Færsluflokkur: Bloggar
18.3.2017 | 10:50
Laugardagur fyrir brottflutta eftirlaunaþega og öryrkja, hópinn sem aldrei er minnst á.
18. mars 2017
Enn og aftur kemur ágætur maður fram með þá skoðun sína að það sé niðrandi að tala um hópa sem "minna mega sín".
Ég var ekki síður undrandi þegar ég sá að þáttastjórnandinn Björn Ingi lagði enn frekari áherslu á orðasambandið og túlkaði það sem niðrandi.
Hvað er nú til ráða?
Jú, kannski væri ekki afleit hugmynd fyrir þá sem líta á þetta orðasamband sem neikvætt eða niðrandi að skoða íslenskar orðabækur.
"Þeir sem minna mega sín" eru hópar fólks sem eiga sér ekki öflugan málssvara og jafnvel engan málssvara.
Ég get svo sem fúslega tekið undir með Wilhelm Wessman að hann tilheyrir ekki sama hópi og ég.
Hann tilheyrir ekki hópnum sem á sér ekki háværa málssvara.Hann er með öflugt batterí á bak við sig, Félag eldri borgara í Reykjavík og Gráa herinn.
Ég og vinir mínir sem hafa flutt frá Íslandi og erum komin á eftirlaun höfum ekkert svona batterí til þess að hamra á okkar kjörum og skerðingum á bótum okkar.
Ég er stolt af því að tilheyra hópnum sem "minna má sín" og við erum farin að láta í okkur heyra, sem betur fer.
Það er ekki við því að búast að Wilhelm, og Björgvin og Þórunn H. og Helgi P, séu að ómaka sig á því að tala um hvernig farið er með okkur brottflutta í hinu nýja kerfi Almanna trygginga á Íslandi. Við komum þeim hreinlega ekkert við og þeim er alveg sama um okkur. Það sem skiptir þau mestu máli er að vera ekki spyrtir með þeim hópi sem "minna má sín" í þjóðfélaginu vegna þess meðal annars að fólk eins og ég nefni hér að framan gefur ekki mikið fyrir okkar málefni og hefur kannski ekki sérlega góða þekkingu á íslensku máli.
Mér þykir reyndar verulega sorglegt að Wilhelm og hans hópur hafi verið skert!
Hvernig voru þau skert?
Var tekið úr þeim líffæri?
Misstu þau til dæmis heyrnina?
Ég er svo ofsakát yfir því að hafa ekki verið skert. Ég er bara rétt eins og ég var fyrir áramót.
Hins vegar hafa bætur mínar frá Tryggingastofnun verið skertar verulega og það er ekki gott, en ég get huggað mig við að ég persónulega hef ekki verið skert, enda væri það nú heldur langt gengið ef stofnunin færi að taka úr mér líffæri eða eitthvað slíkt!
Ég er stolt af því að tilheyra "þeim sem minna mega sín"
Ég held áfram að tala um málefni okkar þar til bót verður á.
Ég sem einstaklingur hef það fínt en það réttlætir ekki að ég tæki upp á því að þegja yfir óréttlæti því sem gengur yfir minn hóp.
Hættiði svo að tala niður til okkar sem eigum ekki öflugan baráttuhóp til þess að hrópa fyrir okkur.
Það væri nær fyrir ykkur að setja ykkur inn í málefni okkar og minnast þó ekki væri nema einu sinni í öllum skrifunum og viðtölunum ykkar á þennan hóp eftirlaunaþega og öryrkja, hópsins sem valdi lífið en ekki að lepja dauðann úr skel á Íslandi og flutti úr landi.
Haldiði kannski að það hafi verið létt ákvörðun fyrir suma sem neyddust til að yfirgefa fósturjörðina og fjölskyldu, ættingja og vini? Ég er sannfærð um að margt af þessu fólki vildi gjarnan búa á Íslandi og geta heimsótt þá sem þeim eru kærir þegar þeim dytti í hug.
Í landi Panamaprinsins er þetta ekki möguleiki fyrir marga, því miður, en það má ekki strika þennan hóp út og þegja þunnu hljóði yfir því hvernig hann, þrátt fyrir að hafa greitt skatta og skyldur til íslensks þjóðfélags alla sína starfsævi, býr við verri kjör frá Almannatryggingakerfinu en þeir sem hafa ekki flúið.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2017 | 19:06
Saltfiskurinn SKAL ofan í þig!
17.mars 2017
Á hverjum degi ek ég í tæpan klukkutíma til þess að komast ofan í sundlaug fyrir þá sem þurfa endurhæfingu og þessi sundlaug ásamt sjúkraþjálfara er á Spítala í Coimbra.
Í morgun var ég allt of sein því það hafði orðið árekstur og umferðin mjakaðist eins og snigill en ég hafði það af að komast í tímann þegar hann var tæplega hálfnaður.
Í þessum hópi eru 5 konur og 2 karlar.
Ekki mæta allir alltaf og fólk hefur misjafnar aðferðir við æfingarnar. Sumir sulla svolítið til og frá og aðrir reyna eftir bestu getu að gera eins og þeim er sagt. Þetta er jú til þess að styrkja sjúklingana svo þeir geti farið út í lífið.
Laugin er hrikalega djúp, þar sem hún er dýpst er hún 1.35 metrar og ég er 1,70 svo það liggur í augum uppi að ég gæti hæglega sokkið og drukknað í öllu þessu vatni.
Karlarnir sem eru í þessum hóp eru svona: Annar er frekar mjór, með svolitla byrjun á bumbu en ekkert til þess að gera veður út af. Reyndar mundi heimilislæknirinn minn nýi, líklega láta hann í megrun.
Hinn karlinn er frekar bumbuóttur, hann er minni og bumban er svona um það bil 6 mánuði á leið eða svoleiðis.
Í búningsklefa karlanna er spegill og alles en ekki hjá konunum. Auðvitað, við erum í Portúgal og karlar eru númer eitt.
Gellurnar eru svona:
2 eru bara eðlilegar, hvorki búttaðar eða grannar. 1 er frekar grönn(Það er ég).
2 eru með fullt af einhverju sem minnir mig á tunnu sem dillar, líklega tunnu úr jellyi eða einhverju álíka. Þegar þær troða öllu inn í sundbolinn hjálpast þær að og allt gengur þetta upp. Það þarf ekki að fara úr bolnum áður en tíminn hefst, bara sturta svolitlu vatni yfir sig og þá er málið leyst.
Í gær sagði ég köllunum að það væru sundlaugar á Íslandi og þær væru með heitu vatni og oft undir berum himni. Ég sagði þeim líka að það væru eldfjöll og jöklar á þessu skrítna landi og að íbúar væru líklega í kringum 350 þúsund. Svo sagði ég þeim aðspurð að ég væri ekki hrifinn af saltfiski.
Kerlurnar fljóta venjulega meðfram hliðunum og eru við enda laugarinnar, en ég held mig á móti þjálfaranum, svo ég sjái hvað ég á að gera, og svo er ég auðvitað í algrynnsta partinum, svo ég drukkni ekki.
Kallarnir tala ensku og þjálfarinn líka og ég kann ekki Portúgölsku! Þannig að samræður hafa farið fram á ensku hingað til og hinar búttuðu ekki tekið þátt í samræðunni en fengið þýtt ef tekist hefur að draga orð upp úr vatnshrædda útlendingnum, sem er líklega talinn vera enskur!
Í dag var bara einn kall og 2 kellur þegar ég loksins skilaði mér ofan í vatnið.
Upp hófst nú samræða. Ég skil ekki hvað þetta fólk getur endalaust malað og malað. Ég þarf að einbeita mér til þess að halda mér á floti og gera æfingarnar rétt og passa upp á að finna ekki til í öxlinni, en liðið malar og malar og malar.
Kallin sagði gellunum að á Íslandi byggju 3 milljónir og 500 þúsund manns! Hann sagði ég hefði sagt honum þetta í gær.
Svo sagði hann þeim að sundlaugar væru til á Íslandi og af því það væru eldfjöll væru þær heitar og þær væru allar með glerþaki!
Ég var hér um bil búin að missa út úr mér að þau ættu kannski að gúggla Ísland og sjá hvað kæmi upp en þagði.
Önnur gellan með tunnuna framan á sér sagði mér að ég skyldi borða saltfisk hjá henni og þá mundi mér finnast hann góður. Þau vita öll að mér finnst hann ógeðslegur.
Ég stökk upp á nef mér og féll í gildruna, ég sagðist ekki mega borða portúgalskan mat, læknirinn minn hefði bannað mér það þar sem ég væri með innvortis blæðingar. Leyndarmálið komst upp, ég stökk nefnilega upp á nefið á Portúgölsku.
Oh, senjora talar portúgölsku, og þær sigldu virðulega í átt til mín og skyndilega var ég umkringd og átti ekki útgönguleið. Vatnið hafði hækkað verulega, og 1,35 var upp að nefi á mér. Ég ríghélt í járnið og bað til guðs að láta mig ekki deyja.
Hópurinn útskýrði fyrir mér í löngu máli að saltfiskur væri málið, ég skyldi borða hann, hann skyldi ofan í mig hvað sem tautaði og raulaði.
Ég laug því án þess að blikna á portúgölsku að íslendingar borðuð aldrei, ALDREI saltfisk. Hann væri bara til útflutnings til Spánar, Portúgal og Nígeríu. Íslendingar borða bara nýjan þorsk, sagði ég. Hah.
Á mánudaginn vona ég að allir verði búnir að gleyma því að senjora tali portúgölsku og ef ekki þá læt ég sem ég þjáist af algleymi!
Það er svo dásamlegt að geta skýlt sér á bak við takmarkaða eða enga málakunnáttu og auðvitað fáránlegt að láta plata sig eins og ég gerði í dag. Ég nenni ekki að taka þátt í malinu. Ég þarf að ná heilsunni þó ég þurfi að leggja á mig að gera leikfimi í 1,35 djúpri laug.!
Þegar upp úr lauginni er komið fara allir í sturtu og þá er farið úr sundbolunum svona um það bil niður að mitti og sápað og þvegið það sem þvo þarf.
Síðan er farið í klefann og mörgum gel kílóum troðið inn í eitthvað sem ég veit eiginlega ekki hvað heitir. Er ekki viss hvort þetta er korselett eða eitthvað svoleiðis. Fyrst hélt ég að konan væri að fara í sjúkrabelti og hin að hjálpa henni en í gær sá ég að þetta er bara til þess að fela og þrýsta saman gelinu.
Mikið ofboðslega er ég nú heppin að borða ekki saltfisk, já ég gleymdi því, ég sagði kallinum í gær að portúgalar væru feitir vegna þess hvernig þeir elduðu, þeir drepa allan mat með ofeldun, en hann hélt nú ekki. Þeir sem eru feitir borða erlendan mat, sagði gaurinn. Já einmitt!
Það er auðvitað endalaust hægt að trúa svona bulli en saltfiskur fer ALDREI ofan í mig og á mánudaginn kann ég ekki orð í málinu. Eins gott að bjóða bara góðan daginn á kínversku.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2017 | 19:22
Nýr formaður VR, bjargvættur eða?
16.mars 2017
Nú hefur nýr formaður tekið við VR og var hann kosinn með 17,9% þátttöku
Þessi litla þátttaka vakti mig til umhugsunar um eitt og annað.
Félagsvitund:
Erum við íslendingar með vanþroskaða félagsvitund?
Það virðist stundum vera svo, allavega þegar kemur að því að kjósa um málefni sem skipta máli.
Getur ástæða lítillar þátttöku í kjöri formanns VR stafað af því að fólk hefur gefist upp fyrir kerfinu og finnst það ekki hafa neitt að segja og ekki skipti máli hver situr í formanns stóli VR, þetta sé allt sami grautur í sömu skál?
Ég veit þetta ekki en man þegar ég var að sækja félagsfundi hjá félaginu og ekki var mikið mark tekið á fólki sem var ekki ánægt með nýgerðan kjarasamning og var kaffært af þeim sem stjórnuðu.
Er þetta enn svona?
Ég veit það ekki.
Varðandi formann VR, nýkjörinn: Maður sem ég þekki ekki neitt en hef hlustað á nokkur viðtöl við hann, og ég óska honum alls góðs í nýju starfi og vona svo sannarlega að kerfið gleypi hann ekki með húð og hári og að hann komi fram þeim bótum sem hann dreymir um.
Það er oft auðveldara að vera utan dyra en innan og innkoman getur orðið ansi kuldaleg og frost ríkt þar til hinn nýkomni gefst upp.
Launamál nýja formannsins verða kannski prófsteinn númer eitt á hvað hann getur gert.
Ég vona svo innilega að nýi formaðurinn láti ekki glepjast af fagurgala stjórnmálabrota sem nú elska hann út af lífinu og sjá í honum bandamann til þess að bæta lífið okkar allra! Hah!!!
Við litlu angana sem ekki komust að í síðustu kosningum ætla ég að leyfa mér að segja:
LÁTIÐ NÝJA FORMANNINN Í FRIÐI OG REYNIÐ EKKI AÐ UPPHEFJA YKKUR Á HANS AFREKUM.
Samfélagsvitund er annað hugtak sem datt upp í kollinum á mér þegar ég velti fyrir mér félagsvitund.
Eru Íslendingar með skerta samfélagsvitund og þess vegna svo mörgum hjartanlega sama þó ríkir verði ríkari og fátækir fátækari?
Er það þessi skerta samfélagsvitund sem kýs Panamaprinsinn og hans hirð aftur og aftur og aftur, sama hvernig hann og hirðsveinar hans níðast á almúganum?
Er það skortur á samfélagsvitund sem svipti Bjarta framtíð minninu og lét þá gleyma öllum fallegu loforðunum í skiptum fyrir ráðherrastóla og fallegt launaumslag?
Er ætlast til þess að ég beri meira traust til pínulítilla framboða núna, sem gala hátt og þykjast hafa ráð undir rifi hverju?
Er eitthvað alvarlega bogið við þetta vantraust mitt allt saman?
Kannski er ég og allir hinir aumingjarnir sem ekki styðja framapot pólitíkusa bara öfundsjúk út í að einhverntíma í framtíðinni verði þetta ágæta fólk á alþingi íslendinga að setja lög og reglur fyrir okkur hin og allt verður svo ægilega gott!
Þeir sem nú pota sér fram og reyna að baða sig í sól nýs formanns VR ættu líklega að byrja á því að koma sér niður á jörðina og hafa fullyrðingarnar sem þeir setja fram réttar en vera ekki að æsa múginn að óþörfu með þvílíku rugli sem gert hefur verið í síðustu viku.
Pólitískir formenn flokka sem hafa í farteskinu háskólagráðu í lögfræði og vita ekki hvernig skattamálum er háttað hjá Lífeyrissjóði VR og halda því fram að sjóðurinn haldi eftir staðgreiðslu okkar ættu held ég að taka prófið aftur eða fara í endurhæfingu.
Mér er vel kunnugt um þetta mál þar sem ég greiddi skatta í tveimur löndum ekki fyrir svo mörgum árum og fékk endurgreidda staðgreiðslu frá Íslandi því ég bý í tvísköttunar samnings ríki og á að borga skatta í búsetulandi mínu sem er ekki Island.
Staðgreiðsluna sem Líf VR tók af mér fékk ég endurgreidda um leið og álagning kom. Það var ekki Lífeyrissjóðurinn sem greiddi mér til baka, það var skatturinn, sem sannar hér og nú fyrir formanni sem ekki veit betur, að skattpeningum okkar er ekki haldið eftir hjá Lífeyrissjóðinum og þeim er ekki stolið. Þeir fara til ríkisins einu sinni í hverjum mánuði, rétt eins og lög gera ráð fyrir.
Ég var að lesa viðtal við nýja formanninn hjá VR og þar get ég ekki séð að hann minnist einu orði á öryrkja og eftirlaunaþega. Sé þetta rétt hjá mér, sem ég vona að sé ekki, er ég mjög vonsvikin, svo ekki sé meira sagt.
Ég vona að nýi formaðurinn sjá að eftirlaunaþegar eru líklega jafn mikils virði og láglauna stéttir innan VR.
Ég ætla að láta hann njóta vafans og halda að þetta hafi verið mistök hjá honum sem hann muni leiðrétta hið snarasta.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2017 | 18:39
Innrás á spítala í Coimbra Portúgal!
15.mars 2017
Það er ótrúlegt hvernig hópur fólks getur tekið yfir heilt anddyri á stórum spítala í stærstu borg mið Portúgal, en það gerðist í dag.
Í gær, þegar ég fór í meðferðina á spítalann um morguninn voru nokkrir sígaunar í anddyri og salerni.
Í dag taldi ég 78 sígauna og þeir voru um allt. Ekki bara í anddyri, þeir voru á setustofu og fylltu hana svo ekki var sæti fyrir neinn utanaðkomandi þar. Þeir voru á neðstu hæðinni, þeir voru fyrir utan innganginn í stórum hópum og þeir lágu út um allt á grasinu. Ég taldi bara þá sem ég gekk framhjá og skildi eftir þá sem voru úti.
Karlarnir eru í svörtum jakkafötum, eða bláum gallabuxum og svörtum jakka, voða virðulegir.
Kellurnar eru allar í síðum pilsum, og guð minn góður hvað þær eru ofboðslegar miklar um sig. Ég kæmist 4 föld inn í þær. Svo vagga þær einhvernvegin áfram. Þetta er eiginlega ólýsanlegt en pilsin eru skrautleg og svo hanga þéttar peysur utan um efri partinn. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig níðþröngar peysur geta hangið, en þetta er tilfinningin þegar ég horfi á þær vagga á undan mér.
Vandamálið með sígaunana er hér víða, en svona alvarlegt hef ég aldrei séð það á spítalanum. Venjulega eru þau fyrir utan lóðina tilbúin ef einhver þeirra þarf að leggjast inn og þá kemur öll hersingin.
Ég spurði öryggisverðina út í málið í morgun því mér var eiginlega ekki sama að geta ekki gengið frjáls ferða minna. Það verður einfaldlega þannig þegar þau hertaka stað að enginn kemst lönd né strönd nema að troða sér í gegnum fylkinguna og þá er eins gott að halda utan um auðævin sín, hver svo sem þau eru.
Verðirnir sögðu mér að einn af þeim væri inni og þeir hristu höfuðið í öngum sínum yfir ástandinu. Þetta er vægast sagt hroðalegt.
Ekki veit ég hvernig þetta gengur fyrir sig á morgun en í dag sá ég 6 bíla sem eru íbúðir einhverra í hópnum.
Ég verð að játaað dálítill kvíði læðist að mér að þurfa að ryðja mér leið í geng á morgun.
Þar sem ég legg bílnum mínum þegar ég þarf að fara á þennan spítala eru nokkrir úr hópnum. Þeir þykjast vera að beina fólki inn á stæði og vilja svo fá greitt fyrir. Ég borga auðvitað í maskínuna sem lætur mig fá kvittun en ég er svo mikill vesalingur að ég gef ræflinum sem hefur undið sér að mér, eina evru.
Það sitja 2 alltaf á sama stað og nú er ég búin að segja þeim 3 daga í röð að ég eigi enga peninga og þeir þakka alltaf pent fyrir. Þessir eru dópsalar. Að þeir skuli ekki geta látið sér nægja að selja jurtir og látið okkur hin í friði er mér óskiljanlegt.
Fyrir jólin sendi vinkona mín í Kína mér te. Það kom til landsins og var sent til baka án þess að ég væri látin vita.
Nú er teið komið aftur og ég búin að standa í ströggli í nokkrar vikur við tollarana. Þeir heimta invoice. Ég hef enga invoice. Þeir heimta að ég fái invoice. Ég get ekki fengið neina.
Þeir heimta drengskaparyfirlýsingu frá mér um að ég ætli ekki að selja teið, að ég ætli að drekka það eftir að ég hef hellt á það heitu vatni og að ég ætli ekki að gefa neinum með mér.
Hálfvitar!
Nú er ég búin að senda yfirlýsinguna og þarf ábyggilega að borga gríðarlegan toll og guð má vita hvað þeir grafa upp til þess að plokka af mér peningana mína.
Það besta við þetta allt saman er að í Lissabon og jafnvel í Coimbra er auðveldara að flytja inn eiturlyf og selja á götunum fyrir framan nefið á lögreglunni en að fá jasmin te í jólagjöf frá vinkonu í Kína.
Stundum verð ég alveg orðlaus. Ég hefði auðvitað gert mér ferð til tollaranna í Lissabon ef ég þyrfti ekki að fara í sjúkraþjálfun á hverjum degi. Þeir mega hrósa happi að hafa ekki fengið mig í heimsókn og ég líklega að prísa mig sæla fyrir að hafa ekki verið sektuð fyrir ósvífni við opinbera starfsmenn.
Þegar heimilislæknirinn minn var í gær að segja mér hvað ég mætti ekki borða til þess að innyflin dyttu ekki út úr mér og hann talaði um grænt te stökk ég upp á nef mér.
Ég sagði mínum elskulega nýja heimilislækni, sem er með blá augu og alles, að hann gæti tekið allt frá mér annað en teið mitt. Teið ætlaði ég að hafa þó það dræpi mig.
Hann hló og spurði hvað ég drykki mikið? Ég sagðist fá mér te á morgnana með morgunbrauðinu mínu, einn stórann bolla.
Jú það var í lagi!
Eins gott því annars hefði ég verið búin að missa allt sem venjulegu fólki þykir gott. Ég er auðvitað sérvitringur sem borða ekki mat sem hefur verið myrtur við eldunina og drekkt í olíu og viðbjóði, og elda minn sjálf á grilli eða gufusýð.
Það er ekki hægt að láta bjóða sér allt, eða hvað?
Ég nenni ekki að rífast um stjórnmál og hálfvita á alþingi í dag. Ég geri það kannski um helgina. Af nógu er að taka og það besta sem ég hef séð undanfarna daga frá hinum háæruverðugu þingmönnum er konan sem vill taka upp "píku umræðu" og heldur að það sé mál málanna í dag.
Hún veit greinilega ekki hvað orðin öryrki, ellilífeyrisþegi, láglauna maður eða sjúklingur þýða. Hún býr vafalaust ekki á þessari plánetu, en hvaðan hún er veit ég ekki og því síður hvernig henni tókst að plata sauðsvartan almúgann til þess að koma sér inn á alþingi íslendinga.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2017 | 19:56
Hvað kostar að fara til læknis í Portugal?
12.mars 2017
Hér á eftir langar mig til þess að segja aðeins frá heilbrigðisþjónustunni hér í landinu sem hefur tekið mig að sér.
Það er heilsugæsla í hverju bæjarfélagi og sumstaðar tvær eða fleiri. Þetta fer eftir stærð og íbúafjölda.
Í mínu þorpi er ein heilsugæsla.
Þegar ég flutti hingað þurfti ég að sækja um aðgang og fór lögfræðingur minn með mér og við brostum. Það var dagsskipunin áður en við lögðum af stað "að brosa" og þá mundi þetta ganga eins og í sögu, sem það og gerði.
Bretarnir og þjóðverjarnir hafa átt í brasi með þessa skráningu og veit ég ekki hvers vegna það er.
Semsagt, mér var úthlutaður heimilislæknir og þegar ég sá hann í fyrsta skipti, eftir 3ja mánaða dvöl í landinu, var ég með lungnabólgu og gat varla talað. Hann og hjúkrunarkonan æptu á mig að fyrst ég væri í Portúgal skyldi ég tala portúgölsku. Kunnátta mín var mjög takmörkuð en ég gat talað ensku. Þeim var nokk sama um ensku kunnáttu mína og æptu enn hærra. Þar sem ég var með bullandi hita og gat ekki staðið í þrefi stóð ég upp og fór.
Ég varð mér úti um fúkkalyf eftir krókaleiðum og batnaði.
Mér var hins vegar ekki batnað af meðferðinni sem ég fékk á stöðinni og vissi að það væri gul bók sem hægt væri að kvarta í. Ég skrifaði bréf og bað um viðtal við kvörtunarstjórann sem ég fékk. Hún reyndi sem hún gat að fá mig til þess að sleppa því að gera skriflega kvörtun en ég hafði fengið nægju mína og gaf mig ekki.
Þegar kvartað er í gulu bókina fer málið fyrir yfirvaldið sem er í Lissabon. Þetta var ég búin að finna út og vissi fyrir víst.
Jafnframt því að kvarta sótti ég um að fá annan heimilislækni. Ég fékk hann eftir mikið þjark 3 mánuðum seinna og hef setið uppi með hann síðan þar til ég var svo lánsöm að brjóta á mér öxlina í október og finna þar með leið til þess að skipta um heilsugæslu og heimilislækni.
Dr. Cardosa er fífl. Það eru til svona læknar út um allan heim og líka á Íslandi. Læknar sem halda að þeir séu guð almáttugur og sjúklingarnir hálfvitar. Hinn ágæti Dr. Cardosa sagði mér að það væri ekkert að mér, ég væri bara gömul. Jú, nokkur ár hef ég í pokahorninu en það réttlætir ekki að mér sé ekki sinnt þegar ég er veik.
Ég fór til einkalækna og var skorin upp á hjartanu og það lagað sem þurfti að laga. Einnig fór ég í augnaðgerð á einkaspítala, minniháttar aðgerð því ég grét endalaust og þurfti að stoppa það rennsli.
Fyrir hjartaaðgerðina greiddi ég ekki neitt, hún var gerð á ríkisreknum spítala en fyrir augnaðgerðina greiddi ég fyrir 5 árum 1300 evrur.
Þegar ég fer í viðtal á spítalanum, við lækni, borga ég 7 evrur.
Þegar ég fer í viðtal á heilsugæslu borga ég 5 evrur og fyrir lyfseðil 3 evrur.
Ég var send í blóðrannsókn núna sem ég greiddi 17 evrur fyrir. Var það nokkuð rækileg rannsókn sem er gerð einu sinni á ári.
Ég fékk á síðasta ári 2 einingar af blóði eftir að hafa verið send á bráðamóttökuna. Fyrir móttökuna og blóðið borgaði ég minnir mig rúmar 30 evrur.
Í dag keypti ég meðal vegna blóðþrýstings 56 töflur og 3ja mánaða skammt af Fosavan og greiddi 32,50 evrur fyrir. Önnur meðöl tek ég ekki.
Ég fór í einhvers konar speglun og það voru tekin 3 sýni úr maga og einhverju svoleiðis, ég er ekki að velta mér of mikið upp úr kunnáttunni varðandi læknisfræði, það eru sérfræðingar sem sjá um þau mál, en ég greiddi fyrir þetta 21,50 evru. Hefði átt að borga 47,40 en þau gáfu mér afslátt og ég borgaði bara fyrir eitt sýni. Þessi rannsókn var gerð á einkastofu en kerfið hér er þannig að hafi verið sótt um rannsókn á spítala og henni ekki sinnt innan sex mánaða vegna anna á sjúklingurinn rétt á að fá rannsókn hjá einkageiranum og það gerðist hjá mér, því nú var ég kominn með almennilegt teymi til þess að sjá um mig. Enginn Dr. Cardosa lengur!
Þegar ég braut á mér öxlina og handlegginn í október greiddi ég ekkert fyrir bráðamóttöku, sjúkraflutning, tvo uppskurði, dvöl á spítala í 12 daga, en ég borga fyrir viðtöl við lækninn minn og sérfræðing í sjúkraþjálfun. 7 evrur í hvert skipti og 1,50 fyrir röntgenmynd.
Fyrir 15 skipti í sjúkraþjálfun á spítala greiði ég 60 evrur.
Gjald fyrir viðtal hjá hjartaskurðlækni mínum er 7 evrur. Ég hef ekki verið útskrifuð enn. Það verður gert í júní þegar við eigum næsta fund. Þó ég verði útskrifuð á ég greiðan aðgang að Dr. Pedro sem skar mig upp. Kerfið er þannig.
Þetta er í stórum dráttum það sem ég man í bili varðandi kostnað við heilsugæslu.
Það sem þó skiptir mig miklu máli er að á síðasta ári greiddi ég tæpar 800 evrur í lækniskostnað og verður það dregið frá því sem mér verður gert að greiða í skatt.
Við álagningu í fyrra hafði ég mjög´lítinn læknis kostnað en við álagningu þetta árið eru það sem sagt tæpar 800 evrur og verður gott að fá þann afslátt þó ég hefði auðvitað heldur kosið að vera hraust.
Ég hef kosið að nota eins mikið og mögulegt er ríkisreknu þjónustuna. Ég borga skatta hér í landi og á fullan rétt á þeirri þjónustu og líkar hún vel.
Það eru sumir sem frekar kjósa einkarekna geirann og eru fúsir að greiða fyrir hann. Í flestum tilfellum eru sömu læknar sem vinna á báðum stöðum og munurinn er kannski að greiða 7 evrur fyrir viðtalið á ríkis spítalanum eða 60 evrur á þeim einkarekna.
Ég þekki kerfið hér í Portúgal og kannski gefur þetta öðrum sem eru að hugsa um að flytja til dæmis til Spánar einhverja hugmynd um hvernig kerfið gæti hugsanlega verið. Það getur þó verið að allt annað fyrirkomulag sé hjá Spánverjunum. Ég bara þekki það ekki.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2017 | 13:39
Flokkur fólksins VILL fara í mál!
11.mars 2017
færsla 2
Flokkur fólksins fer mikinn núna og vill, takið eftir orðinu vill, fara í mál við ríkið vegna mistaka við lagasetningu og leiðréttingu á lögum afturvirkt.
Nú velti ég fyrir mér hvort þetta sé í eina skiptið sem lög hafa verið leiðrétt vegna mistaka af einhverju tagi við lagasetningu og leiðrétt afturvirkt.
Man einhver eftir því núna í mars hvernig hamast er við að setja lög á færibandi áður en hið háa alþingi fer í frí? Hvernig vakað er hálfu og heilu næturnar til þess að koma nú öllu í gegn?
Eru það ekki vinnubrögð alþingis í heild sem þarf að skoða?
Hefðu þessi vinnubrögð eitthvað breyst við tilkomu nýs flokks á þing?
Ég veit það ekki.
Er kannski næsta spor í lögsókn að sækja þingmenn til svara um hvernig þeir virða drengskaparheit sitt?
Björgvin Guðmundsson, sem er ötull og hefur verið lengi, við að skrifa um málefni eldri borgara og bág kjör sumra, fullyrðir að lögsókn verði að veruleika.
Björgvin á ekkert nema gott skilið fyrir að halda málefnum þessa hóps á lofti með skrifum sínum og er ég ekki að vanþakka það.
Ég er aðeins að velta því fyrir mér hvort orðið VILL nái eins langt og orðið FER, eða HEFUR HAFIÐ MÁLSSÓKN Á HENDUR ......
Nú spyr ég sem leikmaður og alls ekki sem lögfræðingur eða sérfræðingur í lögum og lagasetningu:
Er líklegt að mál sem farið yrði í út af þessum mistökum vinnist?
Er ekki texti frumvarpsins og umræðunnar skýr?
Er ekki vilji löggjafans alveg skýr þegar lesnar eru skýringar með frumvarpinu?
Hvernig gat Tryggingastofnun kynnt nýju lögin fyrirfram og búið til reikni forrit sem hægt var að skoða áður en lögin voru samþykkt? Á hverju byggði hún?
Ég hef einhvern vegin á tilfinningunni að það hafi alltaf verið ljóst að lögin yrðu samþykkt og þess vegna hafi stofnunin getað unnið vinnuna sína til þess að greiða samkvæmt nýjum lögum.
Það er æpt og argast endalaust og yfirlýsingarnar koma á færibandi um að glæpur hafi verið framinn.
Hvers vegna las ekki flokkur fólksins, og aðrir sem nú djöflast yfir glæpnum, frumvarpið yfir við síðustu umræðu og atkvæðagreiðslu?
Mér finnst allur þessi málflutningur svo ótrúlega ódýr og lykta af pólitísku framapoti að mér verður óglatt og ælan situr í hálsinum á mér, eins og einhver komst að orði.
Þegar flokkur fólksins er farinn í mál getur hann ólmast en í augnablikinu hefur hann ekki farið í neitt mál.
Það eru engin málaferli hafin.
Það er verið að eyða tíma fólks og gera það hrætt með áróðri og framapoti. Ég leyfi mér að fullyrða það og er tilbúin að éta það ofan í mig ef annað kemur á daginn. Líklega þyrfti ég að kaupa mér hatt ef ég á að eta hatt minn, en hvað með það, þeir hljóta að fást ódýrir einhvers staðar.
Félag eldri borgara í Reykjavík, með lögmann í formanns sæti, ætlar ekki í mál út af þessu. Segir það ekki allt sem segja þarf?
Æsingur og rugl er bara til þess að vekja upp ótta hjá þeim sem eiga sér ekki öfluga málssvara og er engum til framdráttar.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2017 | 10:55
Málefnaleg fátækt stjórnmálabrota?
11.mars 2017
Ég lét það vera að skrifa eitt eða neitt í 2 daga. Ég var svo yfir mig undrandi og eiginlega hoppandi reið.
Ég dett í það að hugsa um það bil einu sinni á ári og sá dagur er liðinn en svo dett ég í það að verða reglulega "pissed off" einu sinni á ári og sá dagur rann um á fimmtudaginn og hefur varla hjarað út síðan.
Einkennilegt hvað þessir dagar geta stundum lengst í annan endann.
Fyrir síðustu kosningar voru ótal pínu lítil brot sem kölluðu sig stjórnmálaflokka og ætluðu að komast til valda og í leiðinni að auka tekjur sínar.
Þetta með tekjurnar er að sjálfsögðu ekki í hávegum haft og kannski bara örlítið að nugga í undirmeðvitund þeirra sem búa til þessi brot.
Kannski er þetta fólk líka bara hugsjónamanneskjur í húð og hár, hver veit?
Líklega sætum við íslendingar ekki uppi með þá voðastjórn sem nú er við völd ef valdagræðgi smábrotanna hefði ekki þvælst fyrir og þau komið sér saman um einn stóran öflugan flokk fyrir fólkið í landinu.
Ég veit að þetta eru stór orð og líklega verð ég nú höggvin á stokk eða eitthvað enn verra en ég er eins og sagði í upphafi búin að vera "pissed off" í marga daga og verð að komast út úr þeim gír, hvernig svo sem ég fer að því.
Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, með nýjan formann í brúnni, virðist vera að fara inn á farsælli braut og er ég þakklát og glöð fyrir það.
Grái herinn hefur breytt um tón, farinn að syngja í tón um Lífeyrissjóðs greiðslur, sýnist mér, sem er hið allra besta mál og líklega það sem mestu máli skiptir fyrir eldri borgara í bili.
Þá eru það litlu brotin sem ekki komust að í kosningunum. Þau eiga sér skelegga talsmenn sem nú eru farin að tala út og suður um allt mögulegt og æpa manna hæst um lögsókn að allt sem nöfnum tjáir að nefna.
Ég efast stórlega um að þeir sem hæst æpa séu yfirleitt sæmilega læsir á lög hvað þá að þeir viti yfirleitt hvernig t.d. skattamál ganga fyrir sig. Þetta byggi ég á umræðum sem ég hef séð og fullyrðingum þar sem vitnað er í lög og þau túlkuð með þvílíku hugmyndaflugi að gæti gagnast þeim sem ætlar að skrifa brandarabók um íslenskt skattakerfi, eða þannig.
Nokkur dæmi um fullyrðingarnar:
Lífeyrissjóðirnir stela af okkur staðgreiðslunni
Staðgreiðsla er tekin af lífeyrissjóðs greiðslum og henni aldrei skilað til ríkisins, Tryggingastofnun er líka þjófurinn.
Svona er þetta í raun: t.d. ef ég er á vinnumarkaðinum
Ég greiði í lífeyrissjóð
Áður en staðgreiðsla er reiknuð af launum mínum er greiðsla í sjóðinn dregin frá launaupphæðinni og síðan er staðgreiðsla reiknuð.
Launagreiðandi skilar staðgreiðslunni minni til ríkissjóðs
Ef ég er að fá greiddan lífeyri úr lífeyrissjóði borga ég staðgreiðsluskatt af þeirri upphæð vegna þess að ég hef ekki áður greitt staðgreiðslu af framlagi í sjóðinn. Þetta er samkvæmt lögum sem alþingi setti fyrir allmörgum árum. Ég ætla ekki að flækja þetta í bili.
Lífeyrissjóðurinn dregur þessa staðgreiðslu af mér, þ.e. af eftirlaununum mínum, og skilar henni eins og lög gera ráð fyrir til ríkisins.
Skattfríðindi sjóðanna sjálfra koma mínum greiðslum á staðgreiðslu ekkert við. Niðurstaða: Lífeyrissjóðurinn geymir ekki staðgreiðsluna mína, hann borgar hana í hverjum einasta mánuði.
Semsagt hér er hægt að hætta að hrópa eins og vitleysingur um þjófnað sem á sér ekki stað.
Það sorglega við svona málflutning pínulítilla pólitískra flokka sem segjast vera að vinna fyrir fólkíð í landinu er að margir eru ekki læsir á lög. Lög eru flókin og ég ætla mér ekki þá dul að ég sé læs á þau en ég skil þó einföldustu hluti.
Fólkið sem les fullyrðingar eins og þessa um þjófnað lífeyrissjóða kerfisins trúir þessu bévaðans bulli (fyrirgefið orðbragðið,mig langar til að nota miklu sterkara orð en fell ekki fyrir freistingunni að þessu sinni).
Það nýjasta er að nú skal fara í mál út af öllum sköpuðum hlutum og sækja peninga til ríkisins, sem það hefur stolið af almenningi.
Einmitt, ég velti fyrir hvernig pínulítill flokkur sem er ekki einu sinni á þingi hefur efni á öllum þessum málsóknum. Eiga svona brot fullt af peningum? Ég bara spyr eins og hálfviti.
Væri nú ekki einu sinni vænlegra til árangurs að sameinast um eina málssókn. Þá sem lýtur að því að fá leiðréttingu á áratuga raunverulegum þjófnaði kerfisins frá lífeyrisþegum?
Þetta hlýtur að vera þverpólitískt réttlætismál sem snertir alla.
Kannski væri gott fyrir þá sem nú vilja fara í mál út af öllu mögulegu að kynna sér sögu lífeyriskerfisins frá upphafi. Þá meina ég að kynna sér málið almennilega en ekki lesa bara það sem hentar hverjum og einum. Hvert var markmiðið með stofnun lífeyrissjóða og hvar eru þeir staddir í dag? Hvers vegna og hvar á leiðinni var ekið út af?
Upphrópanir eru eingöngu til múgæsinga fallnar. Þær gera ekkert gang og þær safna ekki einu sinni atkvæðum!
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2017 | 16:05
Barátta fyrir réttlæti, virðingu og sanngirni !
7.mars 2017
Fyrirsögnin er ekki mín. Hún er það sem Helgi P. talsmaður Gráa hersins viðhafði á Húsavík. Þetta virðist vera logo hersins.
Auðvitað er ekkert nema gott um svona áform að segja og þetta eru undur falleg orð.
Nú virðist herinn vera að fara í herferð um landið, eða það er allavega mín ályktun.
Þessi herferð gæti verið, ef ég legg út frá þeim orðum talsmannsins sem hafa verið birt, barátta og peningasöfnun fyrir lögsókn á hendur ríkinu fyrir að skerða áunnin réttindi úr Lífeyrissjóðum til þess að greiða fyrir ellilaun frá Tryggingastofnun.
Formaður Framsýnar á Húsavík gaf loforð fyrir 100.000 króna styrk til Gráa hersins ef til málaferla kæmi.
Þá álykta ég auðvitað að Grái herinn sé farinn í fjársöfnun og ætli kannski í mál við Ríkið.
Það sem vakti athygli mína í þessum skrifum, eða birtingu á málflutningi talsmanns hersins, var að skerðingar vegna vinnuframlags virðast hafa vikið aðeins til hliðar í málflutningnum og er ég auðvitað himinlifandi yfir því.
Það hefði verið ægilega spennandi ef herinn hefði gefið út yfirlýsingu þar sem hann segðist nú leggja upp í herferð um landið til þess að kynna málefni aldraðra !
Ég ætla ekkert að vera með gagnrýni á það sem vel er gert en mikið má herinn halda vel á spöðunum til þess að vinna traust allra eldri borgara.
Auðvitað er sumum eldri borgurum alveg nákvæmlega sama um einhvern hóp innan FEB í Reykjavík. Það er fullt af eldri borgurum sem hafa það fínt og láta sér ekki koma við þó einhver örfá þúsund gamalmenna og eldra fólks berjist í bökkum.
Var ekki birt nýlega upplýsandi könnun um að 70% af eldri borgurum hefðu það bara fínt? Ég man ekki betur en hafa séð eitthvað slíkt fljóta fyrir.
Ein vinkona mín sagði um daginn að hún væri orðin svo þreytt á þessu endalausa tali og skrifum um kjör eldri borgara og öryrkja.
Mikið skil ég hana vel. Mig langar oft til þess að vera bara skemmtileg og skrifa um ævintýri og spennandi hefðir sem ég hef kynnst hingað og þangað í heiminum. Það er þó eitthvað sem dregur mig áfram og lætur mig ekki í friði þegar ég þykist vera orðin þreytt á öllum þessum barlómi um kjör þeirra sem eiga ekki mikinn stuðning í þjóðfélagi bullandi gróða fárra.
Ég er hins vegar hálf hrædd um að frekjugangur og heimtufrekja sé ekki vænlegur til árangurs.
Þegar við hugsum um þá sem vinna á lágmarkstöxtum, ef við hugsum einhvern tíman um þá, blasir við gengdarlaust óréttlætið.
Það er von að vinnandi fólk varpi fram spurningu um hvort það borgi sig yfirleitt að vera að koma sér til og frá vinnu með ærnum kostnaði og bera kannski nokkra tugi þúsunda úr býtum þegar skattar og ferðakostnaður ásamt húsaleigu hefur verið greiddur.
Það er flott að skrifa endalaust um að ellilaun eigi að vera hálf milljón á mánuði.
Er það hins vegar raunhæft, og til þess að sameina þjóðina á meðan lægstu laun eru ekki til mannsæmandi framfærslu?
Það þarf að gæta þess að etja ekki hópum saman.
Það er nefnilega þannig að fleiri en öryrkjar og eftirlaunaþegar flýja landið. Unga fólkið flýr ekki síður.
Kannski verður Íslandi bráðum eins og Portúgal. Bæirnir tæmast, unga fólkið flytur og eftir sitja gamlingjarnir og hinir vellauðugu.
Er það óskastaða Íslands?
Er ekki kominn tími til þess að allir í landinu geti lifað af mánuðinn?
Eitthvað mikið þarf að gerast til þess að breyta hugsunarhætti heillar þjóðar sem virðist láta hvað sem er yfir sig ganga og notar vopnið sem hún hefur, eina vopnið, kosningaréttinn til þess að halda ástandinu við og gæta þess að ekkert breytist.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2017 | 09:37
Hvernig er best að koma sér fyrir
6.mars 2017
Þegar flutt er úr landi er að mörgu að hyggja. Ég flutti ekki frá Íslandi til Portúgal en ég þurfti að koma mér fyrir hérna og setja líf mitt í fastar skorður.
Ég var heppin og fékk frábæra aðstoð frá heimamönnum.
Ég leigði til að byrja með en fann fljótlega íbúð sem uppfyllti allar kröfur mínar, hún var stór, án þess að virðast vera stór, björt og útsýnið himneskt með fuglasöng í trjám rétt fyrir utan svalirnar mínar.
Það tók mig tíma að sætta mig við kúltúrinn (ekki sérlega góð íslenska þetta) hérna og mér fannst ég vera að deyja andlega. Ég reyndi að selja íbúðina en í því fjárhags umhverfi sem er í landinu tókst það ekki og við tók svolítill tími þar sem ég gerði upp við mig að þetta væri framtíðar heimili mitt og til þess að næra andlega þörf mína fyrir nútíma listir og andlega næringu yrði ég að finna farveg, sem ég og gerði.
Það tók stuttan tíma að koma öllum praktískum málum í gott horf. Ég stofnaði bankareikning og gekk frá málum hjá vatnsveitu og rafmagnsveitu og síma eftir að ég hafði keypt íbúðina og flutt inn. Það er nokkur skriffinnska í kringum alla hluti hérna og til þess að geta sinnt því sem þarf að gera er nauðsynlegt að hafa Fical númer sem ég fékk hjá Bæjarskrifstofunni hér í bæ. Það var auðvelt.
Ég komst að því frekar fljótt að heppilegt væri að finna mér góðan lögfræðing til þess að aðstoða mig við ýmis mál. Það sparaði mér bæði tíma og peninga og fyrsta árið voru þær með í öllu skipulagi og pappírsvinnu hjá því opinbera.
Þær komu með mér til tryggingafélagsins og á heilsugæsluna. Á heilsugæslunni var ekkert mál fyrir mig að fá mig skráða en það virðist vera flókið fyrir Bretana hérna.
Dvalarleyfi, eða recidence permission, fékk ég til fimm ára og við endurnýjun til 10 ára.
Social security númer þarf að hafa hérna og það er á enn einum stað. Síðan þurfti ég að fá sérstakt leyfi til að keyra bíl hér í landi og sótti lögfræðingurinn minn um það fyrir mig en nú er ég komin með portúgalskt ökuskýrteini og endurnýja það á 2ja ára fresti vegna aldurs. Ég gat valið hvort ég vildi hafa áfram íslenskt ökuskýrteini en þar sem ég fer aldrei aftur til Íslands var það ekki inni í myndinni.
Ég gerði erfðaskrá og naut þar aðstoðar lögfræðinga minna og góðra vina í landinu.
Living will gerði ég á síðasta ári og er það nú heimilt hér í landi og hefur færst í aukana að Portúglar geri slíkt.
Það er ríkisrekinn banki hér í landinu og vilja þeir ekki útlendinga í viðskipti en nokkrir einkabankar eru starfandi og þeir taka við útlendingum án nokkurra vandkvæða. Ég er mjög ánægð með þá þjónustu sem minn banki hefur veitt mér frá upphafi. Ég greiði alla reikninga mína beint í gengum bankann, nema gasið. Sú sem sér um að selja mér gasið er í viðskiptum við ríkisbankann en ég ekki og kostar það hana að fá greiðslu í gegnum annan banka. Svolítið einkennilegt en svona er þetta og ég heimsæki þau bara einu sinni í mánuði til þess að greiða reikninginn.
Kaupin á íbúðinni fóru í gegnum fasteignasala sem reyndist mér vel og öll vinna við það fór eiginlega framhjá mér. Ég mætti á Notari skrifstofuna með seljendum og fasteignasalanum og allt var þýtt fyrir mig yfir á ensku en hér eru allir pappírar undantekningalaust á portúgölsku. Ég borgaði og fékk lyklana og eftir það var vinnan við rafmagn, vatn og síma sem ég gat sinnt sjálf.
Ég réð endurskoðanda til þess að gera fyrir mig skattskýrslu hér, því sú framkvæmd er ekki fyrir óvana! Ég borga henni 10 evrur sem er ekki neitt og margfalt þess virði.
Núna sé ég sjálf um flest mín mál en lögfræðingarnir eru orðnar góðar vinkonur mínar og ég leita til þeirra þegar ég þarf.
Ég var óánægð með heilsugæsluna hérna í bæ og hef alltaf verið, frá upphafi. Heimilislæknirinn minn fyrrverandi er fífl, í orðsins fyllstu merkingu, en ég var svo heppin að brjóta á mér öxlina í október og komst þá í kynni við lækninn minn sem skar mig upp og maðurinn hennar, sem er heimilislæknir í öðru bæjarfélagi, er búinn að taka mig að sér. Hann er frábær og alvöru læknir. Ég þarf að keyra tæpan hálftíma á nýju stöðina en það er vel þess virði. Svona atriði skipta máli og var ég ekki lítið hamingjusöm þegar skurðlæknirinn minn hitti mig og ég gat sagt henni að nú væri ég búin að hitta manninn hennar og við hefðum smollið saman. Fyrirkomulagið í landinu hefur breyst og maður er ekki rígbundin af því að sækja heilsugæslu í bæjarfélaginu, en þannig var það þegar ég kom hingað fyrst.
Ég held að ég hafi talið upp flest af því sem ég þurfti að ganga frá við flutninginn en segi frá því síðar hvernig viðskipti við Tryggingastofnun og Skattstjóra á Íslandi ganga fyrir sig hjá mér.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2017 | 12:06
Sunnudagsrigning í Portúgal
5.mars 2017
Sunnudagur og það rignir og rignir og rignir.
Rigningin er góð því þetta ár hefur verið óvenjulega þurrt en öllu má nú ofgera.
Stjúpurnar á svölunum eru að drukkna!
Þegar íslendingar tala um að flytjast í sólina og flýja snjóinn þá er eitt og annað sem þarf að taka með í reikninginn þegar farið er t.d. til Spánar eða jafnvel Portúgal. Það eru ekki margir eftirlaunaþegar hér í Portúgal. Ræðismaðurinn var með einn íslending sem hún mundi eftir þegar ég var hjá henni ekki fyrir mjög löngu. Þessi eini rak fyrirtæki hérna og var að selja saltfisk, hélt hún.
Húsin hérna eru mörg hver og líklega flest þeirra eldri án einangrunar og byggingarefnið götóttir rauðir leirsteinar. Sumir steinarnir eru aðeins þykkari en aðrir en allir með götum til þess að hitinn geti smogið inn.
Í seinni tíð er aðeins farið að bera á því að svolítil einangrun sé sett í húsin og ef byggt er úr timbri, sem er rétt að byrja hérna, þá eru þau einangruð.
Vissulega er hér ekki mikill snjór en það getur orðið glettilega kalt hérna yfir veturinn. Oft á tíðum er frost yfir nætur og nota landar mínir vatn til þess að bærða klakann ef þeir þurfa að fara snemma til vinnu. Sköfur þekkjast ekki hérna á meginlandinu.
Á föstudaginn voru aksturskilyrði ekki ólík því sem gerist yfir veturinn á Íslandi. Rigning og hagl til skiptis en stórar rákir eru í vegunum og ekki mikið mál að fljóta upp rétt eins um flughálku væri að ræða. Sem betur fer óku flestir gætilega þennan dag en stundum verður mér um og ó þegar rigningin lemur bílgluggann og ökumenn þeytast á yfir hundrað kílómetra hraða eins og enginn sé morgundagurinn.
Hjá okkur í miðju Portúgal kemur sumarið stundum snemma með fallegu vori en í fyrra var ég með logandi arinn fram í miðjan maí. Næstu daga verður þetta svona: 14 stig í dag, 17 stig á mánudag og þriðjudag og 25 stig á miðvikudag 24 á fimmtudag og dettur svo aftur niður á föstudag og kólnar dag frá degi. Semsagt umhleypingar en ég hlakka til að geta farið í sumarkjól á miðvikudaginn og kannski líka á fimmtudag!
Í haust lét ég loka hjá mér svölunum, sem eru rúmlega 10 metra langar, með glervegg og hefur það breytt ástandi innanhúss þennan vetur. Kostaði framkvæmdin fúlgu fjár en ég reikna með að spara í hitunarkostnaði og þá borgar þetta sig upp á nokkrum árum. Nú er vind hliðin, sú verri, ekki eins köld og gróðurinn lætur ekki tækifærið frá sér fara. Orkideur sem aldrei hafa þrifist hjá mér eru nú eins og fegurðardísir, hver á eftir annarri að brosa framan í mig og heiminn. Áður dóu þær allar og á framhlið hússins eru stjúpurnar núna að drukkna.
Þegar íslendingar, og sérstaklega eftirlaunaþegar eða öryrkjar, hyggja á flutning til heitari landi mundi ég ráðleggja þeim að velja Spán. Þar eru íslendinga byggðir í frekar ódýrum landshlutum og gæti verið auðveldara hvað varðar málið. Það má gera ráð fyrir að Spánverjar tali ekki mikla ensku, alla vega ekki á þeim stöðum sem ódýrt er að lifa.
Á aðal ferðamannastöðunum eru fleiri sem tala ensku en þar er verðlag líka hærra.
Að leigja í byrjun er góður kostur því fólk finnur hvort því líkar staðurinn og hvernig gengur að aðlagast breytingunni.
Í bili er gengi krónunnar ótrúlega hagstætt og gaman að fá millifærsluna en svo getur allt hrunið á Íslandi og gengið farið út og suður. Ég held samt að fyrir þá sem eru að lepja dauðann úr skel þá sé flutningur ekki slæmur kostur, jafnvel þó gengið breytist. Það er mun ódýrara að lifa t.d. á Spáni, og veðurfarið er ólíkt hagstæðara á margan hátt. Vetrarfötin koma sér þó vel og íslenska lopapeysan hefur oft bjargað mér yfir háveturinn og jafnvel fram á vorið.
Það er auðvitað til háborinnar skammar fyrir ráðamenn að fólk sé að velta því fyrir sér að rífa sig upp með rótum vegna þess að ekki sé hægt að lifa mannsæmandi lífi á landi þar sem nóg er til af peningum. Svona er þetta samt og ekki sýnist mér útlit fyrir miklar breytingar í bili.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)