13.2.2017 | 14:26
Á að stofna Facebook síðu fyrir ísl. eftirlaunaþega sem búa erlendis?
13.febrúar 2017
Ég held því stundum fram að í heilanum á mér séu perur sem ná mis góðu sambandi og er þar af leiðandi oftar en ekki slökkt á þeim.
Einstaka sinnum kemur þó fyrir að samband tekst og perurnar fara að blikka og jafnvel helst á þeim ljós í dálítinn tíma.
Þegar perunum tekst að ná sambandi er oft bara nokkuð heiðskýrt og stundum verða til hugmyndir sem vert er að skoða.
Ein svona pera vaknaði til lífsins í gær alveg óvænt og ég fékk hugmynd!
Þessi hugmynda tilbúningur gerist líka einstaka sinnum þannig að ég ligg á henni í nokkra daga og velti fyrir mér áður en ég skelli henni út í loftið og ætlast til að allir skilji hvað ég er að tala um enda búin að skipuleggja málið í botn í huganum!.
Í gær skellti ég afkvæminu bara hráu út og vinir mínir tóku að velta henni fyrir sér líka og kannski verður barn úr þessu öllu saman að lokum.
Ég hef oft kvartað yfir því hvernig farið er með mig sem eftirlaunaþega bara af því að ég kaus að verða ekki gömul á Íslandi, og ég hef spurt af hverju mannréttindi eru brotin á mér fyrir þessar einu sakir.
Þeir sem búa á Íslandi í 180 daga eða meira á árinu þurfa ekki að sitja við borðið mitt og sanna endalaust tilveru sína fyrir yfirvöldum á Íslandi til þess að fá hungurlús þá sem greiðslur úr almannatryggingakerfinu og frá lífeyrissjóðum eru.
Ég hef reyndar ekki kynnt mér það hvort eftirlaunaþegi á Íslandi þurfi á hverju ári að skila inn vottorði um að hann sé EKKI DAUÐUR.
Ég hef gagnrýnt Gráhærða herinn fyrir einkennilega baráttu og aldrei hef ég séð eða heyrt neitt frá þeim sem varðar eftirlaunaþega búsetta erlendis eða lýtur að réttindum þeirra. EKKERT!
Jæja, hugmyndin sem vaknaði í gær var hvort skynsamlegt væri að stofna Facebook síðu þar sem eftirlaunaþegar búsettir erlendis gætu sótt upplýsingar og deilt skoðunum og eitt og annað sem kemur upp þegar stórt skref er stigið út í óvissuna.
Það er líka spurning hvort svona síða ætti að vera sameiginleg fyrir eftirlaunaþega og öryrkja. Ég veit það ekki. Ég hef þó grun um að einhverjir öryrkjar hafi ef til vill flúið land til þess að eiga í sig og á og geta komist sæmilega af með þær bætur sem þeim eru skammtaðar.
Þegar öryrki kemst á eftirlauna aldur hættir hann að vera öryrki og verður ellilífeyrisþegi samkvæmt núgildandi lögum.
Skattamál geta verið snúin þegar flutt er. Í Noregi borga íslenskir eftirlaunaþegar skatt á Íslandi en hér í Portúgal borga ég skatt í Portúgal og held að það sama gildi t.d. á Spáni vegna tvísköttunar samnings ríkjanna. Ég þarf að gera skattskýrslur í báðum löndum og skila afriti af þeim í báðum löndum, sú íslenska reiknuð yfir í evrur, sem gerir það að verkum að gengið 31.12 hefur áhrif á hve háa skatta ég greiði fyrir árið á undan. Til þess að dæmið gangi upp verð ég að treysta á sjálfa mig að spara fyrir skattinum í hverjum mánuði en á Íslandi er hugsað fyrir okkur og skattur tekinn strax fyrir hvern mánuð.
Upphæð eftirlaunanna í nýja landinu fer eftir gengisþróun og getur verið bæði góð og slæm. Ég veit aldrei nákvæmlega hvað ég fæ í eftirlaun í evrum um hver mánaðamót. Það fer eftir gengi krónunnar.
Umsókn um eftirlaun getur líka vafist fyrir fólki ef það sækir um frá nýja búsetulandinu. Einkum ef viðkomandi hefur ekki gott vald á máli hins nýja lands getur þetta verið flóknara en allt sem flókið er, en það er alltaf hægt að finna leið.
Heilsugæslumál er enn einn þáttur sem gæti vafist fyrir fólki og ég tala nú ekki um ef kaupa á húsnæði eða fjárfesta í bifreið.
Tryggingamál, greiðslur reikninga, stofnun bankaviðskipta og svona get ég talið lengi.
Allt eru þetta praktísk mál sem væri gott að geta fengið upplýsingar um á einum stað.
Ég geri mér þó ljóst að ekki eru allir eftirlaunaþegar sem hafa kunnáttu til þess að nota Facebook en þeir eiga þá væntanlega yngir ættingja sem gætu aðstoðað.
Það eru síður með íslendingum í hinum ýmsu löndum og fór ég að gamni inn á þá Portúgölsku og get ekki séð að neinn þeirra 19 félaga sem þar eru búi í Portúgal!
Nafn á svona grúppu þyrfti að vera skemmtilegt og vekja forvitni og ekki tala um gráhærð strý eða feita kroppa.
Svangi herinn hefur verið vinsælt nafn hjá mér en væri ekki gott á svona síðu.
Bleiki hópurinn gengur heldur ekki
Fjólublái herinn gæti komið til greina
Ég segi bara svona. Það þyrfti að finna gott nafn og auglýsa svona síðu vel og vandlega í blöðum og útvarpi og sjónvarpi, á Facebook og alls staðar þar sem fólk kemur saman.
Allir ættu að eiga frjálsan aðgang að síðunni.
Þeir sem væru í forsvari þyrftu að vera með þjónustulund og svara fyrirspurnum en ekki hunsa umræðu eins og hinn dásamlegi gráhærði gerir.
Auðvitað er enginn alvitur en það er oftast hægt að afla upplýsinga með góðum vilja.
Fyrst og fremst þarf afl til þess að vaka yfir því að réttindi brottfluttra eftirlaunaþega séu ekki fótum troðin. Ég held að þetta sé bara nokkuð frábær hugmynd sem laust niður í kollinum á mér og kveikti á einni af perunum. Hvað peran logar lengi veit ég ekki en hún er allavega heit enn þá.
Allar hugmyndir eru vel þegnar og þeir sem vildu vera með í svona uppátæki eru velkomnir og þeim tekið með opnum örmum.
Munið að þetta eru fyrstu hugrenningar um málið og þurfa fleiri að leggja í púkkið.
Það vantar forsvarsmenn, ábyrgðarmenn eða hvað það væri kallað og alls konar fólk ætti auðvitað að vera tengt svona síðu bæði ungt og gamalt því málið varðar alla, ekki síst alþingismenn og kannski væri hægt að koma þeim til að lesa það sem birtist á svona síðu. Hver veit, ótrúlegustu kraftaverk gerast.
Hulda Björnsdóttir
Athugasemdir
Er með I slíkum hóp - yrði gott framtak (y)
Hronn Gudmundsdottir (IP-tala skráð) 14.2.2017 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.