Nýtt ár, ný stjórn og ný ævintýri!

 

Í dag er 15 janúar 2017

Mér finnst eins og tíminn fljúgi hraðar en hljóðið þessa dagana. Það er kalt í Portúgal og vetur konungur hefur svo rækilega tekið völd að maður frýs á hverjum morgni þegar stigið er fram úr volgu rúminu.

Þegar ég leit út í morgun var allt hvítt sem gat orðið hvítt. Það hafði ekki snjóað, enda er ég í miðju landsins og við fáum sárasjaldan snjó, en frostið bítur gras og bíla miskunnarlaust. Framundan eru kaldir dagar og lítur út fyrir að svo verði fram í apríl samkvæmt langtíma spám.

Núna er klukkan hálf ellefu, sólin skín og henni hefur tekist að bræða eitthvað af hvítu hulunni en í skugga er allt óbreytt.

Margir halda að Portúgal sé heitt allan ársins hring en svo er ekki. Hér höfum við harða vetur og þessa dagana eru 3 dánartilkynningar á hverjum degi algeng sjón.

Fólkið kyndir ekki eins og útlendingurinn, þessi vitlausi, þið vitið, sem eyðir 400 evrum á mánuði til þess að halda hita inni í íbúðinni!

Ég þoli ekki lyktina sem kemur þegar allt verður ískalt og rakinn streymir um allt, inni í skápa og upp á skápa, um veggina og í gegnum merg og bein. Nei, þá vil ég heldur spara og nota peningana mína í kyndingu og láta mér líða vel.

Fólkið sem sér um gasið hér í þorpinu elskar mig. Ég bjarga fjárhag þeirra á hverjum vetri í nokkra mánuði og bæti upp 8 evru notkun mína yfir sumarið!

Doktor Daníel, einn af hinum frábæru læknum mínum á spítalanum í Coimbra sagði mér á föstudaginn frá því að hann og fleiri ungir menn héldu að Portúgal væri alltaf hlýtt. Hann hafði farið til Sintra með konunni sinni um síðustu helgi og var klæddur í haustföt, sem er allt í lagi yfir há daginn á meðan sólin skín en svo kemur kvöldið og kuldinn kreistir allan hita út úr öllu. Dr. Daniel sagðist líklega aldrei læra á þetta. Hann er rétt eins og útlendingarnir sem halda til heita landsins um hávetur úr kulda og trekki og koma í ísköld hús þar sem andardrátturinn rennur út eins og draugur sem svífur um loftið.

Það er ótrúlega skemmtilegt að vera ruglaður útlendingur eins og ég og heimsækja lækna á spítölum. Það skapast svo skemmtilegar umræður og jafnvel þegar verið er að draga 3 risa víra út úr handlegg er hægt að halda uppi skemmtilegum samræðum inn á milli öskra í sjúklingnum sem heldur að nú sé Dr.Joanna alveg búin að tapa sér. Doktora Joanna er dásamleg og dælir meiri deyfingu svo konan verði nú ekki alveg galin. Flottur læknir heldur handleggnum kyrrum og passar að útlendingurinn sé ekkert að mausa við að sleppa undan hnífnum.

Á föstudaginn eldsnemma um morguninn fór ég í viðtal hjá endurhæfingar lækninum. Við töluðum aðeins um endurhæfingu en klukkutími fór í að sýna mér og fræða mig um Alantejo og konungshallir þar og fallega bæi sem ég þarf að heimsækja í sumar. Auðvitað var sett upp áætlun um endurhæfingu og allt það og ég veit nákvæmlega hvert ég á að fara. Það var nefnilega þannig, eins og svo oft áður, að ég villtist um morguninn og fann ekki staðinn sem ég átti að fara á. Auðvitað hafði ég áður spurt hvar endurhæfingin væri og vissi það alveg.

Ég lagði bílnum, labbaði framhjá húsinu þar sem maður fer þegar á að hitta lækninn, yfir götuna og þar er öryggisvörður sem ég sýndi bréfið með öllum upplýsingunum og hann sagði mér hvert haldið skyldi.

Áfram gekk ég og inn um dyrnar þar sem ég hef svo oft farið áður þegar var verið að finna út hvað hjartað í mér vildi og af hverju það gat ekki unnið vinnuna sína almennilega. Ég var alveg viss um að nú væri ég á réttum stað og ætti að fara niður stigann, en til þess að vera alveg viss sýndi ég móttökudömunni pappírinn. Hún las vandlega og sagði mér að nú ætti ég að fara út og inn um næstu aðaldyr til hægri. Jamm,og ég sem hélt að þetta væri allt klárt í kollinum á mér.

Ekki málið að labba svoldið meira og inn og niður fór ég. Ég var greinilega komin á réttan stað, allt fullt af bekkjum og alls konar tækjum fyrir líkamsrækt. Það var bara einn hængur á.

Ekkert fólk.

Hvar var fólkið?

Ég labbaði inn í öll herbergin, og hvíslaði ofurlágt Bom Dia, sem þýðir á íslensku góðan dag og maður notar óspart hér í landi ásamt kossum og svoleiðis.

