Hvers vegna er ráðist á Flokk fólksins ?

3.ágúst 2017

Ég ætla ekki að gerast talsmaður Flokks fólksins, ekki frekar en annarra stjórnmálaflokka á Íslandi.

Mér ofbíður hins vegar hinar ótrúlegu árásir á formanninn og er hugsi yfir því hvað býr að baki.

Það er eitt að fylgja ekki skoðunum stjórnmálamanns en að þurfa að bera á borð persónuníð er ekki gott.

Fyrir mörgum árum var eitthvað slíkt að gerast og skapaðist þá umræða í þjóðfélaginu um hið háa Alþingi og stjórnmálamenn yfirleitt.

Spurning sem þá brann á mönnum var hvort umræðan fældi frá hæft fólk sem vildi breyta og taka til í þjóðfélags ástandinu.

Það var talað um að hæft fólk vildi ekki fá á sig holskeflu árása vegna stjórnmálaskoðana sinna og færi frekar í störf hjá hinu opinbera eða hjá fyrirtækjum sem buðu góð laun. Hæft fólk fær alltaf vinnu. Það er eftirspurn eftir því og fyrirtæki tilbúin að greiða góð laun.

Til þess að reyna að lokka fólk, hæft fólk, í framboð og til starfa á Alþingi var ákveðið að hækka laun þingmanna, og gera þannig starfið eftirsóknarvert.

Á tímabili ákvað Alþingi sjálft launin og þótti nokkuð rausnarlegt. Olli þetta ólgu í þjóðfélaginu og var nú komið á fót Kjararáði, óháð öllu og átti að ákveða laun þingheims og fleiri, á hlutlausan máta.

Hinar gífurlegu hækkanir ráðsins til þingheims hafa ekki laðað til sín hæfara fólk. Hinar gífurlegu hækkanir ráðsins hafa sópað upp mikilli gremju á meðal almennings, sem tók til sinna ráða, aðeins, á Sumarþingi sem haldið var í Háskólabíói í síðasta mánuði.

Flokkur fólksins stóð fyrir þessu þingi. Einhver varð að gera það. Ekki sá Grái herinn ástæðu til aðgerða. Þar er allt svo dásamlega gott og í miklu jafnvægi.

Ég studdi Sumarþingið heilshugar og hvatti vini mína til þess að sækja það. Sumir fóru og aðrir ekki. Sumum þótti framtakið gott og gátu litið framhjá því að lítill stjórnmálaflokkur hristi upp í mönnum, hvar í flokki sem þeir annars stóðu. Sumum vinum mínum þótti framtakið ekki líklegt til árangurs og voru rökin þau að Flokkur fólksins gæti ekki komið einu eða neinu til betri vegar. Ég virði skoðanir þessara vina minna, alveg eins og ég virði skoðanir þeirra sem mættu á þingið. Allar skoðanir eru jafn réttháar.

Hins vegar er ekki hægt að líða persónu níð. Það eru ekki skoðanir. Það eru árásir og þá er ég komin að því hvar hundurinn liggur grafinn, samkvæmt mínu áliti.

Hæfa fólkið gefur sig ekki í pólitík. Það kýs annan vettvang þar sem ekki er ráðist á persónur þeirra og þeir níddir niður vegna einhverra skoðana sem ekki passa fyrir alla.

Stjórnmálamenn geta aldrei gert öllum til hæfis. Núna erum við með hálaunaða þingmenn. Háu launin hafa ekki laðað að hæfasta fólkið. Háu launin hafa meðal annars fært okkur upp í hendurnar hið ótrúlega Alþingi sem nú starfar.

Ríkisstjórn sem ber hag þjóðarinnar ekki fyrir brjósti er afkvæmi þessa ágæta þingheims.

Er þetta það sem við viljum í framtíðinni? Er þetta þjóðfélagið sem var byggt upp úr rústum torfkofanna og komið í þrot með græðgi fárra?

Væri ekki allt í lagi að "Góða fólkið" sem hefur meiri áhuga á að fylla landið af tilbúnum flóttamönnum, ungum körlum sem vex skegg innan við fermingaraldur, en íslensku almúgafólki sem býr við harðræði sem þekkist aðeins í vanþróuðum löndum, tæki sig nú til og skoðaði hvernig íslenskt láglaunafólk lifir af frá degi til dags.

Nú er ég líklega orðin rasisti og ekkert minna en það. "Góða fólkið" rís líklega upp og hengir mig en vitiði hvað. Það er ekki auðvelt að hengja mig upp þar sem ég flutti fyrir langa löngu og yfirgaf hið dásamlega Ísland á mestu góðæristímum sögunnar. Á tímum þar sem ættirnar frægur og fylgifiskar mökuðu krókinn og steyptu landinu í glötun og gerðu það gjaldþrota.

Eru allir þingmenn búnir að gleyma því hvernig árið 2008 var?

Æi, auðvitað, unglingarnir sem stjórna núna voru þá undir verndarvæng foreldranna og málið kom þeim ekki svo mikið við.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband