Hvað kostar að fara til læknis í Portugal?

12.mars 2017

Hér á eftir langar mig til þess að segja aðeins frá heilbrigðisþjónustunni hér í landinu sem hefur tekið mig að sér.

Það er heilsugæsla í hverju bæjarfélagi og sumstaðar tvær eða fleiri. Þetta fer eftir stærð og íbúafjölda.

Í mínu þorpi er ein heilsugæsla.

Þegar ég flutti hingað þurfti ég að sækja um aðgang og fór lögfræðingur minn með mér og við brostum. Það var dagsskipunin áður en við lögðum af stað "að brosa" og þá mundi þetta ganga eins og í sögu, sem það og gerði.

Bretarnir og þjóðverjarnir hafa átt í brasi með þessa skráningu og veit ég ekki hvers vegna það er.

Semsagt, mér var úthlutaður heimilislæknir og þegar ég sá hann í fyrsta skipti, eftir 3ja mánaða dvöl í landinu, var ég með lungnabólgu og gat varla talað. Hann og hjúkrunarkonan æptu á mig að fyrst ég væri í Portúgal skyldi ég tala portúgölsku. Kunnátta mín var mjög takmörkuð en ég gat talað ensku. Þeim var nokk sama um ensku kunnáttu mína og æptu enn hærra. Þar sem ég var með bullandi hita og gat ekki staðið í þrefi stóð ég upp og fór.

Ég varð mér úti um fúkkalyf eftir krókaleiðum og batnaði.

Mér var hins vegar ekki batnað af meðferðinni sem ég fékk á stöðinni og vissi að það væri gul bók sem hægt væri að kvarta í. Ég skrifaði bréf og bað um viðtal við kvörtunarstjórann sem ég fékk. Hún reyndi sem hún gat að fá mig til þess að sleppa því að gera skriflega kvörtun en ég hafði fengið nægju mína og gaf mig ekki.

Þegar kvartað er í gulu bókina fer málið fyrir yfirvaldið sem er í Lissabon. Þetta var ég búin að finna út og vissi fyrir víst.

Jafnframt því að kvarta sótti ég um að fá annan heimilislækni. Ég fékk hann eftir mikið þjark 3 mánuðum seinna og hef setið uppi með hann síðan þar til ég var svo lánsöm að brjóta á mér öxlina í október og finna þar með leið til þess að skipta um heilsugæslu og heimilislækni.

Dr. Cardosa er fífl. Það eru til svona læknar út um allan heim og líka á Íslandi. Læknar sem halda að þeir séu guð almáttugur og sjúklingarnir hálfvitar. Hinn ágæti Dr. Cardosa sagði mér að það væri ekkert að mér, ég væri bara gömul. Jú, nokkur ár hef ég í pokahorninu en það réttlætir ekki að mér sé ekki sinnt þegar ég er veik.

Ég fór til einkalækna og var skorin upp á hjartanu og það lagað sem þurfti að laga. Einnig fór ég í augnaðgerð á einkaspítala, minniháttar aðgerð því ég grét endalaust og þurfti að stoppa það rennsli.

Fyrir hjartaaðgerðina greiddi ég ekki neitt, hún var gerð á ríkisreknum spítala en fyrir augnaðgerðina greiddi ég fyrir 5 árum 1300 evrur.

Þegar ég fer í viðtal á spítalanum, við lækni, borga ég 7 evrur.

Þegar ég fer í viðtal á heilsugæslu borga ég 5 evrur og fyrir lyfseðil 3 evrur.

Ég var send í blóðrannsókn núna sem ég greiddi 17 evrur fyrir. Var það nokkuð rækileg rannsókn sem er gerð einu sinni á ári.

Ég fékk á síðasta ári 2 einingar af blóði eftir að hafa verið send á bráðamóttökuna. Fyrir móttökuna og blóðið borgaði ég minnir mig rúmar 30 evrur.

Í dag keypti ég meðal vegna blóðþrýstings 56 töflur og 3ja mánaða skammt af Fosavan og greiddi 32,50 evrur fyrir. Önnur meðöl tek ég ekki.

Ég fór í einhvers konar speglun og það voru tekin 3 sýni úr maga og einhverju svoleiðis, ég er ekki að velta mér of mikið upp úr kunnáttunni varðandi læknisfræði, það eru sérfræðingar sem sjá um þau mál, en ég greiddi fyrir þetta 21,50 evru. Hefði átt að borga 47,40 en þau gáfu mér afslátt og ég borgaði bara fyrir eitt sýni. Þessi rannsókn var gerð á einkastofu en kerfið hér er þannig að hafi verið sótt um rannsókn á spítala og henni ekki sinnt innan sex mánaða vegna anna á sjúklingurinn rétt á að fá rannsókn hjá einkageiranum og það gerðist hjá mér, því nú var ég kominn með almennilegt teymi til þess að sjá um mig. Enginn Dr. Cardosa lengur!

Þegar ég braut á mér öxlina og handlegginn í október greiddi ég ekkert fyrir bráðamóttöku, sjúkraflutning, tvo uppskurði, dvöl á spítala í 12 daga, en ég borga fyrir viðtöl við lækninn minn og sérfræðing í sjúkraþjálfun. 7 evrur í hvert skipti og 1,50 fyrir röntgenmynd.

Fyrir 15 skipti í sjúkraþjálfun á spítala greiði ég 60 evrur.

Gjald fyrir viðtal hjá hjartaskurðlækni mínum er 7 evrur. Ég hef ekki verið útskrifuð enn. Það verður gert í júní þegar við eigum næsta fund. Þó ég verði útskrifuð á ég greiðan aðgang að  Dr. Pedro sem skar mig upp. Kerfið er þannig.

Þetta er í stórum dráttum það sem ég man í bili varðandi kostnað við heilsugæslu.

Það sem þó skiptir mig miklu máli er að á síðasta ári greiddi ég tæpar 800 evrur í lækniskostnað og verður það dregið frá því sem mér verður gert að greiða í skatt.

Við álagningu í fyrra hafði ég mjög´lítinn læknis kostnað en við álagningu þetta árið eru það sem sagt tæpar 800 evrur og verður gott að fá þann afslátt þó ég hefði auðvitað heldur kosið að vera hraust.

Ég hef kosið að nota eins mikið og mögulegt er ríkisreknu þjónustuna. Ég borga skatta hér í landi og á fullan rétt á þeirri þjónustu og líkar hún vel.

Það eru sumir sem frekar kjósa einkarekna geirann og eru fúsir að greiða fyrir hann. Í flestum tilfellum eru sömu læknar sem vinna á báðum stöðum og munurinn er kannski að greiða 7 evrur fyrir viðtalið á ríkis spítalanum eða 60 evrur á þeim einkarekna.

Ég þekki kerfið hér í Portúgal og kannski gefur þetta öðrum sem eru að hugsa um að flytja til dæmis til Spánar einhverja hugmynd um hvernig kerfið gæti hugsanlega verið. Það getur þó verið að allt annað fyrirkomulag sé hjá Spánverjunum. Ég bara þekki það ekki.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband