24.3.2017 | 15:55
Umræðan um fátækt tók 100 gráðu beygju........
24.mars 2017
Ég sat á mér í gær og hlustaði á og las athugasemdir um formann velferðanefndar og tungumálakunnáttu hennar.
Ég þekki konuna ekkert.
Ég veit hins vegar að hún situr á hinu háa alþingi íslendinga og setur lög til þess að stjórna landinu, ásamt öðrum þingmönnum.
Ég er nú svo einföld að finnast lög í hverju landi fyrir sig eigi að vera á skiljanlegu máli, tungumáli hvers lands, og í þessu tilfelli, þar sem ég er að tala um Ísland, á íslensku.
Það væri hjákátlegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að Portúgalar, landar mínir, færu að skrifa lög sín til dæmis á ensku eða jafnvel spænsku.
Ég leyfi mér að gagnrýna þá sem sitja á alþingi íslendinga og geta ekki talað almennilega íslensku. Þeir eru að setja íslensk lög og það gengur ekki að þeir segi eitthvað allt annað en þeir meina eða að lagatexti segi eitthvað allt annað en hann á að innihalda og allt sé þetta bara túlkunaratriði.
Í einu orði sagt þá finnst mér svona málatilbúningur heimskulegur.
Í gær ruku menn upp til varnar formanni velferðanefndarinnar og fóru mikinn á Facebook.
Hún lokaði síðunni sinni því ummæli voru svo ógeðsleg og hún vildi ekki að börnin hennar sæju þau.
Ég er sammála því að oft á tíðum eru ummæli fólks og athugasemdir á Facebook fyrir neðan allar hellur og skítkast þar sem á ekki að eiga sér stað. Það er hægt að gagnrýna fast án þess að nota viðbjóðsleg orð.
Það er engum sómi að því að niðurlægja einn eða neinn með því að kalla hann eða hana ................. ég tek mér ekki þessi orð í munn hvað þá að skrifa þau. Þau eru fyrir neðan mína virðingu.
Þegar ég opnaði Facebook síðu mína fyrir nokkrum árum átti ég í byrjun fullt af íslenskum vinum. Ég fylgdist með þeim og las skrif þeirra og smátt og smátt henti ég þeim út því ég vildi ekki taka þátt í viðbjóðslegri orðanotkun þeirra, hvað þá að hafa þessi orð á minni síðu.
Það er þó eitt sem frú formaður velferðanefndar verður að gera sér ljóst. Þegar hún er komin á alþingi og orðin formaður mikilvægrar nefndar þá verður hún gagnrýnd. Það er óhjákvæmilegt. Orð hennar, þau sem hún lætur út úr sér, verða gagnrýnd ef ástæða þykir til. Allir sem taka afstöðu eiga það á hættu að verða fyrir því að einhver eða einhverjir verða þeim ósammála.
Meira að segja ég, þessi litla óþekkta kona hef fengið yfir mig gusu sem mér hefur ekki líkað en þá hef ég getað eytt ummælum og blokkað viðkomandi af Facebook síðu minni. Ég er nefnilega ekki alveg varnarlaus og það er frú formaður ekki heldur.
Ég harma það að fólk geti ekki séð sóma sinn í því að vera kurteist í föstum skotum sínum og gagnrýni en það eru einfaldlega sumir þannig að þegar þeir skrifa og þurfa ekki að standa fyrir framan viðkomandi verður skítkast ofan á.
Ég harma það líka að umræða sem skaut upp kollinum um fátækt á Íslandi hafi verið kaffærð í bili með vorkunnsemi og vörnum fyrir útlending sem situr á hinu háa Alþingi og segir eitt og meinar allt annað af því að hún hefur ekki náð fullkomnum tökum á tungumálinu.
Ég hef ekkert á móti útlendingum á Íslandi. Ég hef hins vegar athugasemdir við að þeir setji lög sem þarf að hafa fyrirvara á vegna skorts á málakunnáttu.
Ef Nichole hefði starfað áfram á leikskólanum og gert þar góða hluti hefði hún aldrei orðið fyrir þeirri gagnrýni sem hún má nú þola sem vel launaður alþingismaður og formaður nefndar.
Svona er nú lífið bara einfaldlega.
Tökum aftur upp umræðuna um fátækt á Íslandi því hún er þörf og látum nóg komið af skrifum um kvikindisskap okkar sem viljum hafa íslensku mælandi alþingi á Íslandi.
Ég stend við það sem ég sagði:
Formaður velferðanefndar á að segja af sér. Hún á að láta öðrum eftir formennsku í þessari nefnd og vera bara óbreyttur þingmaður ef hún endilega vill vera þingmaður. Vonandi getur hún látið gott af sér leiða, eins og hún hefur lýst yfir að hafi verið ætlun hennar, og kannski tekst henni að hafa sjálfstæðan vilja og vinna að góðum málum í stað þess að vera undirgefin og hlýðin við þá sem nú stofna íslensku samfélagi í voða og róa jafnt og þétt í átt til hinna ofsaríku og hunsa þá sem hvorki eiga mat alla daga eða hafa ráð á að fara til læknis eða getað snúið heim í hlýju og notalegheit.
Hún má líka hugleiða þann mun sem er á launum leikskólakennara og þingmanns!
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.