Íslenskt skyr búið til í Portúgal !

22.apríl 2017

Ég hef stundum hugsað um hvað það væri nú gaman að geta búið til skyrtertu og fært vinum mínum þegar ég kem í heimsókn.

Í gær fann ég íslenskt skyr í stórmarkaði í Coimbra. Ég var alsæl. Glorhungruð eftir að hafa eytt morgninum í sjúkraþjálfun og eftir það farið að leita að líkamsræktarstöð, sem átti að vera rétt hjá þessum stórmarkaði, en fann hana ekki.

Klukkan var farin að ganga þrjú og maginn öskraði á mig.

Þú verður að gera eitthvað manneskja! Við erum að drepast úr hungri.

Ég fór á matsölustaðina uppi á lofti í markaðinum en fann ekkert sem mig langaði í. Þá var næsta skref að rúlla niður á fyrstu hæð og inn í markaðinn. Fann pistasíur sem ég ætla að bera á borð um næstu helgi þegar fundur verður í condomíníunu mínu. Kaffi og pistasíur er það sem stjórnendur félagsins sem sér um mál hússins elska og auðvitað fá þau það því fundurinn er inni hjá mér. Þetta er nú ekki flókið.

Jæja, ég var sem sagt að labba um stóra markaðinn og eiginlega á leið út þegar ég rak augun í SKYR og fór að athuga málið. Jú, íslenskt skyr var þetta en framleitt í Portúgal. Ég ræddi aðeins við eina unga dömu sem var að kynna rétt hjá skyrinu. Hún hafði jú heyrt um þetta skyr en ekki prófað. Meðmæli sem hún hafið fengið með vörunni voru ekki sérlega góð.

Auðvitað tók ég ekki mark á svoleiðis. Ég vissi að skyr er ofboðslega gott. SKYR var á leiðinni heim með mér og ég hlakkaði ekkert smá til. Jammi. Ég átti líka bláber sem ég gæti sett út á ef afurðin væri hrein. Ótrúlegt! Skyr í Portúgal! Ég var í sjöunda himni.

Rétt hjá skyrinu var borð með ótal ostum. Ég er veik fyrir geitaosti og þarna voru þeir í öllum mögulegum útgáfum. Ég fann einn sem var með kryddjurtum og einhverju og ákvað að taka með heim og sjá hvernig reyndist. Virtist ekki vera OF sterkur, maginn á mér er blæðandi og mér hefur verið bannað að borða hitt og þetta. Geitaosturinn fór samt með mér heim, bara svona einu sinni hugsaði ég.

Ég komst heim á endanum, máttlaus af hungri, viðþolslaus af tilhlökkun með SKYR í poka. Nú skyldi slegið upp veislu.

Tók lokið af dollunni.

Hristi hana og eitthvað skvettist fram og til baka.

Bíddu, var skyr svona þunnt? hugsaði ég.

Hnífur í hönd og pappírinn fór af.

Jesús minn, þetta var ekki skyr.

Þetta var eins og æla.

Ég lyktaði. Súrsæt lykt gaus á móti mér.

Smakkaði aðeins.

OJJJJJJ bara, ógeðslegt, sætt og lap þunnt, ekki einu sinni eins og versta jógúrt.

Hvað er þetta? hugsaði ég og grét næstum af vonbrigðum.

Las aftur utan á dolluna, jú þetta var íslensk skyr búið til í Portúgal úr portúgölskum beljum með íslensku leyfi.

Næst þegar ég fæ mér skyr þá geri það svona:

Bið vinkonu mína á Íslandi að kaupa fyrir mig skyr og setja í póst með DHL. Pakkinn kemur daginn eftir og ég get fengið ALMENNILEGT SKYR en ekki svona viðbjóð.

DHL er frábært, það flytur til mín sendingar frá Íslandi og maðurinn sem keyrir þekkir mig núna. Hann hringir og segist vera á leiðinni eftir 10 mínútur og kemur eftir 15 mínútur. Við erum jú í Portúgal. Boa tarde og alles og ég kvitta. Opna svo pakkann og fæ mér skyr, almennilegt, alvöru íslenskt skyr og kannski rjóma. Já, ég ætla að fá rjóma líka. Skata, harðfiskur og hákarl gætu líka fylgt.

Húrra, ég er búin að uppgötva hvernig ég get fengið, einu sinni á ári eða svo, almennilegan íslenskan mat. Þegar ég verð búin að safna fyrir skattinum hérna þá geri ég þetta.

Dásamlegt og deginum bjargað hjá mér. Ég opnaði geitaostinn og hann var unaðslegur, svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Ekki of sterkur en alveg himneskur. Í hádegismat varð semsagt ekki íslenskt skyr, það var geitaostur með kryddjurtum og ávextir með kínversku tei. Kannski ekki sérlega hollur hádegisveður en maginn var ánægður og fann ekki mikið til. Það verður jú að hugsa vel um heimilisfólkið jafnvel þó það sé með einhver mein innan í sér!.

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 22. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband