27.3.2017 | 12:15
Hverjir geta haft áhrif á "fátæki" á Íslandi og jafnvel eytt henni?
27.mars 2017
"Fátæki" er ekki bara vegna þess hversu ámátlega ríkisstjórnir haga sér varðandi mál eftirlaunaþega og öryrkja.
"Fátæki" hrjáir margar stéttir þjóðfélagsins og ýmsa aldurshópum. Hún er ekki bundin við einn eða tvo hópa. Ó nei, ekki aldeilis.
"Fátæki" á kannski uppruna sinn í örmum láglaunastefnu verkalýðsfélaga og ASÍ.
Guðmundur Jaki sagði mér fyrir mörgum áratugum að það yrði aldrei samið þannig að ekki sætu eftir þeir sem lægst launin hefðu. Hann sagði mér að staðreyndin væri sú að pólitíkin, þessi viðbjóðslega tík, sem öllu stjórnar, vildi hafa lág laun því þeir sem væru í framboði gætu gengið að atkvæðum þessa hóps vísum, einfaldlega með því að strá fögrum loforðum í kringum sig.
Það er bara þannig að ef þú ert svangur etur þú hrá loforð jakkafata klæddra karlmanna, sem brosa breytt að ég tali nú ekki um þá sem senda bréf til eftirlaunaþega fyrir kosningar og með fylgir loforðakaka sem á að baka eftir að viðkomandi kjósandi hefur krossað við réttan staf.
Kannast einhver við þetta?
Ég er hrædd um það.
Við tölum oft um að það vanti samstöðu og fólk þurfi að láta heyra í sér.
Af hverju er ekki meiri samtaða og af hverju kjósum við aftur og aftur sama sukkið og spillinguna?
Af gömlum vana?
Mamma kaus alltaf sinn flokk af því að pabbi hennar kaus flokkinn.
Getur verið að þetta sjónarmið sé enn við lýði árið 2017?
Það er erfitt fyrir þá sem lepja dauðann úr skel og eru fastir í "fátæki"gildrunni að rísa upp og mótmæla.
Þessi hópur hefur ekki krafta til þess að standa í stórræðum, hann er vannærður og orkan fer í að halda sér uppi svo hægt sé að leita eftir matargjöfum hjá hjálparstofnunum.
Þess vegna verðum við, sem höfum það gott og fáum alltaf nægilega mikið af kjarngóðum mat og getum stundað líkamsrækt og passað upp á heilsuna, og jafnvel haft efni á að fara til læknis ef við veikjumst, við eigum að rísa upp til varnar þeim sem ekki hafa lengur þrek til þess að mótmæla.
Verkalýðsfélög ættu að axla ábyrgð og snúast til varnar. Félagsmenn þeirra eiga rétt á þeirri kröfu. ASÍ ætti að vera sterkur talsmaður þeirra sem eru að tærast upp í "fátæki"gildrunni.
Við vitum að stjórnvöld gera ekkert fyrir "fátæki" hópinn, nákvæmlega ekkert, svo framarlega sem þau komast upp með það.
Það virðist vera nokkuð sama hver er við stjórnvölinn, ríkir og velstæðir einstaklingar sem tilheyra yfirstéttinni hafa völdin. Þeir skara að eigin köku, kakan þeirra, sú bleika, verður stærri og feitari með hverri ríkisstjórn, og molar af borði renna ekki til "fátæki" fólksins. Molarnir renna til hunda ríka fólksins.
Verkalýðsfélög, ASÍ, Félög eldri borgara um allt land, Landsamband eldri borgara, Öryrkjabandalagið og Rauði krossinn ásamt kirkjum landsins ættu að sameinast og hefja upp herör gegn auðvaldinu og uppræta "fátæki"gildruna og hjálpa íslendingum sem hafa fest sig í henni og komast ekki upp.
Hjálpin á ekki að felast í matargjöfum, hún á að vera í aðgerðum sem koma þeim sem sitja á hinu háa Alþingi í skilning um að þessir hópar þjóðfélagsins sem ég taldi upp segja hingað og ekki lengra.
Aðgerðirnar þurfa að vera samstíga og harðar. Vinnuveitendur eiga ekki að komast upp með það árum og áratugum saman að semja um lúsarlaun fyrir suma og fara svo heim í fyrirtækin sín og semja við þá sem þeim líkar um ofurlaun. Þetta hefur viðgengist í áratugi og þetta vita allir sem vita vilja. Það er bara ekki talað um þetta.
Að hugsa sér að gamalt fólk skuli þurfa að búa við þær aðstæður, síðustu daga ævi sinnar, að ekki sé nægilega margt fólk starfandi á elliheimilum til þess að hægt sé að passa upp á að allir fái næga næringu. Þetta er sárara en tárum taki. Það er svo hryllilegt og ég leyfi mér að taka svo sterkt til orða að þetta sé hreinn og klár glæpur.
Svona aðstæður eru ekki starfsfólki heimilanna að kenna. Þetta er aðgerðaleysi og áhugaleysi stjórnvalda í sinni verstu mynd.
Þar sem ég þekki til starfsfólks á elliheimilum þá er það jafn reitt yfir ástandinu og ég er.
Starfsfólk spítalanna leggur sig allt fram um að gera sitt besta en hvernig á að bregðast við yfir 500 einstaklingum, gömlu veiku fólki, sem þarf að liggja á göngum og hverju skoti sem finnst á sjúkrahúsinu, af því að það eru ekki til herbergi fyrir þetta fólk?
Haldið þið að hjúkrunarfræðingarnir og starfsfólkið á sjúkrahúsunum sofi bara vært eftir vaktina? Nei, ekki alveg. Ástandið er að buga stéttirnar og landflótti gæti blasað við rétt eins og hjá þeim eldri borgurum sem sjá sér fært að flytja í burtu frá örbirgð í boði núverandi ríkisstjórnar.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.