17.3.2017 | 19:06
Saltfiskurinn SKAL ofan í þig!
17.mars 2017
Á hverjum degi ek ég í tæpan klukkutíma til þess að komast ofan í sundlaug fyrir þá sem þurfa endurhæfingu og þessi sundlaug ásamt sjúkraþjálfara er á Spítala í Coimbra.
Í morgun var ég allt of sein því það hafði orðið árekstur og umferðin mjakaðist eins og snigill en ég hafði það af að komast í tímann þegar hann var tæplega hálfnaður.
Í þessum hópi eru 5 konur og 2 karlar.
Ekki mæta allir alltaf og fólk hefur misjafnar aðferðir við æfingarnar. Sumir sulla svolítið til og frá og aðrir reyna eftir bestu getu að gera eins og þeim er sagt. Þetta er jú til þess að styrkja sjúklingana svo þeir geti farið út í lífið.
Laugin er hrikalega djúp, þar sem hún er dýpst er hún 1.35 metrar og ég er 1,70 svo það liggur í augum uppi að ég gæti hæglega sokkið og drukknað í öllu þessu vatni.
Karlarnir sem eru í þessum hóp eru svona: Annar er frekar mjór, með svolitla byrjun á bumbu en ekkert til þess að gera veður út af. Reyndar mundi heimilislæknirinn minn nýi, líklega láta hann í megrun.
Hinn karlinn er frekar bumbuóttur, hann er minni og bumban er svona um það bil 6 mánuði á leið eða svoleiðis.
Í búningsklefa karlanna er spegill og alles en ekki hjá konunum. Auðvitað, við erum í Portúgal og karlar eru númer eitt.
Gellurnar eru svona:
2 eru bara eðlilegar, hvorki búttaðar eða grannar. 1 er frekar grönn(Það er ég).
2 eru með fullt af einhverju sem minnir mig á tunnu sem dillar, líklega tunnu úr jellyi eða einhverju álíka. Þegar þær troða öllu inn í sundbolinn hjálpast þær að og allt gengur þetta upp. Það þarf ekki að fara úr bolnum áður en tíminn hefst, bara sturta svolitlu vatni yfir sig og þá er málið leyst.
Í gær sagði ég köllunum að það væru sundlaugar á Íslandi og þær væru með heitu vatni og oft undir berum himni. Ég sagði þeim líka að það væru eldfjöll og jöklar á þessu skrítna landi og að íbúar væru líklega í kringum 350 þúsund. Svo sagði ég þeim aðspurð að ég væri ekki hrifinn af saltfiski.
Kerlurnar fljóta venjulega meðfram hliðunum og eru við enda laugarinnar, en ég held mig á móti þjálfaranum, svo ég sjái hvað ég á að gera, og svo er ég auðvitað í algrynnsta partinum, svo ég drukkni ekki.
Kallarnir tala ensku og þjálfarinn líka og ég kann ekki Portúgölsku! Þannig að samræður hafa farið fram á ensku hingað til og hinar búttuðu ekki tekið þátt í samræðunni en fengið þýtt ef tekist hefur að draga orð upp úr vatnshrædda útlendingnum, sem er líklega talinn vera enskur!
Í dag var bara einn kall og 2 kellur þegar ég loksins skilaði mér ofan í vatnið.
Upp hófst nú samræða. Ég skil ekki hvað þetta fólk getur endalaust malað og malað. Ég þarf að einbeita mér til þess að halda mér á floti og gera æfingarnar rétt og passa upp á að finna ekki til í öxlinni, en liðið malar og malar og malar.
Kallin sagði gellunum að á Íslandi byggju 3 milljónir og 500 þúsund manns! Hann sagði ég hefði sagt honum þetta í gær.
Svo sagði hann þeim að sundlaugar væru til á Íslandi og af því það væru eldfjöll væru þær heitar og þær væru allar með glerþaki!
Ég var hér um bil búin að missa út úr mér að þau ættu kannski að gúggla Ísland og sjá hvað kæmi upp en þagði.
Önnur gellan með tunnuna framan á sér sagði mér að ég skyldi borða saltfisk hjá henni og þá mundi mér finnast hann góður. Þau vita öll að mér finnst hann ógeðslegur.
Ég stökk upp á nef mér og féll í gildruna, ég sagðist ekki mega borða portúgalskan mat, læknirinn minn hefði bannað mér það þar sem ég væri með innvortis blæðingar. Leyndarmálið komst upp, ég stökk nefnilega upp á nefið á Portúgölsku.
Oh, senjora talar portúgölsku, og þær sigldu virðulega í átt til mín og skyndilega var ég umkringd og átti ekki útgönguleið. Vatnið hafði hækkað verulega, og 1,35 var upp að nefi á mér. Ég ríghélt í járnið og bað til guðs að láta mig ekki deyja.
Hópurinn útskýrði fyrir mér í löngu máli að saltfiskur væri málið, ég skyldi borða hann, hann skyldi ofan í mig hvað sem tautaði og raulaði.
Ég laug því án þess að blikna á portúgölsku að íslendingar borðuð aldrei, ALDREI saltfisk. Hann væri bara til útflutnings til Spánar, Portúgal og Nígeríu. Íslendingar borða bara nýjan þorsk, sagði ég. Hah.
Á mánudaginn vona ég að allir verði búnir að gleyma því að senjora tali portúgölsku og ef ekki þá læt ég sem ég þjáist af algleymi!
Það er svo dásamlegt að geta skýlt sér á bak við takmarkaða eða enga málakunnáttu og auðvitað fáránlegt að láta plata sig eins og ég gerði í dag. Ég nenni ekki að taka þátt í malinu. Ég þarf að ná heilsunni þó ég þurfi að leggja á mig að gera leikfimi í 1,35 djúpri laug.!
Þegar upp úr lauginni er komið fara allir í sturtu og þá er farið úr sundbolunum svona um það bil niður að mitti og sápað og þvegið það sem þvo þarf.
Síðan er farið í klefann og mörgum gel kílóum troðið inn í eitthvað sem ég veit eiginlega ekki hvað heitir. Er ekki viss hvort þetta er korselett eða eitthvað svoleiðis. Fyrst hélt ég að konan væri að fara í sjúkrabelti og hin að hjálpa henni en í gær sá ég að þetta er bara til þess að fela og þrýsta saman gelinu.
Mikið ofboðslega er ég nú heppin að borða ekki saltfisk, já ég gleymdi því, ég sagði kallinum í gær að portúgalar væru feitir vegna þess hvernig þeir elduðu, þeir drepa allan mat með ofeldun, en hann hélt nú ekki. Þeir sem eru feitir borða erlendan mat, sagði gaurinn. Já einmitt!
Það er auðvitað endalaust hægt að trúa svona bulli en saltfiskur fer ALDREI ofan í mig og á mánudaginn kann ég ekki orð í málinu. Eins gott að bjóða bara góðan daginn á kínversku.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.