingum að ræða sem leitast við að finna smugur á kerfinu til þess að komast hjá því að taka þátt í samfélaginu.
Ég greiði skatta og skyldur hér í nýja landinu mínu og er bara glöð með það. Ég fæ hér alla þá þjónustu sem samlandar mínir njóta og við erum á sömu bylgjulengdinni.
Ég þoli ekki svik og spillingu og reyni að fara eftir því sem mér ber.
Var ekki umræða í íslensku þjóðfélagi núna síðustu dagana um áburð fyrri ríkisstjórnar á bótasvikum? Mig minnir það.
Ég gæti alveg skrifað um bótasvik en ætla ekki að gera það í dag. Í dag er ég bara spök og nýt lífsins í góðu veðri, jafnvel þó nefið á mér haldi að nú þurfi það að bæta úr vatnsleysi landsins, og láta renna stanslaust.
Það stendur ekki til kæra nef mitt að ég sjái landinu fyrir vatni þó birgðir séu að þrotum komnar vegna rigningaleysis. Það rignir alla vega ekki inn í bílageymsluna á meðan og stofu veggurinn er enn uppistandandi. Eitt er þó hálf ergilegt í þessu vatnsleysi. Ég keypti ofboðslega falleg gúmmístígvél með rósum í haust til þess að geta vaðið yfir vatnið í bílageymslunni og sótt mér viðinn án þess að verða holdvot í lappirnar. Það fer ekkert inn í minn skúr lengur því ég setti upp ál fyrirstöðu, sem er svo há að ekkert vatn getur fundið sér leið yfir. Vatnið þarf að fara til næsta nágranna og mér er alveg sama um það. Hins vegar væri flott að fá að nota fallegu grænu blómastígvélin þó ekki væri nema einu sinni, en þau sitja þolinmóð inni í skáp tilbúin þegar kallið kemur. Líklega ekki fyrr en næsta ár.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.