Þegar allt verður vitlaust!

14.febrúar 2017

Ég hlustaði á frú Þórunni H. formann félags eldri borgara í Reykjavík í gær í einhverju viðtali. Man ekki á hvaða stöð.

Ég ætla ekkert að segja frá því hvað viðtalið fór óskaplega mikið í taugarnar á mér og hvað ég verð alltaf undrandi á óendanlegri fáfræði sem tröllríður sumum fjölmiðlum.

Auðvitað var ekkert minnst á þá aumu eldri borgara sem hafa haft kjark og þor til þess að yfirgefa landið þar sem þeim er skammtað úr hnefa smánarlaun til þess að skrimta og helst að fara yfir móðuna miklu. Ég er að tala um eftirlaunaþega, íslenska, sem búa ekki á Íslandi ef einhver velkist í vafa um það.

Ég má ekki við því að hlusta á svona viðtöl. Blóðþrýstingurinn fer af stað og reynir að elta uppi útvarpsstöðina og þar sem ég er í útlöndum er þetta ekki gott fyrir greyið. Hann þyrfti að fara upp í flugvél og alles og líklega yrði ekkert eftir af eigandanum þegar í stöðina kæmi.

Hvers vegna í fjáranum, (fyrirgefið orðbragðið en mamma sagði mér að blótsyrði væru til áherslu svo þetta hlýtur að vera í lagi hennar vegna, alla vega)já, ég segi hvers vegna er aldrei, aldrei nokkurn tíman minnst á eldriborgara í útlöndum þegar verið er að mala og mala og mala um hvað kjör eldri borgara hafi breyst til hins verra með nýju lögunum?

Frúin, formaðurinn, talaði um tekjur og heimilisuppbót.

Ha, veit hún ekki að þeir sem búa erlendis og hafa greitt alveg jafn lengi og hún sjálf í lífeyrissjóð fá ekki heimilisuppbót þó þeir búi einir?

Veit manneskjan þetta ekki?

eða,

Veit hún þetta en lætur sem henni komi það ekkert við?

Getur það verið að enginn af hennar ágætu vinum hafi þurft að flytja úr landi til þess að lifa af?

Veit hennar hátign ekki að kjör eldri borgara rýrna um tugi þúsunda þegar þeir flytja af landinu?

Ég held að hún viti þetta ekki því það er of mikill ótuktarskapur, meira að segja hjá mér, að ætla að hún viti þetta en henni sé alveg sama.

Grái herinn ætti að taka upp hanskann fyrir alla, ekki bara suma.

Herinn er ekki að vinna fyrir alla, hann er að vinna fyrir einhverja fáa en það má auðvitað ekki minnast á svoleiðis.

Nú ætla ég að búa til Facebook síðu sem er fyrir gleymda hópinn, hópinn sem býr erlendis og er komin yfir 65 ára markið.

Ég ætla að hafa þessa síðu með upplýsingum sem þessi hópur þarf á að halda og ég ætla að sjá til þess að fyrirspurnum og athugasemdum sé svarað af kurteisi og reynt að afla upplýsinga um það sem verið er að spyrja um.

Ég ætla að vona að fólk sem er í þessari aðstöðu og aðstandendur þeirra og vinir setji læk á síðuna og fylgist með hvernig umræðan þar þróast.

Mig vantar gott nafn á síðuna og einhverja frábæra mynd líka.

Það er ekki hægt að setja síðuna í loftið fyrr en nafn er komið því vesen fylgir því að breyta nafni og ég nenni ekki að standa í einhverri vitleysu. Hef of mikið skemmtilegt við tímann að gera.

Tillögur að nafni eru vel þegnar og vona ég að allt sem ykkur dettur í hug verði sent til mín.

Gleymdi hópurinn skal ekki verða gleymdur mikið lengur. Það er kominn tími til þess að hann láti í sér heyra og það svo um munar. Það þarf enga gráhærða kalla eða gamalmenni til þess að berjast fyrir hagsmunamálum þessa hóps. Það þarf bara venjulegt klárt fólk sem hefur áhuga á málinu, bæði ungt og gamalt.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Milli lífs og dauða

er tillaga að nafni á Facebook síðuna.

Mér líst nokkuð vel á þessa hugmynd.

Hvað finnst ykkur?

Hulda Björnsdóttir

Hulda Björnsdóttir, 14.2.2017 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband