11.3.2017 | 13:39
Flokkur fólksins VILL fara í mál!
11.mars 2017
færsla 2
Flokkur fólksins fer mikinn núna og vill, takið eftir orðinu vill, fara í mál við ríkið vegna mistaka við lagasetningu og leiðréttingu á lögum afturvirkt.
Nú velti ég fyrir mér hvort þetta sé í eina skiptið sem lög hafa verið leiðrétt vegna mistaka af einhverju tagi við lagasetningu og leiðrétt afturvirkt.
Man einhver eftir því núna í mars hvernig hamast er við að setja lög á færibandi áður en hið háa alþingi fer í frí? Hvernig vakað er hálfu og heilu næturnar til þess að koma nú öllu í gegn?
Eru það ekki vinnubrögð alþingis í heild sem þarf að skoða?
Hefðu þessi vinnubrögð eitthvað breyst við tilkomu nýs flokks á þing?
Ég veit það ekki.
Er kannski næsta spor í lögsókn að sækja þingmenn til svara um hvernig þeir virða drengskaparheit sitt?
Björgvin Guðmundsson, sem er ötull og hefur verið lengi, við að skrifa um málefni eldri borgara og bág kjör sumra, fullyrðir að lögsókn verði að veruleika.
Björgvin á ekkert nema gott skilið fyrir að halda málefnum þessa hóps á lofti með skrifum sínum og er ég ekki að vanþakka það.
Ég er aðeins að velta því fyrir mér hvort orðið VILL nái eins langt og orðið FER, eða HEFUR HAFIÐ MÁLSSÓKN Á HENDUR ......
Nú spyr ég sem leikmaður og alls ekki sem lögfræðingur eða sérfræðingur í lögum og lagasetningu:
Er líklegt að mál sem farið yrði í út af þessum mistökum vinnist?
Er ekki texti frumvarpsins og umræðunnar skýr?
Er ekki vilji löggjafans alveg skýr þegar lesnar eru skýringar með frumvarpinu?
Hvernig gat Tryggingastofnun kynnt nýju lögin fyrirfram og búið til reikni forrit sem hægt var að skoða áður en lögin voru samþykkt? Á hverju byggði hún?
Ég hef einhvern vegin á tilfinningunni að það hafi alltaf verið ljóst að lögin yrðu samþykkt og þess vegna hafi stofnunin getað unnið vinnuna sína til þess að greiða samkvæmt nýjum lögum.
Það er æpt og argast endalaust og yfirlýsingarnar koma á færibandi um að glæpur hafi verið framinn.
Hvers vegna las ekki flokkur fólksins, og aðrir sem nú djöflast yfir glæpnum, frumvarpið yfir við síðustu umræðu og atkvæðagreiðslu?
Mér finnst allur þessi málflutningur svo ótrúlega ódýr og lykta af pólitísku framapoti að mér verður óglatt og ælan situr í hálsinum á mér, eins og einhver komst að orði.
Þegar flokkur fólksins er farinn í mál getur hann ólmast en í augnablikinu hefur hann ekki farið í neitt mál.
Það eru engin málaferli hafin.
Það er verið að eyða tíma fólks og gera það hrætt með áróðri og framapoti. Ég leyfi mér að fullyrða það og er tilbúin að éta það ofan í mig ef annað kemur á daginn. Líklega þyrfti ég að kaupa mér hatt ef ég á að eta hatt minn, en hvað með það, þeir hljóta að fást ódýrir einhvers staðar.
Félag eldri borgara í Reykjavík, með lögmann í formanns sæti, ætlar ekki í mál út af þessu. Segir það ekki allt sem segja þarf?
Æsingur og rugl er bara til þess að vekja upp ótta hjá þeim sem eiga sér ekki öfluga málssvara og er engum til framdráttar.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.