14.4.2017 | 10:38
Veröld á heljarþröm !
14. apríl 2017
Á hvaða leið erum við?
Stærsta bomba sem til er í veröldinni er tekin fram og henni fleygt á ISIS, eða svo er sagt.
Efnavopn notuð til þess að eitra fyrir fólki í Sýrlandi.
Norður Kórea hótar öllu illu.
Kína hótar Norður Kóreu. Ef þið verðið ekki góð grípum við til okkar ráða.
Trump eyðir fjármunum Bandaríkjanna í golfferðir og öryggisgæslu fyrir fjölskylduna og nú þarf að auka fjármagn vegna kostnaðar forsetans og krakkanna hans.
Frú Trump býr í gull hótelinu og prísar sig líklega sæla að þurfa ekki að sitja undir stjórn forsetans í Hvíta húsinu.
Frúin er tekin fram þegar á þarf að halda til að sýnast gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum þegar þeir koma í heimsókn.
Trumpinn þykist vita betur en nokkur annar hvar Isis er og heldur líklega áfram að skjóta á þá úr fallhlífum.
Trumpinn svarar ekki spurningu fréttamanns um hvort hann hafi heimilað móður bombu árásina. Ekki gott að svara spurningum sem gætu í fratíðinni orðið óþægilegar.
Árásir gerðar í nafni hryðjuverka á Evrópu lönd, fleiri en eitt.
Páfinn kemur til Portúgal í maí. Það á að herða landamæravörslu í nokkra daga fyrir komu hans til þess að tryggja að allt verði í lagi.
Hvaðan komu árásirnar á saklausa borgara í Evrópu?
Ó, einmitt, þær komu ekki utan frá. Þeir sem keyrðu inn í fólksfjöldann eða hentu sprengjum voru heimamenn.
Hvernig er það með heimamenn í Portúgal? Eru þeir allir voða saklausir og gera ekki svona ljóta hluti?
Verður mannfjöldinn í Fatima öruggur af því að landamæragæsla hefur verið aukin í nokkra daga áður en páfinn stígur á land?
Flokkur spænskra skólakrakka sem fagna útskrift fara hamförum á portúgalskri grund og skemma það sem fyrir þeim verður.
Flokkur portúgalskra útskriftarnema leggja undir sig heilu hótelin og gestir þurfa að flýja vegna ólátanna og ótta við æðið.
Krakkarnir frá Portúgal voru send heim.
Krakkarnir frá Spáni voru send heim.
Ofbeldi og átök breiðast út í Bretlandi og Brexit er kennt um.
Stjórnmálamenn lugu að almenningi til þess að fá fólk til þess að velja Brexit.
Afleiðingar fyrir Bretland eru að koma í ljós, smátt og smátt, og eru ekki par glæsilegar.
Íslendingar kjósa spilltustu stjórnmálamenn sem uppi hafa verið.
Spillingin heltekur íslenskt samfélag og er á hraðferð við að drepa niður allt sem hingað til hefur verið kallað velferðarkerfi.
Fyrri spillingarstjórn varð að fara frá á Íslandi vegna mótmæla kjósenda og í staðin kemur enn spilltari stjórn.
Ekki má hreyfa við þeim sem hafa troðið íslendingum ofan í poka örbirgðar og fátæktar að ég tali nú ekki um sveltandi börn og pissblaut gamalmenni sem eru fyrir þeim sem stjórna.
Sjónvarpsþáttur er búinn til með fallega fólkinu og þar sýnt hvernig auðævin hafa tekið sér bólfesti í húsinu í Garðabæ og allt er svo ægilega flott og fínt. Þáttagerðarmenn halda ekki vatni yfir glæsleikanum en minnast ekki á það sem hangir á veggjunum.
Sýrlands höfðinginn kemur í sjónvarps viðtal og segir fréttir af efnavopnum vera lygi og myndir af hryllingnum tilbúning.
Forsætisráðherra Íslands kemur aftur og aftur og aftur fram í sjónvarpi foxillur yfir því að verið sé að halda því fram að ekki sé allt í blóma á Íslandi.
Á Íslandi er ekki her.
Á Íslandi er fólk ekki skotið með móður bombum eða efnavopnum.
Nei, á Íslandi er fólk bara svelt. Það gerir gæfumuninn og allt svo voða fínt og fallegt.
Vonandi verður þetta góður föstudagur sem allir fá að njóta.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2017 | 09:58
Föstudagurinn langi og veðrið heima hjá mér !
14. apríl 2017
Föstudagurinn langi er kominn og ekkert hefur breyst annað en veðrið.
Í morgun var ískalt og ekkert annað að gera en kveikja upp í arninum og bregða sér í lopavestið sem vinkona mín á Íslandi prjónaði. Lopinn bregst ekki, jafnvel þó geimverurnar sem eru sestar að í alþingishúsinu geri það.
Margir halda að hér í Portúgal sé alltaf sól og flott veður.
Þeir sem hafa verið í Algarve hafa kannski notið sólar og sumaryls allan ársins hring, eða það segja þeir stundum.
Ég dvaldi 10 daga í desember fyrir nokkrum árum, á hinu margumtalaða sæluríki Portúgal, Algarve, og var að drepast úr kulda og hefði líklega dáið ef ekki hefðu fylgt mér ullarföt frá Íslandi, þau sem komu með mér til Kína og pössuðu upp á mig þar yfir veturinn.
Þessa 10 daga sá ég nokkra útlendinga, ferðamenn, á bol og sandölum. Við heimamenn vorum auðvitað almennilega klædd í jakka og hlý föt, einfaldlega vegna þess að það var skít kalt.
Algarve er sneið alveg syðst og hangir föst við Portúgal en er í raun bara ferðamannastaður og engin menning þar, ég meina portúgölsk heima menning. Allt fullt af börum, hótelum, veitingahúsum og búðum en til dæmis fann ég ekki kirkju fyrr en eftir langa keyrslu og mikla leit. Hér í bænum mínum eru 5 kirkjur fyrir 6000 sóknarbörn. Þessi 6000 eru auðvitað ekki í þorpinu, við erum rétt rúm 500 sem búum í þorpinu sjálfu en sókninni tilheyra nokkuð mörg þorp og svo auðvitað skógarnir þar sem þeir bresku djamma í stóru húsunum sínum og dást að sundlaugunum fyrir utan sem eru kannski nothæfar 3 mánuði á ári.
Landið sjálft er svo dálítið stærri sneið en Algarve og hangir sú sneið utan í Spáni vestanverðum. Portúgalar eru sérfræðingar í því að byggja utan í hlíðum. Undirlendi er lítið og þess vegna byggjast bæirnir oft og tíðum upp í loftið. Ég fæ um mig hroll þegar ég keyri um þessa staði. Lofthræðsla getur ekki verið algegn í þessu landi en stundum hvarflar að mér hvað gerðist ef stór jarðskjálfti riði yfir.
Það hafa orðið "landslight" hér í miklum rigningum og sum húsin halla ískyggilega og detta líklega næst þegar rignir hressilega.
Í vetur hrundu hús í Lissabon vegna rigningar.
Veðrið á meginlandinu er skrykkjótt. Veturnir eru kaldir og enn kaldari en fyrir 6 árum þegar ég flutti hingað. Sumrin verða ægilega heit í einn eða tvo mánuði og allt brennur sem brunnið getur. Oftar en ekki eru það brennuvargar sem fá útrás fyrir eitthvað sem býr innra með þeim.
Á mánudaginn er líklegt að í mínum parti verði hitinn um miðjan dag kannski 29 gráður en í dag er spáð 22 gráðum. Það koma örfáir dagar með hita og síðan fer allt í sama farið aftur og jafnvel niður fyrir 20 gráður.
Svona umhleypingar eru ekki góðir, hvorki fyrir menn eða gróður. Hitakostnaðurinn rokkar eins og tjútt par upp og niður. Ég tók reyndar þá ákvörðun núna í byrjun mánaðar að spara mér 500 evrur á mánuði með því að slökkva á "sentral" hitanum og nota bara arininn og kannski rafmagn í svefnherberginu.
Það er kvartað yfir myglu og raka í húsum bæði á Spáni og í Portúgal. Einmitt, húsin eru óeinangruð, fólk hefur ekki peninga til að hita upp yfir veturinn, eða það vill það ekki, og allt myglar og verður viðbjóðslegt. Ég þoli ekki svona rakalykt og eyði frekar í kyndinguna og spara þá á öðrum sviðum. Allt snýst þetta um val. Einhver ágætur sérfræðingur sagði mér að það væri ódýrara að lifa í Portúgal en á Spáni og var hann með tölur máli sínu til stuðnings.
Það getur verið ágætt að goggla og skoða netið en raunveruleikinn er stundum annar. Portúgalar sem búa fyrir norðan fara mikið til Spánar og versla þar! Af hverju skyldi það nú vera? Jú, það er ódýrara að versla á Spáni. Þeir sem búa í Algarve bregða sér stundum yfir til Spánar og ná sér í ódýrara góss. Þetta eru auðvitað ekki tölur sem koma fram við rannsókn á netinu. Nei þetta er bara fólk sem býr hérna sem gerir svona. Eiginlega soldið líkt og með veðrið. Það er hægt að finna meðaltölur og allt mögulegt með því að hanga yfir netinu en svo kemur eitthvað allt annað í ljós þegar farið er búa í sælunni.
Þessa páska fer ég ekkert á flakk. Ég er með vont kvef sem situr fast. Kvefið fékk ég þegar hitinn fór upp í 29 stig hérna um daginn. Ótrúlegt en svona er þetta. Ég verð orðin góð eftir nokkra daga og get aftur tekið upp venjulegt líf en þá verður líklega orðið kalt aftur, hver veit. Líklega halda umhleypingarnir áfram þangað til í júlí en í næstu hitabylgju fer ég ekki úr sokkunum og alls ekki í sólbað. Ekki ræða það. D vítamínið getur beðið þar til seinna í sumar enda á ég nægar birgðir í bili.
Ég vona að íslendingarnir sem eru í Páskaferð í Lissabon hafi haft með sér hlýja peysu til að bregða yfir sig. Margt er hægt að skoða í borginni og fullt af stórum mollum sem landanum þykja líklega spennandi. Svo fara þau örugglega í langa ferð til Sintra og arka í kastala og konungs hallir.
Ég hef ekki skilið þessa áráttu að halda ekki vatni yfir ljótum kastölum og svoleiðis en þetta er auðvitað bara hallæris hugsunarháttur minn. Það er alveg hægt að finna fallega staði í Lissabon en mjög ólíklegt að farið sé með ferðamenn á þá staði.
Nei, rústir og gamlar byggingar er málið og svo auðvitað vínið og dásamlegi maturinn !!! Ég segi ekki meira, en þegar ég ætla næst að bregða mér úr landi eða af bæ er öruggt að Lissabon verður ekki fyrir valinu.
Portó er miklu skemmtilegri þó hún sé líka gömul og lúin en fólkið í Portó er yndislegt. Það jafnast ekkert á við portófólk í landinu. Svo er Duro, OHHHHHHHHHHHHH unaðslega fallegt og strendur sem gefa Algarve ekkert eftir. En fólkið er það sem hefur heillað hjarta mitt, portófólk er um allt landið en það sker sig úr fjöldanum.
Ég hef á þessum sex árum ferðast um allar trissur og kem alltaf heim með þá hugsun að mér finnist norður landið fallegra en það sem er fyrir sunnan Lissabon. Það sem er fyrir sunnan er flatt og ljótt á litinn. Fyrir norðan er almennilegt landslag, fallegir klettar og trén með stórum þykkum yndislegum bolum. Fyrir sunnar er allt einhvern vegin gult og brunnið. Það er undurfagurt svæði áður en komið er til Algarve, Alantejo. Í Alantejo vex korkurinn sem mér þykir svo merkilegur og nú er farið að nota í allt mögulegt allt frá regnhlífum upp í skó. Næst þegar ég fer í ferðalag og gisti ætla ég til Alantejo. Ekki yfir sumartímann því þá er allt fullt af útlendingum. Nei ég ætla að fara að hausti og dvelja í viku.
Ég vona að allir njóti þessa langa föstudags.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2017 | 13:31
Að samlagast nýjum siðum, í nýju landi
13.apríl 2017
Ég fer einstaka sinnum í búð til þess að kaupa mat og eitthvað sem þarf til þess að reka heimili.
Mér leiðast þessar ferðir alveg óstjórnlega og reyni að fara ekki nema einu sinni í mánuði.
Það er þó einn góður kostur við þessar búðarferðir mínar.
Ég hitti fullt af fólki sem ég þekki og kynnist nýju fólki og oft getum við hlegið saman og átt ánægjulega stund.
Í síðustu viku fór ég Intermarze sem er í Condeixa. Þetta er staðurinn þar sem ég versla mest. Ég veit nákvæmlega hvar allt er staðsett og get gert innkaupalista heima og þóst ganga um búðina.
Þetta sparar mér heilmikið. Ég kaupi engan óþarfa og allt er auðvelt.
Svo vill þó stundum til að verslunar eigendur ákveða að snúa öllu við og færa allt úr stað. Það eru ekki góðir dagar fyrir mig og tekur stundum nokkrar ferðir til þess að átta sig á öllu.
Auðvitað er þetta tækni til þess að fá meiri viðskipti og ég sætti mig bara við að þurfa að fara í Sight seing um nýja fyrirkomulagið. Venjulega næ ég mér í eina eða tvær afgreiðslustúlkur sem lóðsa mig á milli þvottaefnis og eggja.
Strákarnir í kjötinu vita að ég vil lífrænan kjúkling og stelpurnar í ostunum finna fyrir mig geitaost. Konan í fiskinum er eiginlega hætt að reyna að koma mér upp á saltfisk bragðið. Hún sættir sig við að ég kaupi fullt af túnfisk og laxi og auðvitað sardínur þegar þeirra tími er. Stundum á fiskikonan einhvern mjög einkennilegan fisk, sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir og þegar ég labba framhjá kallar hún í mig ef sá nafnlausi er á boðstólnum. Allar fisktegundirnar sem ég fjárfesti í eru auðvitað rándýrar en hvað gerir maður ekki fyrir heilsuna.
Í síðustu ferð var ekki mikið að gera á kassanum og tókum við tal saman, ég og ungi kassamaðurinn. Við ræddum eitt og annað og hann eins og allir Portúgalar var áhugasamur um hvernig mér þætti að búa í landinu.
Eftir nokkra stund spurði hann mig hvernig stæði á því að ég vissi svona mikið um venjur Portúgalanna?
Ég útskýrði fyrir honum að allir vinir mínir væru Portúgalar og ég byggi í condomenium en ekki í húsi einhvers staðar úti í skógi þar sem ég sæi aldrei neitt annað en útlendinga.
Staðreyndin er nefnilega sú að mikið af Bretum býr í landinu og eitthvað af þjóðverjum og örlítið af öðrum þjóðflokkum.
Allt þetta fólk býr úti í skógi, í stórum húsum með sundlaugum og flottheitum.
Útlendingarnir eru ekki mikið að hafa fyrir því að blanda geði við heimamenn, halda sig frekar í hóp með öðrum útlendingum.
Þetta fyrirkomulag eru heimamenn ekki sérlega ánægðir með og finnst rigna upp í nef útlendingana og ég heyri oft að það eru dálítil vonbrigði með þetta afskiptaleysi.
Mér þykir það einkennilegt að flytja til annars lands og reyna að minnsta kosti ekki að eignast eitthvað af vinum í nýja landinu. Auðvitað hafa Bretarnir engan áhuga á Portúgalskri menningu. Þeir éta matinn og drekka vínið og halda vöku fyrir nágrönnum með hávaða fram eftir nóttu. Svo fara þeir og skoða rústir og kastala og einhverjar minjar í góða veðrinu þegar það er. Þeir versla auðvitað í búðunum en þar er helst farið í stórmarkaðina og ekki mikið átt við litlu yndislegu kaupfélögin sem eru út um allt. Elcorte English er líka vinsælt á meðal þeirra útlensku. Við, þessi sem teljum okkur til Portúgala verslum ekki í svoleiðis búðum, þ.e. Elcorte, rándýrt og ekkert meira til þar en í Intermarze.
Samskipti við heimamenn eru ekki í fyrsta sæti.
Kona sem búið hefur hér í þorpinu í 20 ár talar ekki eitt einasta orð í málinum. Hún og maður hennar eru mállaus á tungu landsins sem þau hafa búið svo lengi í. Hún rigsar um stræti þorpsins og heilsar hvorki til hægri eða vinstri. Er þetta ekki eitthvað einkennilegt?
Ágætur íslendingur benti mér á um daginn að ég ætti ekki að greiða skatta í Portúgal og studdi mál sitt vel.
Það koma stundum upp svona ráðleggingar og mér þykja þær skemmtilegar. Ég hef búið í landinu á sjöunda ár og þekki reglur nokkuð vel. Þeir sem telja sig vita betur, og eru svo krúttlegir að vilja gefa mér ráð um hvernig hægt sé að sleppa við eitt og annað, hafa litla hugmynd um hvernig landið mitt virkar.
Í þessu tilfelli læddist þó að mér sá grunur að ef til vill væri hér um einn af þessum ágætu íslendingum að ræða sem leitast við að finna smugur á kerfinu til þess að komast hjá því að taka þátt í samfélaginu.
Ég greiði skatta og skyldur hér í nýja landinu mínu og er bara glöð með það. Ég fæ hér alla þá þjónustu sem samlandar mínir njóta og við erum á sömu bylgjulengdinni.
Ég þoli ekki svik og spillingu og reyni að fara eftir því sem mér ber.
Var ekki umræða í íslensku þjóðfélagi núna síðustu dagana um áburð fyrri ríkisstjórnar á bótasvikum? Mig minnir það.
Ég gæti alveg skrifað um bótasvik en ætla ekki að gera það í dag. Í dag er ég bara spök og nýt lífsins í góðu veðri, jafnvel þó nefið á mér haldi að nú þurfi það að bæta úr vatnsleysi landsins, og láta renna stanslaust.
Það stendur ekki til kæra nef mitt að ég sjái landinu fyrir vatni þó birgðir séu að þrotum komnar vegna rigningaleysis. Það rignir alla vega ekki inn í bílageymsluna á meðan og stofu veggurinn er enn uppistandandi. Eitt er þó hálf ergilegt í þessu vatnsleysi. Ég keypti ofboðslega falleg gúmmístígvél með rósum í haust til þess að geta vaðið yfir vatnið í bílageymslunni og sótt mér viðinn án þess að verða holdvot í lappirnar. Það fer ekkert inn í minn skúr lengur því ég setti upp ál fyrirstöðu, sem er svo há að ekkert vatn getur fundið sér leið yfir. Vatnið þarf að fara til næsta nágranna og mér er alveg sama um það. Hins vegar væri flott að fá að nota fallegu grænu blómastígvélin þó ekki væri nema einu sinni, en þau sitja þolinmóð inni í skáp tilbúin þegar kallið kemur. Líklega ekki fyrr en næsta ár.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2017 | 12:15
Geimverur hafa tekið sér bólfestu á Alþingi Íslendinga !
13.apríl 2017
Geimverur eru sestar að á hinu háa alþingi og stjórna þar landinu með harðri hendi.
Ég lagði það á mig að hlusta á viðtal Helga P við Þorstein Víglundsson, jafnvel þó mér finnist svona viðtöl afspyrnu leiðinleg.
Nú vil ég taka fram að ég hef ekkert á móti persónunum sem voru í þessu viðtali, hvorki spyrjenda eða þingmannsins. Það eru störf þeirra sem ég er að gagnrýna og hvernig þau standa sig.
Nauðsynlegt að taka þetta fram svo ég verði ekki sett inn fyrir óþverrahátt.
Eftir að hafa hlustað á viðtalið er ég svo yfir mig hundfúl að það hálfa væri nóg.
Eitt er þó jákvætt við þetta og það er að Þorsteinn er mjög áheyrilegur, jafnvel þó ég sé ekki sammála því sem hann sagði og efist stórlega um að hann gæti rökstutt sumt af því sem fram kom. Hann talar skýrt og gott mál og mættu sumar geimverurnar á þingi taka hann sér til fyrirmyndar.
Herinn, með Helga P í fararbroddi ásamt Þórunni H hefur komið fram eina áhugamáli sínu. Allir eldri borgara skulu, já skulu, hvað sem tautar og raular, fara út að vinna og geimverurnar að breyta lögum um Almannatryggingar svo ekki sé allt tekið í skatt.
Herinn hefur barist fyrir þessu eina máli með kjafti og klóm.
Ég hef barist á móti þessu með mínum kjafti og klóm og gerst svo ósvífin að heimta að herinn tali líka um tekjur frá lífeyrissjóði.
Enn ósvífnari hef ég verið að tala um brottflutta eftirlaunaþega sem missa öll réttindi sín við að flytja úr landi svo þeir geti haft mat á borðum alla daga.
Ég geri mér grein fyrir því að málflutningur minn fer ofboðslega, svo ekki sé meira sagt, í taugarnar á hernum, en mér er nákvæmlega sama.
Væri ekki nær fyrir fjandans herinn að berjast fyrir því að allir fengju sama ellilífeyri í stað þess að geimverurnar geti með einu pennastriki eða tveimur skipt lífeyrinum niður í tvo parta, rétt svona til þess að hægt sé að spara fyrir kaupi geimveranna, sem er að sjálfsögðu svo vel úti látið að þær þurfa aldrei að hafa áhyggjur af því að verða gamlar.
Ellilífeyrir og heimilisuppbót eiga að fara saman í einn pott og verða að ellilífeyri. Þetta er ekkert flóknara en það. Guð hvað mig langar til að bæta við :Hálfvitar! en ég er kurteis og geri það auðvitað ekki.
Fyrst það á að henda öllum út á vinnumarkaðinn eftir 65 ára aldur þá spyr ég:
Hvar á að fá vinnu fyrir þetta fólk?
Hvar eru störfin fyrir þennan aldurshóp?
Þorsteinn sagði í viðtalinu að æskudýrkun væri á undanhaldi.
Nú, er það? Ég sé ekki betur en meiri hluti geimveranna á hinu háa alþingi séu ekki ýkja gamlar og hafi ekki sérlega mikla lífsreynslu.
Á kannski að setja hámenntaðan hótel stjóra í móttöku eins og Helgi P stakk upp á við Wilhelm Wessman í viðtali fyrir nokkrum mánuðum? Ég heyrði ekki betur en Willi vildi vera að skrifa gæða handbækur, sem er auðvitað betur samboðið honum, en að taka á móti fólki og innrita á hótel.
Hvað á að gera við konurnar sem Helgi og Þorsteinn vilja drusla út á vinnumarkaðinn eftir miðjan aldur? Eiga þær að fara í ræstingar? Nei, það á víst að setja þær í endurmenntun, eða mér heyrðist það.
Ótrúleg ósvífni mín, að kalla suma geimverur, á sér engin takmörk en mér finnst það rökrétt ályktun. Ég get ekki séð að þetta fólk sé í neinum tengslum við íslenskan veruleika svo það hlýtur að hafa komið einhvers staðar utan úr geimnum og er nú farið að stjórna landinu eins og ekkert sé.
Nú á að fara að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn á Íslandi.
Dásamlegt. Nýr flokkur til vinstri. Nýr flokkur til þess að hjálpa sundrungu og valdapoti að blómstra á meðan Sjálfstæðisflokkurinn með Panamaprinsinn í fararbroddi græðir á tá og fingri.
Það er ekki nóg að geimverur hafi tekið sér bólfestu á hinu háa löggjafar þingi, þær hafa líka hafið sókn utan þings og skemmta sér á kostnað þeirra sem ættu að lifa sæmilegu lífi á landinu fagra.
11 vinstri flokkar. Er þetta ekki brandari aldarinnar í þjóðfélagi sem er með rúmlega 300.000 íbúa? Valdagræðgin toppar málefnin og hugsjónirnar að ég tali nú ekki um fallegu innpökkuðu loforðin. Bara kjósa bestu geimveruna og þá geta allir bakað bleika köku og gefið prinsinum.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2017 | 11:56
Ég er veik af áhygjum ! Melanie Trump, ég er lögst í rúmið vegna örvæntingar minnar!
12.apríl 2017
Ég er svo ægilega áhyggjufull þessa dagana og nú hef ég lagst í rúmið. Búin að liggja í rúminu í 2 daga og vera veik í 4 daga.
Ég er að reyna að telja mér trú um að ég sé bara með kvef og hósta en veit auðvitað betur.
Áhyggjurnar hafa lagt mig í rúmið.
Ég er varnarlaus, en eftir að hafa reynt allar hugsanlegar leiðir til þess að losna við óværuna og fá mér á endanum meðal til þess að geta sofið fyrir hóstanum, og setja marga kodda undir hausinn á mér svo nú sef ég sitjandi, fattaði ég loks hvað var að.
Ég sá í sjónvarpinu myndskeið þar sem sýnt var frá Hvíta húsinu og kínverski forsetinn var í heimsókn.
Trumpinn er auðvitað eins og venjulega svoldið heimóttalegur greyið og snýr alltaf hliðinni í fólk þegar hann heldur ræður. Svo situr hann eins og lítill strákur í fallega stólnum og mér finnst eins og hann hafi verið settur í skammarkrókinn.
Auðvitað er þetta voða sorglegt fyrir Trumpinn en svona er þetta nú bara og ekkert við því að gera. Kallgreyið orðinn of gamall til þess að hægt sé að fá hann til að sitja uppréttur og vera doldið virðulegur.
En Melanie! Ó kæra Melanie, þú sast í rauða kjólnum þínum í fallega stólnum og brjóstin kíktu upp fyrir og fylgdust með öllu sem fram fór.
Auðvitað var kínverska forsetafrúin klædd upp í háls, voða púkó eða hvað?
Svo sastu aftur elsku Melanie við matarborðið og enn voru bobbingarnir, sem eru ekkert smá flottir, að fylgjast með öllu og dilluðu af kátínu.
Í morgun sá ég þig á labbi með forsetafrúnni, þeirri kínversku og aftur var hún með upp í háls en þú í hvítum kjól og ég get svarið það að þó þú hefðir verið nakin hefði ekki sést meira af þér.
Þú þarft kannski, kæra Melanie að gera fleiri magaæfingar. Það er svo hallærislegt að vera með ber brjóst og maga út í loftið. Auðvitað er maginn ekkert hrikalega stór en samt, mér finnst þú ættir að laga þetta.
Auðvitað á ég ekkert að vera að skipta mér af þessu en ég bjó sko í Kína í nokkur ár og þekki svoldið dress kode sem þar ríkir og ég hef áhyggjur af því að forsetin, sá kínverski, hafi kannski ekki verið alveg að fíla rauða kjólinn.
Heyrðu, ég sá í morgun líka að þú varst búin að setja slæðu til þess að hylja bobbingana þegar þú heimsóttir krakkana. Þú veist, svarta buxnadressið!
Nú ætla ég að segja þér svolitla sögu, mín kæra Melanie, og vona svo sannarlega að mér batni áhyggju pestin.
Ég var kennari í Kína og einn daginn fórum við með nemendur okkar til þess að keppa í ræðukeppni. Ég hafði þjálfað þessa nemendur í nokkrar vikur eins og lög gera ráð fyrir í landinu.
Það var 45 stiga hiti og ég var alveg að bráðna. Klæddi mig í bol sem var smá fleginn, en ekki næstum því eins og þín dress eru. Svo er ég auðvitað bara með pínulitla bobbinga sem enginn tekur eftir og hef alltaf hálf öfundað konur eins og þig með allt út um allt hoppandi af kæti. Mínir geta það ekki, bara smá dúllur!
Jæja, þarna var ég með nemendurna og áhyggjufull og að bráðna, allt saman í einu. Vindur þá ekki að mér skólastjórinn í skólanum mínum og segir við mig í höstugum tón:
Settu á þig slæðu! Þú getur ekki verið hálf nakin fyrir framan börnin.
Ég var ekki með neina slæðu en samkennarar mínir höfðu upp á einni og ég gat vafið henni utan um hneykslið og bráðnað hægt og rólega.
Krakkarnir sem ég þjálfaði unnu auðvitað hvert í sínum aldurs flokki, en það var ekki aðalmálið. Aðalmálið var að ég hafði brugðist dress kóda landsins, vegna fáfræði.
Svo kæra Melanie Trump, ég vona að þú dragir lærdóm af reynslu minni og fáir leiðsögn um hvernig ber að klæða sig í viðurvist erlendra fyrirmanna.
Kallinn þinn er auðvitað gamall og feitur og þarf á einhverju fallegu að halda til þess að koma sér að efninu en þú verður að passa þig utan heimilisins.
Láttu fallegu bobbingana þína dingla fyrir framan Trumpinn þinn en feldu þá fyrir erlendum þjóðhöfðingjum.
Ég vona svo innilega kæra Melanie Trump að þú farir eftir ráðleggingum mínum svo ég geti hætt að hafa áhyggjur af þér og mér geti batnað kvefið. Ég þarf nefnilega að fara í söngtíma á föstudaginn og nú er miðvikudagur og ég enn að hósta.
Þó ég opni ekki sjónvarpið meira í dag þá eru þessar myndir af þér svo lifandi í hausnum á mér og láta mig ekki í friði.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2017 | 16:09
Hvers vegna voru ný lög um Almannatryggingar samþykkt fyrir áramótin?
10.apríl 2017
Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og finn ekkert svar sem ég sætti mig við.
Þessi lögleysa er auðvitað ekkert annað en hneyksli og lýsir viðhorfi þingheims til eldri borgara og öryrkja.
Hvað er það sem kemur í veg fyrir að þjónar okkar, þingmenn, hlúi að eldri borgurum og öryrkjum?
Nú er ágætur ráðherra búinn að lýsa því yfir að Lífeyrissjóðir eigi að vera fyrsta stoð og er þetta í algjöru ósamræmi við tilgang skyldusparnaðarins sem þessir sjóðir eru.
Mér datt í hug í gær að ef til vill væri skýringin skilningsleysis þingheims vegna þess að þeir hugsa út frá sér og skilja ekki þjóðfélagið.
Getur þetta verið?
Mér finnst þetta nokkuð haldgóð skýring fyrir mig og ekki síst þar sem einn af hinum ágætu ungu þingmönnum sem komust inn á þing núna, héldu því fram í útvarpsviðtali fyrir kosningar að eldri borgarar væru á sveit.
Svona fullyrðing lýsir vankunnáttu þingmannsins átakanlega vel og vorkenni ég svolítið þessu fólki og þegar ég hugsa um að þessi hópur sé að útbúa lög fyrir landið þá fer um mig ónotahrollur.
Nú er talað um að bæta skuli kjör eldri borgara og á að gera það á 4 árum.
Fyrir nýju lögin voru tekjutengingar við 109 þúsund á mánuði.
Eftir lögin er tekjutengingin 25 þúsund á mánuði.
Bæta skal þessar skerðingar á 4 árum samkvæmt ráðherra.
Svona er þetta semsagt gert.
Fyrst er tekjutengingin lækkuð úr 109 þúsund í 25 þúsund.
Svo á að hækka tekjutenginguna aftur á 4 árum í hvað mikið veit ég ekki.
Þetta er pólitík í sinni ljótustu mynd.
Stjórnmálamenn vonast til að almenningur verði búin að gleyma skerðingunni sem varð um áramót.
Fyrir næstu kosningar koma svo þingmenn og halda því fram að kjör eldri borgara hafi verið stórlega bætt á kjörtímabilinu og tekjutengingin hafi farið úr 25 þúsund í 109 þúsund. Ægilega flott og Panamaprinsinn getur bakað margar kökur til þess að halda upp á málið.
Kannski verður hægt að telja okkur eldri borgurum trú um að eitthvað ægilega gott hafi verið gert fyrir okkur og kjörin bætt stórlega með þessari ofboðslegu hækkun á frítekjumarki.
Fólk fer í stórum stíl og krossar við kökubakarann og trúir allri lyginni, eina ferðina enn.
Heimilisuppbót er annað mál sem á auðvitað ekki að eiga sér stað. Það eiga allir að sitja við sama borð og það á að vera einn ellilífeyrir, einn og sá sami fyrir alla.
Það á ekki að skipta máli hvort ég bý með kalli eða bý ein. Ég hef borgað mína skatta og skyldur til þjóðfélagsins alla mína hundstíð. Ég hef áunnið mér réttindi sem eru jafn mikilvæg og hjá þeim sem hafa kosið að búa með annarri manneskju.
Mismunun á einstaklingsréttindum, sem í þessu tilfelli heitir heimilisuppbóta, á ekki að eiga sér stað. Þó fólk sé í sambúð minnkar það ekkert að verðgildi.
Held ég að einhver alþingismaður lesi það sem ég er að tuða?
Nei, það held ég varla.
Þeir eru uppteknir við mikilvægari mál, mál sem fjalla um veipur og brennivín í mjólkurbúðir.
Ég verð svo yfir mig reið þegar ég hugsa um hvað þetta fallega land sem gæti búið svo vel að öllum þegnum sínum er ofurselt græðgi og spillingu stjórnvalda.
Ég verð gráti næst þegar ég hugsa um alla þá sem kjósa þetta sama lið yfir sig aftur og aftur og aftur og aftur eins og hundsrakkar sem bíða eftir beini.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.apríl 2017
Ég les og hlusta á fréttir, stundum, frá Íslandi.
Ekki alltaf, bara stundum.
Þegar ég dett niður á eitthvað sem Panamaprinsinn hefur til málanna að leggja verð ég venjulega svo reið að það tekur mig nokkra daga að jafna mig.
Ég má auðvitað ekkert við svona stökkum, með hjarta sem er ekki alveg að tikka eins best verður á kosið.
Þegar ég hugleiði hvernig búið er að rústa heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almennings samgöngum, samhjálpinni og öllu því sem hægt er að rústa og tilheyrir velferðarþjóðfélaginu, verð ég yfir mig reið.
Við getum andskotast yfir Donald Trump og því sem hann er að bisa við heima hjá sér, en á sama tíma er ástandið enn verra í þjóðfélagi sem hefur ekki nema rétt rúmlega 300.000 íbúa.
Ég bý í landi þar sem milljónir búa. Spilling og mútuþægni er hér vel þekkt.
Þá spyr ég mig oft og tíðum hvort ástandið á Íslandi sé mikið betra.
Spillingin er alls staðar á ferð í fæðingarlandi mínu. Í öllum ráðuneytum sýnist mér.
Hvers vegna er þetta svona?
Ég held að ástæðan geti verið þessi:
Íslendingar geta ekki staðið saman.
Við létum bjóða okkur kartöflur sem voru svínafóður þegar ég var að hefja minn búskap. Við keyptum 2 kíló af kartöflum og hentum hálfu öðru kílói.
Datt okkur í hug að mótmæla með því að kaupa ekki óþverrann?
Nei, við sátum við kaffiborðið og ræddum ástandið en gerðum ekkert.
Hefur þetta eitthvað breyst?
Nú á tímum höfum við netmiðla, Facebook og marga fleiri þar sem fólk tjáir skoðanir sínar og fer oft á tíðum mikinn með ótrúlega miklar yfirlýsingar, að ég tali nú ekki um viðbjóðslegt orðaval. Oftar en ekki fæ ég fyrir hjartað við það eitt að lesa yfirlýsingarnar.
Eru orð ekki til alls fyrst?
Er líklegt að það skili árangri að nota þessi viðbjóðslegu orð sem ég hef ekki eftir hérna?
Nú er komin upp ný síða á Facebook og ég hef lesið nokkur ummæli þar. Ég sé ekki betur en það sé í hverju einasta tilfelli notuð orð sem ég vildi ekki vera kölluð.
Enn einu sinni ætla ég að segja þetta:
Verum kurteis þó við séum að gagnrýna. Hörð gagnrýni á svo sannarlega rétt á sér og föst skot en þau þurfa ekki að vera ruddalegt orðbragð og jafnvel blótsyrði.
Nú er Bjarni Ben búin að lýsa því yfir að hann ætli að breyta lögum um almannatryggingar varðandi þá eftirlaunaþega sem eru að vinna.
Grái herinn hefur frá fyrsta degi barist fyrir þessu.
Ég hef frá því ég sá hvert stefndi mótmælt þessum málflutningi hersins.
Ég held því áfram. Ég held því fram að með einhliða þröngsýnum viðhorfum þeirra sem hafa rætt við ráðamenn landsins hafi Grái herinn stór spillt fyrir hag eftirlaunaþega.
Ég held því fram að Grái herinn hafi gefið ríkisstjórninni tækifæri til þess að stoppa smá upp í gatið á nýju lögunum um Almannatryggingar og mér finnst þetta hrikaleg niðurstaða sem ég sætti mig engan vegin við.
Ég vona bara að herinn, eða þeir innan hans, sem nú ganga sem harðast fram í því að hjálpa ríkisstjórninni til þess að halda áfram að stela sparnaðar okkar, haldi sig heima og láti þessi mál í friði.
Samtök með stjórnendur eins og þessi her eru hættuleg. Fólk bindur vonir við að verið sé að vinna fyrir alla. Það er ekki verið að vinna fyrir alla. Herinn vinnur fyrir fáa og er sama um meirihlutann.
Hernum er sama um þá sem hafa ekki áhuga á því að sækja vinnumarkaðinn eftir 67 ára.
Herinn er ekki að vinna fyrir þá sem lepja dauðann úr skel vegna fátæktar.
Herinn er ekki að vinna fyrir þá eftirlaunaþega sem hafa tekið þann kost að flytja úr landi til þess að hafa í sig og.
Herinn hefur ekki hugmynd um þær skerðingar sem brottfluttir þurfa að sæta.
Herinn talar í nafni eldri borgara. Ég hef ekki gefið þeim umboð til þess að tala í mínu nafni við stjórnarherrana. Það stendur ekki til að ég gefi hernum þetta umboð á meðan núverandi forysta brosir breytt á Facebook síðu hersins.
Ef það væri einhver dugur í þessu fólki þá mundi það kynna sér aðstæður eldri borgara sem aldrei heyrist í. Nei, það er of mikil fyrirhöfn og þjónar ekki eigin hagsmunum forystunnar.
Ég hef það á tilfinningunni að fólkið sem brosir svo breitt á Forsíðu Facebook síðu hersins, hafi bara nokkuð þokkalegar tekjur. Framkvæmdastjórar og fyrrverandi alþingismenn eru væntanlega ekki að lepja dauðann úr skel, eða hvað?
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2017 | 19:36
Hvar er baklandið fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun?
7.apríl 2017
Er eitthvað bakland fyrir eftirlaunaþega sem styður við bakið á þeim og berst fyrir réttindum þeirra og passar upp á að ekki sé troðið á þeim á skítugum skónum?
Það voru bundnar miklar vonir við Gráa herinn og er hann með rúmlega 7 þúsund like á Facebook síðu.
Herinn hélt stóran fund í Háskólabíó fyrir síðustu kosningar og nú átti að taka þingmenn á beinið.
Hótað var að 40 þúsund atkvæði væru í boði.
Svo töluðu hermenn hver við annan í sjónvarpsviðtölum og útvarpsviðtölum.
Annað slagið bregður stjórnarmönnum Gráa hersins enn fyrir í fjölmiðlum þar sem þeir fara mikinn og tala um eitt og annað.
Búið að skipta um formann í Félagi eldri borgara í Reykjavík svo Þórunn H. hefur meiri tíma fyrir herinn, eða svo held ég að hljóti að vera.
Já, vel á minnst. Þórunn H. hefur verið í forsvari fyrir verkakvennafélag árum saman og á sinn þátt í hvernig farið hefur verið með greiðslur í Lífeyrissjóði og þær notaðar sem skiptimynt við gerð kjarasamninga. Bara að minna á þetta ef einhver væri búin að gleyma þessu.
Mér hefur oft ofboðið hið gengdarlausa þekkingarleysi sem hefur skinið í gegn í þessum rosaflottu viðtölum. Ég nenni ekki að eyða orku í telja þau upp. Fólk getur bara hlustað á ruglið sem oft hefur glumið í eyrum.
Upplýsingastreymi Gráa hersins er grátt og í móðu.
Gerist fólk svo ósvífið að grennslast fyrir um hvað sé í gangi er oft ekki mikil birta yfir svörunum og þau oft á tíðum óskiljanleg með öllu.
Hroki gæti maður sagt.
Ég held reyndar að fólk sem svarar á Gráa hers mátann geri það vegna fákunnáttu og ótta við að hægt sé að sjá í gegnum um móðuna.
Grái herinn er ekki bakland fyrir eldri borgara, það er alveg ljóst.
Landssamband eldir borgara virðist ekki styðja við bak baráttu eldri borgara.
Landssambandið virðist reyndar vera upp á kant við ýmis félög innan sambandsins, rétt eins og sum aðildarfélög ASÍ eru ekki par hrifin af forystu ASÍ.
Velferðaráðuneytið styður ekki við eldri borgara. Því ráðuneyti finnst litlu máli skipta þó vitlaus lög séu samþykkt á alþingi.
Formaður velferðanefndar skilur ekki lögin um Almannatryggingar og heldur að allir eigi bara að vera ánægðir með "fátæki"gildruna sem þau púrra fólki niður í.
Ég held reyndar að fáir, ef nokkur, alþingismanna skilji lögin. Eftir 10 ára yfirsetu og endurskoðun eru þau enn óskiljanlegri en fyrir breytingu.
Eitthvað hefur nú kostað að sitja yfir breytingum í 10 ár. Ekki skal mig undra að nefndarmenn hafi verið ánægðir með sporsluna þá.
Nú er Flokkur fólksins að fara í mál við ríkið vegna leiðréttingar á hinum alræmdu nýju lögum.
Búið að fá lögfræðing til að reka málið og einhver gangur kominn í það.
Ég veit ekkert hvort þetta mál vinnst eða ekki. Gæti alveg trúað því að það tapaðist.
Þrátt fyrir það ætla ég að láta skrá mig sem part af þessari málssókn. Þegar þetta mál er komið á hreint er nefnilega hægt að hætta að tala um það og velta sér upp úr því, og komin grunnur til að snúa sér að aðalmálinu sem er rán ríkisins á sparnaði okkar í Lífeyrissjóð.
Við höfum greitt alla okkar starfsæfi skatta, svo framarlega sem við höfum ekki svikið undan skatti. Vegna skattgreiðslu eigum við rétt á bótum frá Almannatryggingakerfinu.
Við höfum greitt alla starfsæfi okkar í Lífeyrissjóð, allavega þeir sem hafa farið eftir lögum landsins, og það hefur verið sparnaður okkar til efri áranna. Sparnaðurinn og trygging samfélagsins, Almannatrygginga kerfið, áttu að sjá til þess að við dræpumst ekki um leið og við hættum að vera gjaldgeng á vinnumarkaðinn.
Sumir, og þó nokkuð margir, hafa haft miklar tekjur og eiga þar af leiðandi mikinn, gríðar mikinn, sparnað í Lífeyrissjóði og fyrir þá hópa skiptir Almannatrygginga kerfið ekki svo miklu máli.
Fyrir okkur hin, sem höfum verið venjulegir launþegar, horfir málið allt öðruvísi við.
Við sem höfum sparað alla æfi í Lífeyrissjóð eigum ekki að niðurgreiða með sparnaði okkar, bætur til þeirra sem aldrei hafa sparað.
Eins og kerfið er núna þá gerum við það og þetta er stóra málið sem þarf að fá úr skorið fyrir dómstólum. Hins vegar er þetta svo stórt mál að öflugt bakland þarf til að reka það og er það ekki á færi smáflokks.
Smáflokkurinn getur hins vegar, með stuðningi þeirra sem hafa áhuga, fengið skorið úr fyrir dómstólum hvort hægt sé með einu pennastriki að breyta lögum afturvirkt, eins og gert var í tilfelli nýju laganna um Almannatryggingar.
Ég ætla mér ekki að ganga í Flokk fólksins en ég ætla mér að styðja og vera aðili að málsókninni.
Auðvitað verður hver og einn að gera upp við sig hvað hann vill og sumir telja framtak flokksins gott og aðrir ekki. Allar skoðanir eiga rétt á sér og eru jafn mikilvægar. Við þurfum hins vegar að losna við þetta mál til þess að hægt sé að hefja mál númer 2.
Hef ég trú á því að Grái herinn geri eitthvað annað en að fela fyrir stuðningsmönnum sínum hvað hann er að pukrast með?
Nei, það hef ég ekki.
Ég skil reyndar ekki þetta fyrirbæri sem herinn er og hef aldrei skilið. Mér finnst þetta líkjast dálítið litlum saumaklúbb sem snýst um sjálfan sig og er bara sáttur.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.4.2017 | 07:55
Ég gat ekkert sofið í nótt. Áhyggjurnar héldu fyrir mér vöku!
5. apríl 2017
Ég svaf eiginlega ekkert í nótt. Áhyggjur vegna minnar heitt elskuðu stofnunar héldu fyrir mér vöku. Ég sá fyrir mér hvernig símaborð og e-mail loguðu í dag og allir með höfuðverk eftir gærdaginn.
Það ætti eiginlega að banna svona árshátíðir eða skemmtanir. Svo margt getur nefnilega komið fyrir eins og við sáum í gær þegar allir voru fluttir á milli landa og enginn látin vita fyrirfram. Ég hefði til dæmis alveg viljað halda kveðju partý fyrir vini mína hér í Portúgal ef ég var að flytja til Svíþjóðar.
Svo hefði ég líka gjarnan viljað gera vinum mínum í Svíaríki viðvart svo þeir gætu komið og heimsótt mig. Skiljiði!
Auðvitað hélt líka spenningurinn fyrir mér vöku. Ég get ekki beðið eftir því að stofnunin hafi samband við mig svo ég geti hjálpað þeim að gera ekki svona hrikalegar gloríur. Það er allt í lagi að syngja Gloríu, en að taka sig til og hræra í dúr og moll í heimilisföngum brottfluttra bóta þegar er auðvitað ekkert annað en skandall og þarf að´grípa til alvarlegra aðgerða núna strax og þá kem ég sterk inn sem nýr launþegi hjá "fátæki"ráðuneytinu.
Ég hlakka alveg óskaplega mikið til og þó ég þurfi að fara til Coimbra í dag og sækja um nýtt ökuskýrteini og sulla svolítið í sjúkraþjálfun þá hef ég símann, flottan síma sem gerir allt, og svo litlu nýju tölvuna mína sem er alveg hrikalega klár, næstum því eins klár og ég, til þess að svara um leið og kallið kemur frá uppáhaldinu mínu.
Ég elska Tryggingastofnun ríkisins meira en allt annað í lífinu held ég bara næstum því.
Auðvitað hef ég boðið þeim krafta mína fyrr og þau sáu sér ekki hag í því að svara mér en núna held ég að þau muni sjá að sér
Það er leitun á annarri eins gáfnakonu sem er fús að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.
Ég vona bara að þau hringi nú í mig áður en ég legg af stað í bæjarferðina og sting mér ofan í laugina.
Elsku vinir mínir, ef mér verður stungið inn fyrir ósvífni þá trúi ég ekki öðru en þið hjálpið mér og færið mér allavega mat svo ég deyi ekki úr hungri í fangelsinu.
Nei annars, það er óþarfi að vera með áhyggjur af mat og húsnæði mínu þegar búið er að setja mig inn fyrir óknytti. Ég hef séð hvað mestu bófar landsins hafa það dásamlegt með öllum græjum og lúxus í fangelsunum.
Er ekki komin lausn á vanda þeirra sem eru fátækir og farnir á eftirlaun eða eru veikir og þurfa örorkubætur?
Ég held að lausnin sé svo einföld að formaður "fátæki" mála á Íslandi hafi bara ekki komið auga á hana.
Stinga dótinu öllu í fangelsi og málið er leyst.
Ekkert pláss til þess að setja þá sem svíkja og pretta út úr þjóðinni eignir í stórum stíl og þeir geta bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Í gær hélt ég að lífið væri flókið fyrir suma.
Í dag veit ég að það var tómur misskilningur. Ísland spillingarinnar getur losað sig við aumingjana og blómstrað með PANAMAPRINSA í fararbroddi.
Ja, því segi ég það. Einföldu lausnirnar láta stundum lítið á sér kræla.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2017 | 21:10
Tryggingastofnun ríkisins dottin í ÞAÐ !
4.apríl 2017
Ja, nú er ljótt í efni.
Hin ágæta stofnun Tryggingastofnun ríkisins er ábyggilega dottin í það og leikur sér eins og drukkinn unglingur í kerfinu sem notað er fyrir Íslendinga búsetta erlendis.
Stofnunin, dauðadrukkin, gerði sér lítið fyrir og flutti mig með einu handtaki til Svíþjóðar.
Það versta við þetta allt er að ég hef aldrei komið til Svíþjóðar, get svarið það upp á æru og trú. Ég hef komið til Noregs en aldrei til Svíaríkis.
Fleiri af vinum mínum hafa verið fluttir til hjá stofnuninni og er þetta áhyggjuefni, það er að segja að stofnunin sé ekki edrú í vinnunni.
Ég veit fyrir víst að um vímu er að ræða því ég fékk tvö bréf og í öðru stendur að samkvæmt þjóðskrá búi ég í Svíþjóð og samkvæmt hinu segir að ég búi samkvæmt þjóðskrá í Portúgal.
Hausinn á báðum bréfum er með heimilisfang mínu í Portúgal.
Af alkunnu látleysi mínu og auðmýkt bauð ég stofnuninni aðstoð mína við að passa upp á svona hluti. Ég sendi auðvitað allar upplýsingar á Facebook síðu Tryggingastofnunar ríkisins því ég vil að þeir fái skilaboðin fljótt og vel og treysti ekki svona gamaldags leið eins og e-mailum.
Það er svo ægilega pínlegt fyrir svona góða stofnun þegar haldin er árshátíð og allir fullir og fara að fikta í kerfinu og einhverjir gamlir eða hálf vitlausir íslendingar sem geta ekki verið heima hjá sér, það er á Íslandi, sætta sig ekki við að flytja, án þess að vita það, á milli landa.
Þetta er grafalvarlegt og vona ég svo sannarlega að blessuð stofnunin, sem við elskum öll og virðum takmarkalaust fyrir fagleg vinnubrögð, þiggi nú boð mitt því ég bragða aldrei áfengi og tek ekki inn eitur jurtir eða neitt svoleiðis, svo það er engin hætta á því að ég detti í það.
Auðvitað bý ég ekki á Íslandi, en það ætti ekki að koma að sök. Ég kann ágætlega á tölvu og lærði á svoleiðis fyrir ægilega löngu, kann meira að segja RPG forritun og alles. Svo er netið svo dásamlegt og hægt að vinna alla svona einfalda vinnu í fjarvinnslu. Ég meina svona vinnu við að vera ekki flytja fólk endalaust á milli landa að ósekju.
Nú bíð ég bara ægilega spennt. Vona bara að ég nái að sofa í nótt fyrir spenningi því ég þarf að fara í sjúkraþjálfun í fyrramálið!
Þið sem hafið orðið fyrir þessu ónæði að vera flutt skuluð ekkert vera að hafa áhyggjur. Ég leysi þetta um leið og ég kemst á launaskrá hjá TR.
Auðvitað fer ég fram á nokkuð sæmilega þóknun og þá hætti ég kannski að andskotast í þeim sem halda að það sé eitthvað flott að vera fastur í "fátæki" gildru.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)