16.12.2016 | 10:55
Donald Trump braut á mér öxlina og handlegginn, eða var það?
20. október vaknaði ég klukkan 6 um morguninn. Ég ætlaði að horfa á síðustu viðureign herra Trumps og Hillary. Hafði horft á hinar fyrri og var áhyggjufull og vonaði að Trumparinn ynni ekki kosninguna.
Eftir að hafa burstað tennur og gert mig klára til þess að horfa gerði ég mér lítið fyrir og skall á plastkassa sem geymdu sumarfötin mín og áttu að fara niður í geymslu en höfðu stoppað á leiðinni og stóðu nú fyrir framan baðherbergis dyrnar. Ég semsagt skall á kassana og þaðan niður á grjótharðar steinflísarnar og rak upp ægilegt öskur og svo grét ég liggjandi á gólfinu og ekki möguleiki að standa upp.
Vandamál númer eitt var að ég mundi missa af kappræðunum.
Vandamál númer tvö var að finna leið til þess að standa upp.
Skreið ég nú inn eftir baðgólfinu og náði taki á salerninu og einhvern vegin tosaðist ég upp. Hafi ég einhvern tíman fundið til var það ekkert í samanburði við skelfinguna sem reið yfir mig þarna. Hreyfði ég fótinn fann ég til í öxlinni og ekki tók betra við ef ég vogaði mér að reyna að komast upp úr krjúpandi stellingunni. Kannski ætti ég bara að vera við klósettbarminn og sjá hvort sársaukinn hyrfi ekki! hugsaði ég.
Mér tókst að væla mig upp og tárin runnu niður í stríðum straumum. Trumpinn var byrjaður að hamast í Hillary og mér var eiginlega alveg sama.
Ég tók 2 verkjatöflur og bar verkjakrem á handlegginn í þeirri von að allt mundi verða gott rétt bráðum.
Ég átti von á lífræna grænmetinu mínu þennan dag og hugsaði með mér að ég þyrfti að láta manninn vita að líklega þyrfti ég ekki sendinguna í dag.
Hann svaraði símanum eins og skot og ég sagðist líklega hafa brotið á mér handlegginn.
Er það? Viltu að ég hringi á sjúkrabíl fyrir þig? sagði hann.
Já takk, svaraði ég.
Hringdi hann og brátt komu bombeiro menn, reyndar einn maður og svo kona, á hvíta neyðarbílnum með blikkandi ljós og alles.
Það háttar svo til hér að slökkviliðsmenn og konur sjá um að slökkva elda, sem eru að mestu skógareldar yfir sumarið og þá eru ráðnir aukamenn því landið logar venjulega frá norðri til suðurs, og svo sjá þeir sem eru fastráðnir um sjúkraflutninga.
Þau sem komu að sækja mig voru auðvitað vinir mínir, þegar maður býr í litlu þorpi verða flestir vinir manns og þessi tvö eru það svo sannarlega. Ekið var eftir hraðbrautinni til Coimbra því á þeirri leið eru færri holur. Konan sat hjá mér aftur í og maðurinn ók voða varlega og sneyddi hjá öllum holum. Ég kannaðist ekki við þessa leið og var eiginlega hálf áhyggjufull yfir hve löng hún var. Við enduðum þó á bráðamóttökunni á uppáhalds spítalanum mínum. Munar öllu að vera flutt með sjúkrabíl. Ekkert þarf að bíða og ökumennirnir sjá um alla pappírsvinnuna og koma manni fyrir í hjólastól. Dásamlegt!
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að ég var illa brotin og þurfti að skera mig upp til þess að tjasla mér saman og þá kom nú babb í bátinn.
Ég hafði nefnilega verið flutt á vitlausan spítala!
Ef gifs hefði nægt var þetta allt í fínu en uppskurður var allt annað mál. Teknar voru nokkrar myndir til þess að ganga alveg úr skugga um að ég ætti ekki heima þar sem ég var komin. Allt kom fyrir ekki, örlög mín voru ráðin, rúntur í sjúkrabílum var dagsskipunin og margar holur á leið til Covonce.
