3ja daga þjóðarsorg í Portúgal

19.júní 2017

Nú er klukkan rétt rúmlega sjö að morgni. Sólin reynir að brjótast í gegnum þykkan reyk sem liggur yfir öllu.

Brunalykt er alls staðar bæði inni og úti.

19221736_854462394705589_1231456460888233826_oSvona leit þetta út í gærkvöldi þegar ég fór út á svalirnar heima hjá mér.

Eldarnir voru ótrúlega nálægt og tollurinn var dýralífið í Espinahl.

Ansiao og Avelar brunnu líka og þar varð manntjón. Þessir tveir bæir eru í 5 mínútna fjarlægð frá mér.

Þegar dimmt var orðið sá ég eldtungurnar rísa upp eins og skrímsli og þær öskruðu eins og ljón.

Nær á myndinni er iðagrænn trjálundur sem gæti orðið næsta fórnarlamb.

Ég náði í alla vini mína í gær og þeir sem búa fyrir norðan eru hólpnir, þar eru ekki eldar, en í Semide og Mirando do Corvo eru svört ský yfir og ekki að vita hvað gerist í dag.

Þeir sem búa á því svæði sem logaði í gær hafa sumir sloppið en aðrir ekki. Sumir hafa misst heimlin sín og enn aðrir látið lífið eða misst náinn ættingja.

Slökkviliðsmenn um allt landið eru örmagna. Hjálp barst frá Spáni og Frakklandi. Þau lönd hjálpa á hverju ári og senda flugvélar sem dæla vatni yfir eldana. Ef ekki nyti við flugvéla, bæði innlendra og erlendra yrði tjónið enn hrikalegra.

Það verða 62 jarðarfarir í dag og næstu daga. Hér er fólk jarðað eins fljótt og hægt er bæði vegna hitans og eins hefur almenningur ekki efni á að láta fólkið liggja á ís. Það er eingöngu fyrir hina ríku.

Í gær voru ráðamenn vissir um að elding hefði valdið íkveikjunni í Pedrógao Grande. það getur vel verið að svo hafi verið en mér heyrðist í morgun komnar einhverjar vöflur á þá sem eru í forsvari.

Hins vegar hefur enginn talað um hvernig eldar kviknuðu í Avelar og Penela og Ansiao og Espinahl ásamt fleiri stöðum. Voru brennuvargar þar að verki? Líklega. Því miður.

Á þessum hálftíma sem ég hef setið við tölvuna mína þykkist himininn og reykinn leggur hægt og hljótt yfir allt. Í dagsbirtunni sjáum við ekki eldtungurnar fyrr en þær eru komnar rétt við nefið á okkur en við sjáum reykskýin sigla og reka upp reiði öskur.

Sviðin jörð er nú um allt. Trjábolirnir standa eftir en botninn og laufin eru horfin. Í vetur þegar kuldinn sverfur að og við förum að kveikja upp í arninum brennum við þessa nöktu boli. Mikil vinna er framundan hjá skógarhöggs mönnum við að höggva trén og brytja þau niður. Það er ekki hægt að nota þau í annað en eldivið. Lyktin hverfur ekki og enginn byggir eitt eða neitt úr svörtum trjábolum.

Eftir nokkur ár rísa skógarnir upp á ný. Í haust má búast við að litlir angar skjóti upp kollinum og hægt verði að fylgjast með uppvextinum. Eftir brunann mikla hér í Penela fyrir fimm árum sáum við þetta gerast og var ótrúlegt hve hratt litlu spírurnar tóku við sér og eru nú hinir fallegustu lundir, tilbúnir fyrir næsta voðaverk. Það voðaverk var framið í gær og litli bærinn minn fylltist sorg enn eina ferðina.

Það voru ekki eldingar í Penela sem kveiktu í. Hver það var veit ég ekki en allir eru sammála um að mannfólkið hafi fengið útrás fyrir kvikindis skap sinn. Fólkið sem átti að sitja inni og taka út refsingu fékk frelsið eftir nokkra daga og skýringin sú að þetta væri veikt fólk.

Spurning er hvað margir þurfa að láta lífið og missa heimili sín áður en brennuvargar verða látnir afplána dóminn, lokaðir á bak við lás og slá?

Forsetinn tilkynnti í gær með fögrum orðum að 3ja daga þjóðarsorg skildi vera í landinu.

Falleg orð segja margir og eru reiðir. Við erum reið og skiljum ekki ótrúlega heimsku stjórnvalda að greiða 30.000 evrur fyrir garðvinnu hjá þessum sama forseta, á mánuði, en svelta Bombeiros og láta þá reka stöðvarnar að mestum hluta fyrir framlög almennings.

Það er hægt að mæta í flottum fötum með fríðu föruneyti og faðma þá sem hafa misst allt sitt. Það er líka hægt að sýnast einlægur en ekki verður komist hjá því að staðreyndin er að 30.000 evrur á mánuði eru notaðar til þess að skreyta í kringum embættið. Dýrar blómaskreytingar og flott garðvinna bjargar ekki mannslífum þegar eldarnir læsa klónum í allt sem fyrir verður.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband