10.2.2017 | 17:58
Hvert stefnum við með líferni okkar?
11.febrúar 2017
Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig hægt sé að láta sér líða vel þegar illa gengur eða eitthvað bjátar á í lífi fólks.
Öll verðum við fyrir einhverjum áföllum í lífinu og er misjafnt hve vel tekst að vinna úr þeim.
Sumir velja þann kost að grafa áföllin niður og reyna eftir bestu getu að gleyma þeim. Aðrir finna leið til þess að vinna úr því sem viðkomandi telur vera áfall og báðar þessar leiðir eru val.
Það eru til áföll sem eru svo sár að undirmeðvitundin tekur af okkur ráðin og lætur okkur gleyma atvikinu þar til við erum tilbúin að vinna úr því og láta okkur líða betur.
Undirmeðvitundin er skynsöm og ráðagóð og væri ekki slæmt ef margur maðurinn hefði hennar skynsemi og leysti mál þjóðar sinnar á skynsamlegan og farsælan máta fyrir alla.
Ef hef oft staðið eftir undrandi og líklega með gapandi munn eftir að hafa hlustað á sögur ýmissa sem virðast svo eðlileg í daglegu lífi og virkilega hamingjusamt fólk en þegar farið er að kafa dýpra kemur annað í ljós.
Þeir sem hafa verið í sambandi við áfengis sýkina eru líklega sá hópur sem ég dáist mest að. Þá er ég að tala um aðstandendur en ekki sjúklingana sjálfa.
Aðstandendur sem þjást daginn út og daginn inn en láta ekki á neinu bera og halda höfði úti í þjóðfélaginu á hverju sem gengur eru fleiri en við gerum okkur grein fyrir.
Áfengið drepur ekki bara þann sem neytir þess í óhófi heldur líka vini og kunningja ásamt fjölskyldu og öllum þeim sem umgangast neytendurna. Áfengið er í augum sumra sjúkdómur og að áliti annarra aumingjaskapur.
Ég ætla ekki að gerast dómari í þessu máli. Ég hef mína skoðun á áfengisneyslu og hef haldið mig frá henni allt mitt líf.
Þó ég hafi ekki neytt guðaveiganna sjálf á langri ævi hafa þær mótað líf mitt frá unga aldri jafnvel þó ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en seint og síðar meir.
Það tók mig langan tíma og mörg áföll að opna augun fyrir því að áhrifavaldurinn var drykkja fólks sem mér þótti vænt um og ég umgekkst.
Móðir mín tók af mér loforð um að segja aldrei frá því hvernig líf hennar hafði verið og hvernig drykkjusýki annarra hafði farið með líf hennar. Hún sagði að viðkomandi mundi ekki afbera að heyra hvernig ástandið var og ég lofaði hátíðlega að lýsa því ekki.
Móðir mín var mikil hetja. Hún veiktist af lungnaberklum ung og var blásin eins og tíðkaðist í þá daga. Hún náði sér aldrei og var öryrki allt sitt líf þar til hún fór á eftirlaun og hætti að vera öryrki samkvæmt íslensku almannatrygginga kerfi. Almannatryggingakerfið hefur ekki batnað en móðir mín er komin á betri stað og líklega hefur listamanns eðli hennar og gáfur nú tekið völdin og hún farin að njóta sín í hinu nýja lífi.
Mamma þvældist með mig um sveitir sem ráðskona á sveitabæjum því það var eina vinnan sem hún gat sinnt. Oft var vistin erfið bæði fyrir hana og barnið en báðar létu sig hafa það og þraukuðu.
Brennivínið dansaði sinn hrunadans með vinnumenn í fararbroddi og hinar gullnu veigar voru bruggaðar í jarðhúsum innan bæjarmarkanna. Um helgar var svo sopið hraustlega á og þurfti oftar en ekki að forða barninu annað hvort inn í læst herbergi eða í burtu frá bænum.
Áhrif drykkjunnar byrjuðu þar að móta líf lítillar stúlku og það var ekki móðirin sem neytti veiganna. Það var fólk sem hún var samtíða á sveitabæ þar sem móðirin vann við að búa til mat og halda utan um heimili fyrir ráðamenn staðarins.
Það er eins víst og að ég er að þrýsta á takka lyklaborðsins míns að þessi staða var ekki kjörstaða fyrir þessar mæðgur en annað var ekki í boði fyrir öryrkja á þeim tíma.
Móðirin gerði það sem í hennar valdi stóð til þess að halda lífi í mæðgunum. Ráðskonustarfið var sumarstarf og yfir veturinn tók annað við. Þá þurfti að leita til þeirra sem sáu um að fólk dæi ekki alveg, þeirra sem héldu líftórunni rétt aðeins gangandi. Það voru erfið spor að sitja innan um drykkjusjúklinga þeirra tíma og bíða eftir viðtali svo hægt væri ef til vill að kaupa í matinn í nokkra daga.
Á þessum tíma var starfandi mæðrastyrksnefnd sem sá um fataúthlutanir og niðri í miðborginni var sjúkraskýli þar sem við fengum þá aðhlynningu og eftirlit sem berklasjúklingar á þessum tíma fengu og aðstandendur þeirra. Ég var sprautuð með bakteríunni og veiktist harkalega en það bráði af mér og enn tóri ég.
Mér finnst það með ólíkindum að árið 2017 sé það eitt af mestu áhugamálum ríkisstjórnar Íslands að koma brennivíni inn í matvörubúðir svo hægt að kaupa það með mjólkinni.
Ég held að það sé mikilvægara að vinna að því í ríkisstjórn að lífsskilyrði allra séu þannig að fólk þurfi ekki að vera í sporum móður minnar. Ég get ekki skilið að hjólfarið sem við mæðgur festumst í þegar ég var lítið barn skuli ekki hafa verið fyllt upp og lokað árið 2017.
Það er sárara en tárum taki að vita til þess að enn í dag þurfi fólk að svelta hálfu hungri, rétt eins og við mæðgur gerðum fyrir mörgum áratugum.
Ég vildi að ég vissi hvernig á að fara að því að jafna kjör fólks á Íslandi. Ég vildi að ég hefði lausnina og gæti sveiflað töfrasprotanum og allt yrði gott hjá öllum.
Ég vildi óska að ég gæti komið í veg fyrir að aðstandendur áfengissýkinnar þyrftu að þjást og stundum jafnvel að óttast um líf sitt.
Því miður er ég alveg grútmáttlaus og hef ekkert vald til þess að gera eitt eða neitt.
Ég get þó huggað mig við það að móðir mín þjáist ekki lengur. Hún hefur fengið hvíldina og flutt til æðri staðar, staðar þar sem ég trúi því að öllum líði vel og enginn sé svangur eða kaldur og brennivín þekkist ekki og enginn líði fyrir drykkju náins ættingja eða annarra.
Bakkus er einfaldlega böl sem aðeins þeir sem til þekkja vita hve ótrúlega öflugur hann er og vín í matvörubúðum er ekki leið til þess að gera hann valdaminni.
Áföll fólks og leiðir til að vinna úr þeim halda áfram að vera til. Við getum unnið okkur í gegnum vandann með ýmsu móti og kannski er góð hreyfing og góðir vinir sem hlusta besta lækningin.
Að ganga úti í náttúrunni og hlusta á söng fuglanna eða hvíslið í vindinum ásamt fallegum niði vatnsins ef rignir er góð leið.
Að anda að sér tárum tímans og leyfa þeim að streyma niður kinnarnar í faðmi góðs vinar er önnur leið.
Að nema staðar og virða fyrir sér fallegan gulan eða fjólubláan lit illgresisins við vegarkantinn er leið sem hægir á ölduróti erfiðra minninga. Illgresið getur verið svo undurfagurt.
Að nema staðar og anda, anda inn og út, og finna hvernig straumur gleði og bjartsýni tekur yfir og vermir hjartað er enn ein leið.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.