25.3.2017 | 13:25
Falleg hönnun....er pláss fyrir hana í ringulreið ferðamanna á Íslandi?
25.mars 2017
Góðan og blessaðan daginn.
Þá er komin helgi og laugardagur með nýjum bollaleggingum.
Ég var að skoða hönnun vinkonu minnar sem býr á Íslandi. Ég elska þessi föt. Þau eru hlý og mér finnst þessi hönnun svo skemmtileg. Það kemur alltaf eitthvað á óvart þegar ég skoða til dæmis þennan kjól. Hann birtist mér í nýrri mynd í hvert skipti sem ég lít á hann.
Nú er freistingin alveg að kaffæra mig og ég rígheld mér í að sparnaður sé aðal málið. Sparnaður fyrir skatti í ágúst!
Mikið getur stundum verið hrikalega erfitt að vera hagsýn.
Ég mundi miklu heldur vilja fjárfesta í þessum fallega kjól og láta hann halda á mér hita í gerræðislega köldu vori hér í Portúgal.
Við vorum að ræða veðrið í morgun, ég og hárgreiðslukonan mín, sem er reyndar líka nágranni minn, og við vorum sammála um að veðurfarið væri dottið í það. Það vissi ekki hvort það væri að koma eða fara og slagaði frá snjókomu upp í 26 stiga hita á fárra daga fresti, rétt eins og blindfullur kall.
Á svona tímum er nauðsynlegt að hafa góð og hlý föt til taks. Ég á reyndar lopapeysu og hún heldur oft á mér hita en ég verð að viðurkenna að hönnunin hennar Gerðar í GAGA Design er mitt uppáhald. Ég hef notið þess að spranga í fötum frá henni í nokkrum löndum og alltaf vekur fjölbreytileikinn athygli.
Hvort ég læt freistast kemur í ljós á næstu dögum, og í dag má ég leyfa mér að dreyma stóra drauma.
Það er laugardagur og ég er með rólegra móti. Hef ekki enn rifist neitt yfir sukkinu og svínaríinu á Íslandi en get þó ekki alveg setið á mér.
Mér finnst dapurlegt að vita til þess að hæfileikaríkt fólk, sem ef til vill gæti komið sér á framfæri í brjálæðislegri aukningu ferðamanna á Íslandi, skuli ekki sjá sér fært að leigja húsnæði undir starfsemina þar sem straumurinn er, vegna okurleigu og græðgi húseigenda.
Er það ekki sorglegt að Ísland skuli nú vera að missa út úr landinu fólk með mikla hæfileika í ýmsum greinum, vegna græðgi og hagsmunapots örfárra óprúttinna ætta?
Ég verð svo reið þegar ég hugsa um þetta en jafnframt sorgmædd. Það ætti að vera pláss fyrir alla, já ég segi ALLA, á landi eins og Íslandi.
Það ætti ekki að vera eini valkostur þeirra sem komnir eru á eftirlaun, eða þeirra sem eru öryrkjar, að flýja landið til þess að geta lifað sómasamlegu lífi.
Það ætti enginn að kjósa auðvaldið, en því miður eru of margir sem halda uppteknum hætti í kjörklefanum og breyta aldrei til, sama á hverju gengur.
Skiptir náunginn okkur svona litlu máli?
Er okkur sem höfum það gott alveg sama um alla hina og nennum við ekki að berjast gegn skömminni sem heitir Fátækt?
Ég held að það sé fullt af fólki sem lætur sig þessi mál varða en það þarf einhvern vegin að sameina hópinn og fá hann til að tala eins og einn maður, en ekki sem lítil brot hingað og þangað.
Verður þetta einhvern tíman svona? Ég veit það ekki en ég vona það.
Megi helgin verða ykkur góð og leika við ykkur öll sem lesið þetta.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.