5.3.2017 | 12:06
Sunnudagsrigning í Portúgal
5.mars 2017
Sunnudagur og það rignir og rignir og rignir.
Rigningin er góð því þetta ár hefur verið óvenjulega þurrt en öllu má nú ofgera.
Stjúpurnar á svölunum eru að drukkna!
Þegar íslendingar tala um að flytjast í sólina og flýja snjóinn þá er eitt og annað sem þarf að taka með í reikninginn þegar farið er t.d. til Spánar eða jafnvel Portúgal. Það eru ekki margir eftirlaunaþegar hér í Portúgal. Ræðismaðurinn var með einn íslending sem hún mundi eftir þegar ég var hjá henni ekki fyrir mjög löngu. Þessi eini rak fyrirtæki hérna og var að selja saltfisk, hélt hún.
Húsin hérna eru mörg hver og líklega flest þeirra eldri án einangrunar og byggingarefnið götóttir rauðir leirsteinar. Sumir steinarnir eru aðeins þykkari en aðrir en allir með götum til þess að hitinn geti smogið inn.
Í seinni tíð er aðeins farið að bera á því að svolítil einangrun sé sett í húsin og ef byggt er úr timbri, sem er rétt að byrja hérna, þá eru þau einangruð.
Vissulega er hér ekki mikill snjór en það getur orðið glettilega kalt hérna yfir veturinn. Oft á tíðum er frost yfir nætur og nota landar mínir vatn til þess að bærða klakann ef þeir þurfa að fara snemma til vinnu. Sköfur þekkjast ekki hérna á meginlandinu.
Á föstudaginn voru aksturskilyrði ekki ólík því sem gerist yfir veturinn á Íslandi. Rigning og hagl til skiptis en stórar rákir eru í vegunum og ekki mikið mál að fljóta upp rétt eins um flughálku væri að ræða. Sem betur fer óku flestir gætilega þennan dag en stundum verður mér um og ó þegar rigningin lemur bílgluggann og ökumenn þeytast á yfir hundrað kílómetra hraða eins og enginn sé morgundagurinn.
Hjá okkur í miðju Portúgal kemur sumarið stundum snemma með fallegu vori en í fyrra var ég með logandi arinn fram í miðjan maí. Næstu daga verður þetta svona: 14 stig í dag, 17 stig á mánudag og þriðjudag og 25 stig á miðvikudag 24 á fimmtudag og dettur svo aftur niður á föstudag og kólnar dag frá degi. Semsagt umhleypingar en ég hlakka til að geta farið í sumarkjól á miðvikudaginn og kannski líka á fimmtudag!
Í haust lét ég loka hjá mér svölunum, sem eru rúmlega 10 metra langar, með glervegg og hefur það breytt ástandi innanhúss þennan vetur. Kostaði framkvæmdin fúlgu fjár en ég reikna með að spara í hitunarkostnaði og þá borgar þetta sig upp á nokkrum árum. Nú er vind hliðin, sú verri, ekki eins köld og gróðurinn lætur ekki tækifærið frá sér fara. Orkideur sem aldrei hafa þrifist hjá mér eru nú eins og fegurðardísir, hver á eftir annarri að brosa framan í mig og heiminn. Áður dóu þær allar og á framhlið hússins eru stjúpurnar núna að drukkna.
Þegar íslendingar, og sérstaklega eftirlaunaþegar eða öryrkjar, hyggja á flutning til heitari landi mundi ég ráðleggja þeim að velja Spán. Þar eru íslendinga byggðir í frekar ódýrum landshlutum og gæti verið auðveldara hvað varðar málið. Það má gera ráð fyrir að Spánverjar tali ekki mikla ensku, alla vega ekki á þeim stöðum sem ódýrt er að lifa.
Á aðal ferðamannastöðunum eru fleiri sem tala ensku en þar er verðlag líka hærra.
Að leigja í byrjun er góður kostur því fólk finnur hvort því líkar staðurinn og hvernig gengur að aðlagast breytingunni.
Í bili er gengi krónunnar ótrúlega hagstætt og gaman að fá millifærsluna en svo getur allt hrunið á Íslandi og gengið farið út og suður. Ég held samt að fyrir þá sem eru að lepja dauðann úr skel þá sé flutningur ekki slæmur kostur, jafnvel þó gengið breytist. Það er mun ódýrara að lifa t.d. á Spáni, og veðurfarið er ólíkt hagstæðara á margan hátt. Vetrarfötin koma sér þó vel og íslenska lopapeysan hefur oft bjargað mér yfir háveturinn og jafnvel fram á vorið.
Það er auðvitað til háborinnar skammar fyrir ráðamenn að fólk sé að velta því fyrir sér að rífa sig upp með rótum vegna þess að ekki sé hægt að lifa mannsæmandi lífi á landi þar sem nóg er til af peningum. Svona er þetta samt og ekki sýnist mér útlit fyrir miklar breytingar í bili.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.