Bjarni Benediktsson á að segja af sér!

3.febrúar 2017

Ég er ekki að skrifa þennan pistil í nafni eins eða neins stjórnmálaafls. Ég er einfaldlega svo yfir mig hneyksluð á framgangi núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem er sami maðurinn, Bjarni Benediktsson.

Bjarni virðist komast upp með allt sem honum dettur í hug hvort sem það er að fela peninga í skattaskjólum og bregða svo fyrir sig minnisleysi eða að stinga skýrslum undir stól og geyma þar svo þjóðin sjái ekki sukkið áður en hún kýs í alþingiskosningum.

Hvernig stendur á því að maðurinn kemst endalaust upp með lygi og svik?

Hvernig stendur á því að hann getur komist til æðstu metorða á Íslandi þrátt fyrir að margir sjái ruglið en enginn gerir neitt til þess að stoppa það!

Hvað er eiginlega í gangi á Íslandi?

Er allur dugur dottinn úr þjóðinni og er hún bara sæl með að vera horfin til miðalda þegar prestar og hreppstjórar gátu barnað vinnukonur án þess að blikna og brosað út í bæði?

Ég er ekki að segja að neinn stjórnmálamaður á landinu hagi sér svona í dag.

Svo voru hér á árum áður fólksflutningar á vorin þegar niðursetningar voru fluttir á milli hreppa. Það voru hreppsómagar.

Er Ísland í dag að verða eitthvað líkt þessu?

Geta stjórnmálamenn og yfirvöld hagað sér eins og skepnur og níðst á alþýðunni árið 2017 án þess að nokkrum vörnum sé hægt að koma við?

Heilsugæsla,

skólar,

almanna trygginga kerfið

stuðningur við þá sem minna mega sín

Allt er þetta að víkja fyrir einhverju sem ég skil ekki.

Ég skil ekki og get ekki komið því inn í höfuðið á mér og vil ekki skilja það að fólkið sé algjörlega úrræðalaust og menn eins og núverandi forsætisráðherra geti komist upp með að mæta ekki til þess að svara fyrirspurnum hjá nefndum alþingis, ef honum hentar.

Ég skil ekki hvernig menn sem stjórna landinu geta komist upp með að ljúga að þjóðinni trekk í trekk, að stinga skýrslum sem koma viðkomandi illa undir stól og gera í raun og veru bara það sem viðkomandi dettur í hug og hugnast.

Ég skil ekki hvað hinir þingmennirnir sem kosnir voru til alþingis eru að hugsa.

Hvernig geta þeir farið að sofa á kvöldin vitandi að þeir eru á hverjum degi að bregðast drengskapareiði sínum með því að láta forsætisráðherra komast upp með hátternið?

Ég trúi því ekki að þjóðin geti ekki gert neitt.

Nú til dags eru undirskriftasafnanir vinsælar og ég sé ekki betur en ein sé í gangi til þess að mótmæla forseta Bandaríkjanna og hans hátterni. Svona undirskriftasöfnun gengur á Íslandi á sama tíma og þjóðin lætur átölulaust framferði íslensks forsætisráðherra. Er ekki eitthvað bogið við þetta?

Alvarlegum málum er nú drepið á dreif á alþingi með frumvarpi um að selja brennivín í matvörubúðum. Enn eina ferðina.

Margir hafa skoðun á þessu brennivínsmáli.

Mér er svo sem alveg sama hvar fyllibyttur kaupa sitt vín. Það er hægt að láta það vera með sælgætinu fremst við kassann fyrir mér.

Þetta með brennivínið er auðvitað hið besta mál og nokkuð heitt og drepur á dreif því sem alvarlega er, og er ég þar að tala um hina gengdarlausu spillingu sem þrífst á landinu og enginn gerir neitt til þess að uppræta.

Ég hef ekki minnstu trú á þingmönnum. Mér finnst það sem ég hef heyrt frá þeim þvílík steypa og oft á tíðum fleðulæti að ég treysti þeim ekki til þess að gera annað en reyna að koma sér vel fyrir í spillingunni og njóta ávaxtanna, skítt með sauðsvartan almenning sem líklega annað hvort flytur úr landi eða veslast upp og fyllir kirkjugarðana.

Áður en við veslumst upp fyndist mér ráð að búa til undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að Bjarni Benediktsson segi af sér nú þegar.

Ég kann ekki að starta svona undirskriftum. Það er örugglega fólk sem getur gert það og vona að það geri það. Ég skal skrifa undir um leið og slík söfnun fer af stað.

Í öllum bænum, geriði eitthvað í málinu annað en spjalla á Facebook og yfir kaffibolla. Það verður að koma landinu á réttan kjöl og ná okkur út úr spillingarbælinu inn í velferðarkerfi sem sæmir lítilli þjóð.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband