Ég gat ekkert sofið í nótt. Áhyggjurnar héldu fyrir mér vöku!

5. apríl 2017

Ég svaf eiginlega ekkert í nótt. Áhyggjur vegna minnar heitt elskuðu stofnunar héldu fyrir mér vöku. Ég sá fyrir mér hvernig símaborð og e-mail loguðu í dag og allir með höfuðverk eftir gærdaginn.

Það ætti eiginlega að banna svona árshátíðir eða skemmtanir. Svo margt getur nefnilega komið fyrir eins og við sáum í gær þegar allir voru fluttir á milli landa og enginn látin vita fyrirfram. Ég hefði til dæmis alveg viljað halda kveðju partý fyrir vini mína hér í Portúgal ef ég var að flytja til Svíþjóðar.

Svo hefði ég líka gjarnan viljað gera vinum mínum í Svíaríki viðvart svo þeir gætu komið og heimsótt mig. Skiljiði!

Auðvitað hélt líka spenningurinn fyrir mér vöku. Ég get ekki beðið eftir því að stofnunin hafi samband við mig svo ég geti hjálpað þeim að gera ekki svona hrikalegar gloríur. Það er allt í lagi að syngja Gloríu, en að taka sig til og hræra í dúr og moll í heimilisföngum brottfluttra bóta þegar er auðvitað ekkert annað en skandall og þarf að´grípa til alvarlegra aðgerða núna strax og þá kem ég sterk inn sem nýr launþegi hjá "fátæki"ráðuneytinu.

Ég hlakka alveg óskaplega mikið til og þó ég þurfi að fara til Coimbra í dag og sækja um nýtt ökuskýrteini og sulla svolítið í sjúkraþjálfun þá hef ég símann, flottan síma sem gerir allt, og svo litlu nýju tölvuna mína sem er alveg hrikalega klár, næstum því eins klár og ég, til þess að svara um leið og kallið kemur frá uppáhaldinu mínu.

Ég elska Tryggingastofnun ríkisins meira en allt annað í lífinu held ég bara næstum því.

Auðvitað hef ég boðið þeim krafta mína fyrr og þau sáu sér ekki hag í því að svara mér en núna held ég að þau muni sjá að sér

Það er leitun á annarri eins gáfnakonu sem er fús að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.

Ég vona bara að þau hringi nú í mig áður en ég legg af stað í bæjarferðina og sting mér ofan í laugina.

Elsku vinir mínir, ef mér verður stungið inn fyrir ósvífni þá trúi ég ekki öðru en þið hjálpið mér og færið mér allavega mat svo ég deyi ekki úr hungri í fangelsinu.

Nei annars, það er óþarfi að vera með áhyggjur af mat og húsnæði mínu þegar búið er að setja mig inn fyrir óknytti. Ég hef séð hvað mestu bófar landsins hafa það dásamlegt með öllum græjum og lúxus í fangelsunum.

Er ekki komin lausn á vanda þeirra sem eru fátækir og farnir á eftirlaun eða eru veikir og þurfa örorkubætur?

Ég held að lausnin sé svo einföld að formaður "fátæki" mála á Íslandi hafi bara ekki komið auga á hana.

Stinga dótinu öllu í fangelsi og málið er leyst.

Ekkert pláss til þess að setja þá sem svíkja og pretta út úr þjóðinni eignir í stórum stíl og þeir geta bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Í gær hélt ég að lífið væri flókið fyrir suma.

Í dag veit ég að það var tómur misskilningur. Ísland spillingarinnar getur losað sig við aumingjana og blómstrað með PANAMAPRINSA í fararbroddi.

Ja, því segi ég það. Einföldu lausnirnar láta stundum lítið á sér kræla.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 


Bloggfærslur 5. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband