Jólabarnið var komið, eða hvað?

 

Ég hef verið iðin við að skrifa um þá sem eiga erfitt á Íslandi og röflað yfir stjórnarherrum og vandræðagangi þeirra ásamt einkennilegum háttum sem taka við þegar kosningar eru liðnar.

Fram að jólum ætla ég að snúa blaðinu við og skrifa mér til ánægju og segja svolítið frá ýmsu skemmtilegu sem fyrir mig kemur. Það er nóg framboð af skammarræðum um ný kjörna þingmenn og alls kyns vandræðagang sem valtar yfir þjóðfélagið og óþarfi að ég sé að velta mér upp úr því svona rétt fyrir hátíðina miklu og fæðingu frelsarans.

Í heimabæ mínum hér í Portúgal er eldgamall kastali sem lifnar við einu sinni ári.

Þeir sem vita á annað borð hvar Penela er, og þá er ég að tala um Portúgal, vita að einu sinni á ári gerist eitthvað óstjórnlega merkilegt í þessum frábæra kastala sem varði bæinn frá árinu 1500.

Nú á dögum er auðvitað ekki stríð í landinu og þá er fundið nýtt hlutverk fyrir merkar minjar. Merkar minjar sem ég er svo vanþakklát fyrir og finnst svo ofboðslega ljótar og ómerkilegar en ég er bara útlendingur sem skil takmarkað hvað fyrirbærið er merkilegt.

Fyrsta desember gerist semsagt kraftaverkið! Kastalinn er lýstur upp með ljósum sem ljóma allan sólarhringinn og kostar fyrirbærið ægilega mikið fyrir bæjarfélagið en hver er að velta sér upp úr smámunum þegar fólk streymir frá öllum landshornum til þess að líta á meistaraverkið?

Ég vona að minnsta kosti að eitthvað af hinum himinháu sköttum sem ég borga hérna hjálpi til við ljósadýrðina og er ekki mikið að kvarta. Bara aðeins , bara smá!

Á hverju ári hef ég arkað upp í ferlíkið og velt fyrir mér hvað sé eignlega svona merkilegt við básana þar sem verið er að selja kökur og vín?  Auðvitað er líka hægt að finna bása sem eru fullir af ostum, skárra væri það nú þar sem RABASAL er næsti bær. Bærinn sem býr til allra bestu osta landsins, eða þannig. Auðvitað verða þeir að vera á svona samkomu, þ.e. framleiðendurnir og ostarnir fylgja með til þess að ég og aðrir geti smakkað og svo keypt ost hvort sem við þurfum eða ekki. Bragðið sér um söluna!

Þá má ég ekki gleyma öllum þeim sem sitja allan ársins hring með handavinnu og hekla rönd í kringum viskustykki og handklæði og stundum eru búin til smá teppi og eitthvað af dúkum. Allt heklað í hring. Menn og konur með heklunálar og garn út um allt land og svo er varningurinn seldur á samkomum vítt og breytt og auðvitað í kastalanum fræga.

Rúsínan í pylsuendanum í Penela kastala er svo eitthvað sem er lokað inni í tjaldi og kostar 6 evrur að komast inn fyrir og horfa á.

Ég hef aldrei farið inn í tjaldið. Tími ekki að borga 6 evrur, gæti keypt gott oststykki fyrir andvirðið og borðað. Nei ég nenni ekki að horfa á einhverjar tusku myndir af frelsaranum og foreldrum hans sem eru löngu horfin á vit feðranna.

Útlendingarnir sem búa hérna í skógunum eru voða hrifnir og taka upp video og alles af herlegheitunum. Auðvitað eru þetta allt Bretar og kannski ekki vanir mjög miklu í stóru fínu húsunum þar sem helsta uppákoman er partý með víni og feitum mat og voða sætum kökum.

Hundar eru líka almennir í skógarhúsunum. Núna upp á síðkastið eru mótmæli heimamanna öflug og skilti borin um með tilkynningum um að partý langt fram á nótt séu ekki vel séð og útlendingarnir ættu bara að fara til Algarve og halda partý þar. Heimamenn þurfa nefnilega að mæta til vinnu eldsnemma á morgnana og eru þreyttir þegar þeir koma heim eftir langan dag en geta ekki sofið fyrir tryllingslegum skemmtunum útlendinganna. Ekki gott mál.

Fyrirgefið, þetta var aðeins útúrdúr. Ég var að segja frá kastalanum fræga í bænum mínum.

Núna, ári 2016 fór ég og skoðaði hvað væri á boðstólnum þetta árið. Var auðvitað alveg harðákveðin í því að borga ekki evrurnar til þess að sjá gömlu fjölskylduna og hennar engladýrð. Nei, ég var lasin og með handlegginn í fatla en fannst þó nauðsynlegt að nota göngutúrinn til þess að finna bás sem seldi ost frá Rabasal því mig vantaði ofan á morgunverðar brauðið. Sól skein í heiði og arkaði ég af stað í gegnum þorpið. Allt fullt af bílum og nokkrar rútur sem fluttu fólk frá fjarlægum stöðum til að berja dýrðina augum. Hina árlegu frægu dýrð.

Aðalgatan var full af gömlu fólki, þeim sem komu með rútunum, og var ég í vörn allan tímann, berjandi frá mér feita landa mína sem tóku alla gangstéttina og ráku sig í auman handlegginn minn. Ég æpti ekki en tók fljótlega upp það ráð að stoppa fyrir framan samkomurnar og bíða eftir því að spikið færði sig og ég þyrfti ekki að ganga með tárin í augunum af sársauka að næsta hóp. Þetta virkaði flott og fyrirgefðu hljómaði eins og fegurstu tónar um gjörvalla Rua de Coimbra. Dásamlegt.

Endaði ég svo uppi í kastala. Rok en sól dundi á mér um leið og ég skreið inn um opið, dauðþreytt eftir langa göngu að heiman, og við mér blasti eiginlega ekki neitt. Nokkrir básar, kannski 10 eða svo, skjálfandi fólk fyrir innan borðin. Engir hressir kallar að fá sér sýnishorn af veigunum góðu, engar veigar, bara kökur og meiri kökur og einn bás með korki og annar með stykkjum viskunnar og heklu hringnum til skrauts og hnetu bás eða svoleiðis. Einhverjar gular ógeðslegar flatar hnetur sem kallarnir borða með bjórnum á kvöldin á pöbbunum. Ég hef einu sinni smakkað þessar gulu og spýtti þeim. Ógeðslegar!

Í hinum sögulega kastala frá 15 hundruð hljómaði óguðlega ljótur söngur á ensku. Stóð þar gríðarlega stór kona, ljóshærð og mjálmaði enska slagara við undirleik á ferða orgel. Alveg til að drepa allan vilja hjá mér til að vera voða jákvæð og finnast allt svo dásamlegt á þessu fallega síðdegi inni í dýrðinni.

Eftir að hafa heilsað upp á þá sem ég þekkti í básunum, sem voru reyndar flestir og allir bláir af kulda, var mér bent á að Jesú væri hinum megin á svæðinu!

Ha? Þetta varð ég að sjá. Þarf ég að borga? spurði ég. Nei, nei, þú labbar bara fyrir hornið og upp brekkuna, frítt!

Svona boði er ekki hægt að hafna. Eftir hafa knúsað liðið og fengið góðar óskir um skjótan bata en engan ost færðist ég með straumnum upp og inn í Jesú dýrðina!

Áfallið var gífurlegt.

Belja, kind og hross í pínulitlum básum, svo litlum að þau gátu rétt snúið sér við til að narta í pínu gras sem var innan um skít og svoleiðis. Hvar var dýraeftirlitið? Þetta gat ekki verið löglegt, hlaut að flokkast undir misþyrmingu.

Tómt rúm eða jata með grasi en engu barni var það næsta sem bar fyrir augu, ólétt kona sat við hliðina og skeggjaður síðhærður gæi við borð með spýtu og þóttist vera að skera út.

Rétt hjá voru síðhærðir menn að verma hendur sínar við smá eld, eld sem ekki hefði þótt merkilegur í arninum mínum og enn einn síðhærður með sardínur og þóttist ætla að grilla þær. Jamm, þetta var semsagt jólabarnið á leiðinni og líklega vitringarnir en engan sá ég engilinn. Hins vegar var bás með sígauna kellingu þar sem hægt var að kaupa dæilegt  skraut fyrir mikla peninga. Hún var eiginlega upptekin við að laga til og sýndi væntanlegum kaupendum ekki mikinn áhuga!

Mér ofbauð svo dýrðin að ég snéri við áður en farið væri að rukka mig um evrurnar og kom við á ferðaskrifstofunni til þess að forvitnast um hverju þessi uppákoma sætti og hvar allir hinir básarnir væru, þeir sem voru um allt í fyrra.

Jú, þetta árið vildi fólk ekki taka þátt! Góðærið hafði dalað og fólk nennti ekki að norpa í kulda og trekki með vörur sínar. Kaus heldur að fara til Coimbra þar sem alvöru markaðir eru og hægt að selja góssið, en auðvitað ekki í kastala frá 15oo en gerir ekkert til. Peningarnir eru í Coimbra, ekki í kastalanum fræga.

Það var komið kvöld og orðið dimmt. Tími fyrir sjúklinginn að rölta heim og biðja heitt og innilega um að engum hundi dytti í hug að stökkva á hana á leið niður Rua de Fransico.

Hundurinn komst ekki yfir hliðið, þó hann gelti ógurlega og stykki eins og bandóður þá hélt hliðið.

Það var þó eitthvað til að þakka fyrir á þessum fallega laugardegi jafnvel þó enginn ostur fengi far með frúnni.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband