Nú er ég að fara í fyrirsætu starfið !

29.apríl 2017

Það var þó aldrei að ég yrði ekki fyrirsæta í þessu lífi.

Í gær var ég í Coimbra og sat bara í sakleysi mínu fyrir framan heilsusamlega máltíð. Hafði borðað morgunmat og síðan einn banana eftir sjúkraþjálfunina klukkan 11 en nú var hungrið farið að sverfa að.

Ég er eiginlega búin að gefa upp á bátinn að kaupa mér sumarkjól og ætla að kaupa giftingarkjólinn á útsölu í júní. Carla og Antonio gifta sig ekki fyrr en júlí og þá verður Ana Sosa komin með allt á afslátt. Auðvitað get ég ekki farið í brúðkaup hjá portúgölskum vinum mínum í gömlum kjól, það gengur ekki. Er sem sagt búin að finna dressið og það kemur heim í júní. Þetta var pínu snúið vegna þess að ég get ekki verið með beran handlegginn þar sem skurðurinn blasir við og allir mundu reka augun í örið og spyrja hvað hefði komið fyrir. Í brúðkaupi nenni ég ekki svoleiðis. Sem sagt litlar ermar, víðar, af því hitinn í júlí er ekki vetrarveður.

Jæja, þetta átti að vera um fyrirsætu starfið mitt. Ég var komin með hádegismat fyrir framan mig og klukkan orðin hálf fimm. Hádegis maturinn var síðbúinn því ég þurfti að hitta Dr. Daníel og það var klukkan 2 en auðvitað beið ég þar til aðeins að ganga fjögur og svo þurftum við að spjalla heilmikið svo þetta tók langan tíma eins og gefur að skilja.  Ég lofaði Dr. Daníel upp á tíu fingur að fara í rannsóknina sem hann vill að ég fari í. Hann er nefnilega svo hræddur um að ég sé með krabbamein í ristlinum, sem ég er auðvitað ekkert með, en ég ætla að fara í þessa andstyggðar rannsókn fyrir hann þegar ég er búin í sjúkraþjálfuninni í maí. Það er ekki hægt að gera allt í einu, skiljiði.

Dr. Joanna, hún er sú sem skar mig upp 2svar, sko á handleggnum þegar ég braut hann og öxlina, og skurðurinn er svo kúl. Alveg eins og einn, þó þeir hafi verið 2. Gæti ekki verið betra. Sem sagt, Dr, Joanna kom labbandi til mín þegar ég var að fara að stinga upp í mig fyrsta bitanum af hádegismatnum. Hún var með litla ljósið sitt með sér og þær kysstu mig báðar og við föðmuðumst. Þetta er jú í Portúgal og svona gerum við þar. Ég á viðtal hjá Dr.Joönnu 23. maí en hún vill fá mig fyrr og ætlar að hringja í mig.

Dr. Joanna ætlar að gera mig að fyrirsætu. Taka myndir og videó af öxlinni og handleggnum og hreyfigetu og guð veit hvað til þess að nota sem dæmi í kennslu. Haldiði ekki að þetta sé frábært?

Ég verð ekki bara einhver fyrirsæta sem gleymist.

Ó nei, ég verð ódauðlegt dæmi um líf eftir brot hjá yfir sjötugri með beinþynningu. Hugsið ykkur alla lækna stúdentana sem eiga eftir að skoða þetta.

Þegar Dr.Joanna kvaddi vissi ég að nú yrði ég ódauðleg. Auðvitað verður svo framhaldið að einhver biður mig að sitja fyrir í fötum, ég meina sko tískufötum og þá verð ég svona venjulega fyrirsæta. Ég las einhvers staðar að það væri inn þessa dagana að hafa gamalt fólk í flottum fötum og þetta þykir svo merkilegt að facebook síður eins og lifðu vel og lengi eða eitthvað svoleiðis sem ein heitir tala oft um þetta.

Framtíðin er björt. Nú get ég líklega farið að gefa Trygg langt nef og Þorsteini ráðherra líka, því fyrirsætustörfin verða betur launuð en lúsarlaun til ellilífeyrisþega frá Íslandi.

Guð hvað ég er þakklát fyrir að vera ekki í landi með Panamaprinsinum og hinum geðþekka velferðaráðherra og geta bara notið lífsins í útlöndum, jafnvel þó ég sé ekki tuttuguogeitthvað alþingismaður.

Lífið er einn draumur frá upphafi til enda.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 29. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband