Er rétt að fara í mál við ríkið vegna eldri borgara?

12.febrúar 2017

Björgvin Guðmundsson skrifar í dag að borin hafi verið upp tillaga í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík um að fara í mál við ríkið vegna skerðingar bóta eftirlaunaþega.

Hann segir einnig að mikill áhugi sé hjá félögum að hefja þessa málsókn en bendir jafnframt á að málið muni taka mikinn tíma og mikla undirbúningsvinnu.

Björgvin hefur verið ötull við að skrifa um málefni þessa hóps og er það auðvitað þakkarvert og veit ég ekki hver tekur við til þess að halda uppi kyndlinum þegar hann hættir skrifum sínum.

Það sem vakti athygli mína og ánægju var að tillagan var borin upp í stjórn félagsins og að stjórn félagsins muni þess vegna, líklega, sjá um málið.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2015 er óráðstafað eigið fé þess kr. 15.107.093.

Ég veit auðvitað ekkert um hver fjárhagsstaðan er núna árið 2017 en ég velti fyrir mér hvaðan félagið hyggst fá peninga til málssóknarinnar.

Mér finnst ekki óeðlilegt að spurt sé hver borgi slíka vinnu og geri mér ekki ljóst hvort félagsgjöld eigi að dekka kostnaðinn eða hvort aflað verði aukatekna fyrir gjörningnum og þá hvaðan.

Einhver gæti rokið upp og sagt að ég væri með neikvæðni en svo er ekki. Ég er einungis að velta fyrir mér praktískri hlið málsins.

Ég geri mér grein fyrir að málssókn og undirbúningur mundi kosta gífurlega fjármuni og er aðeins að slá varnagla fyrir óraunhæfum væntingum okkar sem erum orðin eldri borgara þessa ágæta lands.

Ég hef aðeins skoðað hvað öryrkjar hafa verið að gera og hvernig þeirra mál hafa farið. Félagið þeirra virðist hafa verið duglegt við að sinna málum félaga sinna og er það vel.

Eldri borgarar virðast dreifðir í mörgum félögum og síðan eiga þeir eitt sameiginlegt landssamband.

Mér hefur virst ríkja svolítil andúð í garð landssambandsins í skrifum Félags eldri borgara í Reykjavík. Ég ætla ekki að leggja mat á hvort gagnrýnin á við rök að styðjast eða ekki, ég þekki ekki málið nægilega vel til þess hafa almennilega skoðun á því.

Hins vegar þætti mér eðlilegt að ef fara á í málarekstur sem tekur bæði tíma og mikið fjármagn væri hann rekinn af landssambandinu en ekki litlu félagi innan sambandsins.

Enn og aftur þá tek ég fram að ég hef ekki kynnt mér störf landssambandsins nægilega vel, enn þá, og getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér.

Þegar verið er að tala um réttindamál eldri borgara þá sýnist mér gleymast að nokkuð margir eldri borgarar hafa tekið þann kost að flytja frá Íslandi og búa erlendis allt árið. Flytji eða búi eldri borgari erlendis skerðast réttindi hans þó nokkuð.

Búandi erlendis fær eldri borgari ekki heimilisuppbót, jafnvel þó hann búi einn.

Ég hef ekki skilið rökin fyrir þessu og verð alltaf hálf fúl þegar ég sé þessa verðfellingu sem sett er á mig við það eitt að ég bý ekki á Íslandi.

Ég spara ríkinu stórfé með því að þiggja læknisþjónustu í hinu nýja landi mínu ásamt mörgu öðru sem sparast við þessa ákvörðun mína og þeirra sem tóku þennan kostinn.

Ég er ekkert að fjasa yfir því að fá ekki frítt í strætó eða sundlaugar eða heimilishjálp og guð veit hvaða önnur félagsleg hlunnindi er boðið upp á hjá þeim sem búa á Íslandi.

Ég er bara að ybba mig yfir því að fá ekki heimilisuppbót, sem er ekkert annað en dulinn ellilífeyrir og ætti auðvitað ekki að vera inni í dæminu. Það ætti bara að vera ein tala fyrir ellilífeyri en stjórnvöld hafa komið þessu svona fyrir og ég sé ekki neinn mótmæla þessu fyrir okkar hönd. Ekki landssamband eldri borgara og ekki aðildarfélög þeirra.

Hvernig stendur á því að enginn talar um þessa skerðingu? Er það vegna þess að fólk veit ekki um hana?

Veit landssamband eldri borgara að þeir sem búa erlendis þurfa á hverju ári að sanna að þeir séu ekki dauðir og að þeir séu ekki að svíkja út úr hinu heilaga kerfi á Íslandi?

Veit landssambandið að nú hefur Lífeyrissjóður VR tekið upp á því að heimta lífsvottorð að öðrum kosti verður hætt að greiða lífeyri til viðkomandi sem býr erlendis?

Ég fékk svona bréf í póstinum í vikunni en hef ekki þurft að sanna þetta áður.

Væri ekki eðlilegt að eitt og sama vottorðið um jarðvist mína gilti fyrir Tryggingastofnun og Lífeyrissjóðinn?

Hvers vegna þarf ég að afla tveggja vottorða um sama málið? Ég þarf að borga fyrir þessi vottorð.

Eru kannski þeir sem hafa vogað sér að flytja til landa þar sem hægt er að lifa af naumt skömmtuðum eftirlaunum minna virði í krónum en þeir sem lepja dauðann úr skel á Íslandi.

Ég held ég stoppi hérna því hætti ég mér frekar út í þessa umræðu gæti ég fengið slag og blóðþrýstings truflanir eða eitthvað og þá væri erfitt fyrir mig að uppfylla öll þau ótrúlegu skilyrði sem ég þarf að gera núna til þess að tosa bætur, sem ég á fullan rétt á, til mín.

Staðreyndin er nefnilega sú að til þess að uppfylla skilyrðin þarf maður að vera við hestaheilsu og helst nokkuð klár á tölvur og nútíma samskipti.

Eins gott að gæta að heilsunni ef maður ætlar að búa þar sem hægt er að borða mat alla daga, góðan mat meira að segja, og hafa húsaskjól yfir sig.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband