29.3.2017 | 16:28
Ísland-spillingarbæli? eða land sakleysingja og auðtrúa fólks?
29.mars 2017
Hvers konar land er Ísland eiginlega?
Er það land endalausrar spillingar og rotið þjóðfélag eða er það land sakleysingja og auðtrúa fólks sem trúir öllu sem því er sagt hversu ótrúlegt sem það er?
Ég veit ekki.
Hins vegar logar allt á Facebook núna vegna spillingarmála sem eru að koma upp á yfirborðið.
Eitthvað nýtt á ferðinni þar?
Nei, ekkert.
Þetta er sami grauturinn í sömu skálinni og hefur verið undanfarinn áratug.
Það hefur ekkert breyst og ekkert nýtt komið í ljós, eini munurinn er að núna er auðvelt fyrir almenninga að ausa úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlunum í stað þess að sitja við kaffiborðið og sötra viðbjóðinn með ilmandi kaffinu.
Ég nenni ekki að eyða orðum í alla bölvaða spillinguna sem fólk er nú að velta sér upp úr.
Fólkið sem hneykslast mest núna á svikum bófa og ræningja heldur glatt af stað í næstu kosningar og kýs sama lýðinn aftur eins og að drekka vatn. Ekki þvælist flokks hollustan fyrir þeim sem hafa hæst núna.
Ég er ekki að segja að fólk eigi ekki að tala um spillingu síðan 2003 eða lengra aftur í tímann, ég er bara að segja að kraftar mínir eru á þrotum og sný mér frekar að ánægjulegum fréttum.
Vinkona mín keypti sér rauð gleraugu. Þetta þykja mér ánægjuleg tíðindi og ætla ég að taka hana mér til fyrirmyndar þegar ég fjárfesti næst í gleraugum sem verður í náinni framtíð.
Rauð gleraugu eru dásamleg.
Þau auka orkuna og gleðin geislar af þeim sem ber þau.
Það ættu allir að ganga með rauð gleraugu þessa dagana til þess eins að lifa af í spillingarbælinu og komast á fætur á morgnana án þess að fyllast vonleysi og ótta við að enn eitt málið skríði upp úr skúffum einhverrar nefndar, eða jafnvel ráðherra.
Við erum svo ótrúlega heppin að hafa enn eina spillingar stjórnina við völd þessa dagana svo ekki þarf að ómaka sig og rugga bátnum.
Ég og svona venjulegt fólk getum varla gert okkur í hugarlund hvað milljarðar í afskriftir þýða.
Við látum þeim sem eru sérfræðingar í spillingunni og éta íslenskt þjóðfélag innan frá svoleiðis tölur eftir. Þeir skilja þær.
Núverandi ríkisstjórn hefur ekki setið nema nokkrar vikur og er vel á veg komin með að fylla upp í götin hjá þeim sem vantar nokkra milljarða til þess að leika sér með. Þessi ríkisstjórn er ekkert betri en þær sem hafa setið á undan. Ef eitthvað er þá er hún verri og þingheimur algjörlega reynslulaus og engin von til að svokölluð stjórnarandstaða, sem er máttlausari en áttræði kelling, geri neitt annað en blaðra út í loftið um allt og ekki neitt.
Rauð gleraugu er það sem þarf, þau gætu bjargað geðheilsu minni.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.