Kom ég á réttan stað um fjögurleitið. Ekki amalegt að rúnta í sjúkrabílum jafnvel þó maður sé brotinn. Fljótlega var mér gefin vökvi í æð sem var fullur af einhverju sem átti að stilla verkjunum í hóf en fram að því hafði ég verið í helvíti og batt nú vonir við að komast ef til vill upp á jörðina aftur. Ég hef brotið mörg bein um ævina en ekkert hefur verið eins ægilega sárt og Trumps brotið. Bölvaður kallinn, og nú er hann að verða forseti!
Á meðan eitrið lak inn í æð og reyndi það sem hægt var til að létta mér hinn ægilega sársauka bar að herra Daníel. Hann er læknir minn, sá sem ætlar að finna út hvað er raunverulega að mér. Þarna sat ég með tárin í augunum og hann spurði blíðlega eins og hans var von og vísa: Hvað kom fyrir?
Ég sagði honum það og bað hann að fresta stefnumóti okkar sem var eftir 5 daga. Ekki málið. Hann tók það að sér og talaði við doktorinn sem gaf mér verkjalyfið til þess að vita hvort ég gæti ekki fengið eitthvað sterkara.
Nei, ekkert sterkara, þetta var svaka sterkt og nú var bara að bíða eftir því að það virkaði!
Hah, ég var búin að bíða síðan í morgun! Auðvitað gat ég ekkert annað en hlýtt og dr. Daníel ætlaði að taka hitt málið að sér svo nú gat ég bara haldið áfram að finna til og vorkenna mér.
Seint um kvöldið var ég svo flutt í hjólastólnum á svaka spítti af bráðamóttökunni á rétta spítalanum upp á deild og í rúm. Ég þakkaði mínum sæla þegar við komum upp, hafði ekki gert mér í hugarlund að hægt væri að finna holur á gangi spítala. Stúlkan sem keyrði mig var að flýta sér, líklega matur handan við hornið og ekki hægt að dúlla sér með konu frá vitlausum spítala.
Við vorum sjö í herberginu, allt konur, auðvitað eða þannig. Stundum eru bæði kynin saman á herbergi, fer allt eftir plássi.
Næsta morgun hringdi ég svo í vinkonu mína og sagðist vera á spítala og hefði brotið mig í gær.
Getur þú kannski farið heim til mín og sótt náttföt fyrir mig, spurði ég.
Vinkona mín þagði svolitla stund og svo stundi hún upp:
Ertu á spítala?
Af hverju hringdirðu ekki í gær? og nú var farið að fjúka aðeins í hana.
Ég var á slysavarðstofunni allan daginn, sagði ég aumingjalega og var voða hrædd um að hún gæti ekki sótt náttfötin mín!
Venjulega fer fólk ekki eitt á neyðarmóttöku hér eða til læknis. Annað hvort fylgir öll fjölskyldan eða að minnsta kosti eitthvað af henni.
Ég sá enga ástæðu til þess að vera að láta fólkið mitt hafa óþarfa áhyggjur á meðan verið var að finna út hvað ætti að gera við mig! Það hefði ekki breytt neinu, eða svoleiðis.
Vinkona mín fyrirgaf mér og sótti náttföt og tannbursta og greiðu. Semsagt þetta sem maður þarf nauðsynlega þegar verið er á spítala hér í landi.
Ég dvaldi 10 daga á nýja heimilinu mínu og þar gerðist eitt og annað skemmtilegt sem ég segi frá síðar. Ég kynntist alveg nýrri hlið á heimalandi mínu og í þessum litla heimi varð til ný vinátta og ég fyllist þakklæti þegar ég hugsa um lán mitt. Ég var bara brotin, á besta aldri og sárið mundi gróa með tíð og tíma. Þolinmæði var það sem ég þurfti. Hinir nýju vinir mínir voru margar hverjar ekki eins heppnar og ég. Starfsfólkið sem ég kynntist þessa 10 daga er líka einstakt og vel þess virði að skrifa svolitla sögu þess.
Þrátt fyrir áföll verður alltaf gaman aftur og lífið heldur áfram að streyma fram með öllum mögulegum og ómögulegum tilbrigðum.
Hvað er handan við hornið í alheiminum með Trump sem æðsta mann veraldar er ráðgáta. Vonandi tekst honum ekki að eyða veröldinni en kannski eru síðustu tímar að renna upp. Hvað veit ég svo sem um það, bara eitt lítið peð í heiminum sem held stundum að ég sé eitthvað merkileg?
Hulda Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.