Grái herinn og afrek hans !!!!!

6. mai 2017

Ég ætla enn einu sinni að hefja upp raust mína og tala um fyrirbrigðið Gráa herinn.

Eins og allir vita sem eitthvað hafa lesið eftir mig þá er ég ekki aðdáandi fyrirbærisins.

Þetta átti að vera baráttuhópur innan félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis. Baráttan átti að vera fyrir bættum kjörum eldri borgara.

Haldinn var 1000 manna fundur í Háskólabíói fyrir síðustu kosningar þar sem öllum framboðum var boðið að koma.

Helgi P. stjórnaði fundinum og passaði upp á að þeir sem honum féllu ekki í geð, eins og til dæmis Helga Björk, yrðu honum ekki til skammar.

Hver hefur svo árangurinn orðið og framhaldið?

Frekar þunnur þrettándi finnst mér. Komi athugasemdir sem föruneytinu líka ekki er annað hvort ekki svarað eða með hálfgerðum skætingi.

Ekki mikið um haldgóðar upplýsingar varðandi hvað herinn er að gera.

Jú, það gæti virst sem herinn hafi heilsað upp á nokkra þingmenn og kannski ráðherra og átt við þá kaffispjall. Árangurinn hefur látið á sér standa.

HVAÐ HEFUR GRÁI HERINN AFREKAÐ ANNAÐ EN FUNDINN Í HÁSKÓLABÍÓI? HEFUR EITTHVAÐ FARIÐ FRAM HJÁ MÉR Í AFREKASKRÁNNI?

Björgvin Guðmundsson nýtur mikilla vinsælda hjá hernum og á það hrós ábyggilega skilið. Það er ekkert lát á skrifum hans en ég spyr mig stundum að því hvort þau séu árangursrík.

Hafa skrif Björgvins breytt einhverju varðandi kjör eldri borgara?

Hann er duglegur að heimta hærri bætur og stundum eru það bætur fyrir skatt og stundum eftir skatt. Svo talar hann um heilsugæslu og eitt og annað sem miður fer í kjörum þeirra sem eru komnir á aldur.

Allt er þetta hið besta mál en það þýðir ekki endalaust að heimta meira og koma ekki með einhverjar tillögur um úrlausnir aðrar en að leiðrétta þurfi nú þegar hitt og þetta.

Grái herinn hefði átt, ef hann væri virkt apparat, að koma með tillögur til útbóta. Hann hefði líka átt að halda baráttunni áfram eftir kosningar. Hefur hann gert það? Ég get ekki séð það en auðvitað er ég ekki með nefið niðri í hans koppi alla daga. Hins vegar veit ég að upplýsingar hans á Facebook síðunni eru ekki ýkja ítarlegar.

Herinn verður svoldið pirraður þegar verið er að finna að við hann. Ég hefði þó getað ímyndað mér að þeir sem þar eru í farabroddi væru vanir því að fá spurningar sem þeir gætu svarað og væru líka fúsir til svaranna. Eru einhver leyndarmál í gangi hjá blessuðum hernum?

Ein sem skrifaði á síðunna hjá hernum spurði hvort hann væri bara fyrir fólk í Reykjavík og svarið var stutt og laggott eins og venjulega. NEI 

Ég veit að margir bundu miklar vonir við þetta nýja fyrirbæri og héldu að hér væri komin leið til þess að ná árangri í áralangri baráttu við auðvaldið. Ég og fleiri höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum, svo ekki sé meira sagt. Að slá um sig með feitum fyrirsögnum og halda að allt leysist með því er ekkert annað en blekking. Það er ljótt að blekkja þá sem trúa á málstaðinn og þykjast vera að gera eitthvað en sitja á eigin sjálfselsku og spúa fagurgala í útvarps og sjónvarps viðtölum.

Nú er Helgi P. fluttur til útlanda og óska ég honum auðvitað alls hins besta og veit að hann og fjölskylda hans eiga eftir að njóta þess að komast í næsta nágrenni hvert við annað. Auðvitað eru aðstæður hans svolítið aðrar en aðstæður ungu móðurinnar sem var og er að velta fyrir sér að flytja úr landi til þess að geta séð fyrir sér og börnum sínum. Þessi unga móðir á ekki hús í Garðabæ til þess að selja. Hún hefur enga fjársjóði til þess að koma sér upp nýja lífinu í útlandinu. Hún hefur bara örorkubæturnar og barnsmeðlögin og svo baráttuviljann. Hennar saga er ekki blaðamatur. Það bankar enginn blaðamaður uppá hjá henni til þess að fá hennar sögu. Nei, hún er bara venjuleg ung kona sem skiptir ekki máli. Hún er ekki fræg. Hún og hennar líkar þykja ekki ýkja áhugaverð. Unga konan er í mínum augum miklu merkilegri en popparinn og talsmaður hers sem brást væntingum þúsunda. Hún er hetjan sem leitar allra ráða til þess að börnin hennar geti fengið að borða alla daga. Hún er hetjan sem hefur ekki hátt en ber harm sinn að mestu í hljóði. Hún er hetjan sem við sjáum á hverjum degi en tökum ekki eftir af því hún er ekki fræg. Hún ætti að vera í helgarviðtali á Vísi og í öllum blöðum sem gefin eru út á Íslandi. Hún ætti að vera sú sem við tölum um, skrifum um og viljum að geti notið betra lífs. Hún ætti að vera sú sem við gleðjumst með þegar kjör hennar og aðstæður hafa tekið stökk fram á við og hún þarf ekki lengur að neita sér um læknishjálp eða börnum sínum að fara í skólaferðalag.

Ég vona svo sannarlega að Helgi P og fjölskylda hans njóti margra farsælla ára í útlöndum og nú verður fróðlegt að sjá hvernig honum líkar við þær skertu bætur sem hann kemur til með að njóta vegna þess að hann tók þá ákvörðun að eyða ævikvöldinu ekki á Íslandi. Hingað til hef ég aldrei séð neitt frá honum um það mál og bíð ég nú spennt eftir framhaldinu.

Verður áfram talað um mikilvægi þess að allir vinni fram í rauðann dauðann eða snýst umræðan við?

Þetta er svo spennandi að ég get varla beðið.

Kannski bætist einn í hópinn sem fer að tala um hvernig stendur á því að ekki er hægt að reikna út orlofs og desemberuppbót eftir að nýju lögin voru sett.

Hulda Björnsdóttir

 

 


1.maí 2017. Hrun eldri borgara og öryrkja !

1.maí 2017

Það er kominn 1. maí og hátíðahöld í tilefni dagsins leiða í ljós sprungur í ASÍ.

Tími til kominn að fólk átti sig á því að ekki er allt sem sýnist hjá þeim sem gefa sig út fyrir að verja kjör þeirra lægst launuðu í forríku þjóðfélaginu.

Það er auðvelt að tala fallega og skarta fínum orðum á tyllidögum en erfiðara getur reynst að standa við fögru fyrirheitin og sýna að hugur fylgi.

Þórunn H. fyrrverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nú stjórnarmaður (eða hvað sem það er kallað) í hinum margfræga her gráðhærðra, lýsir því yfir í athugasemd að Ragnar Þór, nýkjörinn formaður VR, hafi ekki vit á málum lífeyrissjóða og því kerfi sem þar er rekið. Eins og svo oft áður fer ekki mikið fyrir rökstuðningi þessarar ágætu konu.

Hvað á hún við?

Telur hún óeðlilegt að greiðslur eftirlauna séu miðaðar við framfærslu?

Vel getur verið að hin ágæta kona ríði feitum hesti á sínum eftirlaunum en það gera varla konurnar í verkalýðsfélaginu sem hún samdi fyrir í denn. Alla vega ekki þær sem komnar eru á eftirlaun, það er ég alveg viss um.

Óskaplega væri það nú gott ef fólk sem veit betur en allir aðrir segi okkur hinum fávitunum hvað verið er að tala um svo við getum myndað okkur sjálfstæða skoðun en þurfum ekki að taka opnum örmum manni eins og Ragnari Þór sem talar mannamál og við skiljum bara nokkuð vel.

Getur það verið að Ragnar Þór sé hættulegur samtöðu ASÍ og klíkunnar þar? Getur það verið að hann sé að rugga bátnum svo óþægilega að þeir sem fyrir eru hafi veikst af sjóveiki og kannski byrjaðir að gubba vegna hins óstjórnlega kvíða sem maðurinn vekur upp hjá forystunni?

Nú er að koma sá tími sem fólk hlakkar til að fara í orlof og sumir hafa nú þegar fengið greidda orlofsuppbót með launum sínum eða fá hana alveg á næstunni.

Þeir sem eru komnir á eftirlaun hafa fengið þessa uppbót á ellilífeyri sinn og greiðslan komið sér vel fyrir marga.

Í fyrra fékk ég greitt frá Tryggingastofnun ellilífeyri að upphæð krónum 39.962 og svo fékk ég tekjutryggingu sem var 81.077 krónur.

Orlofsuppbót fékk ég líka og var hún krónur 14.895.

Hvernig fékk stofnunin út þessa tölu (14.895)?  Jú hún var prósenta af tekjutryggingu og ekkert mál að reikna hana út.

Aftur á móti er málið flókið og eiginlega bara ansi snúið eftir nýju lögin um almannatryggingar og get ég alveg skilið vandræði ráðuneytisins, og að það þvælist fyrir þeim hvað nú skuli til bragðs taka.

Það gleymdist að taka orlofsuppbót og desemberuppbót með þegar verið var að véla með eftirlaun og skipta þeim niður í ellilífeyri og heimilisuppbót til þess að fá fallega háa tölu sem hægt var að slengja framan í þá sem voguðu sér að kvarta.

Ég get ímyndað mér að ráðuneytis fólk sitji sveitt og velti fyrir sér hvernig hægt sé að snúa sig út úr vandanum og kannski hefur ráðherrann verið kallaður til.

NÚNA er ellilífeyrir 228.734

NÚNA er engin tekjutrygging bara heimilisuppbót og hana fá bara sumir

NÚNA ætti líklega að reikna orlofsuppbót af 228.734 en þá vandast málið. Fólk fengi dágóða upphæð, sem gengur auðvitað ekki. Hin leiðin er að nota ægilega lága prósentu svo krónurnar væru færri. Það er heldur ekki gott og seldist líklega illa fyrir kosningar.

Hvað er til ráða?

Hef ekki hugmynd en ég dauð vorkenni aumingja ráherranum og velferðanefndinni og bara þingheimi yfirleitt að þurfa að horfast í augu við hvað málin geta stundum verið ægilega snúin.

Þetta minnir mig bara dáldið á herra Trump sem er svo hissa á því hvað það er mikið starf að vera forseti Bandaríkjanna.

Og rúsínan í pylsuendanum er auðvitað þessi:

Þegar Félag eldri borgara ásamt ASÍ og fleirum sendu inn umsögn um hin nýju lög um Almannatryggingar, gleymdi þetta ágæta fólk að nefna orlofs- og desemberuppbætur? Skiptu þær toppana svo litlu máli að þær duttu upp fyrir? Nei, það getur ekki verið, þetta fólk er að vinna fyrir þá sem komu þeim í fínu jobbin og greiða þeim háu dásamlegu launin. Auðvitað er þetta eins og venjulega andstyggileg athugasemd sem ég skammast mín fyrir, eða þannig.

Í dag er fyrsti maí, dagur verkalýðsins og formenn félaga koma og tala fallega og bumbur eru barðar. Flestar eru þær nú nokkuð vel við vöxt en samt er einn frekar bumbulítill og þar af leiðandi ekki sérlega vinsæll. Hann lækkaði meira að segja launin sín af því honum fannst það sanngjarnt. Ég er auðvitað miður mín, svo miður mín að dagurinn liggur líklega niðri hér í nýja heimalandinu mínu.

Kannski kem ég mér þó úr náttfötunum og gleðst með bumbulausa nýja formanninum og sendi honum hlýjar kveðjur í tilefni dagsins. Hinir sem hafa safnað framan á sig góðæri og þyrftu líklega að bregða sér sjálf í líkamsrækt geta eiginlega gert það sem þeir vilja, andskotalaust af minni hálfu.

Hulda Björnsdóttir


Ekki silikon!! öskraði ég og fórnaði höndum.

30.apríl 2017

Þegar verið var að kynna framkvæmda áætlun vegna viðgerða á húsinu sem ég bý í var allt útlistað vel og vandlega.Kostnaðurinn var rúmar 800 evrur og rétt slefaði yfir 1000 evrur með skatti. Þetta gerir um það bil 300 evrur fyrir mig og vitleysinginn fyrir neðan, þennan sem ég ætla að borga fyrir. Ekki neitt til þess að ergja sig á.

Grafa átti skurð í garðinum meðfram veggnum til þess að einangra og varna því að vatnið gæti smogið inn í bílakjallarann. Ekkert var talað um að tréð yrði fjarlægt. Þetta viðbjóðslega tré sem ég hata út af lífinu. Það lemst í svalirnar hjá mér og heldur fyrir mér vöku og garðurinn fyrir neðan er bara pínulítill. Þetta ógeðslega fyrirbæri sem ég hef reynt að fá fjarlægt með öllum mögulegum ráðum er nú farið að skríða inn í veggina, það er ræturnar, og búa til göt hér og þar.

Þegar ég kveinaði í gær á fundinum yfir því að viðbjóðinn átti ekki að fjarlægja var mér sagt að fyrst yrði grafið meðfram veggnum til þess að einangra hann og þá kæmi í ljós hvort ræturnar væru komnar inn fyrir. Hálfvitar ! Ég sagði salla róleg að ég mundi drepa bévaðans tréð og allir horfðu á mig stórum augum og sögðu að ég skyldi bara gera það.

Þau vita ekki að ég reyndi það í fyrra. Eitraði með lútsterku eitri og hálfvitinn lifði af. Er bara aðeins títlulegra neðst en toppurinn lifir góðu lífi. Nú vill svo dásamlega til að kærasti vinkonu minnar er skógarhöggsmaður og hann veit allt um svona drápsaðferðir. Hann fær heimboð ásamt kærustunni og þau koma með eitur og við sprautum, eða hann sprautar, á fyrirbærið og það drepst vonandi.

Þegar verið var að útskýra fyrir mér hvernig ætti að loka sprungunum á húsinu ofanverðu svo ég komist úr stígvélunum í stofunni minni þá var talað um silicon.

Ég ærðist, stökk upp úr stólnum og hálf drap á mér öxlina sem þolir ekki snöggar hreyfingar í bili. Ég fórnaði höndum og hrópaði  SILICON

Ég get svarið það að helsta lausn allra vandamála hér í landi er silicon. Því er troðið í allt, alls staðar, hvað sem amar að þá er komið með silicon og það hefur svo sannarlega verið reynt í bílakjallaranum okkar. Jedúdda mía, það var allt fullt af siliconi þar fyrir 2 árum þegar átti að redda málunum og sjá til þess að vatnið, sem er auðvitað mun gáfaðra en hálfvitarnir sem búa með mér, finndi sér ekki leið í gegnum vegginn.

Það var sem sagt talað um silicon í verkáætlun sem var verið að kynna fyrir fundinum inni í stofunni minni þar sem blautur veggurinn blasti við mér. Meo deus, nao silicon, nao silicon, sagði ég og reyndi að garga ekki mjög hátt.

Fundarmenn, nágrannar mínir, horfðu á mig og kompaní fólkið líka, og hlógu.

Þau sátu þarna og hlógu að útlendings bjálfanum sem var að missa vitið fyrir framan þau.

Calma, calma sögðu þau.

Nao silicon. Nao nao, nao silicon,

og svo tóku þau til við að útskýra fyrir mér að þetta væri öðruvísi silicon. Ekki svona venjulegt silicon.

Það eitt að heyra nefnt silicon gerir mig einfaldlega tjúllaða, ég er með rennblautt loft í holinu hjá mér af því að hálfvitinn, tannlæknirinn, sem býr fyrir ofan mig, og fjölskylda hans fara í sturtu fimmtíu sinnum á dag. Óskaplega hlýtur þetta fólk að vera óhreint alla tíð. Einn daginn var ég að syngja inni í gestaherberginu mínu, píanóið er þar, og leit upp í loftið og við mér blasti vatn. Það var vatn í loftinu mínu. Ég fór fram í hol og þar var líka vatn í loftinu. Mikið vatn. Svo fór ég inn á bað og enn var vatn í loftinu þar. Ég var að missa vitið. Það var flóð fyrir ofan og seytlaði niður til mín. Andskotans sturtuferðirnar alltaf.

Ég talaði við tannsa og hann sagði mér að þetta væri allt út af eldri dóttur hans sem væri komin í háskólann og þyrfti svo oft að baða sig. Hah. Hún er bara heima um helgar. Jæja, kallinn hafði tekið eftir því að siliconið, takið eftir siliconið, hafði losnað meðfram sturtunni og hann bætti bara við og sagði að nú væri allt í lagi. Ekkert vatn hjá honum lengur fyrir utan sturtuna.

Mario og Carlos komu og Tryggingafélagið kom og það voru boruð göt á gólfið hingað og þangað hjá tannsa. Allt fljótandi í vatni undir. Ég varð óð. Núna, 2 árum síðar er loftið í holinu hjá mér enn blautt. Það tekur langan tíma að ná svona raka í burtu. Hann situr eins og gömul kelling og gefur sig ekki. Auðvitað hjálpar ekki að baðferðum hefur ekki fækkað á efri hæðinni. Meira hvað þetta ofur kaþólska pakk getur verið skítugt alla daga. Ég efast ekki um að nógu af siliconi hefur verið dælt í götin til þess að halda gólfum í lagi hjá fyrirfólkinu.

Stundum gæti ég alveg ælt.

Jæja, Núnó hefur komið 2svar til þess að athuga hvort hægt sé að mála hjá mér og það er ekki komið að því. Núnó er sko málarinn sem ég treysti og hann er frændi Toni sem er nágranni minn á sömu hæð, þessi sem fór með ruslið fyrir mig á meðan ég gat ekki gengið niður stigann af því ekkert handrið var hægra megin og ég var brotin vinstra megin. Skiljiði.

Nú verður sett upp handrið fljótlega, það var ákveðið í gær, því útlendingnum tókst að sannfæra fundarmenn um að hún væri alvarlega veik og þyrfti nauðsynlega að komast upp og niður stigann án þess að fá hjálp. He, he.

Allir eiga að vera búnir að borga sinn hluta í viðgerðinni fyrir 1. júní. Það er sko svoleiðis hér að fólki er ekki treyst til þess að greiða slíkar framkvæmdir eftirá. Ég skil það vel. Til þess að koma í veg fyrir að einhverjum takist að tefja framkvæmdina og láta mig áfram vera í stígvélum inni í stofu þegar rignir, sagðist ég mundi leggja út fyrir því sem á vantaði ef félagið sæi svo um að innheimta hjá skussunum. Þetta eru ekki nema 1000 evrur en miklu meira virði fyrir mig að framkvæmd geti hafist í júlí á þessu ári en ekki einhvern tíma í framtíðinni og kannski eftir önnur sex ár.

Ég er sko búin að búa hérna í rúm sex ár og komin vel inn í hvernig mál ganga fyrir sig í þessari blokk !

Fyrst það á ekki að fylla 20 metra langar sprungur utan húss með siliconi, það er venjulegu, þá lítur þetta bara nokkuð vel út og útlendings gellan nokkuð ánægð. Ég tala nú ekki um þegar andlátsfregn hins viðbjóðslega trés verður birt mér til mikillar ánægju og ég fæ svefnfrið jafnvel þó vindar blási.

Hulda Björnsdóttir


Fullnaðarsigur minn í baráttunni við nágranna !!!!

30.apríl 2017

Þegar ég kom til Portúgal fyrir sex árum og aðeins meira var ég svo heppin að eignast dásamlega nágranna sem allt vildu fyrir útlendinginn gera, eða þannig!

Þau voru fljót að uppgötva að þessi bévaðans útlendingur ætlaði sér að rugga bátnum sem hafði fengið að sigla í friði í nokkur ár.

Útlendingurinn vildi til dæmis hafa eldvarnir í lagi. Hrikalegt.

Svo vildi þessi hálfviti líka koma í veg fyrir að það rigndi inn í stofuna hjá henni yfir veturinn.

Auðvitað skildu nágrannarnir ekkert í þessum látum og sögðu óróaseggnum að hann gæti bara lagað vandamálið sjálfur þetta væri ekki svona í öðrum íbúðum. Rigningin kæmi bara inn í eina íbúð og sú væri í miðju hússins, engin rigning inn fyrir ofan, nei nei nei.

Frú apótekari fyrir ofan var verst í þessu.

Einn daginn þegar útlendingurinn kom heim var stofan full af fuglum. Þeir höfðu flogið niður um strompinn og komu í gegnum arininn. Voða hrifnir af nýju húsgögnunum hjá þeirri útlensku og ætluðu sér að setjast þar að.

Það fauk í vitleysinginn, útlendinginn, og hún keypti arinn inn í arininn, reyndar eftir að hafa spurt hvort hún mætti láta setja net fyrir strompinn svo fuglarnir kæmust ekki inn og apótekara daman og tannlæknirinn eiginmaður hennar sögðu NEI.

Nokkur þúsund evrur lokuðu fyrir fuglana og nú er allt fuglalaust en það rignir enn. Rigningin vellur inn og hefur gert í 6 ár.

Í landinu mínu nýja kann fólk ekki almennilega að búa í svona blokkum, það er vant að búa í húsum og þarf ekki að sitja uppi með kolbrjálaða útlendinga sem ætla allt vitlaust að gera vegna smá stígvélaveðurs í stofunni í nokkra mánuði á ári.

Ég kom því í gegn í fyrra eftir ævintýralegar tilraunir að ráðið var kompaní til þess að sjá um málefni blokkarinnar. Talaði við stjórnendur og sagði þeim frá ÖLLU því sem ég vildi láta koma í lag.

Kompaníið hefur nú verið við stjórn í eitt ár og fundur var í gær. Venjulega eru svona fundir haldnir í bílskúrum en útlendings frekjan heimtar að fundurinn sé í stofunni hennar og ber hún því við að heilsa hennar leyfi ekki bílskúrs kulda og tekk. Meikar sens og allir samþykktu þetta.

Til þess að hægt sé að taka ákvarðanir á svona fundum þurfa að vera 500 atkvæða einingar. Haldnir hafa verið 2 fundir og 517 einingar á þeim sem var í gær. Á fyrri fundinum var þetta eitthvað svipað. Útlendingurinn er hress með þessa mætingu og gefur kompaníinu kaffi og þakkar guði fyrir að aðal röflarinn mætir ekki. Í gær var hann að fara til Portó. Fundurinn er boðaður með ábyrgðarbréfi með tveggja vikna fyrirvara. Dásamlegt fyrirkomulag. Ég ræddi reyndar við tannsa, mætti honum fyrir 3 dögum þegar hann var á leið að sækja brauðið sem er hengt á útihurðina á morgnana, og ég sagði honum að það yrði að setja upp handrið hægra megin svo ég kæmist niður stigann næst þegar ég veiktist. Hann samþykkti þetta. Svo sagðist ég vilja losna við tréð sem er að grafa í sundur grunn hússins með rótunum. Kallinn samþykkti það en svo mætti gaurinn ekki á fundinn. Alveg dæmigert.

Jæja, semsagt, í gær var samþykkt að fara í framkvæmdir til þess að loka sprungunum sem rignir í gegnum svo ég þurfi ekki að nota blómastígvélin mín í bráð inni stofnunni. Kompaníið var búið að fá tilboð og útskýrt var hvað þyrfti að gera. Ég var alsæl, nú átti að gera það sem ég hef verið að segja að þyrfti að gera, í sex ár. Það skipti auðvitað öllu máli að útlendings bjálfinn var ekki að segja hvað þyrfti að gera og ég hélt mér alveg á mottunni og sagði ekki orð, ekki annað en að ég samþykkti málið og hef reyndar tekið að mér að punga út fyrir þann brjálaða á neðri hæðinni sem borgar ALDREI neitt en kemur annað slagið og öskrar og lætur öllum illum látum um miðjar nætur.

Konan er auðvitað löngu farin með börnin en hann er búinn að ná sér í aðra og farinn að öskra á hana og berja. Það er rafmagn í íbúðinni en ekki vatn. Ég skil ekki hvernig þau geta verið vatnslaus en það er auðvitað annað mál.

Þessi vitlausi, fyrir neðan mig, borgar aldrei neitt og ég er löngu búin að lýsa því yfir að þegar loksins verði farið í framkvæmdir til að loka fyrir vatnið í stofuna mína, í gegnum veggina, þá borgi ég hans part því það er ódýrara fyrir mig en að allir geti haldið að sér höndum bara af því hann borgar ekki og íbúðin mín verður smátt og smátt að sundlaug.

Nú er búið að tryggja húseignina, búið að samþykkja að kaupa eldvarnartæki og á að skipta um ljós í sameigninni til þess að spara rafmagn og síðast en ekki síst, og þar er fullnaðarsigurinn minn unninn, á að stoppa upp í vatnsrásirnar á veggjunum og grafa upp garðinn til þess að gæta þess að ekki flæði lengur inn í bílskúrana.

Ég lét setja 10 cm vörn fyrir minn skúr svo það fer ekkert vatn þangað lengur en lekur til hinna og mér nokk sama um það, en vörnin mín varð til þess að fólk sá alvöruna í því að ég ætlaði ekki að ausa vatni oftar úr bílskúr.

Ýmislegt fleira sem útlendings fíflið hefur verið að tuða um í 6 ár verður nú framkvæmt og það besta við þetta allt saman er allir halda að þetta sé þeirra uppástunga og ekki sé verið að láta að vilja þeirrar útlensku.

Ég elska svona uppákomur. Þetta gefur lífinu svo mikið gildi. Verst er þetta þó með blómastígvéin mín sem hafa verið inni í skáp í allan vetur og beðið þess að fá að vaða í kjallaranum. Þau fá ekki að vaða, eða það lítur út fyrir ekki en ég dytti ekki niður dauð af undrun ef vatnið fynndi sér leið inn í bílskúrana. Það er nefnilega ekki verið að leysa það mál alveg en ég ætla ekki að blanda mér í það meira í bili.

Staðreyndin er sú að vatnið í bílskúrana kemur frá næsta garði ! en ég losna við andskotans tréð úr okkar garði !. Ætla ég að segja nágrönunum frá þessu? Nei, ekki aldeilis. Ég ætla að skemmta mér yfir þessu þar til næstu rigningar flæða inn í alla skúra nema minn og þá gæti ég hugsanlega sagt: Ég sagði ykkur þetta fyrir 5 árum!

Hulda Björnsdóttir

 


Tvísköttun, hvað er það nú eiginlega ?

30.apríl 2017

Það er stundum rætt um tvísköttun og tvísköttunarsamninga og margir sérfræðingar í þeim málum skjóta upp kollinum, sérstaklega á Facebook.

Yndislegt er að sjá alla þessa ágætu sérfræðinga en mér þykir frekar þunnur þrettándi stundum þegar ég les upplýsingar þeirra.

Þegar ég flutti frá Íslandi vissi ég ekkert hvað tvísköttunarsamningar voru. Hafði aldrei heyrt á þá minnst eða alla vega ekki tekið eftir því ef einhver talaði um svoleiðis.

Það er jú rætt um svo margt og einn heili getur ekki melt allt sem er á ferðinni.

Ég hrökk hins vegar upp við vondan draum þegar ég hóf að taka eftirlaun frá Tryggingastofnun og var rukkuð um skatt frá Íslandi og stofnunin heimtaði af mér skattskýrslu frá Portúgal. Ég vissi ekkert um að nú væri ég orðin mikilvægari en margir aðrir og ætti að telja fram milljónirnar mínar í tveimur löndum. Hélt í fávisku minni að skattgreiðsla á Íslandi væri málið og þetta kæmi Portúgölum ekkert við, hvað þá að íslenska tryggingastofnunin gæti lesið í gegnum skattskýrslur gerðar í Portúgal sem þykja með afbrigðum flóknar og eru ekki einu sinni á íslensku.

Ég ræddi við apparatið á Íslandi og sendi e-mail og fékk alls konar heimskuleg svör sem ég nenni ekki að endurtaka hérna. Þau voru svo út um víðan völl að ég með öllu mínu frábæra hugmyndaflugi náði engan vegin í skottið á fyrirbærinu. Gafst upp á endanum og talaði við ríkiskattstjóra og lögfræðing þar sem auðvitað gat útskýrt fyrir mér málið. Engir hálfvitar hjá skattstjóra og þar er bara tekið á málunum og ekkert verið að djöflast eins og beljur sem hleypt er út að vori. Nei mér var sagt hvað ég ætti að gera vegna þess að í gildi væru samningar á milli Íslands og Portúgal til þess að koma í veg fyrir svona "tvisvar" álagningu. Sem sagt fyrirbærið tvísköttunarsamningar. Ég gat kært Ísland og fengið endurgreitt í ágúst og fékk það. Nokkur hundruð þúsund endurgreidd og eftir svolítið japl og jaml og fuður var upphæðin meira að segja lögð inn á reikning minn á Íslandi, en ég þurfti að biðja um það.

Stundum er kerfið sko þannig að það verður að fylgja því eftir. Ég hringdi auðvitað í skattmann í Hafnarfirði og Gullbringusýslu eða eitthvað svoleiðis og sagði þeim að ég vildi eiginlega bara fá peningana mína. Þau létu þetta eftir mér á endanum.

Viðtiði, stundum þykir mér sem allir haldi að maður sé að ljúga einhverju. Sönnunarbirgðin er svo mikil og ég hefði ekki orðið hissa þó heimtað hefði verið að ég kæmi í eigin persónu frá Portúgal til þess að standa fyrir framan fulltrúann og sanna að ég væri ég. Æ. þetta er nú hálf andstyggilegt en mér líður stundum svona og ekki síst þegar ég þarf á morgun að fá kirkjugarðana hér í þorpinu til þess að staðfesta að ég sé ekki ofan í moldinni og tikki enn þá alveg eins og í fyrra.

Ef einhver segir ykkur að ekki séu í gildi samningar á milli landsins sem þið hafið flutt til  og Íslands þá ráðlegg ég ykkur að tala við ríkisskattstjóra. Ekki eyða tíma í Tryggingastofnun. Skatturinn veit þetta upp á hár og þau gefa almennilegar upplýsingar.

Ekki taka orð mín eða annarra sem skrifa til dæmis á Facebook og þykjast vita allt um þetta trúanleg. Sumir sérfræðingarnir á Facebook hafa lesið hálfa tvísköttunarsamninga og sjá bara fjallað um fyrirtæki. Þetta fólk nennir ekki að lesa til enda. Ég get alveg skilið það. Tvísköttunarsamningar eru ekki eins og ástarsaga eða þriller. Þetta er grafalvarlegt mál og málið er frekar erfitt að skilja. Skiljiði?

Fjallað er um eftirlaun og hvernig þau eru meðhöndluð í þessum samningum aftarlega í hverjum samningi. Ég hef lesið nokkra og held að ég skilji þetta aðeins. Ég veit alla vega hvar ég á að leita eða hvert ég á að hringja.

Ég varð alveg urrandi þegar ég sá comment þar sem talið var eðlilegt að einhver sem bjó í útlöndum væri skráður á Íslandi þar sem ekki væri í gildi samningur á milli landanna. Þessi aðili rífur endalaust kjaft yfir kjörum fólks og virðist vera sérfræðingur í ÖLLU, ekki bara sumu og hann rífst og djöflast yfir því hvernig stjórnvöld svíki almenninga. Svo getur þessi sóðakjaftur leyft sér að segja að eðlilegt sé að svíkja út úr kerfinu þegar verið er að taka á móti bótum frá Íslandi.

Ég verð stundum alveg kjaftstopp og veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið.

Hulda Björnsdóttir


Hvað er skattkort?

30.apríl 2017

Hvað er skattkort? Hvers vegna þarf ég að hafa skattkort.

Spurningar sem þessar gætu hugsanlega farið í gegnum kollinn á einhverjum.

Ég man þá tíð þegar við borguðum skatta eftir á. Þeir voru reiknaðir út einu sinni á ári og svo kom reikningurinn og allt fór í klessu.

Núna bý ég í landi þar sem þetta fyrirkomulag er. Skattar eru greiddir eftirá. Hér skal borga alla upphæðina 1. september ár hvert. Borgi maður ekki á réttum tíma eru viðurlög og allt mögulegt svoleiðis sem ég þekki ekki því ég hef alltaf borgað það sem mér ber á réttum tíma. Ég er nefnilega heltekin af þeirri áráttu að skulda engum neitt.

Núna, árið 2017 veit ég ekkert hvað ég á að borga mikið í skatta en veit þó að það verður all veruleg upphæð vegna þess hve gengi krónunnar hefur verið ólíkt því sem það var í hitteðfyrra.

Ég er hins vegar svo sniðug að ég legg fyrir ákveðna prósentu í hverjum mánuði og þegar ég fæ bréfið í byrjun ágúst, frá skattmanninum hér í landinu mínu, legg ég allt inn aftur í bankann minn og borga svo bara í gegnum hraðbanka. Einfaldara getur lífið ekki verið. Það þarf hins vegar aðeins fyrirhyggju og getur stundum verið freistandi að fara í umslagið og gera eitthvað skemmtilegt fyrir peningana.

Mér finnst skattkort mjög rökrétt og nú er það komið á rafrænt form á Íslandi.

Hér áður fyrr skilaði maður kortinu inn, en það var gefið út af ríkisskattstjóra, kortinu var sem sagt skilað til launagreiðanda og hann sá um að allt væri rétt reiknað og skilaði svo skattinum um miðjan mánuð ásamt ýmsum öðrum gjöldum sem þeir greiða er hafa fólk í vinnu.

Svo kom uppgjör um mitt ár og allt var í fínu lagi. Mjög hentugt.

Nú veit ég ekki hvernig þetta nýja fyrirkomulag með rafrænt kort virkar en ég var aðeins að velta fyrir mér varðandi þau fyrirtæki sem eru pínulítil og kannski ekki með tölvu keyrð launaforrit. Hvernig ætli þetta virki hjá þeim?

Ég þarf eiginlega að fá þessar upplýsingar frá einhverju litlu fyrirtæki sem gerir allt samkvæmt bókinni og er ekki að svíkja eitt eða neitt út úr kerfinu.

Gamla kerfið virkaði þannig að þegar ég hætti að vinna hjá einu fyrirtæki fékk ég skattkortið afhent og var kvittað á það og alles. Síðan skilaði ég því til nýja vinnuveitandans ef ég hélt áfram að vinna en auðvitað ekki ef ég var að vinna svarta vinnu.

Er einhver að vinna svarta vinnu á Íslandi í dag?

Ég veit ekkert um það, en hef aldrei prófað þetta sjálf. Færi líklega á taugum ef ég reyndi að svíkja út úr kerfinu og svo dræpi samviskubitið mig efalaust mjög fljótlega.

Ég er nefnilega á því að maður eigi að borga til samfélagsins og þess vegna er ég bara glöð þegar rukkunin kemur til mín núna í ágúst byrjun.

Skattkort eða ekki skattkort. Það er ekki málið. Samfélagið skiptir öllu máli og vilji ég njóta hlunninda sem greidd eru af sameiginlegum sjóði þarf ég að taka þátt.

Einfalt og auðskilið en sumir þurfa að borga meira en aðrir og einstaka geta komist upp með að láta afskrifa milljarða af skuldum og halda svo áfram að stjórna því að láglaunafólk og lífeyris þegar lepji dauðann úr skel.

Það á auðvitað að taka skattkort af öllum sem sitja á alþingi núna. Ekkert vit að gefa þessu fólki afslátt. Líklega væri best að gefa út refsiskattkort til þeirra sem eru með yfir milljón á mánuði. Er þetta ekki bara kúl hugmynd? Ég held það.

Hulda Björnsdóttir

 


Kæri Þorsteinn Vilhjálmsson ráðherra velferðarmála !

 

30.apríl 2017

Ég las í gær, minnir mig, blogg Björgvins þar sem hann talar um viðbrögð hins þekkilega ráðherra Þorsteins Vilhjálmssonar við heimsókn formanns félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Ellert er fulltrúi fyrir þúsundir manna, ekki bara fyrir einhverja örfáa. Mér finnst með ólíkindum hvernig ráðherra kemur fram við fulltrúa eldri borgara. Ellert þarf að bíða í 2 vikur eftir viðtali. Hann þarf að bíða á biðstofu ráðherra þar til kallað er í hann og svo er ekki tekið í mál að ræða það sem Ellert kom til þess að ræða um. Kæri Þorsteinn ráðherra, mér finnst þetta alveg voðalega einkennilegt en kannski ertu bara svo ægilega upptekin við eitthvað að þú mátt ekkert vera að því að tala við gamalt fólk! Ég segi bara svona en auðvitað er þetta tóm vitleysa hjá mér, eða er það?

Nú ætla ég að upplýsa hvernig ég bregst við svona framkomu.

Ég sendi bréf til ráðuneytisins til þess að athuga hvort hægt væri að fá viðtal hjá ráðherra. Þetta var fyrir eftirlaunaþega búsetta í öðru landi sem var á leið til Íslands í mánaðardvöl og hún hafði kannski áhuga á að hitta þig elsku Þorsteinn ráðherra.

E-mail númer eitt frá mér:

Góðan dag. Ég er að velta fyrir hvert hægt sé að panta viðtal hjá Ráðherra. Vonkona mín sem býr í Noregi er að fara til Íslandi í maí og verður á landinu þann mánuð. Hún hefur áhuga á því að tala við ráðherra verferðarmála. Konan er eftirlaunaþegi búsett í Noregi. Með vinsemd og virðingu Hulda Björnsdóttir kt..........

Ég fékk svar frá ritara ráðherra

Tilvísun í mál VEL...... Sæl Hulda, Hvað heitir konan og hvert er málefnið? Bestu kveðjur, (Nafn ritarans)

Ég meina, hvað kemur það málinu við hvað konan heitir? Ég var bara að athuga hvort hægt væri að panta viðtal hjá ráðherranum.

Jæja, það fauk dálítið í mig kæri Þorsteinn ráðherra og ég sendi svar til ráðuneytis þíns.

Re.Fyrirspurn

Sæl Elín Ágústa, fyrirgefðu hvað ég svara seint en hef verið upptekin og ekki opnað hotmailið mitt þessa vikuna. Konan er búin að senda ykkur fyrirspurn og hefur fengið svar. Henni var sagt að hringt yrði í hana.

Ég vildi gjarnan fá að vita hvort ekki sé hægt að fá samtal við ráðherrann sjálfan en ekki einhvern fulltrúa sem engin völd hefur. Ég sjálf hefði áhuga á því að ræða við Þorstein um málefni eldri borgara, sérstaklega þeirra sem búa erlendis. Ég hef ekki áhuga á því að tala við einhvern fulltrúa hans. Þar sem ég bý erlendis nota ég Skype þegar ég tala við fólk á Íslandi því mér hugnast að sjá framan í þann sem ég ræði við. Á 21. öldinni er þetta nú ekki flóknara en svo.

Um áramót var tekjuskerðing veruleg og hefur verið talað um að hún verði leiðrétt á 4 árum. 109 þúsund frítekjumark varð 25 þúsund krónur sem nú á að leiðrétta á 4 árum. Fáránlegt og vítaverð sviksemi.

Ráðuneytið hefur ekki gefið út reglugerð um upphæð orlofs og desember uppbótar fyrir árið 2017.

Þorsteinn hefur haldið því fram að leiðréttar hafi verið húsnæðisbætur. Vinur minn sem fékk 50 þúsund fyrir breytingu fór niður í 12 þúsund. Leiðrétt var og nú fær hann 15 þúsund. Mismunur er krónur 35 þúsund. Hvernig getur ráðherrann fengið það út að húsnæðisbætur hafi verið leiðréttar?

Eftirlaun sem nú heita í nýjum lögum ellilaun eru partur af því sem þeir fá sem búa einir og búa á Íslandi. Seinni helmingur sem er heimilisuppbót kr. 52.316 fyrir einstakling sem býr einn hjálpar eftirlaunum að verða 281.050 krónur fyrir skatt. Þetta þýðir að eftirlaun þess sem býr erlendis og býr einn eru krónur 228.734. Þetta þykir mér og fleirum harla ámátlegt og ekki alveg í samræmi við falleg orð ráðherrans og annarra í ríkisstjórn.

Ég get haldið áfram og talið upp fleira en líkleg afær ráðherra aldrei þetta bréf og því síður að hann gefi sér tíma til þess að svara einstaklingi sem ekki býr á landinu jafnvel þó þessi sami einstaklingur hafi greitt skatta og skyldur alla sína starfsævi til íslenska ríkisins og bygg  upp þjóðfélagið sem ráðherrann er nú að stjórna.

Virðingarfyllst

Hulda Björnsdóttir kt. ...... sími....... skype.......

Ekki veit ég hvort ritarinn svarar og mér er eiginlega alveg nákvæmlega sama. Ég er orðin svo þreytt á ruglinu sem þessi endemis hallærislega ríkisstjórn ber á borð fyrir mig.

Ríkisstjórn sem skarar að eigin köku og ættingja sinna ætti ekki að vera við völd árið 2017 á Íslandi en hún er það vegna þess að fólk trúði innantómum loforðum þeirra sem ætluðu sér hvað sem tautaði og raulaði að komast í vel launað starf á hinu háa alþingi Íslendinga.

Þorsteinn velferðarráðherra er flottur gæi, en ég er alveg að gefast upp á því að vera yfirmáta kurteis þegar ég tala um sporin hans í þessu stjórnar samstarfi.

Ég ætla þó að ljúka þessu núna en gæti hugsanlega byrst mig og orðið verulega reið í náinni framtíð því óréttlætið er svo yfirgengilegt.

Hulda Björnsdóttir


Nú er ég að fara í fyrirsætu starfið !

29.apríl 2017

Það var þó aldrei að ég yrði ekki fyrirsæta í þessu lífi.

Í gær var ég í Coimbra og sat bara í sakleysi mínu fyrir framan heilsusamlega máltíð. Hafði borðað morgunmat og síðan einn banana eftir sjúkraþjálfunina klukkan 11 en nú var hungrið farið að sverfa að.

Ég er eiginlega búin að gefa upp á bátinn að kaupa mér sumarkjól og ætla að kaupa giftingarkjólinn á útsölu í júní. Carla og Antonio gifta sig ekki fyrr en júlí og þá verður Ana Sosa komin með allt á afslátt. Auðvitað get ég ekki farið í brúðkaup hjá portúgölskum vinum mínum í gömlum kjól, það gengur ekki. Er sem sagt búin að finna dressið og það kemur heim í júní. Þetta var pínu snúið vegna þess að ég get ekki verið með beran handlegginn þar sem skurðurinn blasir við og allir mundu reka augun í örið og spyrja hvað hefði komið fyrir. Í brúðkaupi nenni ég ekki svoleiðis. Sem sagt litlar ermar, víðar, af því hitinn í júlí er ekki vetrarveður.

Jæja, þetta átti að vera um fyrirsætu starfið mitt. Ég var komin með hádegismat fyrir framan mig og klukkan orðin hálf fimm. Hádegis maturinn var síðbúinn því ég þurfti að hitta Dr. Daníel og það var klukkan 2 en auðvitað beið ég þar til aðeins að ganga fjögur og svo þurftum við að spjalla heilmikið svo þetta tók langan tíma eins og gefur að skilja.  Ég lofaði Dr. Daníel upp á tíu fingur að fara í rannsóknina sem hann vill að ég fari í. Hann er nefnilega svo hræddur um að ég sé með krabbamein í ristlinum, sem ég er auðvitað ekkert með, en ég ætla að fara í þessa andstyggðar rannsókn fyrir hann þegar ég er búin í sjúkraþjálfuninni í maí. Það er ekki hægt að gera allt í einu, skiljiði.

Dr. Joanna, hún er sú sem skar mig upp 2svar, sko á handleggnum þegar ég braut hann og öxlina, og skurðurinn er svo kúl. Alveg eins og einn, þó þeir hafi verið 2. Gæti ekki verið betra. Sem sagt, Dr, Joanna kom labbandi til mín þegar ég var að fara að stinga upp í mig fyrsta bitanum af hádegismatnum. Hún var með litla ljósið sitt með sér og þær kysstu mig báðar og við föðmuðumst. Þetta er jú í Portúgal og svona gerum við þar. Ég á viðtal hjá Dr.Joönnu 23. maí en hún vill fá mig fyrr og ætlar að hringja í mig.

Dr. Joanna ætlar að gera mig að fyrirsætu. Taka myndir og videó af öxlinni og handleggnum og hreyfigetu og guð veit hvað til þess að nota sem dæmi í kennslu. Haldiði ekki að þetta sé frábært?

Ég verð ekki bara einhver fyrirsæta sem gleymist.

Ó nei, ég verð ódauðlegt dæmi um líf eftir brot hjá yfir sjötugri með beinþynningu. Hugsið ykkur alla lækna stúdentana sem eiga eftir að skoða þetta.

Þegar Dr.Joanna kvaddi vissi ég að nú yrði ég ódauðleg. Auðvitað verður svo framhaldið að einhver biður mig að sitja fyrir í fötum, ég meina sko tískufötum og þá verð ég svona venjulega fyrirsæta. Ég las einhvers staðar að það væri inn þessa dagana að hafa gamalt fólk í flottum fötum og þetta þykir svo merkilegt að facebook síður eins og lifðu vel og lengi eða eitthvað svoleiðis sem ein heitir tala oft um þetta.

Framtíðin er björt. Nú get ég líklega farið að gefa Trygg langt nef og Þorsteini ráðherra líka, því fyrirsætustörfin verða betur launuð en lúsarlaun til ellilífeyrisþega frá Íslandi.

Guð hvað ég er þakklát fyrir að vera ekki í landi með Panamaprinsinum og hinum geðþekka velferðaráðherra og geta bara notið lífsins í útlöndum, jafnvel þó ég sé ekki tuttuguogeitthvað alþingismaður.

Lífið er einn draumur frá upphafi til enda.

Hulda Björnsdóttir


Frískattkort, hvað er það?

25.apríl 2017 taka tvö

Það getur reynst flókið að komast í gegnum frumskóg pappíra sem þarf til þess að vera löglega búsettur erlendis og fá eftirlaun sín greidd frá Íslandi.

Í sumum löndum borga menn skatt þar sem þeir búa og í öðrum hafa verið gerðir samningar þar sem komið er í  veg fyrir tvísköttun og þá verða til svonefndir tvísköttunarsamningar.

Svona samningar eru hálfgert tróð. Það munaði korteri að ég færi í mál við portúgalska ríkið vegna þess að þeir tóku af mér skatt. Ég hafði lesið í gegnum samninginn á milli landanna en fattaði ekki að mín eftirlaun voru ekki frá ríkinu, því ég hafði ekki verið ríkisstarfsmaður! og þar af leiðandi átti ég að greiða skatt í búsetulandi en ekki upprunalandi eftirlaunanna.

Meikar sens, eða hvað? Góð íslenska þetta, gat bara ekki setið á mér í þetta skiptið.

Ég nenni ekki að velta mér upp úr alls konar bulli varðandi þessa samninga og sætti mig bara við málið eins og það er.

Til þess að vera nú ekki að borga skatt í tveimur löndum þarf ég að útvega mér frískattkort hjá ríkisskattstjóra. Það er ekki erfitt. Ég sendi bréf einu sinni á ári með umsókn og pappírum sem eiga að fylgja. Skattskýrsla frá Portúgal, staðfesting skattyfirvalda hér um að ég hafi greitt skattinn, og svo umsóknin sjálf.

Þetta er nú ekki svo mjög flókið það er að segja ef ég er með fulla heilsu og get sótt um það sem sækja þarf um hjá portúgalska skattinum. Það er staðfestingin á því að ég sé skilvís greiðandi.

Svo er þetta líka bara einu sinni á ári, í desember. En samt á hverju einasta ári. Svoldið líkt og með lífsvottorðið eða þannig. Æi, þetta var nú hálf andstyggilegt hjá mér.

Ég get fullyrt það hér að þjónusta sú sem ég hef þurft að sækja til ríkisskattstjóra er til stakrar fyrirmyndar og ég á ekki nægilega öflug orð til þess að þakka þeim.

Það er einn galli á útgáfu þessara fríkorta.

Þau eru send til Tryggingastofnunar og Lífeyrissjóðs VR, því tekjur mínar koma frá þessum 2 stofnunum.

Ekki málið hjá Líf VR, þeir borga eftirá og þegar greiðsla fyrir janúar kemur er búið að skrá inn nýja fríkortið mitt.

Hjá Tryggingastofnun er þetta svoldið snúnara. Þeir borga fyrirfram og þegar greitt er fyrir janúar er gamla kortið mitt fallið úr gildi og það nýja ekki komið í skráningu þegar allt er keyrt í tölvunum fyrsta janúar ár hvert, og nú tekinn af mér fullur skattur.

Auðvitað verð ég voða sár og pínulítið pirruð út í þetta fyrirkomulag. Ég er löngu hætt að senda e-mail til stofnunarinnar. Bý auðvitað við nútímatækni árið 2017 og skypa á stofnunina og tala við ráðgjafa fyrir brottflutta.

Stundum gengur þetta vel og ráðgjafinn skilur alveg í botn hvað ég er að tala um. Núna, þetta árið, í janúar, var sú sem ég talaði við alveg súper. Við töluðum sama mál, hún skildi mig og ég skildi hana, báðar töluðu íslensku og voru vel inni í málinu. Vissum sem sagt um hvað við vorum að tala. Allt annað líf en að lenda á þeim sem skilja svoldið illa svona kvörtunar konur eins og mig sem eru að trufla frá útlöndum og geta ekki einu sinni notað almennilegan síma. Ég elska skypið, það er svo þægilegt og kostar sama og ekki neitt.

Þetta er semsagt um frískattkortið og mig langar svo agalega mikið til þess að segja honum Þorsteini Víglundssyni frá því hvernig þetta gengur fyrir sig hérna í útlandinu. Ég gæti alveg haft fund með honum á Skypinu, hann gæti séð hvað ég er glæsileg og líka hvað mér er mikil alvara með því sem ég er að segja.

Ég mundi vera ofboðslega kurteis, ekki spurning. Ég færi nú ekki að ybba mig við sjálfan ráðherrann.

Ég nenni ekki að fara til Íslands til þess að reyna að koma vitinu fyrir staurblinda stjórnmálamenn eins og til dæmis Bjarna Ben en ég er alveg viss um að ég gæti Skypað Þorstein og hann er nú svo góður maður og einlægur. Ég hef séð það í sjónvarpinu sem ég horfi stundum á í tölvunni minni.

Annars ég ég óttaleg með það að horfa ekki á íslenskt sjónvarp. Mér fellur betur ýmislegt annað en ef það eru áhugaverði viðtöl, eins og við ljúflinginn hann Þorstein Víglundsson velferðaráðherra, þá sit ég og hlusta og horfi þannig að ég veit alveg frá fyrstu hendi hvað hann er elskulegur drengur.

Ég sendi bréf í ráðuneytið og spurði hvort það væri hægt að fá viðtal við ráðherrann. Þetta bréf fór með tölvupósti í fyrradag og ekki hef ég fengið svar. Ég hringdi reyndar í ráðuneytið í gær til að fá upplýsingar fyrir vinkonu mína og þau svara flott í símann. Auðvitað fékk ég ekki samtal við ráðherra og ekki einu sinni staðgengil eða aðstoðarmann. Það var einhver ritari sem ég talaði við og hún var nú ekkert sérlega kúl. Svo hef ég heyrt að það geti verið snúið að komast að hjá ráðherranum.

Ég skil það nú ekki vel. Hélt að hann væri að vinna fyrir mig og mína líka. Hér áður fyrr, þegar ég bjó á Íslandi, gat ég pantað tíma hjá ráðherrum og fengið við þá viðtal. Kannski hefur þetta breyst með hækkuðum launagreiðslum og erfiðara fyrir almenning að komast að. Ég er bara að velta þessu svona fyrir mér af því það er komið kvöld og ég ætlaði ekkert að vera að ybba mig í dag.

Samt langar mig voða mikið til þess að heyra í honum Þorsteini Víglundssyni ráðherra svo ég geti sagt honum þetta með heimilisuppbótina sem hann tekur af mér bara af því að ég bý ein í útlöndum en ekki ein á Íslandi. Svo langar mig líka til að segja honum pínulítið frá þessu með alla pappírana sem ég þarf að senda hingað og þangað bara til þess að láta vita að ég sé ekki dauð. Mig langar nefnilega svo mikið til að finna að mér sé treyst til þess að svindla ekki á kerfinu og held að það væri svo miklu betra að reyna að hafa upp á þeim sem eru að svindla en að eltast við þá sem gera allt sem þeim er sagt að gera.

Hulda Björnsdóttir


Sjálfstæði Portúgals. Haldið er upp á þann 25.apríl.

25.apríl 2017

Í dag eru víða hátíðahöld í tilefni dagsins. Ég fór upp í Semide í morgun og var að fara í söngtíma. Þegar ég kom til Miranda Do Corvo var búið að loka leiðinni sem ég ek venjulega, og góð ráð dýr.

Ég spurði lögguna hvernig ég kæmist til Semide.

Þú ert í Semide, sagði hann.

Já, ég veit það en ég þarf að komast upp á toppinn, svaraði ég.

Nú, þá verður þú að fara............ og hann leiðbeindi mér og sagði hvar ég ætti að beygja til vinstri og svo aftur til vinstri.

Obrigada, datt út úr mér og hugsaði með mér að líklega villtist ég og kæmist ekki heim fyrr en í kvöld. Þetta var í morgun.

Einhvern vegin tókst mér að rata rétta leið. Það var ekki neitt klárt eða skýrt í kollinum á mér sem hjálpaði. Ég ók bara sem leið lá og á einum staðnum var gatan svo mjó, á milli húsa, að ég rétt skreið.

Á miðri leiðinni fannst mér ég vera farin að kannast við mig en það var auðvitað bara bull. Hafði aldrei keyrt þessa leið en það er allt svo ægilega líkt hérna í þessu litla landi að maður getur ruglast aðeins.

Ég var með plan.

Ætlaði að hringja í kennarann minn þegar mér hefði tekist að verða svo rammvillt að ég kæmist ekki heim aftur. Það kom fyrir einu sinni, fyrir nokkrum árum síðan, svo við erum vanar svona rugli.

Viti menn, allt í einu blasti við mér skilti þar sem á stóð nafnið á garðinum sem er ekki langt frá ákvörðunarstað mínum.

Ég var sem sagt á réttri leið og komst í fangið á pabba kennarans míns sem fagnaði mér ógurlega og ég var ekkert að skafa utan af því að ég væri snillingur.

Það hafði sko gleymst að láta mig vita að á þessum fína degi væri alltaf lokað hér og þar. Þá er ég að tala um umferðaæðar en ekki búðir. Auðvitað eru allar búðir lokaðar nema kannski súpermarkaðirnir, þessir stóru, og kannski finn ég mér sumarkjól þegar ég hef komið þessum skrifum frá mér.

Það vill nefnilega svo til að í dag eru 15 stig og skýjað, sem sagt skít kalt og besta veður til þess að kaupa sér þunnan sumarkjól til að nota þegar hlýnar. Það hlýnar jú ábyggilega einhvern tíman, held ég.

Ég nenni ekki að fara að hlusta á FADO væl sem er á hverju horni í dag og lekur tregafullt sönglið eins og fallegur straumur vatns úr krana þegar sólin glampar í gegnum skýin.

Ég dáist að því hvað mikið hefur áunnist síðan landið komst undan einræðisherra valdi og hugsa stundum um hvernig Ísland virðist vera í höndum örfárra einræðisherra sem moka inn peningum í sína kassa og gefa lítið fyrir almenning, annað en að heimta skattpeningana.

Heil kynslóð í landinu mínu er ólæs og óskrifandi. Það þótti ekki nauðsynlegt að senda fólk í skóla í tíð einræðisherrans.

Fátt er sárara en að tala við gömlu konurnar sem segja mér frá því hvað þær hefðu gjarnan viljað fara í skóla og læra að lesa. Tárin renna stundum niður kinnarnar á þessum elskulegu gömlu konum og faðmlögin þeirra eru þétt. Á svona stundum get ég ekki annað en verið þakklát fyrir að hafa alist upp í landi þar sem menntun var höfð í hávegum og allir lærðu að lesa við móðurkné áður en þeir fóru í skóla. Alla vega þeir sem eru af minni kynslóð.

Maðurinn í húsinu á móti er aftur farinn að spila á harmonikkuna sína þetta eina lag sem hann kann. Ég hitti vinkonu í gær sem sagði mér hver það væri sem spilaði og staðfesti það grun minn.

Tannlæknirinn á efri hæðinni syngur og er í kór. Svo er hann líka í grúppu sem kemur saman nokkrum sinnum á ári og allir ægilega hrifnir. Ég sá myndband með grúppunni nýlega og velti því fyrir mér af hverju nágranninn minn virðist alltaf vera alveg í spreng þegar hann gólar lögin sín? Auðvitað andstyggilegt af mér að hugsa svona og ég ætla að hætta því. Líklega er hann bara að slá taktinn eða eitthvað.

Ég er sannfærð um að portúgalskar flugur eru einhverjar þær allra heimskustu í veröldinni.

Á svölunum hjá mér er glerveggur. Ég opna venjulega á morgnana, það eru sko rennihurðir. Eftir nokkra stund er allt orðið fullt af fallegum fiðrildum í öllum regnbogans litum og svo ýmsar gerðir af flugum. Stórar litlar og allt þar á milli. Hitti býflugu í fyrradag og sú var eins og hálfur þumalfingur minn.

Til þess að fá ekki flugurnar í andlitið þegar ég sit úti og eins til þess að koma í veg fyrir að þær villist inn í eldhús þegar þar er opið, kom ég fyrir 2 plastflöskum. Hengdi þær upp á vegginn og eins stendur í gluggakistunni.

Greyin eru dauðhræddar við flöskurnar, enda plast, og nú hópast þær á glerið og reyna að komast í gegnum það, í frelsið fyrir utan. Þarna hamast þær daginn út og inn en einstaka sinnum hjálpa ég þeim, drep þær ekki, nei ég opna hurðirnar meira og beini þeim voða varlega út með sópnum.

Það er ekki nokkur vafi í huga mínum. Portúgalskar flugur eru með eindæmum illa gefnar, ef ekki bara nautheimskar, svo ekki sé meira sagt. Datt í hug hvort þær gætu hitt flugurnar sem búa í alþingishúsinu á Íslandi og borið saman bækur. Nei, líklega fljúga mínar ekki á milli landa, og sækja alls ekki í kulda og trekk.

Ég er farin út til þess að fagna sjálfstæði landsins míns og ætla mér að finna sumarkjól.

Hulda Björnsdóttir  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband