Dómstóll götunnar

17. september 2017

Í gær skrifar Björn Ingi um dómstól götunnar.

Ég er ekki alveg viss um að hann sé að skrifa um það sem athugasemdirnar eftir færsluna snúast um. Veit það þó ekki fyrir víst. Mér gæti fundist líklegt að hann væri að gefa í skyn umræðu þá sem hefur orðið um vistaskipti hans sjálfs. Þar hefur borið á dómstóli götunnar og ætla ég ekki að blanda mér í þau mál.

Mér liggur á hjarta hin gífurlega, stóryrta, hatursfulla umræða sem hefur verið um kynferðislegt ofbeldi og afleiðingar þeirra dóma og eftirlátssemi sem þar hefur ríkt, þ.e. í dómum.

Heil ríkisstjórn fallin vegna uppáskriftar um "Uppreisn æru"

Það sem stingur mig er hatrið sem vellur út úr þeim sem hæst hafa.

Þeir sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem börn, eða jafnvel nauðgunum á fullorðins árum, bíða þess aldrei bætur. Líf þeirra verður aldrei eðlilegt eftir slíkar hörmungar. ALDREI.

Við getum hamast í hatursumræðunni og haldið að það breyti einhverju fyrir þolendur.

Það gerir það ekki.

Hafi einhver orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á barnsaldri litast allt líf viðkomandi af þeim hörmungum. Það er hins vegar hægt, og mörgum hefur tekist það, að lifa af án þess að þurfa að brynja sig með endalausu hatri og velta sér upp úr því sem gerðist dag eftir dag eftir dag alla daga ársins.

Það er mikla hjálp að fá í íslensku samfélagi og þolendur geta með hjálp sálfræðinga og annars sérmenntaðs fólks, lifað af.

Ég hef ekki viljað blanda mér inn í þessa viðbjóðslegu umræðu en þegar farið er að breiða út sögur um unglinga "glæpi" og það gerir fólk sem er hvað orðljótast á nútíma fjölmiðlum, get ég ekki orða bundist.

Þið sem nærist á hatri og rógburði gætuð hugsanlega numið staðar og hugsað málið út frá ykkar eigin lífi.

Hefur líf ykkar verið fullkomið? Hafið þið efni á því að andskotast með rógburði á öðru fólki? Ef ykkar nánustu ættu í hlut munduð þið vera jafn gírug í dómum ykkar?

Ég er ekki að halda hlífiskildi yfir nauðgurum. Þeir eru ámátlegir. Ég er hins vegar að benda á að líf þolenda breytist ekki eða batnar við hatursumræðu dómstóls götunnar.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 17. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband