1.2.2017 | 16:40
Gagnlegar upplýsingar fyrir landflótta íslendinga!
1.febrúar 2017
Þegar ég ek rúman hálfan klukkutíma á hverjum degi til þess að láta stumra yfir bilaðri öxl og handlegg þá fer ég stundum, eiginlega oftast, í skrif ham. Mér leiðist óstjórnlega að keyra og hef aldrei komist upp á lagið með að finnast akstur dásemd lífsins og þess vegna verð ég að hugsa eitthvað skemmtilegt. Stundum syng ég og geri skalaæfingar í byrjun og svo dett ég inn í þennan skrif ham og fer að skálda eitt og annað. Flest er auðvitað enginn skáldskapur heldur blákaldur raunveruleikinn eða þannig.
Í morgun datt mér í hug hvers vegna upplýsingar fyrir venjulegt fólk og líka fyrir óvenjulegt fólk eru ekki aðgengilegar á einum stað. Þetta mundi spara fólki peninga og væri svo sætt að geta bara farið inn á upplýsingasíðu og fundið þar allt mögulegt og ómögulegt.
Ég er ekki að tala um að fá að vita hverjir eru að skilja eða ekki skilja þó þeir hinir sömu séu í stjórnmálum. Nei nei, ég er að tala um praktískar upplýsingar (hvernig segir maður þetta aftur á góðri íslensku? Er búin að steingleyma því og nenni ekki að fletta því upp. Þið megið til með að umbera eina svona villu! Ég reyni að vanda mig eins og ég get á íslenskunni en það getur stundum verið snúið.)
Jæja, þetta með mig og aksturinn er svona.
Ég var að hugsa um allar þær einföldu upplýsingar, sem fólk sem flytur erlendis hefur ekki hugmynd um.
Til dæmis varðandi millifærslu peninga frá einu landi til annars.
Þegar ég millifæri eftirlaunin mín, eða bankinn minn gerir það fyrir mig núna af því það er löglegt, þá tekur það sólarhring eða um það bil. Ég bið um millifærslu og bankinn sér um það og daginn eftir klukkan um það bil 9:15 eru peningarnir komnir inn á reikninginn minn í Portúgal.
Ef ég bið um millifærslu á föstudegi eða fyrir hátíðisdaga tekur þetta að eins lengri tíma. Ef föstudagur er 1, dagur mánaðarins er ég búin að fá allt inn í Portúgal á mánudags morgun.
Ef hátíðisdagar eru þá koma peningarnir strax eftir hátíðina.
Svona millifærsla kostar fyrir mig kr. 1.600 íslenskar krónur í mínum banka. Ég reikna með að upphæðin sé svipuð í öðrum bönkum, annað hvort aðeins lægri eða hærri. Ég nenni ekki að athuga það en það er birt gjaldskrá á síðum allra bankanna og þeir sem vilja geta farið þar inn og séð! Voða einfalt, sko.
Lífeyrissjóðir greiða síðasta dag mánaðar og er það eftirágreiðsla en Tryggingastofnun greiðir 1. hvers mánaðar og er það fyrirframgreiðsla.
Ég bið alltaf um millifærslu þann fyrsta því þá er hægt að færa báðar upphæðirnar í einu og kostar bara 1.600.
Ef ég tek út af íslenska debetkortinu mínu þegar ég er erlendis borga ég eitthvað fyrir það. Ef ég tek út 200 evrur sem er hámark einnar úttektar borga ég 690 krónur.
Svo er annað sem þarf að athuga þegar verið er að taka út eftirlaunin erlendis með því að nota íslenska debet kortið eða kredit kort og það er gengið. Gengið er lakara með kortaúttektum. Þú færð minna fyrir peningana ef þú tekur þá út í hraðbanka erlendis en ef þú lætur millifæra fyrir þig í einu lagi frá Íslandi.
Nú skilst mér, eftir lestur á Facebook, að einhver banki hafi þegar byrjað að gefa heimild fyrir eigin gjörningi á netinu. Það er semsagt hægt að millifæra sjálfur og þarf ekki að tala við bankann sinn fyrst, nema rétt í byrjun á meðan verið er að opna fyrir leyfið.
Ég veit að Íslandsbanki og líklega Landsbankinn eru hvorugur búinn að opna fyrir þennan möguleika og þar er verið að skoða regluverkið í kringum málið.
Þetta tekur allt tíma og fólk verður bara að vera þolinmótt en ég hvet þá sem eru að taka út smátt og smátt af debetkorti að skoða hug sinn og biðja frekar bankann að sjá um málið.
Það er ekki flókið.
Maður fyllir út umsókn með upplýsingum sem eru ekki flóknar og sendir bankanum sínum.
Eftir að upplýsingarnar eru einu sinni komnar inn, það er frumgagnið, þá nægir að senda mail um hver mánaðamót og biðja um flutninginn.
Best er að koma sér upp einum þjónustufulltrúa sem sér um málið ef hægt er. Samskiptin verða persónulegri og einfaldari.
Þá er það Tryggingastofnun og boð hennar um að flytja peningana til norðurlandanna.
Ég er ekki trúuð á að þetta verði gert ókeypis. Ég bara hef ekki svo auðugt ímyndunarafl, þó það skoppi um allar trissur alla jafnan.
Segjum að það búi 1 þúsund eftirlaunaþegar á norðurlöndunum. Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir eru margir, bý bara til þessa tölu.
Tryggingastofnun millifærir fyrir þessa 1.000 í hverjum mánuði og það sparar hverjum bótaþega 1.600 krónu kostnað (ef bótaþeginn bæði bankann sinn að millifæra kostaði það 1.600 kr í hvert skipti)
Þetta gerir krónur 1.000 sinnum 1.600 sem eru 1.600.000 á mánuði, bara í kostnað við að millifæra á milli landa.
Trúir einhver því að stofnunin ætli að gefa milljónir á ári hverju til þess að þjónusta þá sem hafa flutt og hafa verið sviptir rétti til heimilisuppbótar ef þeir búa einir bara vegna þess að þeir búa ekki á Íslandi?
Ég trúi þessu ekki, ég bara get ekki trúað því. Þetta er svo ótrúlega ótrúlegt að það nær ekki inn fyrir í heilabúið á mér.
Ef einhver veit þetta fyrir víst, að stofnunin ætli að gefa þessar milljónir og veita þessa þjónustu þá væri frábært að fá það staðfest.
Ég nenni ekki að hringja í Trygg og spyrja. Ég mundi aldrei nýta mér þjónustu þeirra svona svo mér kemur þetta auðvitað ekkert við, eða þannig.
Ég er bara að skipta mér af þessu vegna þess að mér þykir líklegt að eftirlaunaþegar frá Tryggingastofnun séu líka að fá greitt út úr Lífeyrissjóði og þurfi að millifæra þá peninga og borga fyrir þann flutning, svo það er alveg eins gott að fá allt í einni tölu.
Eins og allir vita þá á afskiptasemi mín sér engin takmörk og þetta verður bara að hafa eins og hvert annað hundsbit. (þessi setning hljómar ekki hundrað prósent rétt á hinu ylhýra!!!!)
Ég bið lífeyrisþega um að athuga vel allar hliðar á peningnum áður en þeir fara að taka til sín peninga til útlanda. Það marg borgar sig og getur sparað heilmikla peninga og ekki veitir af í því ástandi sem nú ríkir í málum lífeyris upphæða.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.