Kjarkur til að láta drauma sína rætast!

4.mars 2017

Við eigum okkur líklega öll einhverja drauma og væri dásamlegt ef þeir rættust.

Sumir vilja bara vera eins og alltaf áður og aðrir eru haldnir útþrá og langar til að víkka sjóndeildarhringinn.

Sumir vilja búa á sama stað og í sama landi til þess að þurfa ekki að rugga bátnum en undir niðri eru draumar sem kannski væri hægt að láta rætast ef kjarkurinn væri meiri.

Það þarf hugrekki til þess að rífa sig upp með rótum og fara út í eitthvað allt annað og læra um lífið upp á nýtt.

Þeir sem þora að gera þetta eru líklega hetjur í augum þeirra sem ekki vilja fara upp úr hjólfarinu.

Þeir sem kjósa að halda sínu striki óbreyttu eru líka hetjur.

Ég hef nokkuð velt því fyrir mér undanfarið hvers vegna svo fáir eftirlaunaþegar og öryrkjar láta í sér heyra og segja frá bágum kjörum sínum.

Ef til vill er það vegna hinna ótrúlegu fordóma sem ríkja í þjóðfélaginu eða þá að þetta fólk vilji ekki þurfa að taka á móti alls konar ummælum sem oft á tíðum geta verið særandi.

Ég ákvað mjög ung að skoða heiminn þegar ég yrði fullorðin og væri orðin sjálfs míns herra.

Ég ákvað líka að ég vildi ekki verða gömul á Íslandi. Sú ákvörðun hafði ekkert með aðbúnað á elliheimilum að gera. Hún var byggð á því bótakerfi sem gildir á landinu og gerir venjulegu fólki sem ekki á mikið undir sér erfitt að lifa þokkalegu lífi.

Þegar mér verður hugsað til vina minna í Kína og nemenda og fjölskyldna þeirra þá verð ég svolítið angurvær. Ég þurfti að fara frá landi sem mér þótti og þykir mjög vænt um vegna stjórnvalda og tregðu þeirra til þess að veita útlendingum varanlegt landvistarleyfi.

Ég kenndi í nokkur ár talaða ensku og skapandi skrif ásamt dansi. Þetta var ofboðslega lærdómsríkt og skemmtilegt. Mest af tímanum var ég kennari við háskóla en dvaldi 6 mánuði fjarri heimili mínu í annarri borg og kenndi nemendum frá 10 ára upp í 18 ár. Á þessum sex mánuðum lærði ég margt nýtt. Ég bjó með kínversku kennurunum og kynntist þeirra aðstæðum vel. Það væri hægt að skrifa heila bók um aðstæður kennaranna og ekki síður um krakkana og unglingana og geri ég það kannski einhvern tíman.

Þegar ég flutti frá Kína til Portúgal hafði ég með mér rúmlega 1000 bréf frá nemendum mínum. Hefðin er einfaldlega sú að líki nemanda við kennarann þá eru ævarandi tengsl.

Nemendur mínir eru ekki með Facebook, að örfáum undantekningum skildum, þeir eru heldur ekki mikið með Skype en nokkrir þó.

Í hvert sinn sem ég opna Skypið mitt ef það er ekki að nóttu til í Kína er einhver sem hefur samband, stundum nemendur sem hafa aðgang að því og stundum samkennarar mínir.

Þegar ég hef náð heilsu, vonandi seinna á þessu ári, fer ég til baka og verð í 3 mánuði við kennslu. Mér hefur verið boðið að koma og er það ekki smá heiður.

Þjálfun nemenda minna, og oft á tíðum annarra, í ræðukeppnum var ákaflega gefandi og skemmtilegt, ekki síst fyrir það að mínir keppendur fengu alltaf fyrsta sæti og umsögn sem var ekki til þess að hafa á móti.  

Ég lét drauma mína rætast og fór út í heim.

Ég fer aldrei aftur til Íslands. Ég á núna heima í Portúgal og þar verður heimili mitt þar til ég ákveð annað og tek mig aftur upp. Kannski verður næsta heimili mitt á himnum, ég hef engar áætlanir í bili aðrar en að ná heilsu og snúa til baka til vina minna í Kína og njóta þeirra í nokkra mánuði.

Þeir sem sitja hlakkandi yfir því að ég hafi komið til baka til klakans geta etið það sem úti frýs og hlakkað yfir ómerkileg heitum sínum og andstyggilegum skilaboðum.

Eftir að ég fór að skrifa og láta bera meira á mér en áður hafa mér borist viðbjóðsleg skilaboð sem ég tek lítið mark á og vorkenni því vesalings fólki sem leggst niður í svaðið við að sverta þá sem hafa þor og kjark til þess að gera eitthvað annað en þeir.

Lágkúran er auðvitað sú að þurfa að senda svona athugasemdir í einkaskilaboðum til þess að aðrir sjái ekki og viti hve viðkomandi er þurfandi fyrir vorkunnsemi og meðaumkun, sem er líklega það sama.

Þegar ég velti fyrir hvers vegna þeir sem við þyrftum svo sannarlega að heyra frá, þeir sem eiga ekki til hnífs og skeiðar, og ég hugsa um allan skítinn sem ég hef fengið á mig, þá skil ég hvers vegna þeir sitja hljóðir.

Það þarf breið bök til þess að þola oft og tíðum nútíma samskiptahætti.

Hins vegar og til að vega upp óþverrann þá hef ég fengið ótal falleg skilaboð og þau hafa borið mig uppi og hvatt mig til þess að halda áfram að gera það sem ég er að gera.

Fallegu skilaboðin lýsa upp dagana og get ég líklega aldrei fullþakkað þau. Ég vona þó að þeir sem ég er að tala um viti hvað vinátta þeirra og stuðningur er mér mikils virði.

Ég vildi óska að allir gætu látið drauma sína rætast og kannski verður það þannig einn góðan veðurdag í framtíðinni.

Þangað til held ég áfram að styrkja mína drauma og leyfa þeim að rætast svo til fyrirhafnarlaust.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband