Frískattkort, hvað er það?

25.apríl 2017 taka tvö

Það getur reynst flókið að komast í gegnum frumskóg pappíra sem þarf til þess að vera löglega búsettur erlendis og fá eftirlaun sín greidd frá Íslandi.

Í sumum löndum borga menn skatt þar sem þeir búa og í öðrum hafa verið gerðir samningar þar sem komið er í  veg fyrir tvísköttun og þá verða til svonefndir tvísköttunarsamningar.

Svona samningar eru hálfgert tróð. Það munaði korteri að ég færi í mál við portúgalska ríkið vegna þess að þeir tóku af mér skatt. Ég hafði lesið í gegnum samninginn á milli landanna en fattaði ekki að mín eftirlaun voru ekki frá ríkinu, því ég hafði ekki verið ríkisstarfsmaður! og þar af leiðandi átti ég að greiða skatt í búsetulandi en ekki upprunalandi eftirlaunanna.

Meikar sens, eða hvað? Góð íslenska þetta, gat bara ekki setið á mér í þetta skiptið.

Ég nenni ekki að velta mér upp úr alls konar bulli varðandi þessa samninga og sætti mig bara við málið eins og það er.

Til þess að vera nú ekki að borga skatt í tveimur löndum þarf ég að útvega mér frískattkort hjá ríkisskattstjóra. Það er ekki erfitt. Ég sendi bréf einu sinni á ári með umsókn og pappírum sem eiga að fylgja. Skattskýrsla frá Portúgal, staðfesting skattyfirvalda hér um að ég hafi greitt skattinn, og svo umsóknin sjálf.

Þetta er nú ekki svo mjög flókið það er að segja ef ég er með fulla heilsu og get sótt um það sem sækja þarf um hjá portúgalska skattinum. Það er staðfestingin á því að ég sé skilvís greiðandi.

Svo er þetta líka bara einu sinni á ári, í desember. En samt á hverju einasta ári. Svoldið líkt og með lífsvottorðið eða þannig. Æi, þetta var nú hálf andstyggilegt hjá mér.

Ég get fullyrt það hér að þjónusta sú sem ég hef þurft að sækja til ríkisskattstjóra er til stakrar fyrirmyndar og ég á ekki nægilega öflug orð til þess að þakka þeim.

Það er einn galli á útgáfu þessara fríkorta.

Þau eru send til Tryggingastofnunar og Lífeyrissjóðs VR, því tekjur mínar koma frá þessum 2 stofnunum.

Ekki málið hjá Líf VR, þeir borga eftirá og þegar greiðsla fyrir janúar kemur er búið að skrá inn nýja fríkortið mitt.

Hjá Tryggingastofnun er þetta svoldið snúnara. Þeir borga fyrirfram og þegar greitt er fyrir janúar er gamla kortið mitt fallið úr gildi og það nýja ekki komið í skráningu þegar allt er keyrt í tölvunum fyrsta janúar ár hvert, og nú tekinn af mér fullur skattur.

Auðvitað verð ég voða sár og pínulítið pirruð út í þetta fyrirkomulag. Ég er löngu hætt að senda e-mail til stofnunarinnar. Bý auðvitað við nútímatækni árið 2017 og skypa á stofnunina og tala við ráðgjafa fyrir brottflutta.

Stundum gengur þetta vel og ráðgjafinn skilur alveg í botn hvað ég er að tala um. Núna, þetta árið, í janúar, var sú sem ég talaði við alveg súper. Við töluðum sama mál, hún skildi mig og ég skildi hana, báðar töluðu íslensku og voru vel inni í málinu. Vissum sem sagt um hvað við vorum að tala. Allt annað líf en að lenda á þeim sem skilja svoldið illa svona kvörtunar konur eins og mig sem eru að trufla frá útlöndum og geta ekki einu sinni notað almennilegan síma. Ég elska skypið, það er svo þægilegt og kostar sama og ekki neitt.

Þetta er semsagt um frískattkortið og mig langar svo agalega mikið til þess að segja honum Þorsteini Víglundssyni frá því hvernig þetta gengur fyrir sig hérna í útlandinu. Ég gæti alveg haft fund með honum á Skypinu, hann gæti séð hvað ég er glæsileg og líka hvað mér er mikil alvara með því sem ég er að segja.

Ég mundi vera ofboðslega kurteis, ekki spurning. Ég færi nú ekki að ybba mig við sjálfan ráðherrann.

Ég nenni ekki að fara til Íslands til þess að reyna að koma vitinu fyrir staurblinda stjórnmálamenn eins og til dæmis Bjarna Ben en ég er alveg viss um að ég gæti Skypað Þorstein og hann er nú svo góður maður og einlægur. Ég hef séð það í sjónvarpinu sem ég horfi stundum á í tölvunni minni.

Annars ég ég óttaleg með það að horfa ekki á íslenskt sjónvarp. Mér fellur betur ýmislegt annað en ef það eru áhugaverði viðtöl, eins og við ljúflinginn hann Þorstein Víglundsson velferðaráðherra, þá sit ég og hlusta og horfi þannig að ég veit alveg frá fyrstu hendi hvað hann er elskulegur drengur.

Ég sendi bréf í ráðuneytið og spurði hvort það væri hægt að fá viðtal við ráðherrann. Þetta bréf fór með tölvupósti í fyrradag og ekki hef ég fengið svar. Ég hringdi reyndar í ráðuneytið í gær til að fá upplýsingar fyrir vinkonu mína og þau svara flott í símann. Auðvitað fékk ég ekki samtal við ráðherra og ekki einu sinni staðgengil eða aðstoðarmann. Það var einhver ritari sem ég talaði við og hún var nú ekkert sérlega kúl. Svo hef ég heyrt að það geti verið snúið að komast að hjá ráðherranum.

Ég skil það nú ekki vel. Hélt að hann væri að vinna fyrir mig og mína líka. Hér áður fyrr, þegar ég bjó á Íslandi, gat ég pantað tíma hjá ráðherrum og fengið við þá viðtal. Kannski hefur þetta breyst með hækkuðum launagreiðslum og erfiðara fyrir almenning að komast að. Ég er bara að velta þessu svona fyrir mér af því það er komið kvöld og ég ætlaði ekkert að vera að ybba mig í dag.

Samt langar mig voða mikið til þess að heyra í honum Þorsteini Víglundssyni ráðherra svo ég geti sagt honum þetta með heimilisuppbótina sem hann tekur af mér bara af því að ég bý ein í útlöndum en ekki ein á Íslandi. Svo langar mig líka til að segja honum pínulítið frá þessu með alla pappírana sem ég þarf að senda hingað og þangað bara til þess að láta vita að ég sé ekki dauð. Mig langar nefnilega svo mikið til að finna að mér sé treyst til þess að svindla ekki á kerfinu og held að það væri svo miklu betra að reyna að hafa upp á þeim sem eru að svindla en að eltast við þá sem gera allt sem þeim er sagt að gera.

Hulda Björnsdóttir


Sjálfstæði Portúgals. Haldið er upp á þann 25.apríl.

25.apríl 2017

Í dag eru víða hátíðahöld í tilefni dagsins. Ég fór upp í Semide í morgun og var að fara í söngtíma. Þegar ég kom til Miranda Do Corvo var búið að loka leiðinni sem ég ek venjulega, og góð ráð dýr.

Ég spurði lögguna hvernig ég kæmist til Semide.

Þú ert í Semide, sagði hann.

Já, ég veit það en ég þarf að komast upp á toppinn, svaraði ég.

Nú, þá verður þú að fara............ og hann leiðbeindi mér og sagði hvar ég ætti að beygja til vinstri og svo aftur til vinstri.

Obrigada, datt út úr mér og hugsaði með mér að líklega villtist ég og kæmist ekki heim fyrr en í kvöld. Þetta var í morgun.

Einhvern vegin tókst mér að rata rétta leið. Það var ekki neitt klárt eða skýrt í kollinum á mér sem hjálpaði. Ég ók bara sem leið lá og á einum staðnum var gatan svo mjó, á milli húsa, að ég rétt skreið.

Á miðri leiðinni fannst mér ég vera farin að kannast við mig en það var auðvitað bara bull. Hafði aldrei keyrt þessa leið en það er allt svo ægilega líkt hérna í þessu litla landi að maður getur ruglast aðeins.

Ég var með plan.

Ætlaði að hringja í kennarann minn þegar mér hefði tekist að verða svo rammvillt að ég kæmist ekki heim aftur. Það kom fyrir einu sinni, fyrir nokkrum árum síðan, svo við erum vanar svona rugli.

Viti menn, allt í einu blasti við mér skilti þar sem á stóð nafnið á garðinum sem er ekki langt frá ákvörðunarstað mínum.

Ég var sem sagt á réttri leið og komst í fangið á pabba kennarans míns sem fagnaði mér ógurlega og ég var ekkert að skafa utan af því að ég væri snillingur.

Það hafði sko gleymst að láta mig vita að á þessum fína degi væri alltaf lokað hér og þar. Þá er ég að tala um umferðaæðar en ekki búðir. Auðvitað eru allar búðir lokaðar nema kannski súpermarkaðirnir, þessir stóru, og kannski finn ég mér sumarkjól þegar ég hef komið þessum skrifum frá mér.

Það vill nefnilega svo til að í dag eru 15 stig og skýjað, sem sagt skít kalt og besta veður til þess að kaupa sér þunnan sumarkjól til að nota þegar hlýnar. Það hlýnar jú ábyggilega einhvern tíman, held ég.

Ég nenni ekki að fara að hlusta á FADO væl sem er á hverju horni í dag og lekur tregafullt sönglið eins og fallegur straumur vatns úr krana þegar sólin glampar í gegnum skýin.

Ég dáist að því hvað mikið hefur áunnist síðan landið komst undan einræðisherra valdi og hugsa stundum um hvernig Ísland virðist vera í höndum örfárra einræðisherra sem moka inn peningum í sína kassa og gefa lítið fyrir almenning, annað en að heimta skattpeningana.

Heil kynslóð í landinu mínu er ólæs og óskrifandi. Það þótti ekki nauðsynlegt að senda fólk í skóla í tíð einræðisherrans.

Fátt er sárara en að tala við gömlu konurnar sem segja mér frá því hvað þær hefðu gjarnan viljað fara í skóla og læra að lesa. Tárin renna stundum niður kinnarnar á þessum elskulegu gömlu konum og faðmlögin þeirra eru þétt. Á svona stundum get ég ekki annað en verið þakklát fyrir að hafa alist upp í landi þar sem menntun var höfð í hávegum og allir lærðu að lesa við móðurkné áður en þeir fóru í skóla. Alla vega þeir sem eru af minni kynslóð.

Maðurinn í húsinu á móti er aftur farinn að spila á harmonikkuna sína þetta eina lag sem hann kann. Ég hitti vinkonu í gær sem sagði mér hver það væri sem spilaði og staðfesti það grun minn.

Tannlæknirinn á efri hæðinni syngur og er í kór. Svo er hann líka í grúppu sem kemur saman nokkrum sinnum á ári og allir ægilega hrifnir. Ég sá myndband með grúppunni nýlega og velti því fyrir mér af hverju nágranninn minn virðist alltaf vera alveg í spreng þegar hann gólar lögin sín? Auðvitað andstyggilegt af mér að hugsa svona og ég ætla að hætta því. Líklega er hann bara að slá taktinn eða eitthvað.

Ég er sannfærð um að portúgalskar flugur eru einhverjar þær allra heimskustu í veröldinni.

Á svölunum hjá mér er glerveggur. Ég opna venjulega á morgnana, það eru sko rennihurðir. Eftir nokkra stund er allt orðið fullt af fallegum fiðrildum í öllum regnbogans litum og svo ýmsar gerðir af flugum. Stórar litlar og allt þar á milli. Hitti býflugu í fyrradag og sú var eins og hálfur þumalfingur minn.

Til þess að fá ekki flugurnar í andlitið þegar ég sit úti og eins til þess að koma í veg fyrir að þær villist inn í eldhús þegar þar er opið, kom ég fyrir 2 plastflöskum. Hengdi þær upp á vegginn og eins stendur í gluggakistunni.

Greyin eru dauðhræddar við flöskurnar, enda plast, og nú hópast þær á glerið og reyna að komast í gegnum það, í frelsið fyrir utan. Þarna hamast þær daginn út og inn en einstaka sinnum hjálpa ég þeim, drep þær ekki, nei ég opna hurðirnar meira og beini þeim voða varlega út með sópnum.

Það er ekki nokkur vafi í huga mínum. Portúgalskar flugur eru með eindæmum illa gefnar, ef ekki bara nautheimskar, svo ekki sé meira sagt. Datt í hug hvort þær gætu hitt flugurnar sem búa í alþingishúsinu á Íslandi og borið saman bækur. Nei, líklega fljúga mínar ekki á milli landa, og sækja alls ekki í kulda og trekk.

Ég er farin út til þess að fagna sjálfstæði landsins míns og ætla mér að finna sumarkjól.

Hulda Björnsdóttir  

 

 

 


Bloggfærslur 25. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband