Donald Trump vekur mig til umhugsunar.

19.febrúar 2017

Í gærkvöld horfði ég á ræðu herra Trumps og varð eiginlega svolítið skelkuð.

Er það ekki undarlegt að forseti valdamesta ríkis heimsins skuli eftir 4 vikur í embætti fara út á meðal kjósenda sinna og halda framboðsræðu og verða rauður og þrútinn í framan eins og hann sé að springa úr reiði.

Á svona maður ekki að vera að sameina þjóðina á fyrstu dögum í embætti?

Ég spurði sjálfa mig þessara spurninga á meðan ég fylgdist með kalli tútna út og fyrir aftan hann sátu 3 menn sem nutu þess greinilega að vera í sjónvarpinu og láta myndavélarnar beinast stanslaust að sér.

Kannski voru þessir 3 ágætt dæmi um þá sem kusu forsetann. Þeir höfðu meiri áhuga á því að baða sig í sól forsetans en því sem hann var að segja, eða hvað?

Hvert stefnum við eiginlega?

Þorgerður Katrín setur sjómönnum stólinn fyrir dyrnar og enn er ekki komið í ljós hvort hún skellir dyrunum á stéttina og setur lög eða hvort sjómenn samþykkja samninginn.

Bjarni blessaður ásamt frænda sínum og Bjarti rugla þjóðina í rýminu með áfengisfrumvarpi til þess að geta í rólegheitum etið þjóðfélagið innan frá og sett eignirnar í salt og frystikistu til þess að matreiða pínulítið seinna og enginn segir orð.

Jú það eru reyndar einhverjir að rífa sig á Facebook og netmiðlum en hinir háu herrar gefa ekki mikið fyrir svoleiðis fjas. Þeir vita jú að þegar að kosningum kemur fara krossarnir á rétta staði, alla vega þeir sem forsætisráðherra og hans flokkur þarf á að halda.

Ég verð að geta einnar frábærrar konu hérna sem ég þekki nákvæmlega ekki neitt nema af því sem hún skrifar á Facebook. Þetta er Lára Hanna. Hún stendur vaktina og lætur ekki deigann síga. Ég dáist að henni og þakka henni á hverjum degi fyrir að láta spillinguna ekki í friði. Íslenska þjóðin þyrfti fleiri svona baráttu konur og menn. Það eru reyndar fleiri sem eru að skrifa um valdníðsluna og spillinguna og ég fylgist með þeim en Lára Hanna er í huga mínum svo ótrúlega óþreytandi.

Ég er þakklát öllum hinum sem halda merkjum hinna sem minna mega sín á lofti og tilheyra ekki spillingar maskínunni og vona að þeir haldi áfram að reyna að vekja steinsofandi þjóð sem rennur eins og á hálum ís að feigðar ósi.

Þegar ég horfði á forseta Bandaríkjanna í gærkvöld tútna út þegar hann var að gagnrýna fjölmiðla og segja frá því hvað allt hafi verið í kalda koli þegar hann tók við og hvað maskínan rynni nú eins og vel smurð vél, varð mér hugsað til íslenska forsetans.

Hann gefur launahækkun sína, hækkun sem allir þingmenn hafa tekið við án þess að blikna. Ég get ekki þrátt fyrir sérlega auðugt ímyndunarafl séð íslenska forsetann halda ræðu og tútna út af reiði og gera allt sem hann getur til þess að sundra þjóð sem þarf á sameiningu að halda. Ég sé íslenska forsetann sem boðbera sátta og hann minnir mig óneitanlega á herra Kristján Eldjárn. Íslenskir alþingismenn og ráðherrar ættu kannski að taka forsetann til fyrirmyndar og fara að stjórna af auðmýkt og sanngirni í stað hroka og græðgi.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband