Málaferli til að skera úr um lögmæti afturvirkra laga !

31.mars 2017

Þá er komið að því að einhver hætti að tala og tala og tala og geri eitthvað.

Flokkur fólksins, sem ég er ekki tengd á nokkurn hátt, fer fyrir málaferlum á hendur ríkinu og vill fá úr því skorið hvort afturvirk lög sem sett voru um hin nýju lög almannatrygginga, standist.

Þau hafa fengið lögfræðing til að taka að sér málið. Það er semsagt komið af stað!

Undanfarna daga hafa komið í ljós ótrúlegar yfirhylmingar frá Tryggingastofnun og velferðanefnd og ráðuneyti.

Það þarf ekki lítið hugmyndaflug til þess að setja sig inn í slíkan hugsanagang.

Ég vona nú að ALLIR þeir sem hafa skrifað fjálglega undanfarið um að fara þurfi í mál, setji sig í stellingar til þess að styðja þetta framtak Flokks fólksins.

Það skiptir mig akkúrat engu máli hver það er sem rýfur blablabla keðjuna, svo framarlega sem eitthvað vitrænt er gert í málinu.

Ég tel að þessi málsókn, hvort sem hún vinnst eða ekki, verði til þess að opna augu ráðamanna og almennings fyrir því hvernig þjóðfélag er við lýði á Íslandi.

Vonandi vinnst málið og óska ég öllum, sem hafa undirbúið þetta og hrint í framkvæmd til hamingju.

Nú getur Grái herinn andað rólega og þarf ekki að vera að svara heimskulegum spurningum frá fólki eins og mér sem er að grennslast fyrir um hvað sé að gerast í málarekstrinum.

Nú hætti ég að angra herinn og fæ almennilegar upplýsingar frá Flokki fólksins.

Verði stofnað félag um málið geng ég í það eins og skot. Mér finnst að það ættu allir, sem hafa einhvern áhuga á málefnum sem þessum, að gera.

Þó að það sé stjórnmálaflokkur sem stendur fyrir málsókninni þá verðum við að horfa fram hjá því og styðja málið, málefnisins vegna.

Ég býð spennt eftir því að sjá Gráa herinn, Björgvin og Wilhelm skrifa um þessi frábæru tíðindi.

Hulda Björnsdóttir


Ísland-spillingarbæli? eða land sakleysingja og auðtrúa fólks?

29.mars 2017

Hvers konar land er Ísland eiginlega?

Er það land endalausrar spillingar og rotið þjóðfélag eða er það land sakleysingja og auðtrúa fólks sem trúir öllu sem því er sagt hversu ótrúlegt sem það er?

Ég veit ekki.

Hins vegar logar allt á Facebook núna vegna spillingarmála sem eru að koma upp á yfirborðið.

Eitthvað nýtt á ferðinni þar?

Nei, ekkert.

Þetta er sami grauturinn í sömu skálinni og hefur verið undanfarinn áratug.

Það hefur ekkert breyst og ekkert nýtt komið í ljós, eini munurinn er að núna er auðvelt fyrir almenninga að ausa úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlunum í stað þess að sitja við kaffiborðið og sötra viðbjóðinn með ilmandi kaffinu.

Ég nenni ekki að eyða orðum í alla bölvaða spillinguna sem fólk er nú að velta sér upp úr.

Fólkið sem hneykslast mest núna á svikum bófa og ræningja heldur glatt af stað í næstu kosningar og kýs sama lýðinn aftur eins og að drekka vatn. Ekki þvælist flokks hollustan fyrir þeim sem hafa hæst núna.

Ég er ekki að segja að fólk eigi ekki að tala um spillingu síðan 2003 eða lengra aftur í tímann, ég er bara að segja að kraftar mínir eru á þrotum og sný mér frekar að ánægjulegum fréttum.

Vinkona mín keypti sér rauð gleraugu. Þetta þykja mér ánægjuleg tíðindi og ætla ég að taka hana mér til fyrirmyndar þegar ég fjárfesti næst í gleraugum sem verður í náinni framtíð.

Rauð gleraugu eru dásamleg.

Þau auka orkuna og gleðin geislar af þeim sem ber þau.

Það ættu allir að ganga með rauð gleraugu þessa dagana til þess eins að lifa af í spillingarbælinu og komast á fætur á morgnana án þess að fyllast vonleysi og ótta við að enn eitt málið skríði upp úr skúffum einhverrar nefndar, eða jafnvel ráðherra.

Við erum svo ótrúlega heppin að hafa enn eina spillingar stjórnina við völd þessa dagana svo ekki þarf að ómaka sig og rugga bátnum.

Ég og svona venjulegt fólk getum varla gert okkur í hugarlund hvað milljarðar í afskriftir þýða.

Við látum þeim sem eru sérfræðingar í spillingunni og éta íslenskt þjóðfélag innan frá svoleiðis tölur eftir. Þeir skilja þær.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki setið nema nokkrar vikur og er vel á veg komin með að fylla upp í götin hjá þeim sem vantar nokkra milljarða til þess að leika sér með. Þessi ríkisstjórn er ekkert betri en þær sem hafa setið á undan. Ef eitthvað er þá er hún verri og þingheimur algjörlega reynslulaus og engin von til að svokölluð stjórnarandstaða, sem er máttlausari en áttræði kelling, geri neitt annað en blaðra út í loftið um allt og ekki neitt.

Rauð gleraugu er það sem þarf, þau gætu bjargað geðheilsu minni.

Hulda Björnsdóttir

 


Hverjir geta haft áhrif á "fátæki" á Íslandi og jafnvel eytt henni?

27.mars 2017

"Fátæki" er ekki bara vegna þess hversu ámátlega ríkisstjórnir haga sér varðandi mál eftirlaunaþega og öryrkja.

"Fátæki" hrjáir margar stéttir þjóðfélagsins og ýmsa aldurshópum. Hún er ekki bundin við einn eða tvo hópa. Ó nei, ekki aldeilis.

"Fátæki" á kannski uppruna sinn í örmum láglaunastefnu verkalýðsfélaga og ASÍ.

Guðmundur Jaki sagði mér fyrir mörgum áratugum að það yrði aldrei samið þannig að ekki sætu eftir þeir sem lægst launin hefðu. Hann sagði mér að staðreyndin væri sú að pólitíkin, þessi viðbjóðslega tík, sem öllu stjórnar, vildi hafa lág laun því þeir sem væru í framboði gætu gengið að atkvæðum þessa hóps vísum, einfaldlega með því að strá fögrum loforðum í kringum sig.

Það er bara þannig að ef þú ert svangur etur þú hrá loforð jakkafata klæddra karlmanna, sem brosa breytt að ég tali nú ekki um þá sem senda bréf til eftirlaunaþega fyrir kosningar og með fylgir loforðakaka sem á að baka eftir að viðkomandi kjósandi hefur krossað við réttan staf.

Kannast einhver við þetta?

Ég er hrædd um það.

Við tölum oft um að það vanti samstöðu og fólk þurfi að láta heyra í sér.

Af hverju er ekki meiri samtaða og af hverju kjósum við aftur og aftur sama sukkið og spillinguna?

Af gömlum vana?

Mamma kaus alltaf sinn flokk af því að pabbi hennar kaus flokkinn.

Getur verið að þetta sjónarmið sé enn við lýði árið 2017?

Það er erfitt fyrir þá sem lepja dauðann úr skel og eru fastir í "fátæki"gildrunni að rísa upp og mótmæla.

Þessi hópur hefur ekki krafta til þess að standa í stórræðum, hann er vannærður og orkan fer í að halda sér uppi svo hægt sé að leita eftir matargjöfum hjá hjálparstofnunum.

Þess vegna verðum við, sem höfum það gott og fáum alltaf nægilega mikið af kjarngóðum mat og getum stundað líkamsrækt og passað upp á heilsuna, og jafnvel haft efni á að fara til læknis ef við veikjumst, við eigum að rísa upp til varnar þeim sem ekki hafa lengur þrek til þess að mótmæla.

Verkalýðsfélög ættu að axla ábyrgð og snúast til varnar. Félagsmenn þeirra eiga rétt á þeirri kröfu. ASÍ ætti að vera sterkur talsmaður þeirra sem eru að tærast upp í "fátæki"gildrunni.

Við vitum að stjórnvöld gera ekkert fyrir "fátæki" hópinn, nákvæmlega ekkert, svo framarlega sem þau komast upp með það.

Það virðist vera nokkuð sama hver er við stjórnvölinn, ríkir og velstæðir einstaklingar sem tilheyra yfirstéttinni hafa völdin. Þeir skara að eigin köku, kakan þeirra, sú bleika, verður stærri og feitari með hverri ríkisstjórn, og molar af borði renna ekki til "fátæki" fólksins. Molarnir renna til hunda ríka fólksins.

Verkalýðsfélög, ASÍ, Félög eldri borgara um allt land, Landsamband eldri borgara, Öryrkjabandalagið og Rauði krossinn ásamt kirkjum landsins ættu að sameinast og hefja upp herör gegn auðvaldinu og uppræta "fátæki"gildruna og hjálpa íslendingum sem hafa fest sig í henni og komast ekki upp.

Hjálpin á ekki að felast í matargjöfum, hún á að vera í aðgerðum sem koma þeim sem sitja á hinu háa Alþingi í skilning um að þessir hópar þjóðfélagsins sem ég taldi upp segja hingað og ekki lengra.

Aðgerðirnar þurfa að vera samstíga og harðar. Vinnuveitendur eiga ekki að komast upp með það árum og áratugum saman að semja um lúsarlaun fyrir suma og fara svo heim í fyrirtækin sín og semja við þá sem þeim líkar um ofurlaun. Þetta hefur viðgengist í áratugi og þetta vita allir sem vita vilja. Það er bara ekki talað um þetta.

Að hugsa sér að gamalt fólk skuli þurfa að búa við þær aðstæður, síðustu daga ævi sinnar, að ekki sé nægilega margt fólk starfandi á elliheimilum til þess að hægt sé að passa upp á að allir fái næga næringu. Þetta er sárara en tárum taki. Það er svo hryllilegt og ég leyfi mér að taka svo sterkt til orða að þetta sé hreinn og klár glæpur.

Svona aðstæður eru ekki starfsfólki heimilanna að kenna. Þetta er aðgerðaleysi og áhugaleysi stjórnvalda í sinni verstu mynd.

Þar sem ég þekki til starfsfólks á elliheimilum þá er það jafn reitt yfir ástandinu og ég er.

Starfsfólk spítalanna leggur sig allt fram um að gera sitt besta en hvernig á að bregðast við yfir 500 einstaklingum, gömlu veiku fólki, sem þarf að liggja á göngum og hverju skoti sem finnst á sjúkrahúsinu, af því að það eru ekki til herbergi fyrir þetta fólk?

Haldið þið að hjúkrunarfræðingarnir og starfsfólkið á sjúkrahúsunum sofi bara vært eftir vaktina? Nei, ekki alveg. Ástandið er að buga stéttirnar og landflótti gæti blasað við rétt eins og hjá þeim eldri borgurum sem sjá sér fært að flytja í burtu frá örbirgð í boði núverandi ríkisstjórnar.  

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Formaður velferðanefndar situr sem fastast. Fjölmiðlar standa með henni og á móti almenningi í umræðunni um "Fátæki".

27.mars 2017

Hlustaði á viðtal við Formann velferðanefndar í Silfri Egils í gær.

Hún er ótrúleg, svo ekki sé meira sagt.

Ég gat ekki ráðið af orðum hennar annað en henni finnist allir eigi að fara út að vinna til þess að hafa í sig og á.

"Fátæki" væri þeim að kenna sem fátækir eru.

Formaðurinn  er nú búin að vera í umræðunni í viku eða þar um bil og hefði hún mikinn áhuga á því að laga málfar sitt væri hún hætt að tala um "fátæki" og hefði tekið upp algengara íslenskt orð sem er "fátækt".

Auðvitað er þetta mannvonska hjá mér að vera með svona smámunasemi, en ég reyni, þegar ég heyri orð sem ég nota rangt á hinu nýja tungumáli mínu, portúgölskunni, að leiðrétta mig.

Frúin er væntanlega hámenntuð og gæti gert þetta líka.

6.400 börn þjást af "fátæki" á Íslandi.

4.000 börn þjást af sárri "fátæki" á Íslandi.

Eftirlaunaþegar fremja sjálfsmorð vegna skorts á næringu, húsaskjóli, andlegri umönnun og dauðinn er eina úrræðið sem þeir sjá í sinni "fátæki"gildru.

Öryrkjar grípa til örþrifaráða vegna "fátæki" sinnar.

Á sama tíma og "fátækin" grasserar á landinu blaðrar formaður velferðanefndar um að fólk þurfi að hugsa út fyrir rammann.

Hah, hvaða plánetu settist hún á þegar hún fór í framboð og var kosin til alþingis?

Er það sama plánetan og við hin búum á, það er að segja við sem erum bara venjulegir íslendingar, sumir búsettir á landinu og aðrir landflótta? Ég bara spyr.

Hún ber það á borð að félagasamtök þurfi að vinna með stjórnvöldum.

Hah !

Hefur hún ekki lesið grein sem formaður Félags eldri borgara í Reykjavík skrifaði um viðtökur þær sem hann fékk hjá ráðherra velferðarmála, þegar hann kom til þess að ræða málefni hóps sem er hvorki meira né minna en 40 þúsund og þó nokkrir úr þessum hópi eru fastir í "fátæki" gildrunni?

Hvaða útleið eiga þeir sem búið er að henda út af vinnumarkaðinum vegna aldurs, að áliti formanns velferðanefndar?

Ætlar hún að sætta sig við 70% skerðingu atvinnutekna sinna?

Ég heyrði ekki betur en hún hafi verið að kvarta yfir því hvernig hennar laun voru þegar hún kom til landsins.

Nei, hræsni þessa þingmanns er með þvílíkum ósköpum að það hálfa væri nóg. Hún hefur ekki hunds vit eða skilning á hvað "fátæki" er og ætti að prófa að lifa af þeim sultarlaunum sem lífeyrisþegum og öryrkjum eru skammtaðar. Það kæmi kannski annað hljóð í skrokkinn.

Við fjölmiðla vil ég segja þetta:

Það er með því einkennilegasta sem ég hef séð á langri ævi hvernig þið gangið í meðvirkni gildruna hjá blessaðri konunni. Hún er klók og þið fallið hvert á fætur öðru kylliflöt fyrir brögðum hennar.

Ég vorkenni henni ekki par að vera útlendingur á Íslandi og þurfa að læra tungumálið. Hún gæti sinnt náminu betur og sýnt meiri metnað og er ég þá ekki að tala um hreim. Hreimurinn verður líklega alltaf til staðar og ekkert nema gott eitt um það að segja. Orðasmiður getur hún orðið þegar málið rennur ljúft út úr heilabúinu á henni en mér finnst að hún ætti endilega að leggja orðið "fátæki" á hilluna og fara að tala um á íslensku "Fátækt". Það gæti hugsanlega breytt viðhorfi hennar aðeins.

Ég tala portúgölsku með hreim og mun líklega alltaf gera og það eru 2 hljóð sem ég get ekki myndað rétt en ég legg mig fram um að tala góða portúgölsku og fólk er duglegt að leiðrétta mig þegar ég bulla einhverja vitleysu. Ég er bara venjulegur útlendingur í landinu. Hámenntaðir útlendingar á Íslandi í valdastöðum ættu að leggja sig fram við að ná tökum á tungumálinu og hætta að skýla sér á bak við "hreim". Hreimur hefur ekkert með málið að gera, innihaldið er það sem skiptir meginmáli og á meðan formaðurinn gerir ekkert annað en að skipa fólki að stíga út úr kassanum, vorkenni ég henni ekki og held áfram að gagnrýna, finnist mér tilefnið vera þess virði.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 


Falleg hönnun....er pláss fyrir hana í ringulreið ferðamanna á Íslandi?

25.mars 2017

Góðan og blessaðan daginn.

Þá er komin helgi og laugardagur með nýjum bollaleggingum.

Ég var að skoða hönnun vinkonu minnar sem býr á Íslandi. Ég elska þessi föt. Þau eru hlý og mér finnst þessi hönnun svo skemmtileg. Það kemur alltaf eitthvað á óvart þegar ég skoða til dæmis þennan kjól. Hann birtist mér í nýrri mynd í hvert skipti sem ég lít á hann.

15894560_1465556676790091_3755264477216699228_n  Nú er freistingin alveg að kaffæra mig og ég rígheld mér í að  sparnaður sé aðal málið. Sparnaður fyrir skatti í ágúst!

Mikið getur stundum verið hrikalega erfitt að vera hagsýn.

Ég mundi miklu heldur vilja fjárfesta í þessum fallega kjól og láta hann halda á mér hita í gerræðislega köldu vori hér í Portúgal.

Við vorum að ræða veðrið í morgun, ég og hárgreiðslukonan mín, sem er reyndar líka nágranni minn, og við vorum sammála um að veðurfarið væri dottið í það. Það vissi ekki hvort það væri að koma eða fara og slagaði frá snjókomu upp í 26 stiga hita á fárra daga fresti, rétt eins og blindfullur kall.

Á svona tímum er nauðsynlegt að hafa góð og hlý föt til taks. Ég á reyndar lopapeysu og hún heldur oft á mér hita en ég verð að viðurkenna að hönnunin hennar Gerðar í GAGA Design er mitt uppáhald. Ég hef notið þess að spranga í fötum frá henni í nokkrum löndum og alltaf vekur fjölbreytileikinn athygli.

Hvort ég læt freistast kemur í ljós á næstu dögum, og í dag má ég leyfa mér að dreyma stóra drauma.

Það er laugardagur og ég er með rólegra móti. Hef ekki enn rifist neitt yfir sukkinu og svínaríinu á Íslandi en get þó ekki alveg setið á mér.

Mér finnst dapurlegt að vita til þess að hæfileikaríkt fólk, sem ef til vill gæti komið sér á framfæri í brjálæðislegri aukningu ferðamanna á Íslandi, skuli ekki sjá sér fært að leigja húsnæði undir starfsemina þar sem straumurinn er, vegna okurleigu og græðgi húseigenda.

Er það ekki sorglegt að Ísland skuli nú vera að missa út úr landinu fólk með mikla hæfileika í ýmsum greinum, vegna græðgi og hagsmunapots örfárra óprúttinna ætta?

Ég verð svo reið þegar ég hugsa um þetta en jafnframt sorgmædd. Það ætti að vera pláss fyrir alla, já ég segi ALLA, á landi eins og Íslandi.

Það ætti ekki að vera eini valkostur þeirra sem komnir eru á eftirlaun, eða þeirra sem eru öryrkjar, að flýja landið til þess að geta lifað sómasamlegu lífi.

Það ætti enginn að kjósa auðvaldið, en því miður eru of margir sem halda uppteknum hætti í kjörklefanum og breyta aldrei til, sama á hverju gengur.

Skiptir náunginn okkur svona litlu máli?

Er okkur sem höfum það gott alveg sama um alla hina og nennum við ekki að berjast gegn skömminni sem heitir Fátækt?

Ég held að það sé fullt af fólki sem lætur sig þessi mál varða en það þarf einhvern vegin að sameina hópinn og fá hann til að tala eins og einn maður, en ekki sem lítil brot hingað og þangað.

Verður þetta einhvern tíman svona? Ég veit það ekki en ég vona það.

Megi helgin verða ykkur góð og leika við ykkur öll sem lesið þetta.

Hulda Björnsdóttir

 


Laun alþingismanna. Af hverju eru þau svo há?

24. mars 2017 taka tvö

Mörgum okkar þykja laun alþingismanna óþarflega há og risnur þeirra ekki í samræmi við þjóðfélagið í heild.

Hvers vegna eru laun þessa hóps svona geðveikislega há?

Jú, það var umræða í þjóðfélaginu fyrir nokkuð mörgum árum þar sem laun þingmanna þóttu svo lág að gott fólk fengist ekki til þess að bjóða sig fram til starfans.

Rökin voru að til þess að fá besta fólkið til að stjórna landinu og setja lög þyrftu launin að vera þannig að ekki þyrfti að sinna öðrum launuðum störfum og launakjörin væru heldur ekki til þess að fæla hæfa einstaklinga frá.

Einmitt!!

Hvað hefur nú gerst?

Nú sitja á hinu háa alþingi menn og konur sem hafa orðið uppvís að alls konar spillingu og enginn getur gert neitt. Þetta blessaða fólk var einfaldlega valið.

Og hver valdi það?

Jú, það var sko hópur fólks sem heitir kjósendur og rís upp á 4 ára fresti að minnsta kosti. Þessi hópur hlustar á þá sem gefa kost á sér og svo undarlega bregður nú við að allir frambjóðendur vilja allt fyrir alla gera og landsmenn eiga að búa við réttláta skiptingu kökunnar.

Eitthvað bregst í minni hópsins, það er kjósenda, og þeir muna ekki að loforðin sem þeir hlusta á núna eru þau sömu eða mjög lík og voru gefin fyrir síðustu kosningar en hægt er að endurvinna vegna þess að þau voru flest svikin.

Hvernig stendur á þessu?

Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn sem drepur alla flokka sem fara með honum í stjórn heldur sínu og eykur jafnvel við fylgi sitt þrátt fyrir að upp á borðinu séu milljóna auðgunarbrot forsvarsmanna og spilling sem mundi sóma sér vel til dæmis í Portúgal við hlið Sokratesar sem var settur í fangelsi og sat þar ásamt fleiri ráðamönnum?

Mér dettur stundum í hug þegar ég hlusta á umræður um brot Sokratesar að hann blikni í samanburði við suma á Íslandi sem stjórna landinu aftur og aftur og hlúa að þeim sem ríkastir eru og gera ekki neitt fyrir þá sem kusu þá þrátt fyrir allt.

Kakan fallega er jú bara fyrir suma, hvort sem hún er skreytt bleiku kremi eða brúnu. Hún er ekki fyrir þig og mig. Hún er fyrir nokkrar ættir sem halda áfram að stækka sína bleiku köku á meðan kjósendur, hópurinn góði, heldur áfram að trúa fallegu skreyttu loforðunum, loforðunum sem eru eins og stjörnuljós í myrkri þeirra sem ekki má tala um, Fátæka fólksins á Íslandi.

Ef kosið væri núna gæti ég etið hatt minn upp á að aftur færi Bjarni Ben í ríkisstjórn og hann og hans fylgisveinar héldu uppteknum hætti.

Birtan er farin að dofna og orðin lítil týra hjá Bjartri Framtíð.

Viðreisn hallar út á hlið og dettur líklega um koll áður en varir, en það er allt í lagi því Bjarni stendur teinréttur, risastór og hlær að öllu saman og Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór taka þátt í gleðinni og súpa vel á gæðum velgengninnar!

Elsku kjósendur!

Eftirlaunaþegar, öryrkjar, láglauna fólk, einstæðir foreldrar og allir sem fá ekki einu sinni flís af kökunni bleiku!

Ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur. Geriði það fyrir ykkur og okkur, ekki krossa við D-ið.

Getur það verið að besta fólkið fáist ekki til starfa á hinu háa alþingi íslendinga vegna þeirrar gengdarlausu spillingar sem ríkir í þjóðfélaginu?

Getur það verið að há laun séu ekki nægilegt aðdráttarafl?

Er besta fólkið of heiðarlegt til þess að taka þátt í darraðardansi Panamaprinsa og eiginhagsmuna seggja?

Hulda Björnsdóttir

 


Umræðan um fátækt tók 100 gráðu beygju........

24.mars 2017

Ég sat á mér í gær og hlustaði á og las athugasemdir um formann velferðanefndar og tungumálakunnáttu hennar.

Ég þekki konuna ekkert.

Ég veit hins vegar að hún situr á hinu háa alþingi íslendinga og setur lög til þess að stjórna landinu, ásamt öðrum þingmönnum.

Ég er nú svo einföld að finnast lög í hverju landi fyrir sig eigi að vera á skiljanlegu máli, tungumáli hvers lands, og í þessu tilfelli, þar sem ég er að tala um Ísland, á íslensku.

Það væri hjákátlegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að Portúgalar, landar mínir, færu að skrifa lög sín til dæmis á ensku eða jafnvel spænsku.

Ég leyfi mér að gagnrýna þá sem sitja á alþingi íslendinga og geta ekki talað almennilega íslensku. Þeir eru að setja íslensk lög og það gengur ekki að þeir segi eitthvað allt annað en þeir meina eða að lagatexti segi eitthvað allt annað en hann á að innihalda og allt sé þetta bara túlkunaratriði.

Í einu orði sagt þá finnst mér svona málatilbúningur heimskulegur.

Í gær ruku menn upp til varnar formanni velferðanefndarinnar og fóru mikinn á Facebook.

Hún lokaði síðunni sinni því ummæli voru svo ógeðsleg og hún vildi ekki að börnin hennar sæju þau.

Ég er sammála því að oft á tíðum eru ummæli fólks og athugasemdir á Facebook fyrir neðan allar hellur og skítkast þar sem á ekki að eiga sér stað. Það er hægt að gagnrýna fast án þess að nota viðbjóðsleg orð.

Það er engum sómi að því að niðurlægja einn eða neinn með því að kalla hann eða hana ................. ég tek mér ekki þessi orð í munn hvað þá að skrifa þau. Þau eru fyrir neðan mína virðingu.

Þegar ég opnaði Facebook síðu mína fyrir nokkrum árum átti ég í byrjun fullt af íslenskum vinum. Ég fylgdist með þeim og las skrif þeirra og smátt og smátt henti ég þeim út því ég vildi ekki taka þátt í viðbjóðslegri orðanotkun þeirra, hvað þá að hafa þessi orð á minni síðu.

Það er þó eitt sem frú formaður velferðanefndar verður að gera sér ljóst. Þegar hún er komin á alþingi og orðin formaður mikilvægrar nefndar þá verður hún gagnrýnd. Það er óhjákvæmilegt. Orð hennar, þau sem hún lætur út úr sér, verða gagnrýnd ef ástæða þykir til. Allir sem taka afstöðu eiga það á hættu að verða fyrir því að einhver eða einhverjir verða þeim ósammála.

Meira að segja ég, þessi litla óþekkta kona hef fengið yfir mig gusu sem mér hefur ekki líkað en þá hef ég getað eytt ummælum og blokkað viðkomandi af Facebook síðu minni. Ég er nefnilega ekki alveg varnarlaus og það er frú formaður ekki heldur.

Ég harma það að fólk geti ekki séð sóma sinn í því að vera kurteist í föstum skotum sínum og gagnrýni en það eru einfaldlega sumir þannig að þegar þeir skrifa og þurfa ekki að standa fyrir framan viðkomandi verður skítkast ofan á.

Ég harma það líka að umræða sem skaut upp kollinum um fátækt á Íslandi hafi verið kaffærð í bili með vorkunnsemi og vörnum fyrir útlending sem situr á hinu háa Alþingi og segir eitt og meinar allt annað af því að hún hefur ekki náð fullkomnum tökum á tungumálinu.

Ég hef ekkert á móti útlendingum á Íslandi. Ég hef hins vegar athugasemdir við að þeir setji lög sem þarf að hafa fyrirvara á vegna skorts á málakunnáttu.

Ef Nichole hefði starfað áfram á leikskólanum og gert þar góða hluti hefði hún aldrei orðið fyrir þeirri gagnrýni sem hún má nú þola sem vel launaður alþingismaður og formaður nefndar.

Svona er nú lífið bara einfaldlega.

Tökum aftur upp umræðuna um fátækt á Íslandi því hún er þörf og látum nóg komið af skrifum um kvikindisskap okkar sem viljum hafa íslensku mælandi alþingi á Íslandi.

Ég stend við það sem ég sagði:

Formaður velferðanefndar á að segja af sér. Hún á að láta öðrum eftir formennsku í þessari nefnd og vera bara óbreyttur þingmaður ef hún endilega vill vera þingmaður. Vonandi getur hún látið gott af sér leiða, eins og hún hefur lýst yfir að hafi verið ætlun hennar, og kannski tekst henni að hafa sjálfstæðan vilja og vinna að góðum málum í stað þess að vera undirgefin og hlýðin við þá sem nú stofna íslensku samfélagi í voða og róa jafnt og þétt í átt til hinna ofsaríku og hunsa þá sem hvorki eiga mat alla daga eða hafa ráð á að fara til læknis eða getað snúið heim í hlýju og notalegheit.

Hún má líka hugleiða þann mun sem er á launum leikskólakennara og þingmanns!

Hulda Björnsdóttir

 

 


Nichole, velferðaformaður á að segja af sér STRAX!

21.mars 2017

Ég er alveg æf, algjörlega búin að missa alla þolinmæði og langar helst til að bölva og ragna eins og best verður gert.

Af tillitssemi við móður mína þarf ég að gæta tungu minnar, jafnvel þó hún hafi alltaf sagt að blótsyrði eins og andskotinn væru bara til áherslu, reyni ég núna að verða henni ekki til skammar með ljótu orðavali.

Nochole Leigh Mosty, formaður velferðanefndar, alþingiskona Bjartrar framtíðar skammast sín greinilega. Hún hefur eytt Facebook síðu sinni.

Hvers vegna?

Jú, ég held að hún þori ekki að horfast í augu við almenning sem er æfur yfir ummælum hennar um þætti Mikaels Torfasonar þar sem hann fjallar um fátækt á Íslandi.

Ekki er nú hugrekkið mikið hjá konunni, og málakunnáttan ekki heldur.

Ég veit ekki hvað hún er búin að búa lengi á Íslandi en þegar ég hlustaði á hana tafsa í gegnum umræðu á Alþingi um breytingatillögu á Almannatryggingalögunum þótti mér ekki undarlegt að hún skyldi ekki um hvað málið snérist.

Hins vegar á hún auðvitað ekki að vera formaður nefndar og nú er tækifæri fyrir hana að sýna manndóm og segja af sér.

Manneskja sem talaði fjálglega fyrir því að bæta líðan fólks á meðan hún var að troða sér inn á Alþingi Íslendinga, og hefur nú sýnt sitt rétta eðli, er rétt ræk af hinu háa Alþingi.

Hún er eins og líklega fleiri sem sitja nú í stólum þingsala ekkert annað en ómerkilegur pólitískur potari sem hugsar ekki um hag íslensku þjóðarinnar, hún hugsar um eigin hag fyrst og síðast og aðrir skipta ekki máli.

Powel Bartoszek er annað dæmi um ótrúlega undarlegan hugsanahátt og ætti hann að skýra út fyrir kjósendum flokks þess sem hann tilheyrir fyrir hverja hann er að vinna á Alþingi Íslendinga.

Er hann að vinna fyrir Kínverja?

Ég hélt að hann ætti að vera að vinna fyrir fátæka íslendinga, fyrir þjóðina sem kaus hann, en ekki lönd í Asíu, þegar hann sest á alþingi íslendinga og þiggur dágóð laun fyrir vikið.

Þessi maður ætti að skammast sín í hvert sinn sem hann lítur í spegil. Hann getur sofið fyrir mér, en þegar hann skoðar sjálfan sig í speglinum og þegar hann opnar launaumslagið sitt ætti hann að horfa djúpt í augu sín og spyrja: Fyrir hverja vinn ég?

Samviskuleysi þessara tveggja, sem eru nýbúar, sýnist mér, á Íslandi, er svo hrikalegt að ég sem aldrei verð orðlaus á ekki nægilega sterk orð til þess að lýsa hneykslan minni.

Þetta fólk styður og er í ríkisstjórn sem hefur nú selt hlut í banka til peningaþvottavéla!

Þetta fólk gefur fátækum á Íslandi langt nef og segir einfaldlega við þá hópa að þeir geti etið það sem úti frýs.

Þið sem kusuð þetta fólk hugsið ykkur væntanlega vel um í næstu kosningum og setjið ekki xið við þeirra flokka, eða hvað?

Þeir sem hugsa eins og þessir tveir nafngreindu einstaklingar hafið þetta í huga:

ÞIÐ ERUÐ AÐ VINNA FYRIR ÍSLENSKAN ALMÚGA, FYRIR ALLA, EKKI BARA FYRIR ÞÁ RÍKU OG YKKUR SJÁLF. ÍSLENSKUR ALMÚGI GREIÐIR YKKUR LAUN, HIMINHÁ LAUN, SEM ÞIÐ ÆTTUÐ AÐ SJÁ SÓMA YKKAR Í AÐ VINNA FYRIR AF HEILINDUM MEÐ HAGSMUNI HEILDARINNAR AÐ LEIÐARLJÓSI.

FÁTÆKT ER MIKIL Á LANDINU OG HÓPURINN SEM Á EKKI FYRIR MAT SÍÐUSTU DAGA MÁNAÐARINS ÞARF EKKI Á ÞINGMÖNNUM, EINS OG ÞEIM TVEIMUR SEM ÉG NAFNGREINDI, AÐ HALDA.

Ísland þarf heiðarlegt fólk á hið háa Alþingi, fólk sem getur og vill vinna fyrir ALLA.

Ég þekki vel til í Kína eftir að hafa starfað þar mörg ár og geri ekki lítið úr þeim vanda sem þar er en að blanda saman vanda Kínverja og íslensks fátæks fólks er fyrir neðan allar hellur.

Mikael Torfason og RUV eiga heiður skilinn fyrir að hafa opnað rækilega umræðu um óhreinu börnin hennar Evu sem ekki hefur mátt tala um þegar verið er að hleypa peningaþvottavélum inn í landið eða þegar opnað er fyrir Panamaprinsa og þeim gert kleyft að bæta við auð sinn á kostnað hinna fátæku.

Fátækt á Íslandi er þjóðarskömm árið 2017.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Nú er að standa við stóru orðin!

19.mars 2017

Jæja, þá er komið að því að standa við stóru orðin sem hafa fallið hér og þar undanfarna daga og vikur.

Þessi stóru orð eru öll um vitleysisgang á hinu háa Alþingi og flausturslega lagasetingu fyrir jól.

Semsagt, Hin nýju lög um almannatryggingar! Hah.

Upphrópanir hafa verið eitthvað á þessa leið:

Fara í mál,

Fara í mál,

Fara í mál,

Lögsækja ríkið,

Óþolandi vinnubrögð,

og svo mætti lengi telja.

Áður en ég held áfram verð ég að segja þetta:

Ég er ekki tengd neinum stjórnmálaflokki og legg það venjulega ekki í vana minn að deila póstum frá stjórnmálaöflum á Facebook síðu minni.

Ég er bara með óstöðvandi þrá sem lætur mig ekki í friði og hamast í mér endalaust um að leggja mitt af mörkum á vogarskálar bættra kjara eftirlaunaþega og öryrkja.

Ég þekki þessi mál nokkuð vel, bæði frá því að ég var barn og þar til nú að ég er farin að taka eftirlaun frá Lífeyrissjóði mínum og Tryggingastofnun ríkisins.

Á mér brennur málið í heild en þó einkum hin ótrúlega meðferð og skerðingar sem þeir sem hafa flúið land verða fyrir. (kannski ekki alveg falleg íslenska hér)

Ég flutti löngu áður en ég varð 67 ára og hef komið mér vel fyrir og nýt góðs lífs hér í útlöndum en ég get vel sett mig í spor þeirra sem neyðast til að yfirgefa fósturjörðina til að hafa í sig og á, fyrir sig og börn sín. Eins og ég hef sagt áður hér í bloggi þá eru ekki allir sem flytja, sem hafa haft það sem áhugamál númer eitt. Þeir flýja til þess að deyja ekki.

Stór orð hafa fallið undanfarið um lögsókn vegna nýju laganna og nú er tækifæri til þess að standa við stóru orðin.

Flokkur fólksins hefur boðist til þess að borga málssókn fyrir eftirlaunaþega sem fær góðar greiðslur úr Lífeyrissjóði sem skerða verulega það sem hann eða hún fær frá Tryggingakerfinu.

Líst hefur verið eftir einhverjum sem gæti hugsað sér að fara í svona mál og þá kemur að því að standa við stóru orðin.

Ég hef lesið og hlustað á Wilhelm Wessman fjalla um þetta óréttlæti og hef hlustað á hann bjóða krafta sína fram með Gráa hernum. Ég hef hlustað á Wilhelm segja frá því hvað hann fær út úr sparnaði sínum hjá VR og hvernig Tryggingastofnun skerðir greiðslur hans svo útkoman verður eins og hann hafi aldrei greitt í Lífeyrissjóð, eða því sem næst.

Nú er lag fyrir Wilhelm að þiggja boð Flokks fólksins og sækja sinn rétt fyrir dómstólum.

Ef Wilhelm treystir sér ekki í málið þá eru efalaust fleiri en einn í forystu Gráa hersins sem hefur flottar tekjur frá Lífeyrissjóði sem skerða greiðslur frá Tryggingastofnun verulega og ætti ekki að vanta fólk til þess að taka boði Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins um fría málssókn.

Betra getur þetta ekki orðið og ég bíð nú spennt eftir því að sjá hver tekur að sér hlutverkið.

Hulda Björnsdóttir

 


Laugardagur fyrir brottflutta eftirlaunaþega og öryrkja, hópinn sem aldrei er minnst á.

18. mars 2017

Enn og aftur kemur ágætur maður fram með þá skoðun sína að það sé niðrandi að tala um hópa sem "minna mega sín".

Ég var ekki síður undrandi þegar ég sá að þáttastjórnandinn Björn Ingi lagði enn frekari áherslu á orðasambandið og túlkaði það sem niðrandi.

Hvað er nú til ráða?

Jú, kannski væri ekki afleit hugmynd fyrir þá sem líta á þetta orðasamband sem neikvætt eða niðrandi að skoða íslenskar orðabækur.

"Þeir sem minna mega sín" eru hópar fólks sem eiga sér ekki öflugan málssvara og jafnvel engan málssvara.

Ég get svo sem fúslega tekið undir með Wilhelm Wessman að hann tilheyrir ekki sama hópi og ég.

Hann tilheyrir ekki hópnum sem á sér ekki háværa málssvara.Hann er með öflugt batterí á bak við sig, Félag eldri borgara í Reykjavík og Gráa herinn.

Ég og vinir mínir sem hafa flutt frá Íslandi og erum komin á eftirlaun höfum ekkert svona batterí til þess að hamra á okkar kjörum og skerðingum á bótum okkar.

Ég er stolt af því að tilheyra hópnum sem "minna má sín" og við erum farin að láta í okkur heyra, sem betur fer.

Það er ekki við því að búast að Wilhelm, og Björgvin og Þórunn H. og Helgi P, séu að ómaka sig á því að tala um hvernig farið er með okkur brottflutta í hinu nýja kerfi Almanna trygginga á Íslandi. Við komum þeim hreinlega ekkert við og þeim er alveg sama um okkur. Það sem skiptir þau mestu máli er að vera ekki spyrtir með þeim hópi sem "minna má sín" í þjóðfélaginu vegna þess meðal annars að fólk eins og ég nefni hér að framan gefur ekki mikið fyrir okkar málefni og hefur kannski ekki sérlega góða þekkingu á íslensku máli.

Mér þykir reyndar verulega sorglegt að Wilhelm og hans hópur hafi verið skert!

Hvernig voru þau skert?

Var tekið úr þeim líffæri?

Misstu þau til dæmis heyrnina?

Ég er svo ofsakát yfir því að hafa ekki verið skert. Ég er bara rétt eins og ég var fyrir áramót.

Hins vegar hafa bætur mínar frá Tryggingastofnun verið skertar verulega og það er ekki gott, en ég get huggað mig við að ég persónulega hef ekki verið skert, enda væri það nú heldur langt gengið ef stofnunin færi að taka úr mér líffæri eða eitthvað slíkt!

Ég er stolt af því að tilheyra "þeim sem minna mega sín"

Ég held áfram að tala um málefni okkar þar til bót verður á.

Ég sem einstaklingur hef það fínt en það réttlætir ekki að ég tæki upp á því að þegja yfir óréttlæti því sem gengur yfir minn hóp.

Hættiði svo að tala niður til okkar sem eigum ekki öflugan baráttuhóp til þess að hrópa fyrir okkur.

Það væri nær fyrir ykkur að setja ykkur inn í málefni okkar og minnast þó ekki væri nema einu sinni í öllum skrifunum og viðtölunum ykkar á þennan hóp eftirlaunaþega og öryrkja, hópsins sem valdi lífið en ekki að lepja dauðann úr skel á Íslandi og flutti úr landi.

Haldiði kannski að það hafi verið létt ákvörðun fyrir suma sem neyddust til að yfirgefa fósturjörðina og fjölskyldu, ættingja og vini? Ég er sannfærð um að margt af þessu fólki vildi gjarnan búa á Íslandi og geta heimsótt þá sem þeim eru kærir þegar þeim dytti í hug.

Í landi Panamaprinsins er þetta ekki möguleiki fyrir marga, því miður, en það má ekki strika þennan hóp út og þegja þunnu hljóði yfir því hvernig hann, þrátt fyrir að hafa greitt skatta og skyldur til íslensks þjóðfélags alla sína starfsævi, býr við verri kjör frá Almannatryggingakerfinu en þeir sem hafa ekki flúið.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband