11.3.2017 | 10:55
Málefnaleg fátækt stjórnmálabrota?
11.mars 2017
Ég lét það vera að skrifa eitt eða neitt í 2 daga. Ég var svo yfir mig undrandi og eiginlega hoppandi reið.
Ég dett í það að hugsa um það bil einu sinni á ári og sá dagur er liðinn en svo dett ég í það að verða reglulega "pissed off" einu sinni á ári og sá dagur rann um á fimmtudaginn og hefur varla hjarað út síðan.
Einkennilegt hvað þessir dagar geta stundum lengst í annan endann.
Fyrir síðustu kosningar voru ótal pínu lítil brot sem kölluðu sig stjórnmálaflokka og ætluðu að komast til valda og í leiðinni að auka tekjur sínar.
Þetta með tekjurnar er að sjálfsögðu ekki í hávegum haft og kannski bara örlítið að nugga í undirmeðvitund þeirra sem búa til þessi brot.
Kannski er þetta fólk líka bara hugsjónamanneskjur í húð og hár, hver veit?
Líklega sætum við íslendingar ekki uppi með þá voðastjórn sem nú er við völd ef valdagræðgi smábrotanna hefði ekki þvælst fyrir og þau komið sér saman um einn stóran öflugan flokk fyrir fólkið í landinu.
Ég veit að þetta eru stór orð og líklega verð ég nú höggvin á stokk eða eitthvað enn verra en ég er eins og sagði í upphafi búin að vera "pissed off" í marga daga og verð að komast út úr þeim gír, hvernig svo sem ég fer að því.
Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, með nýjan formann í brúnni, virðist vera að fara inn á farsælli braut og er ég þakklát og glöð fyrir það.
Grái herinn hefur breytt um tón, farinn að syngja í tón um Lífeyrissjóðs greiðslur, sýnist mér, sem er hið allra besta mál og líklega það sem mestu máli skiptir fyrir eldri borgara í bili.
Þá eru það litlu brotin sem ekki komust að í kosningunum. Þau eiga sér skelegga talsmenn sem nú eru farin að tala út og suður um allt mögulegt og æpa manna hæst um lögsókn að allt sem nöfnum tjáir að nefna.
Ég efast stórlega um að þeir sem hæst æpa séu yfirleitt sæmilega læsir á lög hvað þá að þeir viti yfirleitt hvernig t.d. skattamál ganga fyrir sig. Þetta byggi ég á umræðum sem ég hef séð og fullyrðingum þar sem vitnað er í lög og þau túlkuð með þvílíku hugmyndaflugi að gæti gagnast þeim sem ætlar að skrifa brandarabók um íslenskt skattakerfi, eða þannig.
Nokkur dæmi um fullyrðingarnar:
Lífeyrissjóðirnir stela af okkur staðgreiðslunni
Staðgreiðsla er tekin af lífeyrissjóðs greiðslum og henni aldrei skilað til ríkisins, Tryggingastofnun er líka þjófurinn.
Svona er þetta í raun: t.d. ef ég er á vinnumarkaðinum
Ég greiði í lífeyrissjóð
Áður en staðgreiðsla er reiknuð af launum mínum er greiðsla í sjóðinn dregin frá launaupphæðinni og síðan er staðgreiðsla reiknuð.
Launagreiðandi skilar staðgreiðslunni minni til ríkissjóðs
Ef ég er að fá greiddan lífeyri úr lífeyrissjóði borga ég staðgreiðsluskatt af þeirri upphæð vegna þess að ég hef ekki áður greitt staðgreiðslu af framlagi í sjóðinn. Þetta er samkvæmt lögum sem alþingi setti fyrir allmörgum árum. Ég ætla ekki að flækja þetta í bili.
Lífeyrissjóðurinn dregur þessa staðgreiðslu af mér, þ.e. af eftirlaununum mínum, og skilar henni eins og lög gera ráð fyrir til ríkisins.
Skattfríðindi sjóðanna sjálfra koma mínum greiðslum á staðgreiðslu ekkert við. Niðurstaða: Lífeyrissjóðurinn geymir ekki staðgreiðsluna mína, hann borgar hana í hverjum einasta mánuði.
Semsagt hér er hægt að hætta að hrópa eins og vitleysingur um þjófnað sem á sér ekki stað.
Það sorglega við svona málflutning pínulítilla pólitískra flokka sem segjast vera að vinna fyrir fólkíð í landinu er að margir eru ekki læsir á lög. Lög eru flókin og ég ætla mér ekki þá dul að ég sé læs á þau en ég skil þó einföldustu hluti.
Fólkið sem les fullyrðingar eins og þessa um þjófnað lífeyrissjóða kerfisins trúir þessu bévaðans bulli (fyrirgefið orðbragðið,mig langar til að nota miklu sterkara orð en fell ekki fyrir freistingunni að þessu sinni).
Það nýjasta er að nú skal fara í mál út af öllum sköpuðum hlutum og sækja peninga til ríkisins, sem það hefur stolið af almenningi.
Einmitt, ég velti fyrir hvernig pínulítill flokkur sem er ekki einu sinni á þingi hefur efni á öllum þessum málsóknum. Eiga svona brot fullt af peningum? Ég bara spyr eins og hálfviti.
Væri nú ekki einu sinni vænlegra til árangurs að sameinast um eina málssókn. Þá sem lýtur að því að fá leiðréttingu á áratuga raunverulegum þjófnaði kerfisins frá lífeyrisþegum?
Þetta hlýtur að vera þverpólitískt réttlætismál sem snertir alla.
Kannski væri gott fyrir þá sem nú vilja fara í mál út af öllu mögulegu að kynna sér sögu lífeyriskerfisins frá upphafi. Þá meina ég að kynna sér málið almennilega en ekki lesa bara það sem hentar hverjum og einum. Hvert var markmiðið með stofnun lífeyrissjóða og hvar eru þeir staddir í dag? Hvers vegna og hvar á leiðinni var ekið út af?
Upphrópanir eru eingöngu til múgæsinga fallnar. Þær gera ekkert gang og þær safna ekki einu sinni atkvæðum!
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.