Eftir dágóða stund kom kona í bláu á móti mér og ég sýndi henni pappírinn minn góða. Hún brosti fallega til mín og tjáði mér að ég ætti að fara í húsið þar sem maður hittir læknana og heldur fundina. Hingað kemur þú bara þegar þú átt að fara í endurhæfinguna, sagði hún.

Ekki málið, ég þakkaði henni mörgum sinnum fyrir, maður gerir það hér, ekki bara einu sinni OBRIGADA heldur að minnsta kosti 5 sinnum og MOITO OBRIGADA er líka flott, eiginlega flottara.

Yfir götuna tróð ég á grænu ljósi og inn að afgreiðslunni þar sem ein dama sat og brosti sú breitt því ég er eiginlega orðin hérumbil daglegur gestur hjá henni þessa dagana. Kom í síðustu viku og nú aftur og kem aftur í næstu viku. Við verðum orðnar vinkonur þegar yfir lýkur, ekki nokkur vafi á því. Borgaði ég henni 7 evrur og hún skráði mig inn svo nú var bara að finna út hvar doktora endurhæfing var staðsett og gekk það frekar greitt eftir nokkur innlit í tómar skrifstofur. Þetta var jú eldsnemma á föstudags morgni og venjulega er fólk ekki mikið á ferðinni til lækna á þeim degi.

Ef þú ert í Portúgal og þarft að leita til læknis eru föstudagar bestir. Mánudagar eru alveg gaga því þá eru allir veikir eftir helgina.

Á milli lækna, morgunlæknis og eftirmiðdags læknis, fór ég til Lousa sem er í um það bil hálftíma akstur frá Coimbra.

Máli er nefnilega að ég er með heimilislækni sem er fífl og heilsugæslan í Penela er ekki alveg til þess að hrópa húrra fyrir. Doktora Joanna hafði sagt mér að ég gæti fært mig og maðurinn hennar, sem er heimilislæknir, alveg topp gæi, væri til í að taka mig undir sinn verndarvæng og hann vinnur í Lousa. Heilsugæslustöðin þar er með hæsta gæðastimpil, annað en öskur aparnir í Penela.

Semsagt, nú er ég búin að sækja um að fá nýja heimilislækni í nýrri heilsugæslustöð sem er hálftíma akstur frá mínum heimabæ. Á þriðjudaginn kemur hætti ég hjá Penela, húrra húrra fyrir því.

Þetta var ekki hægt fyrir 6 árum, en nú er búið breyta reglunum og maður getur valið á hvaða heilsugæslustöð maður er. Svo dásamlegt að ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa ánægju minni og þegar ég kom um eftirmiðdaginn til Dr Daniels á spítalanum sló ég um mig og ljómaði þegar ég sagði honum að nú væri Dr. Cardosa ekki lengur minn, ég væri búin að skipta og Dr Jorge maður dr Joönnu væri búin að taka mig að sér ljómaði Dr Daniel líka. Hann var himinlifandi. Sagði mér að ég væri komin í góðar hendur og þessi nýi maður væri ekki bara góður læknir, hann væri líka svo vitur og vissi svo ótal margt. Semsagt maður sem hægt verður að tala við. Allt fólkið sem ég hitti á nýju heilsugæslunni var brosandi og vingjarnlegt og til í að hjálpa mér, eitthvað annað en frostið sem mætir öllum í Sentre de Sauda í Penela.

Eftir þetta fór ég í Forum og fékk mér dásamlegan hádegisverð WOK AND WALK, sem er svona tælensk kínversk útfærsla, alveg hrikalega góð.

Á leiðinni út ákvað ég að líta inn í búð sem ég hef aldrei komið í fyrr. Það er allt logandi í útsölum þessa dagana og fínn afsláttur. Þar sem ný ríkisstjórn er komin til valda á Íslandi og gengið fallið eins og fallhlíf hafi hitt það, var eins gott að nota peningana á meðan ég átti þá og fjárfesta fyrir sumarið. Fór ég út með 3 kjóla, 2 síðbuxur, 2 blússur og leðurbelti sem var ekki á útsölu og kostaði formúu. Búin að versla fyrir sumarið og borgaði 288,17 evrur fyrir góssið. Ég bliknaði ekki einu sinni þegar ég stimplaði ok á debet kortið mitt! Með ríkisstjórn eins og þá sem er nú komin til þess að hygla sjálfri sér og sínum er ekkert annað að gera fyrir ellilífeyrisþega en blása til sigurs og fara að spara.

Sparnaðurinn er hafinn. Brauðbakstur og mjólkurgerð þegar ég hætti þessu bulli við tölvuna og nokkrir kaktusar skiptu um heimili í gær og fóru í stærri potta svo þeir geti blómstrað eins og hinir sem geta ekki hætt að brosa fallegu blómunum sínum til mín, jafnvel þó kuldi og frost nísti allt og alla.

Ég óska ykkur kæru lesendur öllum til hamingju með nýju dásamlegu ríkisstjórnina sem þið kannski kusuð. Það kemur dagur eftir þennan dag þar sem ég fæ tækifæri til þess að ybba mig um ýmis alvarleg mál sem nú herja á íslensku þjóðina en í dag er ég bara hamingjusöm og ánægð með lífið og tilveruna.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband