Föstudagur eina ferðina enn !

10.febrúar 2017

Enn einu sinni er kominn föstudagur og febrúar líður eins og ljómandi geisli í gegnum skýin með ofsaroki á Íslandi og kulda og rigningu í Portúgal.

Ég var að reyna að útskýra fyrir vinum mínum í sjúkraþjálfuninni hvernig veðrið væri á Íslandi þessa dagana og þau horfðu á mig eins og ég væri ekki með öllum mjalla.

Svona veður væri kallað hvirfilvindur hér á bæ og líklega fyki allt sem fokið gæti til fjandans eða eitthvað enn lengra. Ég veit svo sem ekkert hvað langt er í fjandann en ég veit að það er eitthvað verulega bogið við stjórnkerfið á Íslandi jafnvel í blíðu og logni.

Hvernig getur það gengið áfram ár eftir ár að gróða pungar haldi áfram að mata feitan krókinn á kostnað almennings og komist upp með að stinga mikilvægum skýrslum í lokaðar skúffur?

Fólk talar og talar og talar um spillingu og lýsir endalaust vanþóknun sinni en það gerist ekkert í málinu.

Einhvern tíman var sagt að "orð væru til alls fyrst" eða eitthvað svoleiðis.

Er ekki kominn tími til að orðin fái að hvíla sig og athafnir fari að taka við?

Einhvern vegin get ég ekki trúað því að við þurfum að bíða í tæp 4 ár til þess að fá að kjósa aftur og losa okkur við spillingar öflin.

Ég get ekki trúað því, og vil ekki trúa því, að fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra geti setið á stóli og sent þjóðinni langt nef.

Er enginn varnagli í stjórnarskránni sem tekur á glæpamálum stjórnmálamanna?

Getur maður (eða kona) sem situr í stóli ráðherra bara gert nákvæmlega það sem honum eða henni sýnist á Íslandi?

Væri framkoma Panamaklíkunnar látin viðgangast í öðrum siðmenntuðum löndum?

Ég veit að það grasserar eitt og annað í núverandi heimalandi mínu en efast stórlega um að eins augljós hagsmunagæsla og ríkir á eyjunni litlu í norðrinu ætti auðvelt uppdráttar hér í landi.

Nú hefur máli öryrkja verið vísað frá Hæstarétti og rökstutt að alþingi eigi að taka á málum eins og því sem sækjandi rak.

Vísað er í að ríkjandi séu lög um Almannatryggingar og eftir þeim skuli fara.

Margir eru svekktir og mörgum heitt í hamsi yfir því að rétturinn tók málið ekki til meðferðar og spyrja hvar mannréttindi sækjanda séu?

Ég er ekki lögfróð, hef sáralítið vit á lögum og reglum og þeim flækjum sem þar leynast en ég verð að játa að mér finnst rökstuðningur réttarins meika sens! (fyrirgefið slettuna, gat ekki setið á mér)

Það eru lög í landinu og nýbúið að samþykkja ný lög um Almannatryggingar. Þessi lög eru það sem fara verður eftir og til þess að fá fram breytingar verður að breyta þeim eða setja reglugerðir til þess að túlka þau frekar. Svona er einfaldlega gangurinn í réttarkerfi á Íslandi og ekkert hægt að mótmæla því.

Ég skil mæta vel gremju þeirra sem rökstyðja sitt mál með því að bætur kerfisins séu ekki í samræmi við tölur Hagstofunnar um framfærslukostnað.

Má ég þó gerast svo djörf að benda fólki á að svona hefur þetta alltaf verið. Tölur um framfærslukostnað hafa aldrei verið í samræmi við það sem bótaþegum og láglaunafólki er ætlað að lifa af.

Framfærslukostnaður er eitt og laun og bætur annað. Þetta tvennt ekur ekki eftir sömu vegunum.

Við getum skrifað og hrópað hátt og lengi á nútíma fjölmiðlum en ég hef ekki trú á því að bil sem er á milli þessara tveggja verði brúað með hrópum og köllum.

Gróðapungarnir eru þeir sem ráða í litla samfélaginu og þeir sleppa ekki sultar krumlunni af þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Þegar kemur að næstu kosningum opnast skúffur loforða og svangi herinn rís upp og trúir öllum fögru fyrirheitunum og gleypir þau eins og heitar lummur og smellir brosandi xinu við réttan staf!

Grái herinn gerir ekkert, eða hvað? Er hann bara máttlaust eiginhagsmuna fyrirbæri sem þykist og þykist vera að vinna fyrir alla en er kannski bara pínulítið eins og þeir sem þurfa að hafa svanga fólkið til þess að hefja sig upp á stall?

Ég veit að ég fer hrikalega í taugarnar á Hernum og mér er svo nákvæmlega sama.

Þegar þeir fara að sýna fram á að hugsjón ráði ferð og að þeir séu að vinna af öllum lífs og sálar kröftum fyrir ALLA þá skal ég með glöðu geði éta ofan í mig alla gagnrýni og taka upp endalaust hrós. Ég er nefnilega ágæt inn við beinið og kann vel að meta það sem vel er gert en ég verð æf þegar logið er að mér eða reynt að hafa mig að fífli bara af því að ég á nokkur ár í pokahorninu.

Föstudagur enn og aftur og ég sem ætlaði að segja ykkur frá því hvað það er dásamlegt að vera í sjúkraþjálfun á spítalanum í nýja heimalandinu mínu, en puttarnir létu ekki að stjórn og fóru að skammast.

Nú er ég búin að fara 15 sinnum í þjálfunina og hef kynnst mörgum nýjum á þessum dögum. Við erum eins og lítil fjölskylda, hver og einn að fást við sín líkamlegu vandamál og hamast við að ná aftur heilsunni.

Þegar ég kom út úr tjaldinu í fyrradag var hérumbil klappað fyrir mér því ég hafði ekki emjað neitt að ráði þegar NUNO hamaðist við að koma lífi í öxlina og handlegginn. Venjulega rek ég upp stríðsöskur þegar sársaukinn verður óþolandi en nú er NUNO búin að læra á mig. Þegar ég byrja að þoka mér út af bekknum og lappirnar, eða önnur þeirra, hangir hérumbil niður á gólf, hættir hann að kvelja mig og veit að nú er nóg komið.

Þegar ég er að gera æfingarnar mínar er betra að forða sér. Handleggirnir á mér eru óvenju langir og herbergið sem er fyrir sjúkraþjálfunina ekkert ógurlega stórt. Auðvitað reyni ég að berja engann þegar armurinn sveiflast léttilega fram og aftur en stundum liggur við slysi. Allt gengur þetta þó með aðlögun og nú búum við öll í friði og sátt og langi útlendingurinn hefur verið tekinn fullkomlega inn í hópinn. Það er þó vert að geta þess að hreyfingin sem líkist því að ég sé að hræra í súpu vekur minnstan ótta hjá hinum nýju vinum mínum!

Batinn gengur hægt og rólega en á hverjum degi lítið spor fram á við er það sem stefnt er að. Stundum eru stökk og stundum lítil skref en alltaf fram á við.

Væri það ekki dásamlegt ef íslensk stjórnmál dyttu í svona farveg þar sem allir skiptu jafn miklu máli og öll orkan færi í að bæta líðan hvers og eins?

 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband