Grái herinn og afrek hans !!!!!

6. mai 2017

Ég ætla enn einu sinni að hefja upp raust mína og tala um fyrirbrigðið Gráa herinn.

Eins og allir vita sem eitthvað hafa lesið eftir mig þá er ég ekki aðdáandi fyrirbærisins.

Þetta átti að vera baráttuhópur innan félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis. Baráttan átti að vera fyrir bættum kjörum eldri borgara.

Haldinn var 1000 manna fundur í Háskólabíói fyrir síðustu kosningar þar sem öllum framboðum var boðið að koma.

Helgi P. stjórnaði fundinum og passaði upp á að þeir sem honum féllu ekki í geð, eins og til dæmis Helga Björk, yrðu honum ekki til skammar.

Hver hefur svo árangurinn orðið og framhaldið?

Frekar þunnur þrettándi finnst mér. Komi athugasemdir sem föruneytinu líka ekki er annað hvort ekki svarað eða með hálfgerðum skætingi.

Ekki mikið um haldgóðar upplýsingar varðandi hvað herinn er að gera.

Jú, það gæti virst sem herinn hafi heilsað upp á nokkra þingmenn og kannski ráðherra og átt við þá kaffispjall. Árangurinn hefur látið á sér standa.

HVAÐ HEFUR GRÁI HERINN AFREKAÐ ANNAÐ EN FUNDINN Í HÁSKÓLABÍÓI? HEFUR EITTHVAÐ FARIÐ FRAM HJÁ MÉR Í AFREKASKRÁNNI?

Björgvin Guðmundsson nýtur mikilla vinsælda hjá hernum og á það hrós ábyggilega skilið. Það er ekkert lát á skrifum hans en ég spyr mig stundum að því hvort þau séu árangursrík.

Hafa skrif Björgvins breytt einhverju varðandi kjör eldri borgara?

Hann er duglegur að heimta hærri bætur og stundum eru það bætur fyrir skatt og stundum eftir skatt. Svo talar hann um heilsugæslu og eitt og annað sem miður fer í kjörum þeirra sem eru komnir á aldur.

Allt er þetta hið besta mál en það þýðir ekki endalaust að heimta meira og koma ekki með einhverjar tillögur um úrlausnir aðrar en að leiðrétta þurfi nú þegar hitt og þetta.

Grái herinn hefði átt, ef hann væri virkt apparat, að koma með tillögur til útbóta. Hann hefði líka átt að halda baráttunni áfram eftir kosningar. Hefur hann gert það? Ég get ekki séð það en auðvitað er ég ekki með nefið niðri í hans koppi alla daga. Hins vegar veit ég að upplýsingar hans á Facebook síðunni eru ekki ýkja ítarlegar.

Herinn verður svoldið pirraður þegar verið er að finna að við hann. Ég hefði þó getað ímyndað mér að þeir sem þar eru í farabroddi væru vanir því að fá spurningar sem þeir gætu svarað og væru líka fúsir til svaranna. Eru einhver leyndarmál í gangi hjá blessuðum hernum?

Ein sem skrifaði á síðunna hjá hernum spurði hvort hann væri bara fyrir fólk í Reykjavík og svarið var stutt og laggott eins og venjulega. NEI 

Ég veit að margir bundu miklar vonir við þetta nýja fyrirbæri og héldu að hér væri komin leið til þess að ná árangri í áralangri baráttu við auðvaldið. Ég og fleiri höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum, svo ekki sé meira sagt. Að slá um sig með feitum fyrirsögnum og halda að allt leysist með því er ekkert annað en blekking. Það er ljótt að blekkja þá sem trúa á málstaðinn og þykjast vera að gera eitthvað en sitja á eigin sjálfselsku og spúa fagurgala í útvarps og sjónvarps viðtölum.

Nú er Helgi P. fluttur til útlanda og óska ég honum auðvitað alls hins besta og veit að hann og fjölskylda hans eiga eftir að njóta þess að komast í næsta nágrenni hvert við annað. Auðvitað eru aðstæður hans svolítið aðrar en aðstæður ungu móðurinnar sem var og er að velta fyrir sér að flytja úr landi til þess að geta séð fyrir sér og börnum sínum. Þessi unga móðir á ekki hús í Garðabæ til þess að selja. Hún hefur enga fjársjóði til þess að koma sér upp nýja lífinu í útlandinu. Hún hefur bara örorkubæturnar og barnsmeðlögin og svo baráttuviljann. Hennar saga er ekki blaðamatur. Það bankar enginn blaðamaður uppá hjá henni til þess að fá hennar sögu. Nei, hún er bara venjuleg ung kona sem skiptir ekki máli. Hún er ekki fræg. Hún og hennar líkar þykja ekki ýkja áhugaverð. Unga konan er í mínum augum miklu merkilegri en popparinn og talsmaður hers sem brást væntingum þúsunda. Hún er hetjan sem leitar allra ráða til þess að börnin hennar geti fengið að borða alla daga. Hún er hetjan sem hefur ekki hátt en ber harm sinn að mestu í hljóði. Hún er hetjan sem við sjáum á hverjum degi en tökum ekki eftir af því hún er ekki fræg. Hún ætti að vera í helgarviðtali á Vísi og í öllum blöðum sem gefin eru út á Íslandi. Hún ætti að vera sú sem við tölum um, skrifum um og viljum að geti notið betra lífs. Hún ætti að vera sú sem við gleðjumst með þegar kjör hennar og aðstæður hafa tekið stökk fram á við og hún þarf ekki lengur að neita sér um læknishjálp eða börnum sínum að fara í skólaferðalag.

Ég vona svo sannarlega að Helgi P og fjölskylda hans njóti margra farsælla ára í útlöndum og nú verður fróðlegt að sjá hvernig honum líkar við þær skertu bætur sem hann kemur til með að njóta vegna þess að hann tók þá ákvörðun að eyða ævikvöldinu ekki á Íslandi. Hingað til hef ég aldrei séð neitt frá honum um það mál og bíð ég nú spennt eftir framhaldinu.

Verður áfram talað um mikilvægi þess að allir vinni fram í rauðann dauðann eða snýst umræðan við?

Þetta er svo spennandi að ég get varla beðið.

Kannski bætist einn í hópinn sem fer að tala um hvernig stendur á því að ekki er hægt að reikna út orlofs og desemberuppbót eftir að nýju lögin voru sett.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband