Tryggingastofnun ríkisins dottin í ÞAÐ !

4.apríl 2017

Ja, nú er ljótt í efni.

Hin ágæta stofnun Tryggingastofnun ríkisins er ábyggilega dottin í það og leikur sér eins og drukkinn unglingur í kerfinu sem notað er fyrir Íslendinga búsetta erlendis.

Stofnunin, dauðadrukkin, gerði sér lítið fyrir og flutti mig með einu handtaki til Svíþjóðar.

Það versta við þetta allt er að ég hef aldrei komið til Svíþjóðar, get svarið það upp á æru og trú. Ég hef komið til Noregs en aldrei til Svíaríkis.

Fleiri af vinum mínum hafa verið fluttir til hjá stofnuninni og er þetta áhyggjuefni, það er að segja að stofnunin sé ekki edrú í vinnunni.

Ég veit fyrir víst að um vímu er að ræða því ég fékk tvö bréf og í öðru stendur að samkvæmt þjóðskrá búi ég í Svíþjóð og samkvæmt hinu segir að ég búi samkvæmt þjóðskrá í Portúgal.

Hausinn á báðum bréfum er með heimilisfang mínu í Portúgal.

Af alkunnu látleysi mínu og auðmýkt bauð ég stofnuninni aðstoð mína við að passa upp á svona hluti. Ég sendi auðvitað allar upplýsingar á Facebook síðu Tryggingastofnunar ríkisins því ég vil að þeir fái skilaboðin fljótt og vel og treysti ekki svona gamaldags leið eins og e-mailum.

Það er svo ægilega pínlegt fyrir svona góða stofnun þegar haldin er árshátíð og allir fullir og fara að fikta í kerfinu og einhverjir gamlir eða hálf vitlausir íslendingar sem geta ekki verið heima hjá sér, það er á Íslandi, sætta sig ekki við að flytja, án þess að vita það, á milli landa.

Þetta er grafalvarlegt og vona ég svo sannarlega að blessuð stofnunin, sem við elskum öll og virðum takmarkalaust fyrir fagleg vinnubrögð, þiggi nú boð mitt því ég bragða aldrei áfengi og tek ekki inn eitur jurtir eða neitt svoleiðis, svo það er engin hætta á því að ég detti í það.

Auðvitað bý ég ekki á Íslandi, en það ætti ekki að koma að sök. Ég kann ágætlega á tölvu og lærði á svoleiðis fyrir ægilega löngu, kann meira að segja RPG forritun og alles. Svo er netið svo dásamlegt og hægt að vinna alla svona einfalda vinnu í fjarvinnslu. Ég meina svona vinnu við að vera ekki flytja fólk endalaust á milli landa að ósekju.

Nú bíð ég bara ægilega spennt. Vona bara að ég nái að sofa í nótt fyrir spenningi því ég þarf að fara í sjúkraþjálfun í fyrramálið!

Þið sem hafið orðið fyrir þessu ónæði að vera flutt skuluð ekkert vera að hafa áhyggjur. Ég leysi þetta um leið og ég kemst á launaskrá hjá TR.

Auðvitað fer ég fram á nokkuð sæmilega þóknun og þá hætti ég kannski að andskotast í þeim sem halda að það sé eitthvað flott að vera fastur í "fátæki" gildru.

 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 4. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband