Færsluflokkur: Bloggar

22 ára alþingismaður tekur sæti á þingi núna?

24.apríl 2017

Nýr þingmaður hefur líklega skrifað undir drengskaparheit sitt í dag.

Þessi ágæti þingmaður er fæddur 1995 svo hann er 22 ára gamall.

Ég er búin að renna í gegnum Facebook síðu hans til þess að sjá hver er að bætast í hópinn.

Þessi ágæti þingmaður er fyrir Viðreisn.

Ég leitaði grannt eftir ummælum sem tækju á málefnum öryrkja og eldri borgara.

Fann eitt innlegg um hvernig fækka mætti öryrkjum. Bæta sálfræðiþjónustu var lausnin.

Ég fann ekkert um eldri borgara annað en að hann hafði misst afa sinn.

Nú velti ég því fyrir mér í fullri alvöru hvort 22 ára maður hafi þá lífsýn og reynslu sem nauðsynleg er til þess að taka ákvarðanir fyrir heila þjóð, ákvarðanir sem geta verið upp á líf og dauða einstaklinga.

Ungi maðurinn getur skrifað fallega og gerir það. Hann er ábyggilega hinn besti drengur og leggur stund á stjórnmálafræði við Háskólann.

Ég veit ekki hvaðan hann kemur en hann er greinilega alveg að fíla Viðreisn í botn.

Eins og flestir vita þá er ég nú ekki í einu og öllu sammála þeim sem dásama þennan nýja flokk og vona að hann eigi ekki langt líf fyrir höndum, það er sem flokkur. Ég óska ekki flokksmönnum neins ills.

Húsaleigubætur vinar míns sem voru fyrir breytingu 50.000 á mánuði lækkuðu niður í 12.000 og hinn ágæti ráðherra velferðarmála kom eins og frelsandi engill og leiðrétti óréttlætið. Ráðherrann er Viðreisnar maður.

Eftir leiðréttinguna fær vinur minn 15.000 krónur í húsaleigubætur.

Leiðréttingin dásamlega hjá englinum sem situr í ráðherrastóli velferðarráðuneytisins er lækkun um hvorki meira né minna en 35.000 krónur á mánuði frá því fyrir breytingu á lögunum.

Ég verð að segja það að mér þykir lítið fyrir svona framkvæmdir gefandi.

Auðvitað er dásamlegt að geta talað flott og skrifað fínar greinar en þegar kemur að því að halda utan um heilt þjóðfélag eru flottar tilvitnanir ekki það sem fólkið borðar.

Einhver sagði að alþingi væri fullt af krökkum sem hefðu takmarkaða reynslu af lífinu. Ég held bara, svei mér þá, að ég fari að hallast að því að eitthvað sé til í þessu.

Væri ekki ágætt að setja aldurs takmörk á þá sem geta sest á hið háa alþingi og tekið ákvarðanir sem skilja oft á milli lífs og dauða þjóðarinnar?

35.000 krónurnar sem vinur minn missti við breytinguna, (jafnvel þó hann hafi fengið hækkun úr 12.000 í 15.000, heilar þrjú þúsund krónur,) hefðu komið sér vel fyrir hann þegar hann verslar í matinn.

Getur það verið að þingmenn og ráðherrar skilji ekki svona lágar tölur?

Ég er bara að reyna af fremsta megni að skilja hvernig í veröldinni stjórnmálamenn bæði til hægri og vinstri geta verið svona yfirgengilega út úr takti við raunverulegt líf í landinu.

Er það skýringin? Stjórnmálamenn skilja bara háar tölur. Þeir skilja hvað það er erfitt að draga fram lífið af tólf hundruð þúsund krónum á mánuði, en geta ekki skilið af hverju fólk, með tvöhundruð tuttugu og átta þúsund sjö hundruð þrjátíu og fjórar krónur, er að kvarta.

Ef þetta er skýringin þá ætti að vera auðvelt að bjóða þingheimi að heimsækja þá sem lifa lúxuslífinu óskiljanlega af lágu laununum.

Eru ekki einhverjir sem væru til í að bjóða liðinu til dæmis í helgar mat? Bara einu sinni. Það þarf ekki nema 61 heimili til.

Bara hafa venjulegan mat og kaffi. Ef venjan er að hafa kattamat úr dós í sunnudags hádegis mat þá fær þingmaðurinn það.

Svo geta gesturinn og heimilisfólkið spjallað saman í rólegheitum eftir matinn og borið saman bækur sínar. Borið saman hvað það er hrikalegt að þurfa að draga fram lífið af tólfhundruð þúsundum á mánuði og borga skatta og alles, og dásamað hvað það er miklu auðveldara að lifa í lúxusnum með rúmar tvö hundruð þúsund og þurfa að borga skatta, sem láglaunafólk gerir auðvitað með bros á vör.

Ég ætla ekkert að tala um þá sem eru komnir á eftirlaun þingmanna og ráðherra. Það líf er auðvitað alveg fyrir neðan allar hellur og engum bjóðandi.

Hulda Björnsdóttir

 


Er nauðsynlegt að greiða skatta? Er staðgreiðsla skatta gott mál?

24.apríl 2017

Ég fæ stundum ábendingar um að ekki þurfi að greiða skatta til samfélagsins. Fyrir nokkrum árum var fullyrt við mig að hér í Portúgal ættu eftirlaunaþegar ekki að greiða skatta. Viðkomandi var með þetta algjörlega á hreinu og leiðin til þess að komast hjá því að borga til samfélagsins var að búa í Portúgal.

Staðreyndin er hins vegar sú að Frakkland og Portúgal hafa gert með sér samkomulag um að eftirlaunaþegar sem búsettir eru hér í landi séu skattfrjálsir.

Í Noregi er mér sagt að eftirlaunaþegar borgi ekki skatt af eftirlaunum sínum. í Noregi. Þeir borga skattana á Íslandi af íslenskum eftirlaunum. 

Kínverjar sem fjárfesta hér í Portúgal þurfa ekki að greiða skatta. Fjárfestingin þarf að vera nokkuð álitleg en svona er þetta gert til þess að laða hingað erlent fjármagn.  Heimamenn eru margir ævir út í fyrirkomulagið og nokkra kannast ég við sem borða til dæmis ekki á veitingastöðum Kínverja til þess að mótmæla þessu fyrirkomulagi.

Stjórnarherrarnir komu hver á fætur öðrum í sjónvarpinu fyrir ekki mörgum árum og lýstu því yfir að allir útlendingar sem fjárfestu hér ættu að vera skattfrjálsir og gekk þetta svo langt að lögfræðingur sem ég hitti á förnum vegi vildi ganga í málið fyrir mig. Auðvitað voru þetta innantóm loforð og rugl sem skýtur stundum upp kollinum rétt fyrir kosningar.

Ef enginn greiðir skatta til samfélagsins hvernig á að fjármagn heilsugæslu, skóla, löggæslu og aðrar stofnanir sem þurfa að vera til staðar svo hægt sé að láta allt ganga upp?

Þeir sem eru á móti skattgreiðslum halda líklega að peningar vaxi á trjánum, eða jafnvel að þeir séu duglegir eins og illgresið sem skýtur upp kollinum vítt og breitt um allt.

Svo eru þeir sem skilja ekki að ríkið er fólkið. Ríkið er ekki eitthvað sem flýgur yfir og sest annað slagið til þess að fá sér að borða.

Heyrist ekki stundum? Þetta kemur okkur ekkert við, ríkið borgar!

Fólk sem hugsar svona þarf líklega að koma sér niður á jörðina og hætta að búa uppi í skýjunum.

Þá er ég líklega búin að ausa nóg úr skálum örvæntingar minnar og mál til komið að tala um það sem ætlaði að tala um.

Ef þú ert íslenskur eftirlaunaþegi sem þiggur eftirlaun frá Íslandi, og heldur að þú þurfir ekki að greiða skatta, þá legg ég til að þú talir við ríkisskattstjóra.

Tryggingastofnun sér til þess að þú skilir inn skattskýrslu frá búsetu landi þínu. Stofnunin fylgist með því að þú sért ekki dauð eða dauður. Sért þú svo heppinn að búa í landi sem tekur ekki skatt af eftirlaunum kemur Tryggingastofnun með klóna sína og tekur af þér skatt.

Búir þú hins vegar í landi þar sem þú ert skattskyldur, sama hvaðan tekjurnar þínar koma, þá þarftu að sanna fyrir ríkisskattstjóra að þú greiðir skatt í búsetulandinu. Þetta er nú ekkert flóknara en svona. Ef einhver heldur öðru fram þá ráðlegg ég öllum að hafa samband við ríkisskattstjóra á Íslandi.

Heima hjá mér borgum við skatta einu sinni á ári. Það er ekki staðgreiðsla hér í landi. Til þess að eiga fyrir álagningunni í ágúst þarf að leggja fyrir í hverjum mánuði og þykjast búa við staðgreiðslu skatta. Ekki sérlega flókið, en þarf aðeins aga og ekki gott að fara á kaupfyllerí eða að fá svoleiðis æði. Ég passa upp á þetta því annars þarf ég að borga sektir og þá peninga gæti ég notað í eitthvað skemmtilegt.

Á Íslandi er eins og allir vita í gildi staðgreiðsla skatta þar sem tekið er í hverjum mánuði 22,5% af innkomu í skattþrepi 1 og persónuafsláttur sem er núna kr. 52.907 á mánuði dregin frá. Mismunurinn er það sem greiða skal og leggur launagreiðandinn upphæðina inn hjá skattyfirvöldum í hverjum mánuði. Launagreiðandinn er í tilfelli þeirra sem eru komnir á eftirlaun venjulega Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóðir.

Skattpeningarnir eru svo nýttir til þess að reka þjóðfélagið. Þetta vita auðvitað margir en þeir sem halda að ríkið reki sig sjálft hafa aðrar hugmyndir.

Ef þið eruð að hugleiða að flytja úr landi og taka ykkur búsetu þar sem auðveldara er að lifa af naumt skömmtuðum eftirlaunum íslenska velferðakerfisins ráðlegg ég ykkur að hafa í huga að hvar sem þið eruð komist þið aldrei hjá því að greiða skatta af innkomunni.

Íslenska velferðakerfið sér um sína og passar upp á að ALLIR greiði keisaranum það sem keisarans er. Fullyrði einhver við ykkur að hann eða hún borgi ekki skatta neins staðar er viðkomandi að svíkja undan skatti og svindla á kerfinu og það er ekki gott mál.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Bótasvik. Er það eitthvað sem þarf eða má tala um?

23.apríl 2017

Ég ætla að skrifa nokkrar greinar þar sem ég velti fyrir mér eftirfarandi:

Bótasvikum

Staðgreiðslu skatta

Frískattkorti

Skattkorti

Tvísköttun

Persónuaflsætti

Heildartekjum

Ellilífeyri

Það virðist vera að margir geri sér ekki almennilega grein fyrir hvernig lögin virka fyrir þá sem búa erlendis, enda ekki sérlega aðgengilegar upplýsingar á einum stað.

Það eru nokkrar leiðir til þess að finna út hvað gera þarf þegar eftirlaunaþegi tekur þá ákvörðun að flytja úr landi til þess að geta lifað sæmilegu lífi síðasta fjórðung ævinnar.

Eins og við vitum er ellilífeyrir ekki neitt óskaplega hár en hann getur þó nýst sæmilega til dæmis á Spáni þar sem margir íslendingar búa nú.

Ástæða þess að ég tala um eftirlaunaþega en ekki örorkulífeyrisþega er einföld. Ég þekki ekki nægilega vel til þeirra reglna sem gilda um örorkulífeyri í hinum ýmsu löndum og vona að þeir sem búa yfir þeirri þekkingu deili henni með okkur.

Ég geri ráð fyrir að flestir sem hafa flutt eða eru að íhuga flutning fylgi lögum og reglum, séu löghlýðnir borgarar landsins.

Tryggingastofnun ríkisins gerir ekki ráð fyrir því að fólk sé löghlýðið. Stofnunin hundeltir þá sem hafa flutt og gengur úr skugga um að ekki sé verið að heimta bætur þegar einstaklingurinn er fluttur til himnaríkis. Þetta er auðvitað alveg sjálfsagt en mér finnst þetta dæmalaust heimskulegt og skil ekki af hverju ég þarf að senda lífsvottorð á hverju ári. Væri til dæmis ekki nægilegt að ég gerði það annað hvert ár? Ég bara spyr.

Eins og hefur komið í ljós voru skýrslur um bótasvik ýktar, svo ekki sé meira sagt en hitt er þó staðreynd að eitthvað er um svona svik. Eina aðferðin sem ég þekki hjá Tryggingastofnun til þess að finna út hverjir eru að svindla, er að hundelta þá sem eru EKKI að svindla, en hafa flutt úr landi. Skýtur skökku við, finnst ykkur ekki?

Við flutning eru bætur skertar svo um munar. Ellilífeyrisþegi fær strípaðan lífeyri og ekki heimilisuppbót, sama hvort hann býr einn eða ekki. Stjórnvöld voru svo sniðug að skipta lífeyrinum í tvennt. Annars vegar er ellilífeyrir og hins vegar til viðbótar er heimilisuppbót. Þetta samanlagt gerir fallegu töluna sem velferðaráðuneytis- og forsætisráðherra stæra sig af.

Ellilífeyrir er skv.síðu Tryggingastofnunar kr. 228.734

Heimilisuppbót skv. síðu Tryggingastofnunar kr.  52.316

Samtals gerir þetta fyrir þá sem búa á Íslandi kr.281.050

Þeir sem hafa flutt og búa erlendis fá greitt kr. 228.734

Mismunurinn er kr. 52.316. Ef þú býrð erlendis færðu 52.316 krónum minna en ef þú býrð einn á Íslandi.

Þessar tölur eru auðvitað áður en reiknaður er skattur og skerðingar sem verða vegna annarra tekna t.d. greiðslna frá Lífeyrissjóði, það er sparnaði sem er lögbundinn og leggst inn í lífeyrissjóði alla starfsævi hvers og eins. Það er að segja hjá þeim sem fylgja lögum og reglum.

Auðvitað eru sumir sem vinna svart og greiða hvorki í Lífeyrissjóði eða skatta til samfélagsins. Þetta fólk fær, ef það býr á Íslandi, 281.050 krónur á mánuði í ellilífeyri áður en staðgreiðsla er reiknuð.

Svona er réttlætinu fylgt eftir á Íslandi, þeir sem hafa sparað og farið eftir lögum hafa það verra en þeir sem aldrei hafa lagt neitt til samfélagsins eða sparað. Þeir sem hafa flutt úr landi hafa það enn verra og hegningin er enn meiri.

Til þess að teljast búa á Íslandi og fá fullan ellilífeyri sem því sem tilheyrir, þarf viðkomandi að vera þar 180 daga á ári og eru margir sem gera þetta. Fólk flytur yfir veturinn til Spánar, eða annarra landa, og kemur svo til baka yfir sumarið. Þetta er algjörlega samkvæmt bókinni og allt gott og gilt. Ekkert nema frábært um þessa tilhögun að segja.

Það eru hins vegar nokkrir, ég veit ekki hve margir, en ég þekki persónulega til örfárra sem svindla á kerfinu. Þetta fólk býr erlendis og hefur ekki komið til Íslands í áratugi en er alltaf skráð til heimilis á Íslandi. Þetta ágæta fólk fær fullan ellilífeyri og heimilisuppbót, ef því er að skipta, og er sælt með sitt. Fyrst ég þekki svona dæmi af hverju tilkynni ég þau ekki? væri réttlát spurning.

Svarið er einfalt. Ég er svoddan aumingi að ég hef mig ekki í það. Ég hef hugsað málið fram og til baka en kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að ég geti ekki tilkynnt um svindlið og kyngi bara.

Það er alltaf til fólk sem svíkur út úr öllum kerfum. Það er ekkert einkennilegt þar sem kerfið er eins og það er.

Á meðan ekki verður grundvallarbreyting á skipan velferðamála á Íslandi heldur svindl áfram.

Ég held áfram að vera hundfúl vegna þess hvernig við sem búum ekki á Íslandi, en höfum greitt alla okkar starfsævi skatta til samfélagsins og sparað í Lífeyrissjóði, erum hlunnfarin í hverjum einasta mánuði.

Þegar talað er um hag lífeyrisþega og hvað þeir hafa það slæmt, sem er alveg satt, er ALDREI minnst á hópinn sem valdi að skrimta í útlöndum frekar en að deyja úr hungri á Íslandi.

Þegar ég hugsa um þetta verð ég bæði sár og reið. Hvernig er annað hægt á meðan 1% þjóðarinnar makar krókinn eins og enginn sé morgundagurinn.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


Íslenskt skyr búið til í Portúgal !

22.apríl 2017

Ég hef stundum hugsað um hvað það væri nú gaman að geta búið til skyrtertu og fært vinum mínum þegar ég kem í heimsókn.

Í gær fann ég íslenskt skyr í stórmarkaði í Coimbra. Ég var alsæl. Glorhungruð eftir að hafa eytt morgninum í sjúkraþjálfun og eftir það farið að leita að líkamsræktarstöð, sem átti að vera rétt hjá þessum stórmarkaði, en fann hana ekki.

Klukkan var farin að ganga þrjú og maginn öskraði á mig.

Þú verður að gera eitthvað manneskja! Við erum að drepast úr hungri.

Ég fór á matsölustaðina uppi á lofti í markaðinum en fann ekkert sem mig langaði í. Þá var næsta skref að rúlla niður á fyrstu hæð og inn í markaðinn. Fann pistasíur sem ég ætla að bera á borð um næstu helgi þegar fundur verður í condomíníunu mínu. Kaffi og pistasíur er það sem stjórnendur félagsins sem sér um mál hússins elska og auðvitað fá þau það því fundurinn er inni hjá mér. Þetta er nú ekki flókið.

Jæja, ég var sem sagt að labba um stóra markaðinn og eiginlega á leið út þegar ég rak augun í SKYR og fór að athuga málið. Jú, íslenskt skyr var þetta en framleitt í Portúgal. Ég ræddi aðeins við eina unga dömu sem var að kynna rétt hjá skyrinu. Hún hafði jú heyrt um þetta skyr en ekki prófað. Meðmæli sem hún hafið fengið með vörunni voru ekki sérlega góð.

Auðvitað tók ég ekki mark á svoleiðis. Ég vissi að skyr er ofboðslega gott. SKYR var á leiðinni heim með mér og ég hlakkaði ekkert smá til. Jammi. Ég átti líka bláber sem ég gæti sett út á ef afurðin væri hrein. Ótrúlegt! Skyr í Portúgal! Ég var í sjöunda himni.

Rétt hjá skyrinu var borð með ótal ostum. Ég er veik fyrir geitaosti og þarna voru þeir í öllum mögulegum útgáfum. Ég fann einn sem var með kryddjurtum og einhverju og ákvað að taka með heim og sjá hvernig reyndist. Virtist ekki vera OF sterkur, maginn á mér er blæðandi og mér hefur verið bannað að borða hitt og þetta. Geitaosturinn fór samt með mér heim, bara svona einu sinni hugsaði ég.

Ég komst heim á endanum, máttlaus af hungri, viðþolslaus af tilhlökkun með SKYR í poka. Nú skyldi slegið upp veislu.

Tók lokið af dollunni.

Hristi hana og eitthvað skvettist fram og til baka.

Bíddu, var skyr svona þunnt? hugsaði ég.

Hnífur í hönd og pappírinn fór af.

Jesús minn, þetta var ekki skyr.

Þetta var eins og æla.

Ég lyktaði. Súrsæt lykt gaus á móti mér.

Smakkaði aðeins.

OJJJJJJ bara, ógeðslegt, sætt og lap þunnt, ekki einu sinni eins og versta jógúrt.

Hvað er þetta? hugsaði ég og grét næstum af vonbrigðum.

Las aftur utan á dolluna, jú þetta var íslensk skyr búið til í Portúgal úr portúgölskum beljum með íslensku leyfi.

Næst þegar ég fæ mér skyr þá geri það svona:

Bið vinkonu mína á Íslandi að kaupa fyrir mig skyr og setja í póst með DHL. Pakkinn kemur daginn eftir og ég get fengið ALMENNILEGT SKYR en ekki svona viðbjóð.

DHL er frábært, það flytur til mín sendingar frá Íslandi og maðurinn sem keyrir þekkir mig núna. Hann hringir og segist vera á leiðinni eftir 10 mínútur og kemur eftir 15 mínútur. Við erum jú í Portúgal. Boa tarde og alles og ég kvitta. Opna svo pakkann og fæ mér skyr, almennilegt, alvöru íslenskt skyr og kannski rjóma. Já, ég ætla að fá rjóma líka. Skata, harðfiskur og hákarl gætu líka fylgt.

Húrra, ég er búin að uppgötva hvernig ég get fengið, einu sinni á ári eða svo, almennilegan íslenskan mat. Þegar ég verð búin að safna fyrir skattinum hérna þá geri ég þetta.

Dásamlegt og deginum bjargað hjá mér. Ég opnaði geitaostinn og hann var unaðslegur, svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Ekki of sterkur en alveg himneskur. Í hádegismat varð semsagt ekki íslenskt skyr, það var geitaostur með kryddjurtum og ávextir með kínversku tei. Kannski ekki sérlega hollur hádegisveður en maginn var ánægður og fann ekki mikið til. Það verður jú að hugsa vel um heimilisfólkið jafnvel þó það sé með einhver mein innan í sér!.

Hulda Björnsdóttir

 


Heilsugæsla , ætti hún ekki að vera fyrir alla?

21.apríl 2017

Heilsugæsla er svo ótrúlega mikilvæg þegar maður þarf á henni að halda.

Að lesa um hvernig komið er fyrir spítalanum á Íslandi og hvernig þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði hefur rokið upp úr öllu valdi í tíð hinnar dásamlegu nýju ríkisstjórnar er hálf ömurlegt.

Ég þakka fyrir að hafa haft mig burt frá Íslandi á réttum tíma og slepp því við að upplifa á eigin skinni hvernig verið er að éta innan úr kerfinu, og bjartur litli fer þar ekki síðastur.

Í október á síðasta ári var ég svo óheppin að brjóta á mér öxlina og handlegg. Síðan þá hef ég verið undir læknishendi og allt gert sem hægt er til þess að koma mér aftur í gang.

Ég þurfti að fara í tvo uppskurði út af þessu fjárans falli og auðvitað tekur tíma að hressa mig við.

Frá upphafi hef ég notið bestu þjónustu sem hægt er að hugsa sér. Ég bý í fátæku landi en hér er hugsað vel um veika fólkið. Nú hef ég verið í sjúkraþjálfun í marga mánuði og er að ná mér smátt og smátt.

Í gær fór ég í heimsókn til þjálfarans míns í Covoes og hitti þar starfsfólk og sjúklinga og varð fagnaðarfundur. Það er nefnilega þannig hér að á svona stofnunum myndast sterk tengsl. Þó ég hafi flutt frá spítalanum í Covoes yfir í Coimbra haldast tengslin og ný myndast í vatnsmeðferðinni á spítalanum í Coimbra.

Ég fór í viðtal hjá lækninum í gær og hún ætlar að láta mig hafa 10 skipti í viðbót sem er óvenjulegt og afar rausnarlegt. Ég er þakklát fyrir það og mér verður hugsað til læknisins á Íslandi sem sagði, þegar ég bað hann um að fá tilvísun í sjúkraþjálfun, að aldrei hefði hann farið í sjúkraþjálfun og ég hefði ekkert með það að gera. Þetta var fyrir um 20 árum og ekki veit ég hvort þetta fífl er enn að vinna, en þykir það þó trúlegt. Hann sagði mér líka að ég væri ímyndunarveik þegar ég hafði verið með opið sár í 2 ár og eftir að ég leitaði til annars læknis kom í ljós að ég var með krabbamein. Þetta var fyrir mörgum árum en ég velti því enn og aftur fyrir mér hvernig ástandið er á landinu í dag. Hefur það versnað?

Líklega er það enn verra og þeir sem þurfa að draga fram lífið á lágmarkslaunum eða bótum frá Almannatryggingakerfinu hafa ekki efni á því að leita læknis. Getur þetta verið? Já, ég held að það sé meira en líklegt. Það hljómar ekki vel að í landi sem allt veður í peningum skuli vera til hópur af fólki sem yfirstéttin vonar að leggi upp laupana og hægt sé að troða ofan í moldina sem allra fyrst.

Þeir sem sitja við stjórnvölinn hugsa um eigin hag og maka krókinn en hvað með þá sem eru í stjórnarandstöðu? Gera þeir eitthvað til þess að mótmæla því hvernig farið er með dágóðan hluta íbúa landsins? Eru þeir kannski svo sælir af launum sínum að þeir leggja ekki í að rífa sig þannig að gagn sé af?

Mér verður oft hugsað til þeirra sem eru sjúkir á Íslandi og ég prísa mig sæla að búa í landi þar sem hlúð er að mér þegar ég veikist og þarf á hjálp að halda.

Kunna menn eins og heilbrigðisráðherra og velferðaráðherra kannski ekki að skammast sín?

Þarf fólk sem sest á alþingi Íslendinga að vera samviskulaust og gefa skít í þá sem þurfa á hjálp að halda?

Mér finnst ótrúlega aumingjalegt af stjórnarandstöðu að sitja hjá við atkvæðagreiðslu mikilvægra mála.

Mér finnst líka aumingjalegt að láta bjóða sér þau vinnubrögð að ekki sé hægt að lesa yfir lög áður en þau eru samþykkt.

Það er ágætt að skrifa á Facebook að vinnubrögð hafi komið á óvart. Hah! Á hinu háa alþingi á ekki að líðast að vera með innantómt málæði sem skiptir engu máli og er einungis til þess að vekja athygli ræðumanns á hversu dásamlega hann eða hún hljómar í þingsal.

Fólkið í landinu, hinn almenni kjósandi á heimtingu á því að þingheimur vinni fyrir launum sínum. Þetta fólk er á kaupi hjá þessu þreytandi fólki sem kallast landslýður og er ekki í flokki prinsa og kökubakara, hvað þá gulra loddara sem láta sig hverfa svo ekki sé verið að spyrja óþægilegra spurninga.

Skömmin er mikil.

Skömmin er ekki almennings.

Skömmin er þeirra sem þykjast vera að vinna fyrir fólkið í landinu, en virðist allt vera með sama rassinn undir sér og skarar að eigin köku.

Ég hef ótrúlega skömm á vinnubrögðum þingheims og geri ekkert sem mér þykir eins leiðinlegt og að hlusta á þvaðrið í fólkinu sem situr þar.

Auðvitað er voðalegt að segja þetta en mér líður bara svona þegar ég hugsa um hve gæfusöm ég er að hafa ákveðið fyrir langa löngu að verða ekki gömul á Íslandi.

Hulda Björnsdóttir


Sumardagurinn fyrsti er í dag á Íslandi

20.apríl 2017

Ég verð að óska þeim sem lesa bloggin mín gleðilegs sumars. Mér finnst það alveg nauðsynlegt og ég vona að sumarið verði íslendingum gott. Ekki of kalt og ekki of mikið af umhleypingum bæði í veðri og stjórnmálum.

Þegar ég var á leiðinni í sjúkraþjálfun í morgun hugsaði ég um hvernig sumardagurinn fyrsti var þegar ég var barn og hvernig ég steig fyrstu sporin mín opinberlega á hátíð sumardagsins fyrsta.

Getur það verið að veðrið hafi verið betra í gamla daga?

Einhvern vegin man ég ekki eftir þessum degi mjög köldum en rigning var oftar en ekki.

Ég varð svolítið angurvær yfir morgun hugleiðingum mínum og ákvað að skrifa um þær en ekki hér. Þær hugleiðingar eru fyrir mig og engan annan.

Vel getur verið að einn góðan veðurdag taki ég mér skáldaleyfi og segi frá ævintýrum sem gerðu þennan dag öðruvísi og af hverju hann lifir í minningunni.

Hér í nýja heimalandinu mínu er ekki haldið upp á fyrsta dag sumars. Við höldum upp á alls konar daga heilagra manna en sumarkoman skiptir okkur ekki öllu máli. Það er hvort sem er sumar stundum og stundum ekki og fer ekkert eftir því hvaða mánuður er. Vinkona mín og fjölskylda hennar horfðu upp á elda allt í kringum heimili þeirra í mars fyrir 5 árum. Hugrakkir slökkviliðsmenn börðust við að bjarga húsinu og það tókst. Þetta var í 35 stiga hita og um hávetur. Nokkrum dögum seinna var allt orðið ískalt aftur en eldar höfðu logað glatt í þorpinu mínu og nágrenni en núna er gróðurinn að komast upp úr hörmungunum og áður en varir verður allt orðið skógi vaxið á ný.

Í gær var gleði dagur hjá mér og þegar ég labbaði í átt að spítalanum hitti ég uppáhalds lækninn minn hana Dr. Margaridu. Það var góð tilfinning að faðma þessa ungu fallegu smávöxnu konu og bjóða henni góðan dag. Í morgun hittumst við svo aftur, ég á leið á spítalann og hún á leið eitthvað. Heimurinn er stundum svo ógnar smár.

Þegar ég fer yfir götuna á þessari leið þori ég aldrei að leggja af stað yfir, fyrr en bílarnir eru alveg stopp, það skýtur upp í kollinum á mér á hverjum degi hversu auðvelt er að renna bíl inn í mannþröngina og drepa þá sem fyrir verða, eða alla vega slasa þá.

Er það ekki voðalegt að hugsunin um hryðjuverka ósómann sem tröllríður allri Evrópu þessa dagana skuli jafnvel hafa áhrif í hinu pínulitla Portúgal?

Á meðan Trump trumpast um allar trissur og getur ekki einu sinni haldið utan um starfsfólk sitt og séð til þess að allir tali einni tungu, og hann heldur að með því að skjóta svolítið á einhverja þá leysi hann hryðjuverkaógnina, þá blómstra þeir sem hafa vilja til þess að drepa saklausa vegfarendur í nafni einhvers sem er kannski alls ekki mesta ógn veraldarinnar.

Nokkuð er farið að bera á ferðamönnum hér í landinu og stóru húsin á hjólum skekjast um allt. Ofboðslega leiðist mér þetta ferðafólk. Það er miklu meiri friður þegar það er ekki að andskotast um allar trissur.

Auðvitað held ég mig bara heima og flækist ekkert á yfirfulla staði þar sem rauðir túristar spígspora á bolum og sandölum, jafnvel þó vindur blási og við heimamenn séum vel búin bæði til fótanna og í góðum úlpum.

Ég vona að íslendingar fái gott sumar og útlendingarnir kúki ekki út um alla staura. Þetta er allt miklu auðveldar hérna hjá mér, kallarnir vippa sér bara út úr bílnum og míga í skjóli eins og þeir haldi að umferðin sé bara í eina átt. Nú ef þeir þurfa að tosa niður um sig brækurnar er ekki langt að fara á bak við næsta tré, en samt er umferð í báðar áttir. Vitið nær ekki lengra og ég er svo sem ekkert að láta þetta trufla mig.

Það truflar mig meira að sjá unga konu standa við veginn og bíða eftir viðskiptum. Í morgun var ein ný og sú var ekki með áhyggjur af útstæðum maga og keppum hér og þar. Ég er svo forvitin og langar ekkert smá til þess að komast að því hverjir kaupa þjónustuna, en svoddan aumingi samt að ég þori ekki að spyrja og yrði líklega rukkuð fyrir svarið.

Gleðilegt sumar allir íslendingar. Njótið sólarinnar og góða veðursins þegar það skreppur í heimsókn. Svo er auðvitað hægt að bregða sér til útlanda og baða sig þar. Munið bara að hafa með ykkur sólarvörn. Rauðir ferðamenn eru svo ægilega hallærislegir.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Sólin er farin ! Hvert fór hún ?

18.apríl 2017

Ég nenni ekki að rífa mig í dag.

Er búin að liggja í rúminu í 10 daga með kvef og hósta. Sólin kom og mér varð kalt. Algengur skolli hér í landi. Auðvitað á sólin ekkert að vera að láta svona yfir hávorið. Hún á bara að koma til þess að hita upp en ekki að hamast svo að hitinn fari upp í sólbaðsveður.

Sumarið er í júní og júlí hér í landi, það vita allir heimamenn og ég líka.

Ég fór út í dag, í fyrsta sinn og keyrði til Coimbra.

Á leiðinni eru margir vínakrar. Það eru svona svæði þar sem ræktuð eru vínber sem verða svo að brennivíni sem fer í mjólkurbúðir þegar það er tilbúið.

Jurtirnar sem berin vaxa á eru einhver þau allra ófríðustu tré sem ég hef séð. Kræklóttar eins og gamall kall á sokkum sem hefur týnt öllum fötunum. Ekkert fallegt við svoleiðis sýn.

Ég ætlaði að vera búin að taka mynd af kræklunum, því þær eru um allt á leiðinni til Condeixa. Í dag var allt orðið öðruvísi. Laufin komin og prýddu kræklurnar svo myndirnar verða að bíða þar til næsta ár.

Eftir nokkra mánuði er svo haldin hátíð hér og þar og berin tínd og  fólk kemur alls staðar að með klippur og hamast við tínsluna. Á eftir er svo stiginn dans í tunnunum og berin kramin. Ekki skil ég hvernig fólk getur drukkið þennan viðbjóð með táfýlu og öllu. Hrikalegt, svo ég segi ekki meira.

Í dag voru bara 2 gleðigjafa stúlkur á leiðinni. Önnur var í bíl en hin stóð við vegkantinn. Þetta er svona um allt. Pimparnir eru oftar en ekki eiginmennirnir og keyra þeir konurnar í vinnuna og sækja þær að kvöldi.

Það voru alltaf 5 eða 6 á þessu svæði en sumar hafa verið drepnar og aðrar ekki komið í staðinn. Svo fer þetta líka eftir því hvernig viðrar. Það nennir enginn að fá sér drátt úti undir beru lofti í rigningu og borga fyrir, eða það held ég.

Þessir gleðigjafar eru út um allt Portúgal meðfram þjóðvegunum. Ég hef grun um að viðskiptavinirnir séu trukka bílstjórarnir, þó ég ég viti það ekki.  Enn hef ég ekki gerst svo djörf að stoppa og tala við stelpurnar en þetta gæti alveg skollið á fyrr en varir ef vel liggur á mér. Ég gæti þóst vera að skrifa bók eða eitthvað og langaði að kynna mér portúgalska menningu.

Ég sá á netinu að fólk er að býsnast yfir kínverskum ökumönnum á Íslandi og ýmsar fullyrðingar um hvernig ökukennsla er í landinu. Sumir segja að fólkið læri í hermum og guð veit hvað. Ég hlæ auðvitað þegar ég les svona fullyrðingar. Búin að keyra í mörg ár í Kína og þekki nokkuð vel hvernig ökuskírteina mál er þar í landi, bæði fyrir heimamenn og útlendinga. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það mál en ég veit að í sumum löndum fá Kínverjar ekki að leigja bíla. Það ætti kannski að taka upp þann sið á Íslandi, eða hvað?

Stundum er svo átakanlega hjákátlegt hvað fólk veit um aðrar þjóðir. Auðvitað er þetta allt á netinu ! Hah !

Ferðamenn frá Íslandi hafa verið í Lissabon þessa páska og farið til Setubal og Sintra og eitthvað fleira. Lissabon svo dásamleg borg, segir hópurinn. Svo ég er bara glöð yfir því að landinn getur skemmt sér í borginni en mikið voðalega finnst mér sorglegt að ekki sé farið með fólkið á alla fallegu staðina sem eru allt í kring um borgina og meðfram ströndinni og eru ekki stútfullir af ferðafólki.

Nei, annars, ég er bara hress með þetta fyrirkomulag. Það er svo dásamlegt fyrir okkur heimafólkið að þurfa ekki að rölta innan um alla hálf nöktu túristana sem eru einhverra hluta vegna svo ótrúlega rauðir á litinn. Líklega hafa þeir ekki lesið viðvörun um hættu vegna útfjólublárra geisla þessa helgi, jafnvel þó ég hafi sett viðvörun heilbrigðisyfirvalda, reyndar á ensku, á Facebook síðuna mína.

Ferðamanna brjálæðið er hafið. 600 umferðaóhöpp um páskana. 5 dauðsföll á vegum úti og 4 fórust með flugvél og einn varð fyrir vélinni niðri á landi.

Bara venjulegt vor og sólarglæta annað slagið hér í heimalandi mínu.

Hulda Björnsdóttir

 


Ógeðsleg ummæli ! Eru þau málstaðnum til framdráttar ?

17.apríl 2017

Ég hef talað um það áður að mér hugnist ekki hinn ótrúlegi sóða orðaforði sem notaður er þegar verið er að gagnrýna þá sem sitja við stjórnvölinn hér og þar í þjóðfélaginu.

Það hvarflar að mér að þeir sem þurfa að nota orðalag eins og ég ætla að taka dæmi um hér á eftir, séu fullir af hatri út í allt og alla. Þetta fólk skilur kannski ekki hvað það er að gagnrýna fast og vera óánægt með framkomu stjórnvalda en heldur að allt sé leyfilegt einfaldlega af því viðkomandi þarf ekki að standa fyrir framan þann sem hann er henda skítnum í.

Eftirfarandi er umræða í framhaldi af því að eldri borgurum var sagt upp húsnæði:

Ekki er fögur slóðin eftir hann

Djöfuls viðbjóður

Dæmdur morðingi og lygalaupur. Slæmt eintak af mannveru

Viðrist algerlega samviskulaus, enda manndrápari

Það á að hýða þetta kvikindi opinberlega

Hvar er Kastljósið????

Mér var sagt upp plássi hjá á farskipi, án ástæðu eða fyrirvara. HItti þennan drullusokk............, sem þá var í forsvari fyrir sjómannafélagið, en hann gerði ekkert fyrir mig þótt ég væri félagi í stéttarfélagi sjómanna. Seinna var þessu sami aumingi tekin fyrir að keyra hraðbát sinn dauðdrukkinn.

Ekki hikað hann hið minnsta við að ljúga upp á fólkið sem lést, þegar hann drullufullur sigldi á sker. Iðrun og yfirbót er þessum aumingja ekki efst í huga.

Segi það sama. Hvar er Kastljós?

Hélt í barnslegri einlægni minni að ........ drullusokkur sæti enn bak við lás og slá fyrir tvöfald manndráp og rangfærslur í kjölfarið þar sem hann reyndi að koma sök á látna manneskju.

Vona að allir sem eiga miða í DAS segi því upp

Sveik gamla fólkið einmitt hvaða bull er í gangi eigum við öll að mætta heima hjá gaurnum og bera hann út á fimmtudags kvöldið hver er með?

Ég er handviss um að umræða eins og feitletraði kaflinn hér á undan sýnir,  hefur ekki áhrif til góðs.

Það er skiljanlegt að fólk sé reitt. Ég er foxill yfir því hvernig farið er með eldri borgara og öryrkja á Íslandi og ligg ekki á skoðun minni um það.

Málflutningur eins og hér að ofan er EKKI til þess að tekið sé mark á þeim sem eru að mótmæla. Málflutningur sem þessi er áburður á hatur og viðbjóð sem á ekki að viðgangast í siðmenntuðu þjóðfélagi eins og Ísland er.

Auðvitað er málfrelsi og það er gott. Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Málfrelsinu fylgir sú ábyrgð að gagnrýna, en það verður að gera það án hatursumræðu.

Verum ósammála þegar það á við. Gagnrýnum það sem okkur finnst gagnrýnivert. Skjótum fast en verum innan ramma siðgæðis. Það er málstaðnum til framdráttar en framangreind ummæli drepa allan meðbyr.

Eftirlaunaþegar, öryrkjar, einstæðir foreldrar, láglaunafólk og allir þeir sem tilheyra hópum sem eiga undir högg að sækja í gósenlandinu Íslandi þurfa á öflugum stuðningi að halda. Þessir hópar þurfa ekki hatursumræðu eða hótanir til þess að styðja málstað sinn.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Gleðilega páska

16.apríl 2017

Góðan dag og gleðilega páska.

Í morgun las ég fallega grein eftir Steinunni Sigurðar þar sem hún fjallar um sítrónubúðing mömmu sinnar.

Steinunn segir að hátíðisdagar móður hennar hafi oftast verið í eldhúsinu þar sem hún bjó til kræsingar fyrir fjölskylduna.

Ég gæti trúað að margir eigi svona minningar og eldamennska móðurinnar hafa þótt nokkuð sjálfsögð.  Nú á tímum hefur þetta aðeins breyst og karlmennirnir á heimilinu farnir að taka þátt í matargerð og öðrum heimilisstörfum. Um breytinguna er ekkert nema gott eitt að segja.

Margar mæður, og ef til vill foreldrar, kvíða svona hátíðisdögum. Kvíðinn fer að gera vart við sig nokkrum vikum fyrir jól eða páska. Þeir sem hlakka ekki til stórhátíða eru oftast fátækir. Þetta fólk hefur áhyggjur af því að geta ekki veitt börnum sínum það sama og hinir, þeir efnuðu, geta.

Jólagjafirnar eru stærsti höfuðverkurinn. Svo koma páskaeggin. Það er ekki hægt að kaupa páskaegg fyrir afkvæmin, þó stundum sé hægt að fá lítil egg með afslætti rétt áður en hátíðin rennur í hlað.

Ef 9% barna á Íslandi búa við fátækt er hætt við að þessi hópur og fjölskyldur þeirra hafi ekki gert sér dagamun um þessa páska.

Eldri borgarar líða margir hverjir fyrir að geta ekki rétt ömmu- og afabörnum fallegt lítið egg og séð gleðibrosið breiðast yfir andlitin.

Fátækt er grimm. Hún er ljót. Hún drepur fólk andlega og stundum líkamlega. Andlegir sjúkdómar gera fólk að öryrkjum ekki síður en líkamlegir. Láglaunafólk andar léttar þegar hátíðisdagar eru liðnir og hversdagurinn tekur við.

Mörg tárin falla í laumi og reynt er að láta börnin ekki sjá hvað foreldrið tekur það nærri sér að geta ekki veitt því það sem þarf til þess að hægt sé að kalla líf þeirra sómasamlegt.

Eldri borgarinn grætur ofan í koddann sinn. Enginn sér tár hans. Hann hefur lært í gegnum lífið að betra er að bera harm sinn í hljóði og láta ekki mikið á því bera hvað lífið er sársaukafullt og sárin djúp.

Allir sem lifa verða gamlir. Sumir deyja ungir en nú er að koma upp vandamál sem ekki er hægt að leysa. Fólk eldist og verður of gamalt á Íslandi. Ráðamenn segja okkur að nú þurfi að herða sultarólina.

Sultarólin er svo strekkt að eldri borgara geta varla andað. Hvernig eiga þeir að herða hana frekar? Ó, auðvitað, það er bara partur af þessum hópi sem er með svona ólar um sig miðja. Hinir eru með axlabönd og ekkert mál að lengja í þeim og nægir peningar til fyrir axlabanda hópinn.

Nú er að vaxa upp nýr axlabandahópur á hinu háa alþingi íslendinga. Þessi hópur er ungt fólk sem ætlar sér að breyta lögum og reglum og leiðin til þess  er að brjóta þau lög sem fyrir eru og hafa gaman af. Það þykir líka flott að hæðast að trú þeirra sem eru kristnir og þykir vænt um hefðirnar sem eru í kringum jól og páska.

Brennivín í búðir, veipur í andlitið, kúl að vera alþingismaður, skammast í Bjarna Ben úr ræðustól hins háa alþingis og mæla með því að vera þingmaður. Spillinguna burt og brjóta gildandi lög, bölva og ragna, gefa skít í þá sem vilja halda upp á daga sem teljast hátíðisdagar í kristinni trú. það er leiðin til þess að breyta litlu eyjunni, virðist mér vera "mottó" þessa nýja hóps sem er að stýra landinu.

Ég hrökk upp með andfælum þegar ég fann hugsunina um hvað það væri gott að ráðuneyti, en ekki alþingi, settu saman þau lög sem eiga að halda þjóðfélaginu saman.

Það er eitthvað fáránlega einkennilegt við svona hugsanir.

Minningar Steinunnar Sigurðar um sítrónubúðing mömmu hennar ættu að vera skyldulesning allra þeirra sem hafa fengið sæti á hinu háa alþingi og þiggja laun sem hægt er að mæla með.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Veröld á heljarþröm og Ísland á leið til heljar ?

15.apríl 2017

Í gær fannst mér veröldin vera á heljarþröm og það hefur ekki breyst mikið í dag, jafnvel þó ég hafi horft aðeins á fréttir hinna ýmsu erlendu fjölmiðla.

Mér hefur líka fundist alþingi Íslendinga fullt af geimverum sem hafa ekki hugmynd um hvernig þjóðfélagið virkar.

Geimverurnar heita alþingismenn af því að vinnustaðurinn þeirra heitir Alþingi, er það ekki? Á vinnustaðnum eru sett lög sem stýra landinu og eiga að vera þjóðinni til hagsbóta og öllum til góðs.

Verurnar fá svo útborgað í hverjum mánuði, fengu reyndar 2 mánuði í fyrsta skipti, vegna þess að ríkið greiðir laun fyrirfram. Þeir sem greiða launin eru skattgreiðendur, fólk eins og ég og þú. Mér finnst lágmarkskrafa til fólks sem telur sig þess umkomið að stjórna landinu og setja því lög að þetta fólk fari eftir landslögum. Það skiptir engu máli hvort viðkomandi er sammála því sem í gildi er eða ekki.

 

17903945_10211797587551565_1134901956497992455_n

  Sara Óskarsdóttir er alþingismaður og hún segir þetta á síðu Pírataspjallsins:

"Smekkfullt út úr dyrum í Nýja Tortuga í kolólöglegu páskageymi"

 Ég las þetta í morgun og reikna með að partíið hafi verið í gær, á föstudaginn langa. Ég skil ummæli hennar svo að þetta finnist henni frábært.

Ef skilningur minn er réttur þá lýst mér ekki á framtíð íslensku þjóðarinnar með slíka alþingismenn í farteskinu.

Það er eitt að vera ekki sammála þeim lögum sem eru í gildi og annað að brjóta vísvitandi lögin og reglurnar þegar viðkomandi er fulltrúi þjóðarinnar á hinu háa Alþingi Íslendinga.

Getur það verið að þingmaðurinn, sem er á launum hjá mér og öðrum eftirlaunaþegum, hafi hér sýnt okkur hið sanna eðli sitt?

Launin eru komin í höfn og hægt að leyfa sér hvað sem er, eða er það svo?

Las þessi nýi þingmaður lögin um Almannatryggingar áður en þau voru samþykkt?  Styður þessi þingmaður stefnu stjórnvalda um að lögleiðing fátæktar sé mál málanna?

Veit þessi þingmaður hvað það eru margir sem hafa byggt upp þjóðfélagið, sem hún nú blómstrar í, lifa undir fátækramörkum og sjá þá leið eina út úr kvölinni að svipta sig lífi?

Veit þessi þingmaður að eftirlaunaþegi lá í íbúð sinni látinn í 3 vikur án þess að nokkur ómakaði sig á að vita hvort allt væri í lagi?

Hefði kannski verið farsælla fyrir Pírata að verja föstudeginum langa, í gær, til þess að líta eftir þeim sem hafa ekki efni á eða þrek til að taka þátt í dúndrandi kolólöglegu páskageymi?

Hvar í veröldinni kæmist þingmaður upp með, átölulaust, að auglýsa "kolólöglegt páskageim" haldið á föstudaginn langa, í landi þar sem slíkar samkomur eru bannaðar?

Á Íslandi þykir þetta bara "kúl" enda grær spillingin upp úr jörðunni eins og illgresi í kartöflugarði.

Finnst þingmanninum Söru Óskarsdóttur ekki að hún skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni?

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband