18.3.2017 | 10:50
Laugardagur fyrir brottflutta eftirlaunaþega og öryrkja, hópinn sem aldrei er minnst á.
18. mars 2017
Enn og aftur kemur ágætur maður fram með þá skoðun sína að það sé niðrandi að tala um hópa sem "minna mega sín".
Ég var ekki síður undrandi þegar ég sá að þáttastjórnandinn Björn Ingi lagði enn frekari áherslu á orðasambandið og túlkaði það sem niðrandi.
Hvað er nú til ráða?
Jú, kannski væri ekki afleit hugmynd fyrir þá sem líta á þetta orðasamband sem neikvætt eða niðrandi að skoða íslenskar orðabækur.
"Þeir sem minna mega sín" eru hópar fólks sem eiga sér ekki öflugan málssvara og jafnvel engan málssvara.
Ég get svo sem fúslega tekið undir með Wilhelm Wessman að hann tilheyrir ekki sama hópi og ég.
Hann tilheyrir ekki hópnum sem á sér ekki háværa málssvara.Hann er með öflugt batterí á bak við sig, Félag eldri borgara í Reykjavík og Gráa herinn.
Ég og vinir mínir sem hafa flutt frá Íslandi og erum komin á eftirlaun höfum ekkert svona batterí til þess að hamra á okkar kjörum og skerðingum á bótum okkar.
Ég er stolt af því að tilheyra hópnum sem "minna má sín" og við erum farin að láta í okkur heyra, sem betur fer.
Það er ekki við því að búast að Wilhelm, og Björgvin og Þórunn H. og Helgi P, séu að ómaka sig á því að tala um hvernig farið er með okkur brottflutta í hinu nýja kerfi Almanna trygginga á Íslandi. Við komum þeim hreinlega ekkert við og þeim er alveg sama um okkur. Það sem skiptir þau mestu máli er að vera ekki spyrtir með þeim hópi sem "minna má sín" í þjóðfélaginu vegna þess meðal annars að fólk eins og ég nefni hér að framan gefur ekki mikið fyrir okkar málefni og hefur kannski ekki sérlega góða þekkingu á íslensku máli.
Mér þykir reyndar verulega sorglegt að Wilhelm og hans hópur hafi verið skert!
Hvernig voru þau skert?
Var tekið úr þeim líffæri?
Misstu þau til dæmis heyrnina?
Ég er svo ofsakát yfir því að hafa ekki verið skert. Ég er bara rétt eins og ég var fyrir áramót.
Hins vegar hafa bætur mínar frá Tryggingastofnun verið skertar verulega og það er ekki gott, en ég get huggað mig við að ég persónulega hef ekki verið skert, enda væri það nú heldur langt gengið ef stofnunin færi að taka úr mér líffæri eða eitthvað slíkt!
Ég er stolt af því að tilheyra "þeim sem minna mega sín"
Ég held áfram að tala um málefni okkar þar til bót verður á.
Ég sem einstaklingur hef það fínt en það réttlætir ekki að ég tæki upp á því að þegja yfir óréttlæti því sem gengur yfir minn hóp.
Hættiði svo að tala niður til okkar sem eigum ekki öflugan baráttuhóp til þess að hrópa fyrir okkur.
Það væri nær fyrir ykkur að setja ykkur inn í málefni okkar og minnast þó ekki væri nema einu sinni í öllum skrifunum og viðtölunum ykkar á þennan hóp eftirlaunaþega og öryrkja, hópsins sem valdi lífið en ekki að lepja dauðann úr skel á Íslandi og flutti úr landi.
Haldiði kannski að það hafi verið létt ákvörðun fyrir suma sem neyddust til að yfirgefa fósturjörðina og fjölskyldu, ættingja og vini? Ég er sannfærð um að margt af þessu fólki vildi gjarnan búa á Íslandi og geta heimsótt þá sem þeim eru kærir þegar þeim dytti í hug.
Í landi Panamaprinsins er þetta ekki möguleiki fyrir marga, því miður, en það má ekki strika þennan hóp út og þegja þunnu hljóði yfir því hvernig hann, þrátt fyrir að hafa greitt skatta og skyldur til íslensks þjóðfélags alla sína starfsævi, býr við verri kjör frá Almannatryggingakerfinu en þeir sem hafa ekki flúið.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.