Lýsa þessi ummæli skoðun ungu kynslóðarinnar í dag?

 

Ég fékk þessa ágætu athugasemd við skrif mín og þar sem mér finnst skoðun þessa einstaklings athygliverð ætla ég að birta hana hér og hugleiða út frá henni:

Einstaklingur sem kallar sig VAGN skrifar þann 25.11.2016 kl. 13:55 eftirfarandi:

Þú hefðir mátt hugsa svolítið fram í tímann og velta fyrir þér hvernig þú vildir hafa þín efri ár, þér þótti í lagi að hafa þetta svona þegar þú varst yngri. Það var þín kynslóð sem setti þetta kerfi upp fyrir sína öldruðu. Og það var ykkar hugmynd að lækka bætur á móti tekjum.

Þegar peningarnir áttu að koma úr þínum vasa var hugarfarið annað. En nú ætlast þú til þess að unga fólkið, sem safnar í sinn séreignarsjóð og hugsar fyrir framtíðinni, haldi þér uppi með rausnalegum bótum. Stórmannlegt, eða hitt þó heldur.

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl.13:55

Svo mörg voru þau orð sem þessi ágæti einstaklingur skrifaði.

Þegar ég las þetta velti ég fyrir mér hvort það gæti verið að margir af yngri kynslóðinni hugsuðu svona. Auðvitað veit ég ekki hve gamall eða gömul VAGN er.

Ekki fyrir löngu síðan birtist grein eftir son sem var að sjá á eftir móður sinni til Spánar þar sem hún gat ekki lifað af lífeyri sínum á Íslandi og hafði hún þó lagt fyrir í Lífeyrissjóð alla sína starfsæfi. Það kvað við nokkuð annan tón í skrifum hans, hann var að vekja athygli á ástandi sem ríkir á landinu góða.

Ég get ekki gert að því að mér finnst hinn ágæti VAGN vera með óþarfa sleggjudóma og fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.

Ég hef frá unga aldri velt fyrir mér aðstæðum eldri borgara landsins og ekki verið par hrifin af ástandinu. Mér hefur aldrei þótt það í lagi að þeir sem komu á undan mér þyrftu að lepja dauðann úr skel þegar þeir kæmust á efri ár. Það hefur alltaf verið mín skoðun og er enn að enginn ætti að þurfa að svelta eða búa við svo kröpp kjör að ekki væri til fyrir lyfjum eða læknis kostnaði. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að það kerfi sem alþingismenn settu upp fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu væru til háborinnar skammar. Ég hef hins vegar aldrei setið á hinu háa alþingi og hef ekki haft völd til þess að breyta einu eða neinu.

Mér er vel kunnugt um hvenær farið var að breyta lögum og ríkið tók að gera upptækan sparnað þeirra sem greiddu í Lífeyrissjóði. Það er ekki langt síðan ég nýtti mér séreignasparnað minn, sparnað sem ríkið gat ekki snert. Það er nefnilega þannig að ég hugsaði til framtíðar og vissi hvernig ég vildi hafa mín efri ár.

Hugarfar mitt hefur ekkert breyst við það að ég varð 67 ára. Það er misskilningur hjá hinum ágæta VAGNI.

Hvað er það þá sem ég er ekki sátt við í núverandi kerfi?

Ætlast ég til þess að unga kynslóðin haldi mér uppi á rausnarlegum bótum?

Svar mitt er nei!

Ég ætlast til þess að sparnaður minn sé látinn í friði og ég fái að njóta fyrirhyggju minnar. Mér finnst það óréttlátt að ég fái ekki að njóta sparnaðarins án þess að ríkið seilist í hann til þess að greiða niður bætur til þeirra sem aldrei hafa greitt í Lífeyrissjóð.

Hverjir eru það svo sem ekki hafa sýnt fyrirhyggju og farið eftir lögum landsins um sparnað?

Það eru nokkrar ástæður og nefni ég hér tvær:

Þeir sem hafa af einhverjum ástæðum ekki getað unnið.

Þeir sem hafa unnið svart og kosið að greiða ekki skatta til þjóðfélagsins og þar af leiðandi ekki heldur greitt í lífeyrissparnað.

Ég er sammála VAGNI um að það sé óréttlátt og ekki stórmannlegt að svíkjast undan því að greiða til samfélagsins og ætlast til að aðrir borgi þeim ríflegar bætur. Við gætum ekki verið meira sammála.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þeir sem ekki hafa getað unnið vegna örorku eða veikinda eigi ekki að þurfa að líða fyrir það þegar þeir komast á ákveðinn aldur.

Manngæska ætti að vera í fyrirrúmi og þjóðfélagið ætti að sjá til þess að allir ættu fyrir lágmarks þörfum daglegs lífs. Ég er ekki að tala um að bætur eigi að vera það ríflegar að hægt sé að lifa af þeim lúxus lífi. Þær eiga hins vegar að vera nægilegar til þess að svelta ekki.

Markmið almannatryggingalaga var göfugt en það hefur þynnst út með árunum. Lífeyris sparnaður var settur á sem viðbót og öllum gert að sýna fyrirhyggju og spara til efri áranna og ef einstaklingur yrði öryrki af einhverjum ástæðum þá mundi þessi sparnaður hlaupa undir bagga.

Þegar VAGN kemst á eftirlaun vona ég að hann njóti þess að fá að hafa sparnað sinn í friði fyrir stjórnvöldum og að hann geti lifað við reisn og notið síðustu ára ævinnar. Ég vona líka að hann þurfi aldrei að verða veikur og óvinnufær. Ég vona að hann þurfi aldrei að velta fyrir sér hvernig hann geti keypt lyf eða farið til læknis, hvað þá að hann þurfi að velta fyrir sér hvernig hann geti fengið að borða.

Ég hef ekki trú á því að margir af yngri kynslóðinni séu á sömu skoðun og hinn ágæti VAGN. Ég hef trú á því að unga kynslóðin sé jafn áhyggjufull og sú eldri þegar hún veltir fyrir sér hvert þjóðfélagið stefnir.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið hjá okkur er fyrst og fremst það að peningaöflin og stjórnmálamennirnir eru orðin svo gráðug að það er lítið sem ekkert eftir handa venjulegu fólki. Þetta er staðreyndin sem blasir við okkur. Ég sé fyrir mér að þessi séreignarsparnaður Vagns verði hyrtur af afætunum þessa þjóðfélags,fáum árum eftir að hann ákveður að kaupa sér íbúð fyrir sparnaðinn. Ég er hjartasjúklingur og sé ekkert annað í stöðunni ef starfsþrekið hverfur alveg. þá verð ég að flytja til Tælands þar sem mér duga 10% af því sem ég þarf hér til að draga fram lífið.

Ég fæ 10% af þeim lífeyri sem stjórnsýslan og embættismannakerfið fá. Samt hef ég verið sjómaður í rúm 30 ár og skapað verðmæti fyrir þjóðina. En stjórnsýslan og embættismannakerfið eru bara dragbítur og afætur á vinnandi fólki í þessu landi.

Það má vera að sumir þeirra séu að gera eitthvert gagn en fjöldinn af þessu fólki er ekki í nokkru samræmi við fólksfjölda í landinu. Þetta virðist vera eitthvert monster sem bara stækkar og stækkar, án þess að verðmætasköpun vaxi í landinu.

Þetta er ekki og á ekki að vera deila á milli þeirra sem eldri eru og þeirra sem yngri eru. Það er eina leiðin að minnka báknið. En það er bara ekki að gerast. Sjáiði bara þetta nýja stjórmálaafl, þessa Viðreysn. Samþjappað samsafn af afætum, héðan og þaðan úr þjóðfélaginu.

Svo er fjöldinn allur af fólki sem vill einkavæða bankana aftur, því það reyndist svo vel síðast. Ég sé því miður engin teikn á lofti um að eitthvað sé að lagast í þessu landi. Sennilega er best að allt færi lóðbeint á hausinn. Svo komandi kynslóðir geti byrjað uppá nýtt.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2016 kl. 03:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband