Hugleiðingar á laugardegi

4.febrúar 2017

Þá er ég enn eina ferðina dottin í skrif ham og puttarnir mínir taka völdin. Ekki veit ég hvað verður úr þessu en svona hugleiðingar eru bæði uppbyggilegar og niðurdrepandi fyrir einfalda sál eins og mig.

Í gær var ég að biðla til þjóðarinnar um að taka sig saman í andlitinu og safna undirskriftum til þess að reyna að koma núverandi forsætisráðherra Íslands frá.

Ef ég kynni að setja svona fyrirbæri af stað hefði ég gert það í gær en kunnátta mín nær ekki alla leið þangað og þess vegna þarf ég hjálp þeirra sem eru mér sammála.

Það væri forvitnilegt að sjá hve margir styddu slíka söfnun atkvæða og hve margir af þeim sem hafa farið mikinn á Facebook og á netmiðlum við að kvarta yfir ástandi íslensks þjóðfélags og Tortu liðs mundu skrifa undir.

Kannski færi þetta nákvæmlega eins og í kosningum til alþingis og fólk væri bara nokkuð sátt við ástandið. Vonandi ekki en hver veit?

Það þarf enginn að væna Bjarna Ben um heimsku. Hann er svo sniðugur að það komast líklega fáir með tærnar í fótsporin hans. Núna er sjómannaverkfall og meira talað um mikilvægi þess að geta keypt brennivínið um leið og mjólkina í sömu búð.

Þessar hetjur sem hafa verið máttarstólpar íslensks þjóðfélags og sótt sjóinn í hvaða veðri sem er til þess að færa björg í þjóðarbúið falla í skugga brennivínsumræðu.

Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið?

Margir af mínum nánustu hafa verið og eru sjómenn. Margir vinir mínir eru sjómenn. Allt eru þetta hetjur í huga mínum og ekkert minna. Þeir eru langdvölum í burtu frá fjölskyldum sínum og heyja harða baráttu við úfin og ergilegan sjóinn sem ygglir sig eins og óargadýr en hetjur hafsins láta það ekki trufla sig. Þeir halda áfram vinnu sinni og eru stoltir af því að mæta í vinnuna eftir nokkurra stunda svefn í ólgu sjó og á vaggandi skipinu.

Ólíkt þeim sem þykjast vera að stjórna landinu til þess að bæta kjör alþýðunnar. Ólíkt þeim sem ekki mæta í vinnuna sína og hafa jafnvel búið til auka klukkutíma í sólarhringinn til þess að geta fullnægt græðgi sinni og eru í tveimur opinberum störfum á sama tíma.

Ég veit að konur eru kraftaverka fyrirbæri en að geta sinnt tveimur mikilvægum störfum eins og ein af alþingismönnum ætlar að gera gengur út yfir allan þjófabálk. Þvílík endemis hræsni og bull sem konan kemst upp með að bera á borð fyrir fólk.

Er nema von að lög og reglugerðir séu ruglingslegar og jafnvel óframkvæmanlegar þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð? Ég bara spyr eins og fífl.

Er siðferði alþingismanna eitthvað á lágu stigi? Getur það verið?

Eru stjórnarherrar landsins svo uppteknir af eiginhagsmuna pólitík að þeir án minnsta hiks svíki drengskaparheit sitt um leið og þeir hafa lofað að láta samvisku sína eina stjórna gerðum sínum á hinu háa alþingi?

Eru völdin og hagsmunapotið að keyra þjóðina í kaf og reynt að snúa á óbreyttan almenning með því að fara enn eina ferðina að reyna að koma brennivíninu inn í mjólkurbúðirnar og drepa umræðunni um hinn raunverulega raunveruleika íslenskrar alþýðu á dreif.

Sjómenn eru í verkfalli.

Hefur það farið framhjá almenningi?

Er ekki mikilvægara að semja við sjómenn en að koma brennivínsflöskum í sölu við hliðina á vatni og mjólk?

Hvað er eiginlega að íslenskri alþýðu? Er allur dugur dottinn úr henni og sitjum við bara í súpunni og höldum að við getum engu ráðið?

Vakniði, búið til undirskriftasöfnun og komið forsætisráðherra, sem er hjartanlega sama um íslenskan almenning, frá.

Hann á ekki að komast upp með að tala við þjóðina eins og óþekkan krakka.

Hann á ekki að komast upp með að hrúga undir ættingja sína á meðan íslenskur almenningur sveltir hálfu hungri og deyr drottni sínum í kulda og jafnvel fyrir eigin hendi þegar örvæntingin hefur tekið öll völd.

Svona forsætisráðherra væri fyrir löngu búin að missa embætti sitt í siðmenntuðum löndum og ég trúi því ekki að Ísland sé ekki þrátt fyrir allt í hópi landa sem hafna spillingu og óprúttnum stjórnarherrum.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband