30.1.2017 | 18:48
Höftin eru að losna hjá smáaura hópnum!
30.janúar 2017
Jæja góðir hálsar, hér eru dásemdar fréttir fyrir okkur litla íslenska fólkið.
Við sem eigum nokkrar krónur eða fáum greiddan lífeyri og búum erlendis getum bráðum hætt að biðja um að fá peningana okkar til búsetulandsins. Við förum réttbráðum að geta millifært sjálf!
Er þetta ekki dásamlegt?
Mér finnst það og get ekki orða bundist.
Auðvitað á ég eftir að sakna bankafulltrúans míns, sem er dásamleg og þau öll, og alltaf til í að hjálpa mér í öllu sem ég bið um.
Núna sendi ég e-mail um hver mánaðamót og bið um millifærslu og eru peningarnir komnir inn á reikninginn minn í útlandinu næsta dag fyrir hádegi.
Flott og ekkert til þess að kvarta yfir.
Ég hef hins vegar ekki getað skilið hvernig Panamaprinsar og fleiri hafa getað komið aurunum sínum, sem eru auðvitað bara smáaurar, en samt soldið meiri en eftirlaunin mín, í gegnum gjaldeyrishöftin og meira að segja falið peningana á einhverjum úthafs eyjum langt í burtu frá öllu eftirliti.
Panamaprinsinn sagði í fyrrasumar, minnir mig, að nú væri verið að létta af höftunum og ættingjar mínir voru svooooo glaðir fyrir mína hönd. Nú er kominn, hér um bil, febrúar á nýju ári og enn er verið að vinna í regluverki í kringum frelsið fyrir mig og er ég bara glöð með það.
Það getur vel verið að Tryggingastofnun millifæri peninga skjólstæðinga sinna til útlanda en ég er voða vantrúuð á að þeir geri það fyrir ekki neitt.
Sko, ég get farið inn á netbankann minn hér í landi og millifært á fyrirtæki eða einstaklinga en sé móttakandi ekki í sama banka og ég hér í landi þarf ég að greiða fyrir verkið!
Ég hef ekki nokkra trú á því að Tryggingastofnun eða aðrar stofnanir millifæri til útlanda fé án þess að fá greitt fyrir. Ég bara trúi því ekki! Get ekki að því gert!
Fari ég hins vegar inn í hraðbanka og greiði reikninga hér í landi þarf ég ekki að borga fyrir en takmark upphæðar eru 2.000 evrur á sólarhring. Ég veit þetta því ég borgaði svona fyrir glæsilegu nýju svalirnar mínar og þurfti að greiða í tvennu lagi.
Það kostar mig 1.600 íslenskar krónur að millifæra með aðstoð bankafulltrúans míns núna. Ég veit ekki hvað það kemur til með að kosta þegar ég geri þetta sjálf í gegnum netbankann en það kemur í ljós og er ég ekkert að æsa mig yfir því.
Sumir bankar hafa nú þegar opnað fyrir netbanka millifærslur og ég hef heyrt að Tryggingastofnun bjóði upp á að millifæra á erlenda reikninga til þeirra sem búa ekki á hinu ylhýra.
Allt er þetta hið besta mál og ég voða glöð, aldrei þessu vant.
Til þess að þetta verði nú aðeins smá kvart eins og stundum áður þá er ég aðeins að skrúfa upp í ergelsinu yfir smámunum, smámunum sem eru gengi krónunnar.
Allt síðasta ár hefur krónan verið að breytast, Var um áramót 2015 að verðmæti 141,55 í evrum. 31.des. 2016 var gengið 118.50.
Af hverju er ég nú að djöflast yfir þessu?
Jú, ég greiði skatta eftir á hér í nýja landinu mínu og tekjur mínar, eftirlaun frá TR og Líf VR fyrir árið 2016 eru reiknaðar yfir í evrur á gengi 31.des 2016 og af því að þá fékk ég svo margar evrur fyrir launin borga ég himinháa skatta fyrir allt árið. Skiljiði?
Það er soldill munur á 141,55 og 118,50 og hefði ég fengið allt árið greiddar bætur á gengi 118,50 væri ég alsæl en svo var nú alls ekki.
Þetta er eitt af því sem þeir sem eru að hugsa um að flytja úr landi, það er frá Íslandi, þurfa að leggja niður fyrir sér. Þeir sem flytja t.d. til Spánar greiða skatta á Spáni samkvæmt tvísköttunar samningi á milli landanna og þykir mér frekar ótrúlegt að þar sé staðgreiðsla skatta! Veit það þó ekki fyrir víst og nenni alveg ómögulega að athuga það.
Í svona fyrirkomulagi er ekkert annað en sýna mikla fyrirhyggju og leggja fyrir í hverjum mánuði, undir koddann, nokkur hundruð evrur til þess að borga svo keisaranum það sem keisarans er í byrjun september á ári hverju. Ekki mikið mál en verður að gerast.
Svona í lokin þá ætla ég að segja ykkur eitthvað dásamlega skemmtilegt af því það er jú mánudagur.
Á föstudaginn fór ég í póstkassann minn og sótti póstinn. Geri þetta stundum, sérstaklega reglulega þegar rignir því vatnið bleytir allan póstinn minn og þarf hann að fara í þurrkun áður en hægt er að lesa úr honum.
Í kassanum var bréf frá Financinu hér í bæ og ég fékk vægt slag.
Ég borga alla mína reikninga alltaf á réttum tíma og vissi ekki til þess að ég hefði ekki borgað skattinn allan í september svo þetta var ótrúlegt.
Ég skreiddist upp stigann með hjartað á hundraði og opnaði bréfið.
Ég átti að greiða 73 evrur fyrir eitthvað sem ég skildi alls ekki og nú var ekki um annað að ræða en bruna upp í Cameru á bílnum. Það tekur reyndar ekki nema 10 mínútur að labba en mér lá á. Var dauðhrædd um að ég dræpist á leiðinni úr háþrýstingi svo bíllinn varð fyrir valinu. Dásamlegur blessaður bíllinn minn. Við brunuðum og vorum hjá Carlosi eftir 3 mínútur og ég settist og stundi:
Hvað er þetta?
Ég borga alltaf allt á réttum tíma?
Carlos brosti blítt og sagði: Ég veit það, og hann fletti upp í tölvunni.
Jú, þetta var gjald fyrir að fara í gegnum tollhlið eða mælingu á þjóðveginum árið 2012 í janúar. Ég hafði ekki greitt!
Mynd af bílnum og ábyrgðarbréfs kvittun sem ómögulegt var að sjá hver hefði kvittað fyrir og bréf þar sem útskýrt var að ég skuldaði 23 evrur fyrir að aka á tollskyldum veginum. Allt þetta prentaði Carlos út fyrir mig.
Jú þetta var bíllinn minn, ég var viss um það.
Hvort ég hefði verið á þessum vegi í janúar 2012 mundi ég ekki.
Hvernig átti ég að muna það? 5 ár aftur í tímann!!! Á þessum tíma var ég endalaust að villast fram og aftur og kunni ekki að nota Garmínu mína.
Ég skulda svo rúmar 30 evrur í sekt fyrir að borga ekki á réttum tíma og þetta verða 70 og eitthvað evrur með einhverjum stimpilgjöldum eða einhverju svoleiðis.
Carlos vildi að ég færi heim og leitaði að kvittunum!
Virkilega!
Ég sagðist koma og borga þetta 2.febrúar árið 2017, sem er á fimmtudaginn í þessari viku.
Það er ekki á kerfið logið hér í landi að snigillinn læðist þar um. Það tók hann 5 ár að rukka mig um þessi ósköp. Segi og skrifa fimm ár.
Mér finnst vel þess virði að borga þeim þessar krónur því þetta er svo yfirmáta hlægilegt finnst mér.
Ég ætla hins vegar að ganga úr skugga um að ekki liggi fleiri svona rukkanir sofandi í kerfinu og vakni upp við sæludraum þegar ég borga.
Komi fleiri svona upp úr kafinu fer ég í skjalasafnið á heimilinu og finn kvittanir! Ekki spurning.
Svona til þess að klykkja út með fleiri góðum fréttum þá eru yfirvöld að ná inn milljónum í ógreiddum alls konar gjöldum þessa dagana og ekki veitir af til þess að borga fyrir garðyrkju við höll forsetans og bílstjóra ásamt launum og sporslum þingheims hér í landi spillingar sem kemst líklega ekki með tærnar þar sem Prinsarnir í norðri hafa hælana, svona miðað við höfðatölu.
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.