Hvernig er best að koma sér fyrir

6.mars 2017

Þegar flutt er úr landi er að mörgu að hyggja. Ég flutti ekki frá Íslandi til Portúgal en ég þurfti að koma mér fyrir hérna og setja líf mitt í fastar skorður.

Ég var heppin og fékk frábæra aðstoð frá heimamönnum.

Ég leigði til að byrja með en fann fljótlega íbúð sem uppfyllti allar kröfur mínar, hún var stór, án þess að virðast vera stór, björt og útsýnið himneskt með fuglasöng í trjám rétt fyrir utan svalirnar mínar.

Það tók mig tíma að sætta mig við kúltúrinn (ekki sérlega góð íslenska þetta) hérna og mér fannst ég vera að deyja andlega. Ég reyndi að selja íbúðina en í því fjárhags umhverfi sem er í landinu tókst það ekki og við tók svolítill tími þar sem ég gerði upp við mig að þetta væri framtíðar heimili mitt og til þess að næra andlega þörf mína fyrir nútíma listir og andlega næringu yrði ég að finna farveg, sem ég og gerði.

Það tók stuttan tíma að koma öllum praktískum málum í gott horf. Ég stofnaði bankareikning og gekk frá málum hjá vatnsveitu og rafmagnsveitu og síma eftir að ég hafði keypt íbúðina og flutt inn. Það er nokkur skriffinnska í kringum alla hluti hérna og til þess að geta sinnt því sem þarf að gera er nauðsynlegt að hafa Fical númer sem ég fékk hjá Bæjarskrifstofunni hér í bæ. Það var auðvelt.

Ég komst að því frekar fljótt að heppilegt væri að finna mér góðan lögfræðing til þess að aðstoða mig við ýmis mál. Það sparaði mér bæði tíma og peninga og fyrsta árið voru þær með í öllu skipulagi og pappírsvinnu hjá því opinbera.

Þær komu með mér til tryggingafélagsins og á heilsugæsluna. Á heilsugæslunni var ekkert mál fyrir mig að fá mig skráða en það virðist vera flókið fyrir Bretana hérna.

Dvalarleyfi, eða recidence permission, fékk ég til fimm ára og við endurnýjun til 10 ára.

Social security númer þarf að hafa hérna og það er á enn einum stað. Síðan þurfti ég að fá sérstakt leyfi til að keyra bíl hér í landi og sótti lögfræðingurinn minn um það fyrir mig en nú er ég komin með portúgalskt ökuskýrteini og endurnýja það á 2ja ára fresti vegna aldurs.  Ég gat valið hvort ég vildi hafa áfram íslenskt ökuskýrteini en þar sem ég fer aldrei aftur til Íslands var það ekki inni í myndinni.

Ég gerði erfðaskrá og naut þar aðstoðar lögfræðinga minna og góðra vina í landinu.

Living will gerði ég á síðasta ári og er það nú heimilt hér í landi og hefur færst í aukana að Portúglar geri slíkt.

Það er ríkisrekinn banki hér í landinu og vilja þeir ekki útlendinga í viðskipti en nokkrir einkabankar eru starfandi og þeir taka við útlendingum án nokkurra vandkvæða. Ég er mjög ánægð með þá þjónustu sem minn banki hefur veitt mér frá upphafi. Ég greiði alla reikninga mína beint í gengum bankann, nema gasið. Sú sem sér um að selja mér gasið er í viðskiptum við ríkisbankann en ég ekki og kostar það hana að fá greiðslu í gegnum annan banka. Svolítið einkennilegt en svona er þetta og ég heimsæki þau bara einu sinni í mánuði til þess að greiða reikninginn.

Kaupin á íbúðinni fóru í gegnum fasteignasala sem reyndist mér vel og öll vinna við það fór eiginlega framhjá mér. Ég mætti á Notari skrifstofuna með seljendum og fasteignasalanum og allt var þýtt fyrir mig yfir á ensku en hér eru allir pappírar undantekningalaust á portúgölsku. Ég borgaði og fékk lyklana og eftir það var vinnan við rafmagn, vatn og síma sem ég gat sinnt sjálf.

Ég réð endurskoðanda til þess að gera fyrir mig skattskýrslu hér, því sú framkvæmd er ekki fyrir óvana! Ég borga henni 10 evrur sem er ekki neitt og margfalt þess virði.

Núna sé ég sjálf um flest mín mál en lögfræðingarnir eru orðnar góðar vinkonur mínar og ég leita til þeirra þegar ég þarf.

Ég var óánægð með heilsugæsluna hérna í bæ og hef alltaf verið, frá upphafi. Heimilislæknirinn minn fyrrverandi er fífl, í orðsins fyllstu merkingu, en ég var svo heppin að brjóta á mér öxlina í október og komst þá í kynni við lækninn minn sem skar mig upp og maðurinn hennar, sem er heimilislæknir í öðru bæjarfélagi, er búinn að taka mig að sér. Hann er frábær og alvöru læknir. Ég þarf að keyra tæpan hálftíma á nýju stöðina en það er vel þess virði. Svona atriði skipta máli og var ég ekki lítið hamingjusöm þegar skurðlæknirinn minn hitti mig og ég gat sagt henni að nú væri ég búin að hitta manninn hennar og við hefðum smollið saman. Fyrirkomulagið í landinu hefur breyst og maður er ekki rígbundin af því að sækja heilsugæslu í bæjarfélaginu, en þannig var það þegar ég kom hingað fyrst.

Ég held að ég hafi talið upp flest af því sem ég þurfti að ganga frá við flutninginn en segi frá því síðar hvernig viðskipti við Tryggingastofnun og Skattstjóra á Íslandi ganga fyrir sig hjá mér.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband