8.2.2017 | 16:00
Hvar var fundur um lögsókn vegna eftirlauna?
8.febrúar 2017
Grái herinn hefur verið mér hugleikinn hér á blogginu mínu og kemur ekki til af góðu því miður.
Ég hef orðið fyrir hverjum vonbrigðunum á fætur öðrum með þennan blessaða her og styrkist enn betur í trú minni á að hér sé um samkomu að ræða sem hefur eitt stefnumál á sinni könnu af því að það kemur þeim vel og ætlar að beita fyrir sig hópi fólks sem er komið á eftirlauna aldur.
Mér finnst svona framkoma jafn viðurstyggileg og framkoma alþingismanna sem lofa öllu fögru fyrir kosningar og veikjast svo af Alzheimer um leið og þeir setjast á þing og halda því fram að loforð hafi nú eiginlega ekki verið loforð heldur bara svona umræða eða þannig!
Svei mér þá!
Í dag er miðvikudagur 8 febrúar árið 2017.
Á mánudaginn var, þann 6. febrúar átti að vera fundur hjá Gráa hernum þar sem rætt skyldi um hugmyndir að málsókn vegna meðferðar eftirlauna. Þessar upplýsingar eru samkvæmt blaðaviðtali við talsmann Gráa hersins í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður.
Nú spyr ég:
Hvar var þessi fundur?
Hverjum var boðið á þennan fund?
Hvernig var boðað til fundarins?
Hvar var fundurinn auglýstur?
Ég fór fyrir stundu inn á facebook síðu Grá hersins og get ekki séð neitt af þessum upplýsingum þar.
Spurt var í kommentum á síðu hersins um fundinn en ekkert svar barst.
Mér sýnist það vera stefna þeirra sem eru í forsvari fyrir þennan ágæta her að svara ekki kommentum og gefa sem allra minnstar upplýsingar til þeirra rétt rúmlega 7 þúsund einstaklinga sem hafa sett like á síðuna.
Efni sem birt hefur verið þessa viku snýr að brennivíni og því sem virðist vera hjartans mál hersins: að halda áfram að vinna fram í rauðan dauðann. Ekkert hefur verið birt um væntanlega málssókn eða fund þann sem halda átti á mánudaginn var.
Nú er ég ekkert sérstaklega að skipta mér af því hvort fólk vinni eftir 67 ára eða ekki og ég er heldur ekkert að rífa mig yfir því að brennivínsfrumvarp tröllríði öllu þessa dagana til þess að drepa á dreif umræðum um Panamaprinsa og skattaskjól og lítils virðingu sem forsætisráðherra sýnir bæði þingi og þjóð með því að mæta ekki fyrir nefndir og standa fyrir sínu máli.
Ég er hins vegar alvarlega þenkjandi yfir því að reyna að finna út hvað GRÁI HERINN er?
Fyrir hverja er hann? Það er allavega ljóst að hann er ekki fyrir alla, og kannski bara fyrir örfáa.
Hvað ætla þessir örfáu sé með þennan her?
Hver er tilgangurinn?
Er verið að upphefja fáa einstaklinga innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni?
Ég spyr því mér finnst þetta ekki liggja ljóst fyrir og get ekki annað en látið málið koma mér við þar sem ég er eftirlaunaþegi og íslenskur ríkisborgari sem hef skoðun á því ef fara á að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð mína með lögsókn án þess að ég fái að vita múkk um hvað þeir sem slá um sig í blöðunum eru í raun og veru að tala um.
Á herinn peninga til þess að fara í mál?
Hefur herinn mannskap til þess að vinna gögn málsins?
Hefur herinn einhver völd eða umboð til þess að fara í svona mál?
Hvað er það nákvæmlega sem herinn ætlar sér að lögsækja?
Fólk sem komið er á eftirlauna aldur og er nú að komast að því hvernig hin nýju lög um Almannatryggingar virka, á fullan rétt á því að fá skýringu frá hinum margumtalaða her.
Það er bráðnauðsynlegt að þessi hópur þjóðfélagsins hafi málssvara sem tekur á málum þess af heilindum og festu og að forðast sé allt lýðskrum og yfirlýsingar sem lítill fótur er fyrir. Upplýsingaflæði frá málsvörum þessa hóps er algjört skilyrði fyrir því að hægt sé að taka mark á þeim sem gefa sig út fyrir að vera að berjast fyrir einhverju ákveðnu máli.
Ákvarðanir sem eru jafn afdrifaríkar og málsókn á að bera á borð fyrir þennan aldurshóp en ekki að vera að pukrast einhvers staðar úti í horni í hópi nokkurra (sjálfskipaðra) útvaldra sem ætla svo að berja sér á brjóst fyrir góðmennskuna!
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.