Ættu alþingismenn að fara á námskeið?

Ég hef verið að fylgjast aðeins með stjórnmálaumræðu á Íslandi í nokkrar vikur. Áhugi minn er frekar slappur en ég reyni þó.

Ég hlustaði á útvarpsumræður fyrir ekki svo löngu þar sem rætt var við nokkra frambjóðendur og þessar umræður vöktu mig endanlega. Þarna var talað um að þeir sem væru eftirlaunaþegar, öryrkjar og námsmenn væru á sveit!! og fyrir þetta fólk þyrfti að gera eitthvað til þess að bæta kjörin.

Væru á sveit!

Auðvitað reiddist ég fyrir hönd þeirra sem var verið að tala um og augljóst að þetta blessaða fólk sem var að tala hafði ekki hugmynd um hvað það þýðir að vera á sveit.

Ég sá fyrir mér vini mína sem eru háskólaborgar, miklir fræðimenn, forstjórar fyrir stórar ríkisstofnanir, læknar og sálfræðingar og fleiri og fleiri sem hafa tekið námslán til þess að geta stundað nám sitt og eru nú úti í þjóðfélaginu og hafa margir hverjir lokið við að greiða námslánin til baka rétt eins og önnur lán sem venjulegt fólk tekur.

Er þetta fólk eða hefur verið á sveit?!

Svo voru það eftirlaunaþegarnir. Vissi þetta ágæta fólk sem var að fara að stjórna landinu ekki að venjulegt fólk greiðir part af launum sínum í lífeyrissjóði og safnar til efri áranna? Er það að fá greitt út sparnað sinn að vera á sveit?

Ég er auðvitað bara kelling sem er komin yfir 67 ára aldur og á að vera heima hjá mér með prjónana mína og alls ekki að vera að rífa mig yfir einhverjum smámunum eins og að vera allt í einu komin á sveit!

Mér er svo sem sama hvort ég er kölluð ellilífeyrisþegi, eftirlaunaþegi, gamalmenni, kelling, lífeyrisþegi eða guð má vita hvað en að kalla mig sveitarómaga er of langt gengið.

Ég skil vel að fólki svíði það. Einhver mesta niðurlæging sem ég get hugsað mér er að vera talin vera á sveit.

Nú er ég ekki að segja að þetta ágæta fólk, sem var að lýsa skoðunum sínum á hvernig skyldi stjórna landinu, sé vont fólk. Ég er ekki heldur að halda því fram að stjórnmálamenn yfirleitt séu vont fólk. Alls ekki. Það er ábyggilega margt hið besta fólk sem dreymir um að setjast á Alþingi og breyta heiminum. Kannski ekki heiminum en alla vega Íslandi.

Ég hef verið að lesa í gegnum "Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar...........

Þetta eru drög og prentað út 24 blaðsíður. Ef þið eigið erfitt með svefn ráðlegg ég ykkur endilega að prenta þessi drög út og lesa þegar þið eruð komin upp í rúm. Ég er næstum viss um að þið hafið fundið hið besta svefnlyf. Ekki amalegt það og sparar ykkur stórfé í lyfjakostnaði.

Svo kom núna þann 7.október Yfirlýsing Ríkisstjórnar Íslands vegna frumvarps um almannatryggingar.

Yfirlýsingin er ekki nema rúmlega ein blaðsíða en líka gott innlegg fyrir svefninn.

Það er nefninlega þannig að lög og yfirlýsingar eru oftar en ekki á máli sem fáir skilja. Ein vinkona mín spurði Gráa herinn um hvað yfirlýsingin þýddi á mannamáli? Þeir svöruðu ekki.

Hún spurði þá Björgvin Guðmundsson sömu spurningar og hann svaraði um hæl. Björgvin hefur skrifað mikið um málefni aldraðra og öryrkja í mörg ár. Stundum hef ég verið sammála honum og stundum ekki. Það er eins og gengur og gerist og bara eðlilegt en eitt er víst að hann getur þýtt mál alþingis pappíra á mannamál og hann svarar ef hann er spurður.

Ég sendi fyrirspurn til eins ágæts alþingismanns fyrir nokkrum vikum og hef ekki enn fengið svar, jafnvel þó ég væri ekki að rífa mig og var bara vel kurteis! Það er auðvitað ekki til neins að vera að svara spurningum frá einhverri bandóðri kellingu sem hefur ekki einu sinni kosningarétt á landinu því hún var svo ósvífin að yfirgefa land gulls og grænna skóga áður en hún varð gömul. Nei, mikilvægara er að smala atkvæðum og lofa upp í allar skálmar bót og betrun, bara ef þið kjósið rétt!

Ég hef verið að hugleiða hvort ekki væri góð hugmynd að þeir sem ætluðu sér að verða frægir og setjast á Alþingi ættu þess kost að fara á námskeið og læra um hvernig þjóðfélagið virkar hjá venjulegu fólki.

Kennslan gæti til dæmis falið í sér að heimsækja elliheimili og dvelja þar í nokkra sólarhringa.

Svo væri kennd einföld íslenska og merking orða og hugtaka. Það gæti orðið til þess að frumvörp og yfirlýsingar væru á mannamáli, eða frumvörpum fylgdu skýringar á mannamáli. Ég hef nefninlega lúmskan grun um að sumir þingmanna skilji ekki alveg hvað er verið að tala um í flóknum frumvörpum eins og því sem ég nefndi sem gott svefnlyf.

Þá væri boðið upp á að lifa í einn mánuð á eftirlaunum þeirra sem verið er að fjalla um í hinu fyrrnefnda frumvarpi.

Síðan væri útskýrt á þessu námskeiði að þegar komið er á þing hættir viðkomandi að vera sjálfstæður einstaklingur sem fylgir samvisku sinni. Sjálfstæðið víkur fyrir flokksaga. Þetta væri gott fyrir nýliða að vita.

Ýmislegt fleira gagnlegt mætti kenna, t.d. að það er sjálfsagt að mæta í vinnuna sína og fleiri svona smáatriði sem skipta pínulitlu máli, eða þannig!

Bjóða mætti upp á val um að vinna í einn mánuð á dagheimili, hjúkrunarheimili, verksmiðju, í ræstingum, og ýmsum láglaunastörfum og lifa af launum þessa fólks bara í einn mánuð. Einnig mætti bjóða upp á að ferðast í hjólastól og vera þykjustu öryrki, þetta fólk yrði auðvitað ekki alvöru öryrkjar á svona námskeiði, en það gæti lært hvernig það er að vera veikur, eiga ekki fyrir mat og lyfjum og komast ekki allra ferða sinna af eigin rammleik.

Ég hef trú á því að svona námskeið gætu verið mjög áhugaverð og ekki síður gagnleg.

Raunveruleikinn er svo dásamlega áhugaverður, miklu áhugaverðari en fílabeins turninn sem sumir sækjast eftir.

Það verða auðvitað alltaf sumir ríkari en aðrir, það er bara lögmál lífsins, en allir eiga að geta lifað lífi þar sem þeir eiga fyrir mat, mannamat, en ekki kattamat eða hundamat.

Ég er glöð fyrir þeirra hönd sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af næsta degi hvað þá næstu mánaðamótum, en það má ekki gleyma þeim sem eru ekki ríkir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband