Laun alþingismanna. Af hverju eru þau svo há?

24. mars 2017 taka tvö

Mörgum okkar þykja laun alþingismanna óþarflega há og risnur þeirra ekki í samræmi við þjóðfélagið í heild.

Hvers vegna eru laun þessa hóps svona geðveikislega há?

Jú, það var umræða í þjóðfélaginu fyrir nokkuð mörgum árum þar sem laun þingmanna þóttu svo lág að gott fólk fengist ekki til þess að bjóða sig fram til starfans.

Rökin voru að til þess að fá besta fólkið til að stjórna landinu og setja lög þyrftu launin að vera þannig að ekki þyrfti að sinna öðrum launuðum störfum og launakjörin væru heldur ekki til þess að fæla hæfa einstaklinga frá.

Einmitt!!

Hvað hefur nú gerst?

Nú sitja á hinu háa alþingi menn og konur sem hafa orðið uppvís að alls konar spillingu og enginn getur gert neitt. Þetta blessaða fólk var einfaldlega valið.

Og hver valdi það?

Jú, það var sko hópur fólks sem heitir kjósendur og rís upp á 4 ára fresti að minnsta kosti. Þessi hópur hlustar á þá sem gefa kost á sér og svo undarlega bregður nú við að allir frambjóðendur vilja allt fyrir alla gera og landsmenn eiga að búa við réttláta skiptingu kökunnar.

Eitthvað bregst í minni hópsins, það er kjósenda, og þeir muna ekki að loforðin sem þeir hlusta á núna eru þau sömu eða mjög lík og voru gefin fyrir síðustu kosningar en hægt er að endurvinna vegna þess að þau voru flest svikin.

Hvernig stendur á þessu?

Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn sem drepur alla flokka sem fara með honum í stjórn heldur sínu og eykur jafnvel við fylgi sitt þrátt fyrir að upp á borðinu séu milljóna auðgunarbrot forsvarsmanna og spilling sem mundi sóma sér vel til dæmis í Portúgal við hlið Sokratesar sem var settur í fangelsi og sat þar ásamt fleiri ráðamönnum?

Mér dettur stundum í hug þegar ég hlusta á umræður um brot Sokratesar að hann blikni í samanburði við suma á Íslandi sem stjórna landinu aftur og aftur og hlúa að þeim sem ríkastir eru og gera ekki neitt fyrir þá sem kusu þá þrátt fyrir allt.

Kakan fallega er jú bara fyrir suma, hvort sem hún er skreytt bleiku kremi eða brúnu. Hún er ekki fyrir þig og mig. Hún er fyrir nokkrar ættir sem halda áfram að stækka sína bleiku köku á meðan kjósendur, hópurinn góði, heldur áfram að trúa fallegu skreyttu loforðunum, loforðunum sem eru eins og stjörnuljós í myrkri þeirra sem ekki má tala um, Fátæka fólksins á Íslandi.

Ef kosið væri núna gæti ég etið hatt minn upp á að aftur færi Bjarni Ben í ríkisstjórn og hann og hans fylgisveinar héldu uppteknum hætti.

Birtan er farin að dofna og orðin lítil týra hjá Bjartri Framtíð.

Viðreisn hallar út á hlið og dettur líklega um koll áður en varir, en það er allt í lagi því Bjarni stendur teinréttur, risastór og hlær að öllu saman og Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór taka þátt í gleðinni og súpa vel á gæðum velgengninnar!

Elsku kjósendur!

Eftirlaunaþegar, öryrkjar, láglauna fólk, einstæðir foreldrar og allir sem fá ekki einu sinni flís af kökunni bleiku!

Ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur. Geriði það fyrir ykkur og okkur, ekki krossa við D-ið.

Getur það verið að besta fólkið fáist ekki til starfa á hinu háa alþingi íslendinga vegna þeirrar gengdarlausu spillingar sem ríkir í þjóðfélaginu?

Getur það verið að há laun séu ekki nægilegt aðdráttarafl?

Er besta fólkið of heiðarlegt til þess að taka þátt í darraðardansi Panamaprinsa og eiginhagsmuna seggja?

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband