Sjálfstæði Portúgals. Haldið er upp á þann 25.apríl.

25.apríl 2017

Í dag eru víða hátíðahöld í tilefni dagsins. Ég fór upp í Semide í morgun og var að fara í söngtíma. Þegar ég kom til Miranda Do Corvo var búið að loka leiðinni sem ég ek venjulega, og góð ráð dýr.

Ég spurði lögguna hvernig ég kæmist til Semide.

Þú ert í Semide, sagði hann.

Já, ég veit það en ég þarf að komast upp á toppinn, svaraði ég.

Nú, þá verður þú að fara............ og hann leiðbeindi mér og sagði hvar ég ætti að beygja til vinstri og svo aftur til vinstri.

Obrigada, datt út úr mér og hugsaði með mér að líklega villtist ég og kæmist ekki heim fyrr en í kvöld. Þetta var í morgun.

Einhvern vegin tókst mér að rata rétta leið. Það var ekki neitt klárt eða skýrt í kollinum á mér sem hjálpaði. Ég ók bara sem leið lá og á einum staðnum var gatan svo mjó, á milli húsa, að ég rétt skreið.

Á miðri leiðinni fannst mér ég vera farin að kannast við mig en það var auðvitað bara bull. Hafði aldrei keyrt þessa leið en það er allt svo ægilega líkt hérna í þessu litla landi að maður getur ruglast aðeins.

Ég var með plan.

Ætlaði að hringja í kennarann minn þegar mér hefði tekist að verða svo rammvillt að ég kæmist ekki heim aftur. Það kom fyrir einu sinni, fyrir nokkrum árum síðan, svo við erum vanar svona rugli.

Viti menn, allt í einu blasti við mér skilti þar sem á stóð nafnið á garðinum sem er ekki langt frá ákvörðunarstað mínum.

Ég var sem sagt á réttri leið og komst í fangið á pabba kennarans míns sem fagnaði mér ógurlega og ég var ekkert að skafa utan af því að ég væri snillingur.

Það hafði sko gleymst að láta mig vita að á þessum fína degi væri alltaf lokað hér og þar. Þá er ég að tala um umferðaæðar en ekki búðir. Auðvitað eru allar búðir lokaðar nema kannski súpermarkaðirnir, þessir stóru, og kannski finn ég mér sumarkjól þegar ég hef komið þessum skrifum frá mér.

Það vill nefnilega svo til að í dag eru 15 stig og skýjað, sem sagt skít kalt og besta veður til þess að kaupa sér þunnan sumarkjól til að nota þegar hlýnar. Það hlýnar jú ábyggilega einhvern tíman, held ég.

Ég nenni ekki að fara að hlusta á FADO væl sem er á hverju horni í dag og lekur tregafullt sönglið eins og fallegur straumur vatns úr krana þegar sólin glampar í gegnum skýin.

Ég dáist að því hvað mikið hefur áunnist síðan landið komst undan einræðisherra valdi og hugsa stundum um hvernig Ísland virðist vera í höndum örfárra einræðisherra sem moka inn peningum í sína kassa og gefa lítið fyrir almenning, annað en að heimta skattpeningana.

Heil kynslóð í landinu mínu er ólæs og óskrifandi. Það þótti ekki nauðsynlegt að senda fólk í skóla í tíð einræðisherrans.

Fátt er sárara en að tala við gömlu konurnar sem segja mér frá því hvað þær hefðu gjarnan viljað fara í skóla og læra að lesa. Tárin renna stundum niður kinnarnar á þessum elskulegu gömlu konum og faðmlögin þeirra eru þétt. Á svona stundum get ég ekki annað en verið þakklát fyrir að hafa alist upp í landi þar sem menntun var höfð í hávegum og allir lærðu að lesa við móðurkné áður en þeir fóru í skóla. Alla vega þeir sem eru af minni kynslóð.

Maðurinn í húsinu á móti er aftur farinn að spila á harmonikkuna sína þetta eina lag sem hann kann. Ég hitti vinkonu í gær sem sagði mér hver það væri sem spilaði og staðfesti það grun minn.

Tannlæknirinn á efri hæðinni syngur og er í kór. Svo er hann líka í grúppu sem kemur saman nokkrum sinnum á ári og allir ægilega hrifnir. Ég sá myndband með grúppunni nýlega og velti því fyrir mér af hverju nágranninn minn virðist alltaf vera alveg í spreng þegar hann gólar lögin sín? Auðvitað andstyggilegt af mér að hugsa svona og ég ætla að hætta því. Líklega er hann bara að slá taktinn eða eitthvað.

Ég er sannfærð um að portúgalskar flugur eru einhverjar þær allra heimskustu í veröldinni.

Á svölunum hjá mér er glerveggur. Ég opna venjulega á morgnana, það eru sko rennihurðir. Eftir nokkra stund er allt orðið fullt af fallegum fiðrildum í öllum regnbogans litum og svo ýmsar gerðir af flugum. Stórar litlar og allt þar á milli. Hitti býflugu í fyrradag og sú var eins og hálfur þumalfingur minn.

Til þess að fá ekki flugurnar í andlitið þegar ég sit úti og eins til þess að koma í veg fyrir að þær villist inn í eldhús þegar þar er opið, kom ég fyrir 2 plastflöskum. Hengdi þær upp á vegginn og eins stendur í gluggakistunni.

Greyin eru dauðhræddar við flöskurnar, enda plast, og nú hópast þær á glerið og reyna að komast í gegnum það, í frelsið fyrir utan. Þarna hamast þær daginn út og inn en einstaka sinnum hjálpa ég þeim, drep þær ekki, nei ég opna hurðirnar meira og beini þeim voða varlega út með sópnum.

Það er ekki nokkur vafi í huga mínum. Portúgalskar flugur eru með eindæmum illa gefnar, ef ekki bara nautheimskar, svo ekki sé meira sagt. Datt í hug hvort þær gætu hitt flugurnar sem búa í alþingishúsinu á Íslandi og borið saman bækur. Nei, líklega fljúga mínar ekki á milli landa, og sækja alls ekki í kulda og trekk.

Ég er farin út til þess að fagna sjálfstæði landsins míns og ætla mér að finna sumarkjól.

Hulda Björnsdóttir  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband