Geta þeir, sem þurfa á bótum frá Almannatryggingakerfinu að halda, staðið saman?

9.apríl 2017

Ég les og hlusta á fréttir, stundum, frá Íslandi.

Ekki alltaf, bara stundum.

Þegar ég dett niður á eitthvað sem Panamaprinsinn hefur til málanna að leggja verð ég venjulega svo reið að það tekur mig nokkra daga að jafna mig.

Ég má auðvitað ekkert við svona stökkum, með hjarta sem er ekki alveg að tikka eins best verður á kosið.

Þegar ég hugleiði hvernig búið er að rústa heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almennings samgöngum, samhjálpinni og öllu því sem hægt er að rústa og tilheyrir velferðarþjóðfélaginu, verð ég yfir mig reið.

Við getum andskotast yfir Donald Trump og því sem hann er að bisa við heima hjá sér, en á sama tíma er ástandið enn verra í þjóðfélagi sem hefur ekki nema rétt rúmlega 300.000 íbúa.

Ég bý í landi þar sem milljónir búa. Spilling og mútuþægni er hér vel þekkt.

Þá spyr ég mig oft og tíðum hvort ástandið á Íslandi sé mikið betra.

Spillingin er alls staðar á ferð í fæðingarlandi mínu. Í öllum ráðuneytum sýnist mér.

Hvers vegna er þetta svona?

Ég held að ástæðan geti verið þessi:

Íslendingar geta ekki staðið saman.

Við létum bjóða okkur kartöflur sem voru svínafóður þegar ég var að hefja minn búskap. Við keyptum 2 kíló af kartöflum og hentum hálfu öðru kílói.

Datt okkur í hug að mótmæla með því að kaupa ekki óþverrann?

Nei, við sátum við kaffiborðið og ræddum ástandið en gerðum ekkert.

Hefur þetta eitthvað breyst?

Nú á tímum höfum við netmiðla, Facebook og marga fleiri þar sem fólk tjáir skoðanir sínar og fer oft á tíðum mikinn með ótrúlega miklar yfirlýsingar, að ég tali nú ekki um viðbjóðslegt orðaval. Oftar en ekki fæ ég fyrir hjartað við það eitt að lesa yfirlýsingarnar.

Eru orð ekki til alls fyrst?

Er líklegt að það skili árangri að nota þessi viðbjóðslegu orð sem ég hef ekki eftir hérna?

Nú er komin upp ný síða á Facebook og ég hef lesið nokkur ummæli þar. Ég sé ekki betur en það sé í hverju einasta tilfelli notuð orð sem ég vildi ekki vera kölluð.

Enn einu sinni ætla ég að segja þetta:

Verum kurteis þó við séum að gagnrýna. Hörð gagnrýni á svo sannarlega rétt á sér og föst skot en þau þurfa ekki að vera ruddalegt orðbragð og jafnvel blótsyrði.

Nú er Bjarni Ben búin að lýsa því yfir að hann ætli að breyta lögum um almannatryggingar varðandi þá eftirlaunaþega sem eru að vinna.

Grái herinn hefur frá fyrsta degi barist fyrir þessu.

Ég hef frá því ég sá hvert stefndi mótmælt þessum málflutningi hersins.

Ég held því áfram. Ég held því fram að með einhliða þröngsýnum viðhorfum þeirra sem hafa rætt við ráðamenn landsins hafi Grái herinn stór spillt fyrir hag eftirlaunaþega.

Ég held því fram að Grái herinn hafi gefið ríkisstjórninni tækifæri til þess að stoppa smá upp í gatið á nýju lögunum um Almannatryggingar og mér finnst þetta hrikaleg niðurstaða sem ég sætti mig engan vegin við.

Ég vona bara að herinn, eða þeir innan hans, sem nú ganga sem harðast fram í því að hjálpa ríkisstjórninni til þess að halda áfram að stela sparnaðar okkar, haldi sig heima og láti þessi mál í friði.

Samtök með stjórnendur eins og þessi her eru hættuleg. Fólk bindur vonir við að verið sé að vinna fyrir alla. Það er ekki verið að vinna fyrir alla. Herinn vinnur fyrir fáa og er sama um meirihlutann.

Hernum er sama um þá sem hafa ekki áhuga á því að sækja vinnumarkaðinn eftir 67 ára.

Herinn er ekki að vinna fyrir þá sem lepja dauðann úr skel vegna fátæktar.

Herinn er ekki að vinna fyrir þá eftirlaunaþega sem hafa tekið þann kost að flytja úr landi til þess að hafa í sig og.

Herinn hefur ekki hugmynd um þær skerðingar sem brottfluttir þurfa að sæta.

Herinn talar í nafni eldri borgara. Ég hef ekki gefið þeim umboð til þess að tala í mínu nafni við stjórnarherrana. Það stendur ekki til að ég gefi hernum þetta umboð á meðan núverandi forysta brosir breytt á Facebook síðu hersins.

Ef það væri einhver dugur í þessu fólki þá mundi það kynna sér aðstæður eldri borgara sem aldrei heyrist í. Nei, það er of mikil fyrirhöfn og þjónar ekki eigin hagsmunum forystunnar.

Ég hef það á tilfinningunni að fólkið sem brosir svo breitt á Forsíðu Facebook síðu hersins, hafi bara nokkuð þokkalegar tekjur. Framkvæmdastjórar og fyrrverandi alþingismenn eru væntanlega ekki að lepja dauðann úr skel, eða hvað?

 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Bloggfærslur 9. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband