Nýr formaður VR, bjargvættur eða?

16.mars 2017

Nú hefur nýr formaður tekið við VR og var hann kosinn með 17,9% þátttöku

Þessi litla þátttaka vakti mig til umhugsunar um eitt og annað.

Félagsvitund:

Erum við íslendingar með vanþroskaða félagsvitund?

Það virðist stundum vera svo, allavega þegar kemur að því að kjósa um málefni sem skipta máli.

Getur ástæða lítillar þátttöku í kjöri formanns VR stafað af því að fólk hefur gefist upp fyrir kerfinu og  finnst það ekki hafa neitt að segja og ekki skipti máli hver situr í formanns stóli VR, þetta sé allt sami grautur í sömu skál?

Ég veit þetta ekki en man þegar ég var að sækja félagsfundi hjá félaginu og ekki var mikið mark tekið á fólki sem var ekki ánægt með nýgerðan kjarasamning og var kaffært af þeim sem stjórnuðu.

Er þetta enn svona?

Ég veit það ekki.

Varðandi formann VR, nýkjörinn: Maður sem ég þekki ekki neitt en hef hlustað á nokkur viðtöl við hann, og ég óska honum alls góðs í nýju starfi og vona svo sannarlega að kerfið gleypi hann ekki með húð og hári og að hann komi fram þeim bótum sem hann dreymir um.

Það er oft auðveldara að vera utan dyra en innan og innkoman getur orðið ansi kuldaleg og frost ríkt þar til hinn nýkomni gefst upp.

Launamál nýja formannsins verða kannski prófsteinn númer eitt á hvað hann getur gert.

Ég vona svo innilega að nýi formaðurinn láti ekki glepjast af fagurgala stjórnmálabrota sem nú elska hann út af lífinu og sjá í honum bandamann til þess að bæta lífið okkar allra! Hah!!!

Við litlu angana sem ekki komust að í síðustu kosningum ætla ég að leyfa mér að segja:

LÁTIÐ NÝJA FORMANNINN Í FRIÐI OG REYNIÐ EKKI AÐ UPPHEFJA YKKUR Á HANS AFREKUM.

Samfélagsvitund er annað hugtak sem datt upp í kollinum á mér þegar ég velti fyrir mér félagsvitund.

Eru Íslendingar með skerta samfélagsvitund og þess vegna svo mörgum hjartanlega sama þó ríkir verði ríkari og fátækir fátækari?

Er það þessi skerta samfélagsvitund sem kýs Panamaprinsinn og hans hirð aftur og aftur og aftur, sama hvernig hann og hirðsveinar hans níðast á almúganum?

Er það skortur á samfélagsvitund sem svipti Bjarta framtíð minninu og lét þá gleyma öllum fallegu loforðunum í skiptum fyrir ráðherrastóla og fallegt launaumslag?

Er ætlast til þess að ég beri meira traust til pínulítilla framboða núna, sem gala hátt og þykjast hafa ráð undir rifi hverju?

Er eitthvað alvarlega bogið við þetta vantraust mitt allt saman?

Kannski er ég og allir hinir aumingjarnir sem ekki styðja framapot pólitíkusa bara öfundsjúk út í að einhverntíma í framtíðinni verði þetta ágæta fólk á alþingi íslendinga að setja lög og reglur fyrir okkur hin og allt verður svo ægilega gott!

Þeir sem nú pota sér fram og reyna að baða sig í sól nýs formanns VR ættu líklega að byrja á því að koma sér niður á jörðina og hafa fullyrðingarnar sem þeir setja fram réttar en vera ekki að æsa múginn að óþörfu með þvílíku rugli sem gert hefur verið í síðustu viku.

Pólitískir formenn flokka sem hafa í farteskinu háskólagráðu í lögfræði og vita ekki hvernig skattamálum er háttað hjá Lífeyrissjóði VR og halda því fram að sjóðurinn haldi eftir staðgreiðslu okkar ættu held ég að taka prófið aftur eða fara í endurhæfingu.

Mér er vel kunnugt um þetta mál þar sem ég greiddi skatta í tveimur löndum ekki fyrir svo mörgum árum  og fékk endurgreidda staðgreiðslu frá Íslandi því ég bý í tvísköttunar samnings ríki og á að borga skatta í búsetulandi mínu sem er ekki Island.

Staðgreiðsluna sem Líf VR tók af mér fékk ég endurgreidda um leið og álagning kom. Það var ekki Lífeyrissjóðurinn sem greiddi mér til baka, það var skatturinn, sem sannar hér og nú fyrir formanni sem ekki veit betur, að skattpeningum okkar er ekki haldið eftir hjá Lífeyrissjóðinum og þeim er ekki stolið. Þeir fara til ríkisins einu sinni í hverjum mánuði, rétt eins og lög gera ráð fyrir.

Ég var að lesa viðtal við nýja formanninn hjá VR og þar get ég ekki séð að hann minnist einu orði á öryrkja og eftirlaunaþega. Sé þetta rétt hjá mér, sem ég vona að sé ekki, er ég mjög vonsvikin, svo ekki sé meira sagt.

Ég vona að nýi formaðurinn sjá að eftirlaunaþegar eru líklega jafn mikils virði og láglauna stéttir innan VR.

Ég ætla að láta hann njóta vafans og halda að þetta hafi verið mistök hjá honum sem hann muni leiðrétta hið snarasta.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband